Samfélagsmiðlar

Forsetaframbjóðendur og umhverfið

Græn tröð heim að Bessastöðum - MYND: ÓJ

Eftir því var tekið þegar Jón Gnarr forsetaframbjóðandi lýsti undrun sinni á því, í kappræðum frambjóðenda á Stöð 2 á dögunum, að hann hefði aldrei verið spurður af neinum fjölmiðli út í viðhorf sín til umhverfismála. Þau væru jú einhvers stærstu mál samtímans. Hins vegar væri endalaust verið að tala um málskotsréttinn, sem forsetar beittu varla nokkurn tímann.

Jón var smá hvumsa yfir þessu, og stóð greinilega ekki á sama. Frambjóðendur eru nú í óða önn að kynna sig og viðhorf sín. Þó svo forseti ráði ekki miklu beint um það hvernig samfélaginu er háttað og hvaða ákvarðanir eru teknar í einstökum málaflokkum, að þá getur hann sett mál á dagskrá og aukið umræðu. Hann getur líka farið á undan með góðu fordæmi. 

Umhverfis- og loftslagsmál eru dæmi um málaflokk þar sem getur skipt verulegu máli hvernig fólk í forystuhlutverki talar og hagar sér. Það liggur fyrir að loftslagsváin og ýmsar aðrar skjalfestar og vel rannsakaðar áskoranir í umhverfismálum kalla á viðhorfs- og kerfisbreytingar og margvíslegar breytingar á lífsháttum, sem forsetinn getur kynnt, útskýrt, tileinkað sér og talað fyrir. 

En gott og vel. Það er semsagt ekki mikið verið að spyrja út í umhverfismálin, segir Jón, og enginn meðframbjóðenda hans mótmælti því. Halla Tómasdóttir tók undir og skaut inní að það væri mun frekar verið að spyrja frambjóðendur hver væri uppáhaldsmaturinn þeirra. 

En hvað hafa þá forsetaframbjóðendur fram að færa í umhverfismálunum? Mörgum finnst þetta áríðandi spurning. Skoðum málið. Í stað þess að spyrja frambjóðendur eða starfsfólk á þeirra vegum úti í áherslurnar er sá póll tekinn í þessari grein að skoða frekar, eftir fremsta megni — og það verður seint tæmandi yfirferð — hvað þeir hafa látið frá sér að eigin frumkvæði varðandi umhverfismál, loftslagsmál og náttúruvernd. Óspurðir. Ef þessi mál skora hátt í hugum þeirra, þá hlýtur þeirra að vera getið.  Vilji lesendur heyra hvað frambjóðendur hafa að segja aðspurðir beint um þessi mál má benda á Instagramsíður Landverndar eða Ungra umhverfissinna, en þar er þessa dagana verið að spyrja frambjóðendur, einn af öðrum, spjörunum úr um umhverfismál. 

En hér voru semsagt heimasíður frambjóðenda skoðaðar, nöfnin gúggluð og rennt í gegnum samfélagsmiðlasíður. Byrjum á áðurnefndum Jóni Gnarr, sem hafði jú orð á þessu að fyrra bragði.  Jón heldur úti heimasíðunni jongnarr.is.  Áherslur Jóns eru þar ekki raktar kerfisbundið, heldur meira æviskeiðið, og svo vísað til viðtala. Í textanum á sjálfri síðunni er ekki að finna neinar sérstakar vísanir í umhverfisáherslur eða störf að umhverfismálum. Fremur eru dregnar fram þær áherslur á friðar- og mannréttindamál sem Jón tileinkaði sér sem borgarstjóri. 

Í framboðstilkynningu sinni minntist Jón ekki á umhverfismál, en í viðtölum hefur hann hins vegar minnst á þau. Í viðtali við Heimildina, um þær mundir er hann bauð sig fram, var tónn sleginn. Þar sagði Jón að hann myndi „vilja stíga fastar niður, og taka ákveðna afstöðu í náttúruverndar- og loftslagsmálum“. Í nýlegu viðtali í Morgunblaðinu sagði Jón jafnframt að á meðal brýnustu viðfangsefna þjóðarinnar væri að ákveða „með hvaða hætti við ætlum að nýta auðlindir okkar og að við gerum það í sem mestri sátt“. Hann sagði samband menningar og náttúru alltaf þurfa „að byggja á málamiðlunum,“ og að þar hefði „forsetinn veigamiklu hlutverki að gegna“.

Jón virðist þannig vilja setja umhverfismál á dagskrá, með bæði það að markmiði að viðfangsefni þeirra séu tekin fastari tökum, en líka til þess að auka sátt um þessi viðfangsefni, einkum í auðlindamálum. En vindum okkur þá að næsta frambjóðanda, í engri sérstakri röð, Katrínu Jakobsdóttur. 

Katrín hefur auðvitað um árabil leitt stjórnmálaafl sem kennir sig við grænar áherslur. Það mætti því ætla að hér færi vel grænn frambjóðandi, en málið er ekki alveg svo einfalt. Vinstri-græn hafa þurft að gera margvíslegar málamiðlanir í ríkisstjórnarsamstarfi undanfarinna ára og mörgum finnst róttækni í umhverfismálum hafa þurft undan að láta, hvort sem það er sanngjörn gagnrýni eða ekki. En hvað segir Katrín sjálf?

„Það eru flóknir tímar í heiminum,“ sagði hún í framboðstilkynningu sinni, eins og lesa má jafnframt á heimasíðu hennar katrinjakobsdottir.is. „Stríðsátökum fer fjölgandi og mannkynið stendur frammi fyrir stórum áskorunum á sviði umhverfis- og auðlindamála, tækniþróunar, lýðræðis og mannréttinda.“ 

Þarna eru umhverfismálin nefnd, og í framhaldi mikilvægi þess að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Þá segir Katrín einnig að forseti eigi að „hefja sögu landsins, náttúru og menningu hátt“. 

Umhverfismálin fá ekki sérstakan kafla á heimasíðunni, eins og tunga og menning — og þau eru heldur ekki á meðal grunngildanna sem hún hefur nefnt hvað oftast, sem eru lýðræði, mannréttindi, og réttarríkið — en á öðrum vettvangi hefur Katrín gert umhverfismál að bæði umtals- og viðfangsefni. Sem forsætisráðherra hafði Katrín frumkvæði að því að svokallaðar velsældarmælikvarðar yrðu skilgreindir, en þær varða umhverfis- og loftslagsmál því með slíkum mælikvörðum er sjálfbærni og árangri í umhverfismálum gert hærra undir höfði við mælingar á framþróun þjóðfélaga. Þá hefur Katrín einnig nefnt það að sem menntamálaráðherra hafi hún beitt sér fyrir því að sjálfbærni yrði kennd í grunnskólum. 

Vindum okkur þá að Höllu Hrund Logadóttur. Vægi umhverfis- og auðlindamála er töluvert í hennar framboði, þótt hún fari ekki beinlínis fram undir fána umhverfismála fremur en nokkur annar. Hún leggur áherslu á bakgrunn sinn í orku- og auðlindamálum í viðtölum og að hún hafi beint sjónum sínum að orku- og loftslagsmálum í menntun sinni, eins og rakið er á heimasíðu hennar, hallahrund.is. Þar er jafnframt tiltekið hvernig Halla hefur beitt sér í þessum málum á ýmsum vettvangi, eins og til dæmis í háskólakennslu, í tengslum við málefni norðurslóða og sem orkumálastjóri. 

„Ég hef stórt náttúruhjarta,“ sagði Halla Hrund í viðtali við Heimildina skömmu eftir að hún tilkynnti framboð sitt. Þar kveðst hún jafnframt vera náttúruverndarsinni, og talar um mikilvægi þess að við nýtum náttúruna, annað hvort sem verðmæti í sjálfu sér eða til að skapa velmegun, en slík auðlindanýting þurfi að vera í jafnvægi, í þágu samfélagslegra mikilvægra verkefna eins og orkuskipta og í anda sjálfbærni. Í framboðsyfirlýsingu sinni talar Halla Hrund um að aldrei hafi verið mikilvægara fyrir Íslendinga að taka virkan þátt í samstarfi þjóðanna, „sérstaklega á tímum tæknibyltingar, umhverfisáskorana og átaka um víða veröld“. Hún telur mikilvægt að við „hlúum að samfélagi okkar, hugviti og náttúru og tryggjum að auðlindir verði grundvöllur velferðar bæði í dag og fyrir komandi kynslóðir“. Og hún kveðst vilja gera „Ísland að fyrirmynd í sjálfbærni.“

Hin Hallan, Halla Tómasdóttir, leggur líka töluverða áherslu á sjálfbærni í sínum málflutningi. Hún hefur í störfum sínum á undanförnum árum lagt áherslu á umhverfismál, ásamt öðru, eins og lesa má á heimasíðu hennar hallatomasdottir.is. Í framboðsávarpi sínu sagði Halla m.a. að brýnustu verkefni hvers samfélags væru „að standa vörð um heilsu og vellíðan fólks, samfélagslega sátt og náttúruna sem líf okkar allra og velmegun byggja á.“ 

„Friður, jafnrétti og sjálfbærni með heilbrigðu jafnvægi milli heilsu fólks, umhverfis og hagkerfis eru þau málefni sem Halla brennur fyrir,“ segir þar. Í mars á þessu ári valdi fréttaveitan Reuters Höllu sem eina af þeim 20 konum á heimsvísu sem skara fram úr í loftslags- og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur Halla starfað sem forstjóri hins alþjóðlega B Team, sem er vettvangur viðskiptaleiðtoga sem vilja stuðla að meiri sjálfbærni og ábyrgð. „Sem forstjóri B Team hefur hún unnið alþjóðlega að því að breyta hugarfari og starfsháttum í viðskiptaheiminum í átt til ábyrgðar, sjálfbærni, jafnréttis og gegnsæis,“ segir í kynningarefni Höllu.  „Það er gert með því að hvetja viðskiptalífið til að axla ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi og samfélag og vinna að því að stjórnvöld tryggi að leikreglur viðskiptalífsins stuðli að velferð fólks og umhverfis.“

Höllurnar báðar vísa þannig báðar allnokkuð í hugtök og viðfangsefni tengd umhverfismálum í sínum textum, ásamt öðrum áherslumálum. Víkjum þá næst að Baldri Þórhallssyni. Það er skemmst frá því að segja að á heimasíðu framboðsins, baldurogfelix.is, virðist hvergi minnst á umhverfismál. Í framboðsræðu sinni í Bæjarbíói í mars talar Baldur einungis um náttúruna í tengslum við náttúruhamfarir í Grindavík og mikilvægi þess að það sé hlúð að þeim sem verða fyrir barðinu á náttúrunni með slíkum eða, væntanlega, öðrum hætti. Baldur leggur fremur áherslu á mannréttindamál, eins og hann hefur ítrekað sagt, og málefni barna og ungmenna, auk þess sem hann hefur lagt töluverða áherslu á þekkingu sína á áhrifum smáþjóða eins og Íslands, sem auðvitað getur gagnast kjósi forseti til dæmis að beita sér í loftslagsmálum.

Arnar Þór Jónsson talar heldur ekki mikið um umhverfismál, en þó aðeins, og þá á svoldið annan hátt en margir aðrir.  Af tveimur greinum sem finna má á heimasíðu hans, arnarthor.is, má skilja Arnar þannig að hann telji að Íslendingar þurfi ekki að taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, því Íslendingar hafi þegar gert sitt. „Íslendingar bera enga ábyrgð á CO2 í andrúmslofti,” skrifar hann og telur jafnframt að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í sameiginlegum markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir, sem meðal annars á að stuðla að minni losun alþjóðaflugs og stóriðju í álfunni. 

For­set­inn á að standa vörð um stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins, segir Arnar, lýðveld­isstjórn­ar­formið og lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti og hann leggur mikla áherslu á sjálfstæði þjóðarinnar, ekki síst gagnvart Evrópusambandinu og stórfyrirtækjum. Í viðtali við Morgunblaðið minnist hann á auðlindir landsins og íslenska náttúru í því samhengi, sem hluta af því sem þjóðin þurfi að verja.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir heldur úti framboðssíðunni steinunnolina.is og þar má meðal annars hlýða á framboðstilkynningu hennar. Þar segir Steinunn afdráttarlaust að hennar framboð snúist um „eitt og aðeins eitt: Við verðum að koma í veg fyrir að auðlindir okkar verði seldar í annarra hendur.“ 

Steinunn er samkvæmt þessu í framboði ekki síst til að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og að það sé vel farið með náttúru landsins. „Þetta er sameignin sem okkur ber að gæta,“ segir  hún, „ekki bara okkar vegna heldur fyrir komandi kynslóðir“. Steinunn lofar því að „standa vörð þegar Alþingi tekur afdrifaríkar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir okkar og náttúru landsins“. 

Ástþór Magnússon er kannski sá Íslendingur sem á mesta heimtingu á léninu forsetakosningar.is, en hann hefur boðið sig fram oftar en nokkur annar. Á heimasíðunni kynnir hann stefnumál sín, sem ættu að vera mörgum kunn, en Ástþór leggur áherslu á friðarmál í sínu framboði, nú sem fyrr. Á heimasíðunni svarar Ástþór spurningum um stefnumál sín, en ein þeirra lýtur að afstöðu hans til umhverfismála og friðarmála. Svarið fjallar að mestu um nauðsyn þess að forsetinn virkji Bessastaði í þágu friðar, en í lokin bendir Ástþór á að umhverfismálin séu „ekki síður mikilvæg,“ og hann kveðst telja „að forsetinn eigi að vera talsmaður þess að við göngum vel um landið okkar og móður jörð.“

Ásdís Rán Gunnarsdóttir vill líka stuðla að góðri umgengni um náttúru landsins, þó svo umhverfismál sé ekki endilega ofarlega á baugi í hennar máli. Í viðtali um áherslumál sín í Morgunblaðinu nefnir hún góða umgengi við náttúru landsins ásamt lýðheilsumálum sem dæmi um umbótamál sem forsetinn geti virkjað fólk til að ráðast í, í samtakamætti sínum. 

Á heimasíðunni helgathorisdottir.is minnist Helga Þórisdóttir ekki á umhverfismál á meðal sinna stefnumála, að því er best verður séð. Hún leggur meiri áherslu á að forsetinn sé þjónn fólksins og gæti réttinda þess, og að hlúð sé að tungunni, menntun og hag aldraðra. Þeir Eiríkur Ingi Jóhannsson og Viktor Traustason leggja meiri áherslu á hlutverk forseta samkvæmt stjórnarskrá, og að þeir vilji virða það hlutverk eins og þeir skilji það eftir bestu getu, en nefna hvorugir sérstaka áherslu á umhverfismál, náttúruvernd eða loftslagsmál, a.m.k. ekki samkvæmt þessu gúggli. 

Og þar höfum við það. Það er óhætt að segja að umhverfismál eru ekki ofarlega á listanum í þessari kosningabaráttu, þótt sumir hafi meiri bakgrunn í þeim en aðrir og leggi meiri áherslu en aðrir á ákveðnar mikilvægar hliðar þeirra. Þau rata hins vegar ekki í slagorðin, heldur meira í upptalningar með ýmsu öðru. Það virðist enginn græningi vera beinlínis í framboði, einhver sem leggur þunga áherslu á það að vera í fararbroddi þeirra kerfis-, viðhorfs- og lífstílsbreytinga sem áskoranir umhverfismálanna kalla á. Enginn talar á slíkum nótum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að mannkynið hafi sex ár til stefnu áður en skaðinn verður óafturkræfur, þannig að margir myndu telja að næsta kjörtímabil forsetans gæti markast af miklum hremmingum í umhverfismálum og erfiðum samfélagslegum viðfangsefnum. 

Hvernig mun væntanlegur forseti haga sér og tala þegar kemur að þessum málum? Mun hann auka skilning á þeim og verða valdur að öflugri vitundarvakningu? Verður boðið upp á vistvænt grænkerafæði að Bessastöðum í auknum mæli? Verður keyrt á jarðefnaeldsneyti eða rafmagni? Mun forseti hjóla? Verður hringrásarhagkerfið stutt og eflt með ráðum og dáð? Verður flogið í einkaþotu? Mun forsetinn verða landsmönnum innblástur þegar kemur að því að uppgötva hvernig hægt er að minnka kolefnissporið sitt og áhrif á umhverfið, og lifa þó innihaldsríku og skemmtilegu lífi á sama tíma? Mun hann hjálpa samfélaginu að axla ábyrgð á skaðlegri umgengni við umhverfi og lífríki og óæskilegum áhrifum neysluhyggju? Mun hann setja hlutina í samhengi, og til dæmis útskýra af þekkingu samband fólksflótta, stríðsátaka og umhverfisógna? Mun hann tala máli náttúrunnar? Greiða úr upplýsingaóreiðu? Mun hann efla okkur bjartsýni og þrótt gagnvart vaxandi vá?

Þessi yfirferð bendir til að sumir séu nær þessu en aðrir, en þó virðist enginn beinlínis alveg þarna. Eitthvað hindrar. Og spurningarnar vantar jú, eins og Jón benti á. Talsvert er talað um auðlindir og auðlindanýtingu, og þá oft í samhengi við hagsmunagæslu þjóðarinnar, og líka í samhengi við sjálfbæra umgengni við náttúruna og endurnýjanlega orkuframleiðslu.  Umhverfismál í víðari og dýpri skilningi, sem alltumlykjandi áskorun sem þarfnast forystu, framsýni og góðrar leiðsagnar virðast hins vegar vera mestmegnis fjarverandi í þessari kosningabaráttu, enn sem komið er alla vega, en baráttan er auðvitað ekki búin. 

Það yrði athyglisvert ef umhverfismálin yrðu ekki meira rædd en raun ber vitni. Kannanir sýna jú að landsmenn hafa miklar áhyggjur af umhverfismálum og mikinn áhuga á þeim. Það er erfitt að sjá fyrir sér að nýr forseti deili ekki þeim áhuga, og áhyggjum, með þjóð sinni. Þá gæti myndast svokölluð gjá — ekki hin margumrædda milli þings og þjóðar — heldur milli forseta og þjóðar. 

Slík gjá er jú auðvitað alltaf möguleg líka. En hún er minna rædd. 

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …