Samfélagsmiðlar

Morgunstund með Fjörugoðanum

Hann er stundum nefndur Fjörugoðinn, Jóhannes Viðar Bjarnason, veitingamaður og hótelhaldari, sem hefur skapað heila veröld með tilvísunum í fornan víkingaarf og vestnorræna menningu við fjöruborðið í Hafnarfirði. Yfir þessu litla veldi hefur hann ríkt í meira en 30 ár.

„Þetta fór allt á fullt og gekk vel" - MYND: ÓJ

Jói á Fjörukránni, eins og hann er oftast nefndur, hefur byggt upp öflugt ferðaþjónustufyrirtæki í miðbæ Hafnarfjarðar með því að „ræna“ ferðamönnum úr Keflavíkurrútunni að víkingasið – eða lokka þá að þessum undraverðu húsakynnum, sem bera svipmót norskrar stafkirkju en um leið heiðins hofs – og íslensks burstabæjar. Það er víða leitað fanga.

Víkingahótelið og Fjörukráin við Strandgötu – MYND: ÓJ

Horft yfir höfnina að höfustöðvum Hafró – MYND: ÓJ

Fjörukráin og Víkingahótelið mynda heild sem líkist engu öðru hér á landi. Gatan sem liggur milli veitingahússins og hótelsins nefnist nú einfaldlega Víkingastræti og þar er hafin vinna við stækkun hótelsins.

Þegar blaðamaður FF7 kemur til fundar við Jóhannes Viðar á Fjörukránni á mánudagsmorgni eru gestir á Víkingahótelinu andspænis að ljúka við morgunverðinn og farnir að huga að því hvernig verja eigi þessum sólbjarta og fagra degi í landinu bláa. Við Jóhannes Viðar komum okkur fyrst fyrir á kontórnum á Fjörukránni en flytjum okkur síðar inn í einn salinn – í sjálfa Valhöll. Það er við hæfi.

Við súpum á sódavatni.

„Þá var ekki einn túristi í Hafnarfirði“ – MYND: ÓJ

„Ég byrjaði sem þjónn á Naustinu og vann þar lengi,“ segir Jóhannes Viðar og viðurkennir að hafa orðið fyrir áhrifum af innréttingunum á þeim fornfræga stað. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Við ræðum ekki örlög Naustsins lengi eða hvað orðið hafi af viðarinnréttingunum þar. Nú erum við á Fjörukránni, staðnum sem Jóhannes Viðar keypti 1990. Þetta er löng saga í íslenska veitingabransanum – og henni er ekki lokið.

„Þá var ekki einn túristi í Hafnarfirði,“ segir hann – en nú er öldin önnur. 

Stofnendur veitingastaðarins Fjörunnar eiga auðvitað heiður skilinn fyrir að hafa endurnýjað þetta gamla hús, komið í veg fyrir að það væri rifið, en sjálfur veitingareksturinn hafði dalað þegar Jóhannes Viðar kom til skjalanna 1990 og staðurinn fékk nafnið Fjörukráin.

Bjórinn var kominn en þetta voru engir sérstakir uppgangstímar.

„Þeim leist ekkert á þetta í byrjun“ – MYND: ÓJ

„Að kaupa veitingastað í Hafnarfirði þótti óðs manns æði. En ég var með ýmsar hugmyndir um að nýta þetta svæði og gera eitthvað fleira hér í kringum Fjörukrána. Ég horfði strax til framtíðar.“ 

Svo kom að því að vekja áhuga ráðamanna í bænum á draumnum um að byggja upp rekstur í kringum víkingaþema – reisa víkingaþorp.

„Þeim leist ekkert á þetta í byrjun,“ segir Jóhannes Viðar og brosir að minningunni um það þegar hann sýndi Jóhannesi S. Kjarval, þáverandi skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar, riss á einu A4-blaði sem sýndi grófa mynd af því sem hann vildi skapa þarna í fjörunni. Jóhannes Viðar ber þessum nafna sínum mjög vel söguna – en segir að skipulagsstjóranum hafi ekkert litist á áformin. Hann hafi skoðað rissmyndina, horft á sig í forundran og spurt: 

„Hvað ætlar þú að gera þarna?“

Ég sagðist ætla að reisa víkingahof. 

„Hvar ætlar þú að koma því fyrir?“ 

Ég benti á fjöruna.  

„Heyrðu kallinn minn, þetta er náttúrulega bara rugl!“

Skipulagsstjórinn sagði að það mætti ekki byggja við og breyta næstelsta húsi Hafnarfjarðar í þá átt sem ég lýsti. 

„Þú getur bara gleymt þessu,“ sagði hann að lokum. 

Menningarsögulegar norrænar tilvísanir – MYND: ÓJ

En Jóhannes Viðar lét ekki stöðva sig frekar en oft fyrr og síðar. Svo fór það að berast út að þessi nýi veitingamaður væri genginn af göflunum. Allir á bæjarskrifstofunum hlógu að þessu í fyrstu – en svo vaknaði áhuginn: 

„Spurt var hvað stæði til. Ég sagðist ætla að hafa þarna menn í víkingaklæðum og ræna rútunum fyrir utan. Eina leiðin til að fá túrista í þennan bæ væri að ræna þeim! Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarstjóri, Ingvar Viktorsson og aðrir í bæjarstjórn hlustuðu og fóru að hafa gaman af því sem þessi vitleysingur var að segja.“

Smám saman óx vegur Fjörukrárinnar. Slegið var upp víkingaveislum og haldin vinsæl þjóðakvöld. Þórslíkneski var sett upp fyrir framan húsið og Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoði, vígði þennan stað sem átti eftir að laða til sín ásatrúarfólk og áhugamenn um hinn forna átrúnað og víkingamenningu.

Fjörukráin og víkingaþemað varð vinsælt kynningarefni á ferðaráðstefnum. Auðvitað löðuðust ýmsir með furðulegar hugmyndir um norræna menningararfinn að þessu hafnfirska víkingaþorpi, jafnvel nýnasistar og vítisenglar, en aðallega var þetta ósköp venjulegt fólk, áhugasamt um norræna sögu og menningu. Það var ekki annað hægt en að hrífast af því sem Jóhannes Viðar hafði gert í þessum húsakynnum með aðstoð Hauks Halldórssonar, Erlends Magnússonar og fleiri lista- og hagleiksmanna. 

Fjörugoðinn við mynd af gamla allsherjargoðanum, Sveinbirni Beinteinssyni – MYND: ÓJ

„Þetta fór allt á fullt og gekk vel,“ segir hinn sjóaði veitingamaður og hótelrekandi. „Eftir þriggja ára rekstur komu sjö af hverjum tíu túristum við á þessum stað. „Nánast allir sem sóttu víkingaveislurnar voru útlendir túristar.“

Frá því um miðjan tíunda áratuginn hefur ferðamannafjöldinn á Íslandi auðvitað margfaldast. Árið 1994 þegar Fjörukráin hafði fest sig í sessi með sitt víkingaþema voru erlendir ferðamenn á Íslandi um 180 þúsund. Búist er við að þeir verði um 2,3 milljónir 2024. Og enn kemur mikill fjöldi við þarna í landnámi víkinga við Strandgötu í Hafnarfirði. Reksturinn er orðinn gamalgróinn og þekktur víða um lönd. Jóhannesi Viðari og hans fólki tókst að koma því til skila að það sé nauðsynlegt væri að koma við í víkingaþorpinu í Íslandsheimsókninni, smakka íslenska rétti: hákarl, harðfisk og súrmat, og upplifa víkingagaldurinn sem afkomendur norskra bænda og írskra þræla magna þarna upp. Kæstum hákarlinum er raunar sjaldnar otað að fólki en hér áður fyrr.

Hótelrekstur Jóhannesar Viðars byrjaði undir lok tíunda áratugarins. Fyrst rak hann þarna í fjörunni gisti- og menningarhús Grænlendinga og Færeyinga, vestnorrænt gistihús með víkingaveislur á kantinum. Vel gekk og Jóhannes Viðar sá að það hentaði prýðilega að reka saman hótel og veitingahús. Átta af hverjum tíu gestum á Víkingahótelinu borða á Fjörukránni. 

Víkingahótelið var stækkað og á enn eftir að stækka. Þar eru nú 55 herbergi og með nýbyggingunni bætist annað eins við og gott betur. Hún á að rísa á grunni gömlu smiðjunnar sem hýsti síðast Gaflaraleikhúsið. Þessi viðbót, sem á að opna eftir eitt og hálft ár, verður þrjár til fjórar hæðir ásamt kjallara, um 3.500 fermetrar, með um 60 hótelherbergjum, og tengist núverandi hóteli.

„Hvoru megin götunnar kemur strætóinn til Reykjavíkur?“ – MYND: ÓJ

Það er ekki nóg með að verið er að tvöfalda herbergjafjöldann á Víkingahótelinu, Jóhannes Viðar hefur keypt gamalt hús við götuna til að auka svigrúmið:

„Eftir 20 ár, þegar við verðum saman á elliheimilinu, verður komin göngugata hér í gegn. Foss við endann; allt upplýst; Óðinn, Þór og Freyja í öndvegi; hótelið myndar u-laga skjól; kjallari verður undir.“  

Horft inn Víkingastræti. Jóhannes Viðar hefur eignast hvíta húsið við enda götunnar. Þangað vonast hann til að hótelið nái á endanum – MYND: ÓJ

Við fylgjumst spennt með þessum áformum verða að veruleika.

Jóhannes Viðar Bjarnason er ekki af baki dottinn.

„Síðustu árin hafa verið draumi líkust. Gestum hefur fjölgað um 40 prósent milli ára,“ segir Jóhannes Viðar um tímann eftir Covid-19. Hann viðurkennir þó að það gangi frekar hægt að bóka núna. Þó sé ekkert óttast, oft bókist hratt og allt fyllist.

Jóhannes Viðar lýsir framtíðarsýn sinni á málaðri mynd á vegg Fjörukrárinnar – MYND: ÓJ

Dætur Jóhannesar, þær Birna Rut og Unnur Ýr, bera nú með honum þungan af rekstri Víkingahótelsins og Fjörukrárinnar. En fleiri járn eru í eldinum. Jóhannes Viðar rekur líka 25 herbergja gististað og veislusal á Hlið á Álftanesi, sem útlendingar þekkja sem Fisherman´s Village. 

Fiskimannaþorpið á Hlið á Álftanesi. Gestirnir hafa getað fylgst með eldsumbrotum á Reykjanesskaga – MYNDIR: ÓJ

„Það var ekki lengur pláss fyrir mig hérna á kontórnum,“ segir Jóhannes Viðar og brosir.

Hann er ánægður með ferska sjávarloftið á Álftanesi en er enn með hugann við uppbygginguna í fjörunni í Hafnarfirði.

Þegar blaðamaður viðrar áhyggjur margra af framtíðinni hristir Fjörugoðinn hausinn:

„Ég hleypi huganum ekki langt fram í tímann, velti því ekki fyrir mér hvað gæti gerst. Auðvitað er maður skíthræddur og veit ekki af hverju við erum að fæða börn í þennan heim. En maður má bara ekki hleypa þeirri hugsun að.“


ÁSKRIFT MEÐ 50% AFSLÆTTI Í EINN MÁNUÐ. FULLT VERÐ Í FRAMHALDINU EN ALLTAF HÆGT AÐ SEGJA UPP.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …