Samfélagsmiðlar

Markmiðið að fá ferðamanninn út fyrir miðborgina

Ferðasýningin HITTUMST var haldin í Hafnarhúsinu í Reykjavík í dag. Seinast var slík sýning haldin fyrir áratug - nú í fyrsta skipti á vegum Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Sýnendur voru 48 talsins. Eitt megin markmið ferðasýningarinnar er að stuðla að meiri dreifingu ferðamanna.

Inga Hlín Pálsdóttir er framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins - MYND: ÓJ

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa,“ sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag.

Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er í ferðaþjónustu í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum og fleiri áttu eftir að tínast inn þegar leið á daginn.

Ferðaþjónustufólk á HITTUMST í Hafnarhúsinu í dag – MYNDIR: ÓJ

Kynning ferðaþjónustufyrirtækjanna er ekki síst ætluð þeim sem eru í framlínunni alla daga, í gestamóttöku eða í einhverri snertingu við ferðamanninn. Þarna var á einum stað hægt að safna töluverðum upplýsingum um það sem er í boði og skapa mikilvæg sambönd. Meðal þeirra sem komnir voru í Hafnarhúsið að afla sér upplýsinga var m.a. hópur frá Expedia, starfsmenn ferðaskrifstofa, hótela og sjálfra sveitarfélaganna.

„Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað er í boði um allt höfuðborgarsvæðið. Eitt markmiða okkar er að fá fólk til að skoða það sem er fyrir utan miðborgina,“ sagði Inga Hlín.

Ferðaþjónustufyrirtækin á landsbyggðinni kynna árlega á Mannamótum það sem þau hafa að bjóða. Landsbyggðin vill fá fleiri ferðamenn, sem eru langflestir hér á suðvesturhorninu. Einhver gæti þá spurt: Þurfið þið að kynna ykkur?

„Við verðum líka að kynna hvað höfuðborgarsvæðið stendur fyrir, hvað ferðamaðurinn getur gert hér. Við vinnum með markaðsstofum landsbyggðarinnar að því dreifa ferðamönnum en það skiptir okkur líka máli að þeir fari sem víðast um höfuðborgarsvæðið. Það er mikilvægt að ferðamenn viti hvað hægt er að gera hér og njóti dvalarinnar. Fólk í gestamóttökum og aðrir í ferðaþjónustu fá spurninguna: Hvað á ég að gera? Þá er gott að vita hvað er í boði.“

MYND: ÓJ
MYND: ÓJ

Ferðamenn í miðborginni – MYNDIR: ÓJ

Það eru mjög margir ferðamenn í miðborg Reykjavíkur – á Laugavegi, á Skólavörðustíg, uppi við Hallgrímskirkju og við Sólfarið – en gengur eitthvað að beina þeim annað, í önnur hverfi og nágrannabæi?

„Við erum að byrja. Þetta er eitt af markmiðunum. Það gengur enn of hægt. En það er mikið að gerast í nokkrum kjörnum á höfuðborgarsvæðinu, eins og í Hafnarfirði þar sem er Hellisgerði, Íshestar, Aurora Basecamp, líka Álafosskvosin og Gljúfrasteinn í Mosfellsbæ, og svo er Elliðaárdalurinn að verða frábær kjarni.“

Hvernig þykir þér almenningssamgöngukerfið þjóna ferðamönnum?

„Ekki nógu vel eins og staðan er núna. Við höfum unnið með Strætó að byggja upp þá þjónustu og miðla upplýsingum betur til ferðamannsins. Reykjavík City Card er að færast yfir til Markaðsstofunnar frá Reykjavíkurborg og við erum að vinna í því að gera það aðgengilegra og betra í notkun fyrir ferðamanninn. Eitt af því sem við ætlum að gera er að teikna upp ferðaleiðir og kenna ferðamanninum hvernig á að fara eftir þeim með strætó. Þetta er stór hluti af því að dreifa ferðamönnum betur um höfuðborgarsvæðið.“

Við upphaf ferðasýningarinnar í blárri birtu Hafnarhússins – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …