Samfélagsmiðlar

Þýska smáliðið Saarbrücken æðir áfram eins og gömul eimreið í átt að sigri í bikarkeppninni

Bikarinn sem Saarbrücken-liðið hefur augun á - MYND: Þýska knattspyrnusambandið

Saarbrücken er 180.000 manna bær, höfuðstaður Saarlands í Þýskalandi og liggur rétt við landamæri Frakklands. Í þessari borg, eins og flestum öðrum þýskum borgum, er starfrækt knattspyrnufélag og í Saarbrücken heitir félagið því upplagða nafni FC Saarbrücken. Leikur liðið í þriðju deild þýsku knattspyrnunnar. Liðið hefur allt frá stofnun, árið 1903, lengstum lifað tíðindalitlu lífi í neðri deildum þýsku knattspyrnunnar; hoppað milli fjórðu og annarrar deildar með viðkomu í þeirri þriðju.

En loksins nú, 120 árum eftir stofnun félagsins, virðast sögulegir atburðir vera að gerast. Í þriðja sinn á þessu yfirstandandi keppnistímabili hefur liðið framið það sem Þjóðverjar kalla „Pokalschreck“ eða bikarskrekk og vísa til þess þegar smálið í fótbolta sigrar eitt af stórliðunum Þýskalands í bikarkeppninni (DFB POKAL).

Síðastliðið þriðjudagskvöld tókst FC Saarbrücken að sigra stórlið Borussia Mönchengladbach þegar það kom í heimsókn á hinn niðurslitna Ludwigspark Stadion í Saarbrücken. Þetta er þriðji sigur Saarbrücken í röð gegn stórliði í þessari keppni. Úrslit leiksins voru 2-1 Saarbrücken í hag en liðið skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins við gífurlegan fögnuð þeirra 15.800 áhorfenda sem létu sig hafa það að mæta á völlinn í kulda og ausandi regni enda var leikurinn gífurlega mikilvægur fyrir samfélag Saarbrückenbúa. Með sigrinum er liðið  komið alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar og það eru söguleg tíðindi. Hreint ævintýri. 

Fyrr á keppnistímabilinu hafði lið Saarbrücken á leið sinni í gegnum útsláttarfyrirkomulag bikarkeppninnar unnið það afrek að leggja bæði Bayern München (2-1) og Eintracht Frankfurt (2-0) sem bæði leika í efstu deild. Næsti leikur keppninnar er þann 2. apríl á móti hinu sögufræga annarrar deildar félagi Kaiserslauten og það lið sem sigrar leikur til úrslita í Berlín. Og það er mikið í húfi. Verðlaunaféð fyrir sigur í bikarkeppninni eru heilar 4,3 milljónir evra. Auk þess tryggir liðið sér þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða, eða Europian League, sem getur haft gífurlega fjárhagslegan ávinning í för með sér. Sjálfur verðlaunabikarinn er 54 cm hár og 6 kíló að þyng, gerður úr gulli (210 grömm hreint gull) og silfri. Bikarskálin rúmar 9 lítra af bjór. Bikarinn telst því „afar heppilegt verkfæri til að fagna sigri“ eins og þýska knattspyrnusambandið hefur bent á.

Ludwigsparkstadion á þokkalegum degi – MYND: Wikipedia

„Þetta er kraftaverk, algjört kraftaverk  – og, jú, liðið er líka svolítið gott,“ sagði þjálfari Saarbrücken, Rudiger Ziehl, í miklu  tilfinningauppnámi eftir leikinn við Borussia Mönchengladbach. Blaðamennirnir, sem þyrptust að þjálfaranum eftir leikinn, vildu fá skýringu á þessum dularfulla árangri liðsins því frammistaða liðsins í deildarkeppninni – en liðið leikur í  þriðju deild – er ekkert til að hrópa húrra fyrir. „Ég veit ekki af hverju við erum svona góðir í bikarkeppninni, ég veit það bara ekki,“ sagði þjálfarinn og virtist í svo miklli geðshræringu að hann átti í erfiðleikum með að finna orð. Fyrirliði liðsins, Manuel Zeitz  kom aðvífandi, faðmaði þjálfara sinn og kom honum til bjargar: „Við erum bara smám saman að venjast þessum bikarleikjum og að vinna þá.“

En það er sannarlega ekki auðvelt að skýra endurtekna hetjusigra Saarbrücken í bikarkeppninni. Liðið hefur aldrei verið á meðal þeirra bestu í Þýskalandi og  liðið hefur engan sterkan fjárhagsbakhjarl eða sugerdaddy til að ausa peningum í liðið. Á síðasta keppnistímabili velti liðið 14 milljónum evra eða um það bil þrisvar sinnum meira en íslenska knattspyrnufélagið KR. Í þessum skrifuðu orðum er liðið í tíunda sæti þriðju deildarinnar og hefur afrekað að gera 13 jafntefli í 29 leikjum. Saarbrücken liðið tapar ekki mörgum leikjum en á í erfiðleikum með að skora mörk þar sem báðir bestu framherjar liðsins, Sebastian Jacob (slitin liðbönd í hné) og Patrick Schmidt (fótbrotinn) eru meiddir og verða ekki meira með á tímabilinu. Áætlanir Saarbrücken að kaupa nýja markaskorara í janúar fóru út um þúfur.

En þótt liðið eigi erfitt með að skora mörk er vörnin hjá þeim frábær og tekst oft á tíðum hreinlega að loka eigin marki og halda hreinu. Að leika gegn Saarbrücken er því gífurlega erfitt sérstaklega á þeirra eigin leikvangi, Ludwigsparkstadion, ef leikvang skyldi kalla. Fjárskortur hefur nefnilega hamlað endurbótum á leikvellinum. Fyrir nokkrum árum voru gerðar betrumbætur en af svo miklum vanefnum að síðan þá hefur vallvörðurinn verið á sólarhringsvakt við að reyna halda vellinum í keppnishæfu ástandi. Hitakerfið undir vellinum hefur aldrei starfað hnökralaust en það sem hefur valdið mun meiri vandræðum er að framræslukerfi vallarins er handónýtt og safnast regnvatn í stóra polla á vellinum þegar rignir. Völlurinn er því oft eitt drullusvað á leikdögum.

Sú góða regla gildir í þýsku bikarkeppninni að neðrideildarlið eiga alltaf heimaleiki og hefur reglan hjálpað liðið Saarbrücken mjög þar sem liðið er vant skelfilegu ástandi eigin keppnisvallar. Á keppnistímabilinu 2019 og 2020 var liðið þó neytt til að leika á velli nágrannaliðs, leikvangi sem tók aðeins 6.800 manns í sæti og búningsklefarnir voru íþróttahúsi í næstu götu. Fótboltaliðin sem mættu þá til að keppa við Saarbrücken voru gapandi hissa á þeim aðstæðum sem boðið var upp á í bænum til fótboltaiðkunar.

Þegar Bayern München kom til að takast á við Saarbrücken í bikarkeppninni í nóvember hafði rignt án afláts dögum saman svo völlurinn var algjörlega hulinn vatni. Dómarinn hikaði við að flauta leikinn í gang. En eftir langa rekistefnu var ákveðið, þrátt fyrir ömurlegar aðstæður og hávær mótmæli leikmanna Bayern München, að láta leikinn fara fram. Fáum vikum fyrir leikinn á móti Borussia Mönchengladbach hafði nýtt grasteppi verið lagt á völlinn til að reyna að bæta ástandið. Kostnaðurinn við þær framkvæmdir var þungur baggi fyrir gjaldkera Saarbrücken, heilar 200.000 evrur fóru í vallarviðgerðir, en eitthvað virtist hafa farið úrskeiðis því leikurinn á móti Borussia fór líka fram í hreinu drullusvaði og dómarinn tók sér einnig  töluverðan tíma að reyna að meta hvort aðstæðurnar á vellinum væru hreinlega hættulegar lífi og limum fótboltamannanna áður en hann flautaði leikinn á.

„Við munum laga okkur að aðstæðum,“ sagði þjálfari Mönchengladbach Gerardo Seoane fyrir leikinn. Leikmönnum hans tókst sannarlega mun betur að fóta sig á leikvanginum en fyrri andstæðingum Saarbrücken og skapaði liðið ógrynni marktækifæra. Mönchengladbach spilaði mun betur en Bayern München og Frankfurt höfðu gert á þessum sama velli og hefðu í raun verðskuldað stórsigur á liði Saarbrücken því marktækifærin komu á færibandi. En baráttuandi Saarbrücken-leikmanna hélt þeim á floti í orðsins fyllstu merkingu og tókst þeim á yfirnáttúrlegan hátt að vinna leikinn.

Lið FC Saarbrücken fagnar – MYND: Facebook/FC Saarbrücken

„Drengirnir mínir voru svo tilbúnir að berjast, þeir voru stútfullir af adrenalíni, þeir lögðu allt í sölurnar,“ sagði þjálfari Saarbrücken, Ziehl, eftir leikinn. En Saarbrücken hefur hvað eftir annað fiskað upp svolítið trikk sem kemur sér vel á rennblautum velli þar sem kaldir kvöldvindar blása: Liðið skorar rétt fyrir leikslok. Brünker skoraði einmitt á 93. mínútu eftir skarpa skyndisókn á móti Mönchengladbach og það var í þriðja sinn sem liðið skorar á lokasekúndunum í bikarkeppninni. Saarbrücken notaði einmitt þetta sama trikk á móti Bayern og Karslruhe á fyrri stigum bikarkeppninnar. Mörkin voru skoruð svo seint í leiknum að mótherjinn hafði ekki möguleika á eða tíma til að bregðast við.

Næsti leikur Saarbrücken í bikarkeppninni er undanúrslitaleikurinn á móti Kaiserslautern. Leikurinn verður leikinn á heimavelli Saarbrücken, Ludwigsparkstadion, þriðjudaginn 2. apríl og sálfræðihernaðurinn er þegar hafinn. „Það kann að hljóma undarlega en við erum svo sannarlega „underdogs“ í þessum leik. Saarbrücken er mun líklegra lið til að vinna,“ sagði þjálfari Kaiserslautern í viðtali við þýsku pressuna.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …