Samfélagsmiðlar

Sláandi rannsókn á kostnaði loftslagsbreytinga

MYND: Pexels/John Guccione

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar. 

Það er gott að hafa þetta á hreinu áður en lengra er haldið. Heildarskatttekjur íslenska ríkisins eru um 1.000 milljarðar, eða ein billjón, þannig að talan sem hér um ræðir, 38 bandarískar trilljónir, er yfir fimmþúsund sinnum hærri en skatttekjur Íslands. 

En hvaða tala er þetta? Jú, hún er að rata út í umræðuna um þessar mundir vegna þess að ný rannsókn sem birt var á miðvikudag í hinu virta tímariti Nature, leiðir að líkum að því að árlegur kostnaður vegna þess skaða sem loftslagsbreytingar valda verði orðinn um 38 trilljónir Bandaríkjadala á ári um miðja öld. Allt hagkerfi heimsins er rétt tæplega 100 trilljónir, þannig að hér er um umtalsverða upphæð að ræða. 

Í rannsókninni, sem er líklega umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á þessum kostnaði, voru gögn síðustu 40 ára rýnd frá um 1.600 svæðum á jörðinni, til að komast að því hvaða skaða loftslagsbreytingar hafa þegar valdið, og hvaða skaða þær eru þá líklegar til að valda. Á næstu 26 árum mun meðalinnkoma jarðarbúa minnka um 19 prósent, samkvæmt rannsókninni, óháð því hvað gert verður í loftslagsmálum, en hver þróunin verður eftir það — hvort ástandið versnar eða batnar — verður algjörlega háð því hvort takist að kippa í taumana með loftslagsaðgerðum eða ekki. 

Þannig munu loftslagsbreytingar leiða til beinnar lífskjararýrnunar samkvæmt rannsókninni. Hún var unnin af Potsdam-stofnuninni í Þýskalandi og byggir á mun yfirgripsmeiri öflun raungagna en aðrar rannsóknir. Niðurstaðan er ekki uppörvandi, sérstaklega að því leyti til að samkvæmt rannsókninni er þessi skaði fram á miðja öld í raun þegar orðinn óhjákvæmilegur. Gróðurhúsalofttegundirnar sem valda honum eru þegar komnar út í andrúmsloftið. 

Kostnaðarútreikningarnir byggjast einkum á mati á áhrifum loftslagsbreytinga á þætti sem skipta máli fyrir hagvöxt, en það er til dæmis uppskera, framleiðni vinnuafls og styrkleiki innviða. Rannsakendur hafa sagt að líkur séu að kostnaðurinn sé frekar vanmetinn fremur en hitt. Einungis er metinn skaði vegna hærra hitastigs og breytinga í úrkomu og vegna aukinna sveiflna í hitastigi. Erfitt er hins vegar að taka með í reikninginn einstaka viðburði sem hljótast af loftslagsbreytingum, eins og öfgakenndari storma og gróðurelda. Hvort tveggja getur haft mikil áhrif á hagvöxt að auki.

Í rannsókninni er gert ráð fyrir að þjóðfélög muni leitast við að aðlaga sig loftslagsbreytingum og reyna að minnka efnahagsleg áhrif þeirra, en jafnframt er bent á að þónokkrar líkur séu á að slíkar aðlögunaraðgerðir muni skila litlum árangri á þeim svæðum þar sem áhrif loftslagsbreytinga verða mest. Áhrifin á þeim svæðum, til dæmis í hruni í matvælaframleiðslu, muni síðan hafa efnahagsleg áhrif á öðrum svæðum líka. 

Rannsóknin sýnir að það skiptir verulegu máli að halda hlýnun jarðar í skefjum. Þannig megi takmarka hinn efnahagslega skaða og koma í veg fyrir að hann verði enn verri eftir miðja öld. Haldi útblástur gróðurhúsalofttegunda áfram í óbreyttu magni og ekkert verði gert til að takmarka aukna hlýnun, muni meðal innkoma jarðarbúa verða 60 prósentum minni en hún er nú, við lok aldarinnar. Takist hins vegar að grípa til aðgerða verði hægt að rétta úr kútnum fyrir lok aldarinnar. 

Eitt megineinkenni rannsóknarinnar er að í henni er leitast við að segja með sem mestum áreiðanleika, á grunni gagna, hvað sé líklegt að gerist í náinni framtíð. Hin miðja öld, sem markmið í loftslagsmálum miðast mörg við, er ekki langt undan. Hér er einungis um að ræða 26 ár. Og lok aldarinnar nálgast líka óðfluga. Börn sem fæðast núna verða 76 ára þá. Niðurstöður rannsóknarinnar varða því ekki bara komandi kynslóðir heldur fólk sem býr á jörðu nú.

Þess ber þó að geta að spár sem áður þóttu langsóttar, og voru afgreiddar af sumum sem óræð framtíðarmúsík, þegar þær voru settar fram fyrir um hálfri öld, virðast mjög í samræmi við niðurstöður þessarar nýju rannsóknar.  Bandaríski umhverfisverndarsinninn Bill MacKibbon bendir á þetta í nýrri færslu á heimasíðu sinni.  Í hinni víðfrægu og umdeildu bók Limits to Growth, þar sem Rómarklúbburinn svokallaði rannsakaði áhrif umhverfismála á hagvöxt, var einmitt leitt að því líkum að samdráttur í hagvexti á veraldarvísu, vegna ágangs mannsins á auðlindir og skemmda á umhverfi, myndi hefjast núna um þessar mundir. 

Nýja rannsóknin varpar frekari stoðum undir þann veruleika með raungögnum.  Árið 2030, sem er einungis eftir 6 ár, munu meðaltekur jarðarbúa vegna áhrifa loftslagsbreytinga hafa minnkað um nærri 10 prósent. Þróunin er því þegar hafin.  Ljósi punkturinn, ef hægt er að tala um slíkt, í rannsókninni er sá, að beinn kostnaður vegna aðgerða til að draga úr losun hefur miklu minni áhrif á lífskjör heldur en loftslagsbreytingarnar sjálfar, og ávinningurinn af slíkum aðgerðum er gríðarlegur. Rannsóknin er þannig mikilvægt innlegg inn í vissa rökræðu í loftslagsmálum sem um langt árabil hefur átt sér stað og er enn í gangi, um það hvort að efnahagslegur kostnaður loftslagsaðgerða sé það mikill að hann sé meiri heldur en kostnaður við loftslagsbreytingarnar sjálfar. 

Árlegur meðalkostnaður nauðsynlegra loftslagsaðgerða hefur verið metinn um 6 trilljón Bandaríkjadala, á verðlagi ársins 2005.  Samkvæmt rannsókninni mun kostnaður vegna loftslagsbreytinga, eins og áður segir, vera orðinn um sexfaldur sá kostnaður ári um miðja öld. Loftslagsaðgerðir núna munu ekki koma í veg fyrir það, segir rannsóknin.  Hins vegar munu loftslagsaðgerðir ráða úrslitum um það hvort að árlegur kostnaður loftslagsbreytinga minnki eftir miðja öld, eða þrefaldist fyrir lok aldarinnar.  Börn sem fæðast á þessu ári myndu þá hafa um 60 prósentum minna úr að spila fjárhagslega við 76 ára aldurinn en við nú.

Nokkuð hefur borið á því undanfarið að ríkisstjórnir séu að draga í land varðandi loftslagsaðgerðir. Í umræðunni hefur verið talað um að sumir stjórnmálamenn vilji mála upp þá mynd af sér að þeir séu jarðbundnir, eða fullorðnir, í þeirri merkingu að þeir vilji fara hægar í sakirnar því efnahagslífið þoli ekki skarpar aðgerðir. Fyrrverandi loftslagsráðgjafi Obama, Todd Stern, gerði þessa nýju stjórnmálastrauma að umtalsefni í Guardian á dögunum. “The grownups” eins og þeir kallast uppá enskuna, leggja áherslu á það í málflutningi sínum að skarpur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda sé óraunhæfur. Stern bendir hins vegar á að nákvæmlega sá málflutningur sé feigðarflan, og einmitt í engu samræmi við raunveruleikann. Loftslagsbreytingar séu að gerast og allar vísbendingar kalli á róttæktar aðgerðir hið fyrsta, í raun ekki ósvipað og í heimsfaraldri Covid. Þessi nýja rannsókn styður það mat mjög. 

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …