Samfélagsmiðlar

Á maður að kolefnisjafna sig? 

Mynd: Pexels/Googledeepmind

Að meðaltali losar hver Íslendingur um það bil 12 tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári. Víða á netinu er hægt að kaupa kolefnisjöfnun á 12 tonnum fyrir 20 þúsund krónur eða svo. Þá er eðlilegt að margur spyrji: Ef fólk gerir þetta árlega, er fólk þá ekki bara í góðum málum?

Gagnvart svona nálgun súpa sumir hveljur en aðrir staldra við. Málið er umdeilt. Fyrir nokkrum árum var á mörgum að heyra að ein besta leiðin til að bregðast við útblæstri gróðurhúsalofttegunda, fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki, væri að kolefnisjafna sig. Nú virðist vera komið smá bakslag í þessi fræði. Óljóst er hvort kolefnisjöfnun í raun og veru virkar og ásakanir fljúga um loddaraskap og grænþvott.

En hvað er satt og rétt? Ekki er gott að segja, auðvitað, frekar en fyrri daginn — það er margt í mörgu — en við skulum samt skoða þessi mál aðeins. Við spyrjum: Ef maður vildi nú samvisku sinnar vegna kolefnisjafna sig, hvað þarf maður þá að hafa í huga? Og ætti maður að spá í þetta yfir höfuð? Er þetta ekki eitthvað sem maður ætti að gera, ásamt öðru?

Sérfræðingar í loftslagsmálum munu alltaf byrja á því að segja fólki að draga fyrst sem mest úr beinni losun sinni og hægt er. Það er alltaf besta leiðin. Tólf tonn á mann er mikið og vel yfir heimsmeðaltali, sem er um fjögur og hálft tonn. Plan A er að ná þessu niður. Hér skiptir máli hvernig samgöngur fólk tileinkar sér, hvernig mat það borðar og svo framvegis. Fjölmargar netsíður bjóða upp á útreikninga á kolefnisspori einstaklinga. Hér er til dæmis hægt að áætla hvað maður mengar mikið.

Hægt er að fara æði langt með því að tileinka sér umhverfisvænari lífsstíl og sá lífsstíll þarf hreint ekki að vera á nokkurn hátt leiðinlegri eða innihaldslausari, heldur þvert á móti. Að þessu sögðu verður þó líka að horfast í augu við það að losun einstaklinga, og fyrirtækja, er oft ekki beinlínis á þeirra áhrifasviði. Með öðrum orðum, það getur verið erfitt að draga úr losun umfram ákveðið mark vegna þess að losunin er meira kerfislæg, bundin orkukostunum sem bjóðast, eða skilyrðunum sem eru fyrir hendi í nærumhverfinu, eða að losunin eigi sér stað við framleiðslu vara sem fólki eru nauðsynlegar. 

Bílaumferð í Reykjavík. Mynd: ÓJ

Í þessum tilvikum getur verið gott að fá aðra aðila — sem eru í aðstöðu til þess — til að draga úr losun fyrir mann, eða binda kolefni úr andrúmslofti. Þetta er í mjög grófum dráttum — og með töluverðri einföldun — pælingin með hinum frjálsa markaði með kolefniseiningar.  Aðili sem getur bundið kolefni eða komið í veg fyrir losun sem annars hefði orðið getur skráð svokallaðar kolefniseiningar á markaði. Svo geta aðrir keypt þær, eignað sér þær og notað til þess að minnka sína losun. 

Það er óhætt að segja að svolítil upplausn ríki á þessu sviði. Það gætir vissrar tortryggni. Hér var sagt frá því í nýlegri grein að innan samtakanna Science Based Targets intitiatives ríkti úlfúð vegna þess að stjórn samtakanna hefði ákveðið að slaka á kröfum sínum til kolefniseininga.  Rót tortryggninnar er meðal annars þessi: Er verið að láta undan þrýstingi peningaafla, sem vilja ekki draga úr losun, en þurfa leið til þess að grænþvo sig? Eru kolefniseiningar í raun bara leyfi til að menga, eða eins konar aflátsbréf?

Það er vissulega hættan. Einingarnar, verkefnin sem liggja að baki þeim, verða auðvitað að virka. Og hér vandast málið. Nokkur víðtækur skilningur ríkir á þvi í heimi loftslagsmála að kolefniseiningar sem slíkar eru mikilvægt stjórntæki til þess að minnka losun. Kolefniseiningar eru hins vegar af tvennum toga. Annars vegar er kolefniseiningum beitt með reglugerðum og lögum á skyldubundnum markaði. Dæmi um þetta er markaður Evrópusambandsins með losunarheimildir. Fyrirtæki sem falla undir þann markað, eins og stóriðja og flugfélög, fá úthlutað heimildum til að losa visst magn af CO2 ígildum. Losi þau minna, geta þau selt afganginn á markaði með losunarheimildir, en losi þau meira þurfa þau að kaupa heimildir. Smám saman er svo heildarmagn losunarheimilda minnkað, sem á að leiða til þess að fyrirtækin smám saman minnki losun sína. 

Barist fyrir betra lofti. MYND: Adrian Balasoiu/ Unsplash

Á hina röndina fyrirfinnst svo í heiminum hinn svokallaði frjálsi, eða „voluntary“. markaður með kolefniseiningar. Hann er þónokkuð öðruvísi, einkum að því leyti til að um hann er ekki til nein opinber umgjörð, eða regluverk. Og engum ber skylda til að kaupa kolefniseiningar og heildarmagn þeirra, eða þak á magni eininga, er ekki ákveðið af neinum. 

Smám saman hefur þó myndast umgjörð. Til eru staðlar, eins og ÍST 92:2022 og ISO 14068-1:2023, þar sem reynt er kerfisbundið að rekja skilyrðin fyrir því að eitthvað geti talist minnka losun eða binda kolefni úr andrúmslofti. Þónokkrir aðilar í veröldinni, sumir í vegum rótgróinna náttúruverndarsamtaka, hafa tekið að sér að vera sjálfstæðir vottunaraðilar, sem gefa sig út fyrir að nota ýtrustu vísindi til þess að sannreyna að verkefnin sem í boði eru hafi raunveruleg áhrif. Í annan stað hafa svo orðið til skráningaraðilar á slíkum vottuðum kolefniseiningum, og einnig kauphallir með vottaðar einingar. Hafi fólk tiltrú á þessari umgjörð, treysti vottunaraðilanum og skráningaraðilanum, að þá ættu kaup á kolefniseiningum að virka sem eitt verkfærið í verkfærakassanum, til þess að takast á við loftslagsvandann.

 

Á netinu er að finna fjölmargar síður þar sem hægt er að leita leiðbeininga. Bandarísku náttúruverndarsamtökin NRDC, eða Natural Resources Defence Council, bjóða til dæmis upp á slíkar leiðbeiningar, m.a. með yfirliti yfir þær þumalputtareglur sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar kaup á kolefniseiningum eru annars vegar.  

Í fyrsta lagi þarf auðvitað að vera á hreinu að viðkomandi verkefni — sem sagt er binda kolefni eða koma í veg fyrir losun — sé til. Og að fólkið sem standi að því sé til. Því miður eru til dæmi um verkefni sem reynst hafa tómur uppspuni. Hér koma vottunaraðilar sterkir inn. Slíkur áreiðanlegur, sjálfstæður, þriðji aðili verður að hafa lagt mat á verkefnið. 

Tölur flugfélaganna sýna að fáir farþegar kolefnisjafna flugið sitt. MYND: ÓJ

Svo er líka mikilvægt að verkefnið hafi varanlega bindingu eða varanlega minnkun á losun í för með sér, og það þarf að vera fyrir hendi trygging fyrir þessu til langs tíma. Aðili sem selur einingar í nafni skógræktar má ekki verða vís að því að höggva svo skóginn sex mánuðum síðar og selja hann í timburkurl. Og aðstæður til skógræktar verða líka að vera þannig, að í raun hljótist meiri binding af henni heldur en af landinu óbreyttu.

Kolefniseiningarnar mega heldur ekki vera margnotaðar. Sá sem ræktar skóg má ekki eigna sér kolefnisbindinguna. Ef einhver annar kaupir kolefniseiningarnar, þá er kolefnisbindingin eign þess aðila og reiknast í kolefnisbókhaldi hans. 

Að síðustu er svo mikilvægt að hafa á hreinu að verkefnið feli í sér eitthvað meira en til stóð, hvort sem er. Með öðrum orðum, ekki er hægt að selja kolefniseiningar í einhverju sem hefði gerst hvort sem er.  Verkefnið þarf að fela í sér ávinning sem hefði annars ekki orðið, í þágu loftslagsmála. 

Það er skiljanlegt í þessu umhverfi, að margir séu ringlaðir. Ávinningur er ekki alltaf augljós og að auki eru peningar í húfi og margur gullgrafarinn vill rjúka af stað og kannski margselja handónýtar einingar í verkefnum sem skipta engu máli fyrir loftslagið. Svartir sauðir eru víða, en hin frjálsa umgjörð hins frjálsa, sjálfsprottna markaðar er þó ætlað að færa neytendum, fyrirtækjum og einstaklingum, leiðir til þess að sjá við loddurum.

Um þetta markaðsumhverfi verður hver og einn að feta sig á eigin ábyrgð — skoða, lesa, taka upplýsta ákvörðun — og sem betur fer starfa fjölmargir aðilar að því af fullum heilindum að bjóða upp á góðar og áreiðinlegar kolefniseiningar.  Líklega er óhætt að segja að það sé góð hugmynd að kolefnisjafna sig, geri maður það á grunni upplýsinga, og hafi kannski líka fjölbreytni að leiðarljósi, því verkefnin sem stuðla að minni losun eða bindingu kolefnis eru ákaflega margvísleg. Fjölbreytnin gæti aukið líkur á árangri. 

Svo er líka hugsanleg að kerfisbundin kolefnisjöfnun geri mann kannski líka ögn meðvitaðri um losun sína. Kaupi maður einingar á ári hverju fyrir allri sinni árlegu losun getur slíkt skapað betri yfirsýn yfir kolefnisspor heimilisins, og hvort það minnkar eða stækkar. Hér eru nokkur reikningsdæmi:  Á nori.com er hægt að kaupa vottaðar einingar. Nokkuð sannfærandi vottuð kolefnisjöfnun á 12 tonnum fæst þar á einhvern 50 þúsund kall. Svo er líka hægt að ná sér í app, Klima, og gerast þar áskrifandi að mánaðarlegri kolefnisjöfnun, fyrir um 25 þúsund kall á ári fyrir 12 tonn. Verkefnin þar eru fjölbreytt og um allan heim, og forsprakkanir ungir þýskir umhverfisverndarsinnar. Og á Íslandi er til dæmis hægt að kaupa jöfnun á 12 tonnum hjá Kolviði fyrir rétt ríflega fjörutíuþúsund kall. Svo má líka kynna sér alls kyns vottuð íslensk verkefni inn á til dæmis Yggdrasil Carbon og hjá International Carbon Regestry, sem er skráningaraðili vottaðra kolefniseininga.

Þannig að. Niðurstaðan? Jú, þetta er mikill frumskógur. Auðvelt að villast. En kannski er þetta einmitt frumskógur sem bindur kolefni, og um að gera að vafra um í honum, styðja hann og láta hann dafna. Aðalatriðið er þó að gleyma alls ekki að rækta sinn eigin garð, minnka sína losun og auka sína bindingu, og berjast fyrir því að stjórnvöld geri allt slíkt auðveldara fyrir alla. En að kolefnisjafna sig að auki, með vottuðum og viðurkenndum einingum það getur varla sakað. Það þarf jú mörg verkfæri í boxið, margar nálganir og aðferðir, þegar loftslagsvandinn er annars vegar.

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …