Samfélagsmiðlar

Umbreyting á Skarfabakka

Niðurrif hafið á Skarfabakka - MYND: ÓJ

„Við þrengjum verulega að þjónustuaðilum á meðan verið er að byggja húsið en erum með ýmiskonar mótvægisaðgerðir og vonumst til að þetta gangi snurðulaust fyrir sig. Það sýna þessu allir skilning. Allir vilja sjá þessu verkefni lokið. Við hlökkum til vorsins 2026,“ sagði Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, um fyrirhugaða farþegamiðstöð á Skarfabakka í viðtali nýverið við FF7. Þetta er framkvæmd fyrir hátt í fjóra milljarða króna, mesta fjárfesting sem Faxaflóahafnir hafa ráðist í sem tengd er veltu í ferðaþjónustu – „eingöngu er miðuð við ferðaþjónustu,“ eins og Gunnar sagði.

Nýja farþegamiðstöðin er stærsta fjárfesting Faxaflóahafna á sviði ferðaþjónustu til þessa – MYND: ÓJ

„Þetta er áhættufjárfesting af því að við vitum að byggingaverð getur rokið upp. Við verjumst þeirri áhættu nokkuð vel en öðru máli gegnir um pólitíska óvissu. Ef markmiðið er að fæla í burtu skemmtiferðaskip með skattlagningu þá hefðum við viljað vita það fyrirfram,“ sagði hafnarstjórinn og vísaði til hugmynda um að leggja innviðagjald á skemmtiferðaskipin. Hann gerir samt ekki ráð fyrir að skipunum fjölgi á næstu árum.

Yfirlitsmynd af svæðinu og fyrirhugaðar umferðarleiðir MYNDIR: Faxaflóahafnir

Farþegamiðstöðin verður 5.700 fermetra svokallað fjölnotarými, hægt verður að halda þar ráðstefnur, fundi og viðburði utan háannatíma í komum skemmtiferðaskipa.

Megintilgangurinn er samt að auka tekjur af komum skemmtiferðaskipanna vegna farþegaskipta, eins og Gunnar lýsti í viðtalinu við FF7. Hækka á þjónustustigið og stefna að því að lengja viðlegu skipanna. Í húsinu á að fara fram innritun farþega, landamæraeftirlit, öryggisskimun, afhending farangurs og önnur þjónusta við farþega.

Helstu áfangastaðir á leið farþega til og frá skipi – MYND: Faxaflóahafnir

Undirbúningur framkvæmda við farþegamiðstöðina er hafinn á Skarfabakka með niðurrifi þjónustuhússins sem lokið var við í nóvember 2007, þjónaði skemmtiferðaskipum sumarið eftir. Þetta er því ekki gamalt hús sem er þessa dagana verið að rífa.

Við taka bráðabirgðalausnir, skýli og nýjar akstursleiðir, sem verða að duga næstu tvö sumur. Ráðgjafafyrirtækið Cowi (áður Mannvit) hefur unnið skipulag fyrir Faxaflóahafnir og hvernig háttað verður afgreiðslu og umferðarstýringu á svæðinu. Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að þetta verði kynnt ferðaþjónustufyrirtækjum fljótlega. Víst er að framkvæmdirnar og sú röskun sem þeim fylgir mun reyna á þolinmæði og skilning allra sem þarna þurfa að fara um næstu tvö sumrin.

Nýtt efni

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …

Á fimmta hundrað flugvallarstarfsmenn í Ósló og Bergen munu leggja niður störf á miðnætti ef ekki nást samningar um nýjan kjarasamning. Viðræðurnar stranda aðallega á kröfum um bætt lífeyrisréttindi og aukin veikindarétt að því segir í frétt Norska ríkisútvarpsins. Ef til verkfalls kemur er viðbúið að það hafi mikil áhrif á umferðina um flugvellina í …