Samfélagsmiðlar

Er enn langstærsta útflutningsgreinin

Áframhaldandi bati í ferðaþjónustu vó „að fullu" upp á móti samdrætti í útflutningi sjávarafurða í fyrra. Gefi ferðaþjónustan eftir þá er hætta á að „svartsýn sviðsmynd" fjármálaáætlunarinnar verði ofan á.

Hingað komu fleiri ferðamenn í fyrra með skemmtiferðaskipum en áður. Straumurinn um Keflavíkurflugvöll var á pari við metárið 2018. MYND: ÓJ

„Viltu nýjan bíl? Ef svarið er já, þá þurfum við að finna pening til að kaupa bílinn. Við getum aflað hans með sjávarútvegi en sú grein er takmörkuð og margir vilja setja skorður á fiskeldi. Til að auka framleiðslu á málmum þarf meiri raforku. Þá er það ferðaþjónustan sem er eftir og því þarf að finna leiðir til að auka afkastagetu greinarinnar. Það er túristinn sem borgar fyrir nýja bílinn þinn. Svo einfalt er það.”

Með þessum orðum útskýrði Svein Harald Øygard, fyrrum seðlabankastjóri Íslands, stöðuna í íslenska hagkerfinu í viðtali við Túrista, nú FF7, síðastliðið sumar.

Svein Harald Øygard: „Þó vinnuaflið sé innflutt þá skapar greinin útflutningstekjur fyrir Ísland. Það þarf líka að flytja inn hráefni til álframleiðslu, þú kaupir fiskiskip frá útlöndum og líka fæðið í fiskeldið. Þannig að þetta eru bara hefðbundin viðskipti.“ MYND: KS

Segja má að kynning ríkisstjórnarinnar á nýrri fjármálaáætlun taki undir þessa lýsingu Norðmannsins því þar kemur fram að ferðaþjónusta sé „langstærsta útflutningsgrein Íslands“ og áframhaldandi bati í atvinnugreininni á síðasta ári hafi vegið að fullu á móti samdrætti í útflutningi sjávarafurða.

Íslenskir ráðamenn gera þó ekki ráð fyrir að ferðaþjónustan haldi áfram að vaxa með sama hætti og verið hefur eftir heimsfaraldur. Útlit sé fyrir hóflegan vöxt bæði í ferðaþjónustu og eins í öðrum útflutningi í ár. Nú verða líka færri ný störf til í ferðaþjónustu og aðrar greinar standi að baki miklum meiri hluta lausra starfa.

Gefi ferðaþjónustan eftir þá er hins vegar hætta á að „svartsýn sviðsmynd“ fjármálaáætlunarinnar verði í takt við raunveruleikann. Sú staða gæti komið upp ef ferðamönnum fækka um tíund, það þarf ekki meira til.

Tíðar lokanir Bláa lónsins síðustu mánuði hafa haft neikvæða áhrif á eyðslu ferðamanna hér á landi. MYND: BLÁA LÓNIÐ

„Raungerist forsendur sviðsmyndarinnar verður heildarafkoma hins opinbera um 90 milljörðum króna lakari á næsta ári samanborið við fjármálaáætlun,“ segir í útskýringum sem fylgja fjármálaáætluninni. Verði þetta niðurstaðan er viðbúið að halli á heildarafkomu hins opinbera fari úr því að vera innan við 1 prósent af vergri landsframleiðslu niður í tæplega 3 prósent.

„Þessa breytingu má nær alfarið rekja til minni tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga þar sem skattar á tekjur og hagnað, virðisaukaskattur og útsvarsstofn minnka hlutfallslega mest. Að óbreyttu yrðu áhrifin á skuldaþróun afgerandi.“

Þetta hefði jafnframt þær afleiðingar að skuldir hins opinbera myndu vaxa á tímabilinu. Færu þær úr rúmlega 41 prósent af vergri landsframleiðslu í árslok 2025 í yfir 50 prósent í árslok 2029 samkvæmt mati efnhagssérfræðinga fjármálaráðuneytisins.

Nú í morgun birti Hagstofan nýja þjóðhagsreikninga og samkvæmt þeim hefur hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu aldrei verið stærri. Nam hann 8,8 prósentum á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga en var 7,5 prósent árið 2022 og að jafnaði 8,2 prósent á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn.

FYRIR 70 KRÓNUR Á DAG FÆRÐU AÐGANG AÐ ÖLLUM GREINUM FF7 Í EITT ÁR

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …