Samfélagsmiðlar

„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast svæðinu – ekki svæðisins að aðlagast ferðamanninum“

Kristín Ósk í Búðinni á Hesteyri, aðstöðu landvarða. MYND: ÞÓRDÍS BJÖRT SIGÞÓRSDÓTTIR

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda

„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast svæðinu – ekki svæðisins að aðlagast ferðamanninum,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir, umsjónarkona friðlandsins á Hornströndum hjá Umhverfisstofnun.

Á Hornströndum í góðu veðri. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Friðlandið á Hornströndum er í svokölluðum verndarflokki 1B, sem óbyggt víðerni, og er stjórnað í samræmi við skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN og 46. gr. náttúruverndarlaga. Þá er miðað við að friðlýsingin varðveiti einkenni svæðisins og tryggi að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja. Það er ætlast til að ferðafólk komi með sinn eigin rötunarbúnað inn á svæðið og sé algjörlega sjálfbært um gistingu, mat og skipulag ferðar. 

Myndaferðamennska eykst 

Kristín segir að ferðamönnum í öllum gerðum ferða hafi fjölgað í friðlandinu. Algengast sé að fólk komi inn á svæðið í dagsferðir. Síðasta sumar komu um 2000 manns í nokkurra daga göngur og voru þá að jafnaði rúma fjóra daga inni á svæðinu.

„Það er fjölmennast á svæðinu í lok júlí. En frá um 20. júlí og fram í ágúst eru margir á ferðinni. Og undanfarin ár hefur verið töluvert af fólki fram í september,“ segir Kristín Ósk.  

Úr Smiðjuvík. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Kristín Ósk segir að flestir viti að hverju þeir gangi þegar þeir komi inn á svæðið en að óundirbúnu fólki hafi þó fjölgað mikið.

„Margir þekkja svæðið ekkert og viðurkenna jafnvel að þeir kunni ekki að tjalda,“ segir Kristín Ósk. Hún telur að myndaferðamennskan hafi dregið marga á Hornstrandir sem átti sig ekki á út í hvað þeir eru að fara. Fólk er þá oft búið að ákveða að komast á einhvern ákveðinn stað fyrir ákveðna mynd og tekur stefnuna á hann – án þess að kynna sér aðstæður til hlítar. „Þessi myndaferðamáti stangast á við hægfara ferðamennsku „slow-tourism,“ sem er í raun sá ferðamáti sem á einna best við Hornstrandir,“ segir Kristín Ósk.

Hefur sloppið – hingað til

 „Við hittum fólk sem kemur gangandi og ætlar sér algjörlega óraunhæfar vegalengdir,“ segir Kristín Ósk. Það hafa þó ekki komið upp alvarleg atvik tengd þessari tegund ferðamennsku.

„Sem betur fer hefur þetta sloppið – hingað til,“ segir hún. Kristín Ósk segir þó að oft hefði getað farið illa vegna lélegs útbúnaðar ferðafólks. Þá fylgjast Íslendingar jafnan meira með veðurspá og laga sín plön eftir veðri á meðan erlendir ferðamenn séu oft með knappan glugga til að fella Hornstrandaferð sína inn í. 

Gengið um Hornbjarg. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Erfitt að koma upplýsingum til ferðamanna áður en þeir halda í friðlandið

Langflestir sem halda í friðlandið á Hornströndum taka bát yfir Ísafjarðardjúp, annað hvort frá Ísafirði eða Bolungarvík. Eftir að farið var að selja miða í bátana rafrænt er erfiðara að koma upplýsingum til ferðalanga um öryggi og útbúnað.

Blautt á tjaldsvæðinu í Hornvík. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Kristín Ósk segir þó að verið sé að auka upplýsingagjöf á síðum bátafyrirtækjanna til að fólk sé betur upplýst um í hvaða aðstæður það sé að fara. „Þegar eru leiðindaveður hafa áhafnir gert athugasemdir, en það hefur ekki gengið nógu vel – því ekki verið vel tekið,“ segir Kristín Ósk. 

Mættu vera fleiri landverðir

Landverðir Umhverfisstofnunar koma inn á Hornstrandafriðlandið í byrjun júní og eru fram í september, jafnan tveir í senn. „Á undanförnum árum hefur landvörðum fjölgað, viðvera þeirra er mun meiri en þegar ég byrjaði,“ segir Kristín Ósk, sem hóf störf sem landvörður í friðlandinu árið 2017 og tók við sem umsjónarmaður haustið 2017. „Þeir mættu þó gjarnan vera fleiri,“ segir hún. 

Strangar fjöldatakmarkanir

Þótt ferðamönnum hafi fjölgað hratt í friðlandinu þá telur Kristín að ekki þurfi frekari fjöldatakmarkanir. Við útgáfu stjórnar- og verndaráætlunar friðlandsins, sem kom út árið 2019, tóku gildi strangar reglur um hópastærðir og fjölda inni á svæðinu.

Flestir koma með bátum í friðlandið. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Á vestursvæði friðlandsins mega hópar ekki vera stærri en þrjátíu manns og á austursvæðinu ekki stærri en 15 manns. Reglurnar gilda ekki í þorpunum á Hesteyri eða í Aðalvík eða þar sem eru húsaþyrpingar og einhverskonar innviðir – heldur þar á milli. Fjöldatakmörkunum er ætlað að vernda viðkvæmt umhverfið og koma í veg fyrir að myndist villustígar, – enda þarf oft ekki nema einn hóp á villigötum til að búa til nýja stíga, segir Kristín Ósk. 

Skemmtiferðaskip mega ekki setja stóra hópa í land

Með útgáfu stjórnar- og verndaráætlunar tóku jafnframt gildi reglur um landtöku skemmtiferðaskipa. Fyrir 2019 gerðist það jafnvel nokkrum sinnum hvert sumar að skemmtiferðaskip, þá helst svokölluð leiðangursskip, settu fólk í land víðsvegar um friðlandið oft með leiðsögumönnum sem þekktu ekki til og á staði sem voru algjörlega án innviða.

„Þá voru skipin jafnvel að koma með hópa í maí, þegar umhverfið var mjög viðkvæmt – og það voru þá helst þessi leiðangursskip,“ segir Kristín Ósk. „Þetta var góður tímapunktur að setja þessar fjöldatakmarkanir.“ Skip með fleiri en fimmtíu manns um borð mega ekki setja fólk í land. Kristín Ósk segir þetta ekki hafa verið vandamál síðan reglurnar tóku gildi. „Við bjóðum alla velkomna sem rúmast innan þessara marka,“ segir hún.

Hornstrandastofa gott fyrsta stopp

Á Ísafirði er rekin gestastofa sem kallast Hornstrandastofa og stendur við Silfurtorg. „Stærsta hlutverk gestastofunnar er að undirbúa ferðamenn sem ætla sér á Hornstrandir,“ segir Kristín Ósk, þar starfar að jafnaði einn landvörður við upplýsingagjöf á sumrin.

„Við hikum ekki við að fá fólk til að breyta ferðaáætlunum sínum,“ segir hún, „ef fólk ætlar sér of mikið eða veðurspá lítur ekki vel út.“ 

Unnið er að því að viðhalda vörðum í friðalandinu – Séð yfir Veiðileysufjörð. MYND: HALLA ÓLAFSDÓTTIR

Hægt að finna ferðir fyrir alla – en gott að vera með belti og axlabönd

„Það er mikilvægt að sníða sér stakk eftir vexti,“ segir Kristín Ósk, „það geta flestir fundið sér ferð um Hornstrandir við hæfi.“

Hún bendir á að hægt sé að fara í ýmiskonar dagsferðir á Hornstrandir, það er hægt að ganga í nokkra daga út frá einum stað og þá er hægt að fara í skipulagðar ferðir ferðafélaga eða ferðaþjónustufyrirtækja eða fá jafnvel ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu til að skipuleggja ferðir fyrir sig. Það ættu flestir að geta fundið sér ferð við hæfi í náttúruparadís Hornstranda – „en það er alltaf gott að vera með belti og axlabönd þegar ferðast er um óbyggð víðerni,“ segir Kristín Ósk að lokum.  

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …