Samfélagsmiðlar

Reyniber og ryðguð skeifa

Í hröðum heimi er auðvelt að verða sér út um fjöldaframleiddan varning. Sífellt fleiri eru þó farin að kunna að meta lítil listaverk þar sem gæði, notagildi og sjálfbær nálgun eru í fyrirrúmi. Christalena Hughmanick vinnur liti úr jurtum og því sem til fellur í umhverfinu til að lita lín til heimilisins. 

Christalena Hughmanick, listakona

„Ég hef alltaf verið skapandi og er sífellt að tileinka mér nýja tækni og nálganir,“ útskýrir Christalena sem upprunalega kemur frá Bandaríkjunum. „Ég kem frá Lancaster í Pensylvaníu, þar sem Amish fólkið settist fyrst að, en þó svo að ég komi ekki úr því samfélagi þá hefur hugmyndin um sjálfbæran lífstíl haft áhrif á uppvöxtinn og fjölskyldulífið. Sjálfstæð landbúnaðarsamfélög eins og þessi hafa mjög sterka handverksmenningu, sérstaklega í húsgögnum og textíl. Það var þarna sem áhuginn á bútasaumi og jurtalitun kviknaði hjá mér. Ég kom fyrst til Íslands í listamannadvöl í gegnum SÍM, Samband íslenskra myndlistarmanna, og er enn hluti af listasenunni hér.“

Mynd: Christalena Hughmanic

Christalena hefur lokið tveimur námsgráðum í „Fiber and Material studies“, greinum sem hún kennir nú meðal annars við Myndlistaskólann í Reykjavík auk þess sem hún heldur reglulega vinnustofur um margvíslega nálgun á litun. „Það veitir mér mikinn innblástur að vinna hér á landi. Hér er afskaplega friðsælt.“

Mynd: Christalena Hughmanic

Sjálfbærnihugsun innbyggð í menninguna
„Ég hef haft mikinn áhuga á litun allt frá því ég lærði tæknina fyrir 22 árum en fór að einbeita mér sérstaklega að henni eftir að ég fór að verja tíma mínum á Íslandi. Það getur verið dálítið snúið að verða sér út um öll hráefnin sem ég gat nálgast auðveldlega á meginlandinu svo ég fór að ná mér í efnivið í nærumhverfinu, sumpart út úr neyð en líka vegna þess að ég hef mikinn áhuga á vistfræðilegum þáttum og hvernig þeir breytast eftir árstíðunum. Við fyrstu sýn gæti verið að fólk sjái ekki mikla möguleika í plöntulífinu hér á landi til að vinna með, en það er mikill misskilningur. Ég fer í langar gönguferðir úti í náttúrunni og leita að efniviði til að lita með, safna og geymi til að nota þegar ég finn tilefni til. Hráefni eins og trjábörkur og lauf er hægt að þurrka og geyma og ber má frysta svo það liggur ekkert á nota þau.

Bleikir tónar avókadósteina

„Litasamsetning og útkomur við litun geta verið óteljandi svo ég er stöðugt að prófa mig áfram og skoða nýja hluti þangað til ég finn liti sem mér líkar. Ég uppgötvaði að járn virkar mjög vel við að festa liti í efninu svo ég á mér einkauppskrift þar sem ryðguð skeifa og brotajárn sem ég hef safnað við ströndina koma við sögu til að gefa efninu sem ég lita appelsínugulan blæ. Matvælaafgangar eru líka frábærir fyrir jurtalitun. Vinir mínir sem vinna á veitingastöðum taka frá fyrir mig hráefni eins og steina úr lárperum, en með því að lita með þeim koma bleikir tónar. Ég leita bókstaflega allsstaðar að efni til að nota í litun og fæ innblástur af öllu sem hefur þann eiginlega að framkalla einhverskonar lit.“

Mynd: Christalena Hughmanic

Hún byrjaði að endurvinna lín af heimilinu, eins og dúka, munnþurrkur og lök eða rúmföt sem hefðu annars farið í ruslið eftir að vera orðin götótt. „Mér finnst gaman að lita efni frá heimilinu og fyrir heimilið því það býr mikil fegurð í endurnýtingunni. Innblásturinn fyrir því nákvæmlega hvaða form nýja textílvaran tekur á sig kemur mikið til út frá þörfinni á mínu eigin heimili. Vinsælasta varan mín, lituð handklæði, eru í hinni margræðu stærð 25 x 25 svo þau geta þjónað margvíslegum tilgangi – til að þurrka hendurnar í eldhúsinu, nota sem munnþurrku eða dúk eða hengja upp sem listaverk. Fólk hefur líka sagt mér að noti það sem vasaklút og það gleður mig mikið að heyra af allri þessari sköpunargleði.“

Mynd: Christalena Hughmanic

Framtíðaráform með fléttur

Mér finnst sjálfbærnihugsunin vera innbyggð í menninguna hér á landi, nokkuð sem ég heillaðist strax af og tengdi við hugmyndafræðina á æskuslóðunum í Pensylvaníu. Ég ímynda mér að þessi hugsun tengist þeirri staðreynd að landið er eyja og eftir því einangrað svo það hefur kostað töluverða fyrirhöfn að verða sér út um hluti hér. Út frá umhverfissjónarmiðum er heillavænlegast að vera úrræðagóður og nota það sem þegar er til, í stað þess að flytja það inn utan úr heimi. Ég er til dæmis mjög spennt fyrir fleiri möguleikum þegar kemur að þróun vistmenningar í landbúnaði hér á landi,“ segir Christalena. 

Mynd: Christalena Hughmanic

Haustið er jafnan tími mikilla litbrigða í náttúrunni og undir það tekur Christalena. „Þó svo að liturinn sé daufur og ber festi litinn ekki jafn vel og aðrar gerðir af náttúrulegu hráefni þá finnst mér dásamlegt að lita með appelsínugulu útgáfunni af reyniberjunum sem birtast í september. Þau eru svo falleg í sínu hráa, einfalda formi og liturinn er merkilega djúpur þó hann sé fíngerður og ljós og ég nota hann því gjarna sem grunnlit. Ég er líka farin að ná að vinna fallega litapallettu úr lúpínunni. Mig langar að læra að nota sveppi til að lita með og svo er ég að fara að halda vinnustofu í Helsinki þar sem unninn er litur úr fléttum á trjám. Ég verð þar í listamannadvöl í júní og vonast til að koma til baka með enn meiri þekkingu til að prófa hér á Íslandi þar sem nóg er af fléttum í náttúrunni.“

Mynd: Christalena Hughmanic

Hugsunin bak við handverkssölu getur verið flókin
„Ég hef verið að selja litað lín út um allan heim í gegnum vefverslunina mína og var með sýningu í Epal á síðasta ári þar sem ég seldi í kjölfarið. Það getur auðvitað verið flókið fyrir neytandann að ná utan um kostnaðinn við að búa til vörur eins og þessar, þar sem engin tvö eintök eru eins, þegar svo auðveldlega má kaupa fjöldaframleiddar vörur. Vinnan mín byrjar í rauninni á að ég fer í langar göngur þar sem ég safna plöntum, jurtum og öðru til að lita með. Svo taka við margir dagar af mismunandi litun, þá kemur saumaskapurinn og upp úr því er varan tilbúin til sölu. Þar sem það er nánast ómögulegt að endurtaka hvert ferli algjörlega til að fá nákvæmlega eins útkomu þá stendur hvert og eitt stykki í raun sjálfstætt sem lítið listaverk. Þau sem hafa skilning á tímanum og orkunni sem fer í að búa til hvert stykki fyrir sig hafa gerst tryggir kaupendur og stuðningsaðilar við verkefnin mín. Ég vona að verkin mín lifi þannig áfram í lífi þeirra sem eignast þau.“ 

Lök af Landspítala fá listrænt líf í Finnlandi

Það er margt framundan hjá Christalenu á næstu misserum. Hluti af listamannadvöl hennar í Finnlandi í sumar verður í Vantaa í suðurhluta landsins þar sem hún lýkur við hluta af stóru textílverki á vegg. Í það verk endurvinnur hún gömul lök frá Landspítalanum sem hún hefur litað og handsaumað í myndir af höndum kvenna. „Ég kem líka til með að halda vinnustofu í jurtalitun og svo sýningu í lok dvalarinnar, „segir listakonan Christalena Hughmanick.  

www.christalenahughmanick.com 

Nýtt efni

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …