Samfélagsmiðlar

Vísindin hafa talað: Við lifum ekki á mannöld

Myndað með farsíma í mannhafinu - MYND: Pexels/DSD

Nú hefur loksins verið skorið úr um eitt mesta deilumál innan jarðfræðinnar á síðari tímum, nefnilega það hvort formlega megi kalla það tímabil jarðsögunnar sem við lifum núna mannöld, eða anthropocene. Um þetta hefur vísindasamfélagið rökrætt um árabil. Röksemdirnar fyrir því að kalla núverandi skeið mannöld hafa verið þau að maðurinn sé farinn að hafa svo mikil áhrif á loftslag og lífríki, að það réttlæti að nefna skeiðið í höfuðið á mannskepnunni. 

En nú hefur sem sagt æðsta ákvörðunarvald jarðfræðinga, Alþjóðlega jarðvísindafélagið — eða International Union of Geological Sciences (IUGS) — skorið úr um málið í atkvæðagreiðslu innan vísindaráðs samtakanna. Niðurstaðan er þessi, eftir spennandi umræður: Við lifum ekki á mannöld

Atkvæðagreiðslan fór fram í febrúar, og hin sláandi niðurstaða seitlar nú eins og hægfljótandi hraun út í umræðuna. Stórblaðið New York Times greindi til að mynda frá þessum straumhvörfum á dögunum. Um tuttugu mikilsmetnir vísindamenn í fræðunum greiddu atkvæði og bundu þar með enda á um 15 ára rökræðu innan vísindasamfélagsins. Niðurstaðan var síðan staðfest af framkvæmdastjórn samtakanna. 

Auðvitað má fólk áfram tala um mannöld, ef því sýnist svo. Við því liggja engin viðurlög. Hugtakið hefur verið notað, og verður sjálfsagt notað áfram, til dæmis í bókmenntum og listum og á ýmsum fræðasviðum. Hér var hins vegar tekin afstaða til þess hvort jarðvísindaleg rök stæðu beinlínis til þess að kalla tímabil í jarðsögunni mannöld. Það er mun stærra mál og þyngra. 

Það tímabil sem nú stendur formlega yfir í jarðsögulegum skilningi kallast nútími, eða holoscene. Það hefur varað frá síðustu ísöld, eða í um það bil 11.700 ár. Slík jarðsöguleg tímabil eru mæld í árþúsundum, og ein röksemdin gegn því að kalla samtímann mannöld er einmitt sú að þar er verið að vísa til mjög stutts tímabils, eða til síðustu 70 ára, og kannski eitthvað áfram. 

Röksemdirnir fyrir því að nefna tímana mannöld eru einkum þær að upp úr 1950 hafi mannskepnan farið að hafa svo rík áhrif á loftslag og lífríki, með umsvifum sínum og lífsstíl, að strangheiðarleg vísindaleg rök hnigu til þess að nefna tímabilið í höfuðið á skepnunni. Röksemdir á móti hafa þá ekki einungis verið þær að tímabilið sé of stutt heldur hefur líka verið bent á að ef skeiðið yrði kallað mannöld út af þessum ástæðum, að þá væri verið að höggva þessi óæskilegu áhrif í stein, ef svo má að orði komast. Víðtæk hreyfing er hins vegar í þá átt að reyna að vinda ofan af þessum áhrifum, sem vonandi tekst. Ef það tekst, verður enn minni ástæða til að tala um mannöld

Hvort sem það tekst eða ekki, þá bendir fylgisfólk mannaldar hins vegar á það að áhrifa mannsins muni gæta í árþúsundir, jafnvel þótt vel takist til við að snúa þróuninni við. Gagnvart þeim sjónarmiðum hafa varfærnari jarðfræðingar hins vegar sagt að rétt sé að bíða og sjá. Komandi kynslóðir geti endurvakið rökræðuna síðar. 

Næst á dagskrá hjá Alþjóða jarðvísindafélaginu er hins vegar að ræða hvenær síðari hluti pleistoscene- tímabilsins byrjaði, fyrir einhverjum 130 þúsund árum eða svo. Ákveða þarf mun nákvæmar hvenær tímabilið hófst. Um þetta hefur raunar verið rökrætt innan samtakanna frá 1932, og nú er svo komið að niðurstaðna er jafnvel að vænta. 

Spennandi. Farið ekki langt. 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …