Samfélagsmiðlar

„Ég hafði áhyggjur af Ralph Lauren-jakkanum og hvað ég væri orðinn þungur, 120 kíló“

„Ég trúi ekki á kraftaverk,“ skrifar Salman Rushdie í nýju bókinni. „En að ég skuli lifa árásina af er kraftaverk. Eru þetta mótsagnir hjá mér? Jú, ég tala í mótsögnum. Einmitt. Svona er þetta.“ MYND: PA Images / Alamy Stock Photo

Þann 12. ágúst árið 2022 voru liðin meira en 33 ár frá því að múslímaklerkar í Íran dæmdu Salman Rushdie til dauða fyrir að hafa talað óvarlega um Múhameð spámann. Þennan ágústdag hafði Salman verið fenginn til að tala á ráðstefnu í New York um nauðsyn þess að búa til öruggt athvarf fyrir rithöfunda sem af einhverjum ástæðum eru ofsóttir. Í miðjum fyrirlestri Rushdies stökk ungur, svartklæddur maður upp á sviðið og lagði til atlögu gegn rithöfundinum með hníf að vopni. Ungi maðurinn, Hadi Matar, var viti sínu fjær af heift og náði að hrinda Rushdie svo hann skall harkalega á bakið. Árásarmaðurinn lagðist síðan ofan á rithöfundinn og byrjaði að höggva í hann með hnífnum. Hnífurinn stakkst hvað eftir annað inn í líkama Salmans Rushdie sem lá hjálparvana undir árásarmanni sínum en þó alltaf með meðvitund. Á meðan svartklæddi maðurinn gekk berserksgang með hnífinn fór skáldið að hafa áhyggjur af tvennu:

Í fyrsta lagi var það fíni jakkinn. Hann hafði nefnilega klæðst glæsilegum Ralph Lauren-jakka í tilefni af  fyrirlestrinum og var nú viss um að maðurinn myndi eyðileggja flíkina með öllum þessum hnífsstungum í gegnum jakkaefnið. Hann fann líka hvernig mátturinn smám saman fjaraði úr hægri handlegg sínum. Hann gerði sér grein fyrir að hann var illa særður og fór þá allt í einu að skammast sín fyrir það hvað hann væri orðinn þungur. Hann var 120 kíló, sem honum fannst allt of mikið. Byrjaði hann að vorkenna mönnunum sem áttu eftir að bera hann í burtu af sviðinu. Ekki gæti hann gengið. Hvernig færu þeir að því að flytja öll þessi kíló. Hann dauðskammaðist sín fyrir öll aukakílóin. 

Salman Rushdie kom illa út úr árásinni. Hann var tengdur öndunarvél og barðist lengi fyrir lífi sínu. Hann missti annað augað og máttinn að mestu í hægri höndinni og á nú erfitt með að borða og tala. Strax og hann fékk aftur nægan styrk ákvað hann að skrásetja bataferlið, skrifa minningabók sem hann kallar Hnífur (Knife), þar sem hann skráir hugleiðingar sínar um þennan tíma frá því að dauðadómurinn var kveðinn yfir honum, um árásina, endurhæfinguna – og hvað honum þótti það mikið kraftaverk að vera enn á lífi. „Ég trúi ekki á kraftaverk,“ skrifar hann í nýju bókinni. „En að ég skuli lifa árásina af er kraftaverk. Eru þetta mótsagnir hjá mér? Jú, ég tala í mótsögnum. Einmitt. Svona er þetta.“

Kápa bókarinnar Hnífur – MYND: Random House

Og það var fleira sem gerði Rushdie hissa. „Af hverju flúði ég ekki? Af hverju hljóp ég ekki í burtu? Ég stóð bara þarna eins og asni og lét manninn hakka mig í spað,“ skrifar hann. „Þegar ég sá svartklædda manninn koma í áttina til mín hugsaði ég: „Nú já, þetta ert þá þú. En af hverju núna?  Í alvöru. Það eru liðin svo mörg ár.““

En var Rushdie reiður árásarmanni sínum? „Ég man ekki til þess að hafa verið reiður út í Hati Matar. Ég held að reiðin hafi verið og sé ónauðsynlegur munaður fyrir mig. Reiðin gerir ekkert gagn og ég hef svo margt annað mikilvægara að hugsa um. Til dæmis að læra að þrýsta tannkremi úr tannkremstúbu með annarri hendi,“ skrifar hann um í Hnífur.

Bók Salamans Rushdie kom samtímis út víða um heim þann 16. apríl s.l. og hefur hvarvetna hlotið mikið lof gagnrýnenda og bókaáhugamanna. Bókin þykir mun persónulegri en fyrri endurminningarbækur skáldsins. „Hnífsárás er líka mjög persónuleg,“ sagði Rushdie í viðtali við The New York Times í tilefni af útkomu bókarinnar.

Nýtt efni

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …

Á fimmta hundrað flugvallarstarfsmenn í Ósló og Bergen munu leggja niður störf á miðnætti ef ekki nást samningar um nýjan kjarasamning. Viðræðurnar stranda aðallega á kröfum um bætt lífeyrisréttindi og aukin veikindarétt að því segir í frétt Norska ríkisútvarpsins. Ef til verkfalls kemur er viðbúið að það hafi mikil áhrif á umferðina um flugvellina í …