Samfélagsmiðlar

Meginmarkmiðið er á að fjölga gistinóttum

„Það er áskorun að hafa þennan fjölda ferðamanna á Suðurlandi. Opinbert fjármagn fylgir ekki alltaf þeirri miklu umferð sem er um landshlutann. Manni finnst stundum skorta samræmi á milli þess hversu margir fara hér um og þeirra fjármuna sem settir eru í innviði," segir Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands.

Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands - MYND: ÓJ

Margir sem eru að basla í ferðaþjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu horfa öfundaraugum til Suðurlands, sem nýtur nálægðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík – og státar af áfangastöðum sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja og hafa verið mjög vel kynntir síðustu áratugi.  

Það er stöðugur straumur ferðamanna um Suðurland, meðfram „gullströndinni,“ sem hótelhaldarinn fyrir austan nefndi svo – með tilvísun í strandgóss fyrri alda og auðvitað Gullna hringinn margumtalaða í Árnessýslu, þar sem ferðamaðurinn getur í stuttri dagsferð séð nokkra af athyglisverðustu áfangastöðum landsins: Þingvelli, Geysi og Gullfoss – og endað í Bláa lóninu um kvöldið. Bingó! 

Viðkomustaðir ferðamanna á Suðurlandi eru margir, bæði á Gullna hringnum og með suðurströndinni, þar sem má sjá Seljalandsfoss, Skógafoss, flugvélarflakið á Sólheimasandi, koma við í Dyrhólaey og Reynisfjöru, versla í Vík, ganga um þjóðgarðinn í Skaftafelli og dást að fljótandi ísjökum og selum á sundi í Jökulsárlóni, svo eitthvað sé nefnt af því sem upplifa má við ströndina. Til viðbótar kemur svo allur sá fjöldi sem fer upp á hálendið og á jöklana, upp á Kjalveg, í Kerlingarfjöll, Landmannalaugar, í Þjórsárdal, á Sprengisandsleið – og allar hinar slóðirnar.  

Starfsfólk Markaðsstofu Suðurlands getur fagnað þessum vinsældum landshlutans meðal ferðamanna – og allri þeirri fjárfestingu sem fylgt hefur umsvifum tengdum ferðaþjónustunni, í gistiaðstöðu, afþreyingu, verslun og þjónustu.  

Nýi miðbærinn á Selfossi laðar til sín ferðamenn – MYNDIR: ÓJ

Um 80 prósent erlendra ferðamanna sem koma til Íslands fara um Suðurland og um helmingur allra sem koma gista að lágmarki eina nótt í fjórðungnum. Það gæti virst hátt hlutfall en Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, segir að þau vilji fjölga þessum gistinóttum.  

Þingvallafegurð – MYND: ÓJ

„Suðurland er vissulega mjög vinsæll áfangastaður en um leið gríðarlega stór og fjölbreytilegur. Hér eru svæði sem fá mjög marga gesti en önnur sem miklu færri heimsækja. Við vinnum með ýmsar áskoranir og tækifæri. Markaðssetning snýst ekki bara um að fá fleiri gesti heldur þurfum við að koma á framfæri upplýsingum um það hvernig við viljum að sé gengið um svæðið okkar. Eins og í öllu markaðsstarfi snýst þetta um að koma réttu skilaboðunum á framfæri við þann markhóp sem þarf að heyra þau.  Við viljum að borin sé virðing fyrir náttúrunni. Til dæmis var mikið talað um það þegar algengt varð að fólk ferðaðist um landið á ferðabílum að samfélög yrðu fyrir vissu áreiti. Þá þurftum við að koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk nýtti tjaldsvæðin og þá þjónustu sem þar er. Við þurfum því oft að bregðast við því sem er í gangi,“ segir Ragnhildur Sveinbjarnardóttir.

Ferðamenn átta sig á Þingvöllum – MYND: ÓJ

Blaðamaður efast ekki um að það er í mörg horn að líta á lítilli markaðsstofu á gríðarstóru starfssvæði, sem laðar til sín drjúgan hluta allra þeirra ferðamanna sem koma til Íslands.  

„Starf okkar felst ekki síst í því að reyna að fjölga gistinóttum ferðamanna með ýmsum hætti. Hér vestast felast helstu áskoranir í því að fólk kemur í stuttum dagsferðum og minna verður eftir en ella á svæðinu. Til að ferðaþjónusta verði sjálfbær þarf hún að vera efnahagslega mikilvæg og starfa um leið í sátt við samfélag og umhverfi. Við höfum verið dugleg að ræða umhverfisþáttinn í gegnum tíðina – hvernig hægt er að tryggja að vel sé gengið um náttúruna – en við þurfum líka að tala um samfélögin sem taka á móti gestunum, sjá til þess að þau séu sátt við gestakomur og njóti ávinnings af þeim.“ 

Leiðsögumaður með skipafarþega gengur af Hakinu niður í Almannagjá – MYND: ÓJ

Það eru auðvitað margir að selja ferðir um Suðurland, ykkar markaðssvæði, þetta vinsælasta ferðamannasvæði landsins utan höfuðborgarinnar. Mikil umferð er um landshlutann, frá Sandskeiði að Lónsheiði – að viðbættum Vestmannaeyjum, og þið gegnið  ákveðnu hlutverki í að virkja tækifærin sem skapast.  

„Já, við höfum það hlutverk að kynna okkar áfangastað, fyrirtæki og alla þá þjónustu sem er í boði á Suðurlandi. Hátt í 200 fyrirtæki eru í samstarfi við okkur, auk 13 sveitarfélaga á Suðurlandi. Eins og aðrar markaðsstofur á landinu, þá sinnum við samstarfsverkefnum sveitarfélaga, ríkis og ferðaþjónustunnar sjálfrar á okkar starfsvæði. Það er okkur gríðarlega mikilvægt að fyrirtækin hér taki virkan þátt í þróunarvinnu fyrir landshlutann, ræði hvernig staðið er að markaðssetningu og halda okkur upplýstum um það sem hér er að gerast, hver bókunarstaðan er og hvernig hljóðið er í sjálfum ferðamönnunum, hvort þeir séu ánægðir eða ekki. Fyrirtækin eru dugleg að nýta sér þessi tækifæri, þá þjónustu sem við bjóðum og eru kynnt á vefnum okkar. En okkar helsta áhersla í markaðsstarfi felst ævinlega í því að fjölga gistinóttum, sem um leið stuðlar að meiri neyslu á svæðinu – í mat, menningu og afþreyingu. Ef fólk gistir a.m.k. eina nótt til viðbótar þá dreifist fólk betur um svæðið,“ segir Ragnhildur og bendir á Gullna hringinn, sem liggur á milli fjölsóttra staða. 

Ferðahópur á Gullna hringnum yfirgefur Þingvelli – MYND: ÓJ

„Á Gullna hringnum eru álagstímabil en á milli mun rólegra. Þetta snýst stundum um skipulag. Á þetta viljum við benda. Ef fólk kemur á Suðurland og dvelur þar þá hefur það meiri tækifæri til að skoða og njóta þess sem svæðið hefur að bjóða. Á veturna þarftu ekki endilega að fara í skipulagða norðurljósaferð og eyða heilu kvöldi í það, heldur kíkir bara út um gluggann á hótelherberginu þínu á Suðurlandi!  Það felast alls konar tækifæri í því að fólk dvelji lengur.“ 

Ferðamenn bíða þess að Strokkur gjósi – MYND: ÓJ

Gullni hringurinn selur sig eiginlega sjálfur en þið viljið að fólk njóti hans betur – og stækki hringinn? 

Gullni hringurinn er ekki bara ein leið, heldur keðja margra leiða sem hægt er að fara út frá meginleiðinni. Við viljum benda á þessa möguleika og opna augu fólks fyrir því að þetta er ekki bara dagsferð. Það er svo margt í boði. Það felast auðvitað gríðarleg tækifæri í því að vera við Gullna hringinn. Mörg fyrirtæki hafa byggt þar upp starfsemi og þjónustu og orðið að seglum út af fyrir sig, t.d. Friðheimar, Fontana á Laugarvatni og Efstidalur. En þau sem fara þarna um í dagsferð hafa ekki endilega tíma til að koma við á öllum þessum stöðum.“ 

Myndatökur við Gullfoss – MYND: ÓJ

Margir Íslendingar andvarpa dálítið þreytulega þegar farið er að tala um Gullna hringinn. Ímynd hans er kannski svolítið sjúskuð í augum landsmanna sjálfra – vegna þess hversu vinsæl og fjölfarin leiðin er. Er það kannski of takmarkandi að tala um Gullna hringinn? 

Gullni hringurinn er náttúrulega eitt verðmætasta vörumerki okkar. Það hefur verið umræða um að þar séu of margir ferðamenn en í gegnum árin hefur þróunin verið sú að til hafa orðið nýir seglar við þessa leið, t.d. á Flúðum, í Þjórsárdal og víðar. Það er ekki beint hægt að stjórna því hvert ferðamenn fara. Búa verður til segla til að skapa áhuga hjá ferðamanninum að sækja viðkomandi staði heim.  

Í fjöru við Óseyrartanga – MYND: ÓJ

Ferðamaðurinn er búinn að ákveða að sjá Þingvelli, Geysi og Gullfoss. 

„Já og af skiljanlegri ástæðu. Þetta eru perlurnar okkar. Við komum aldrei í veg fyrir að fólk vilji heimsækja Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Við þurfum alltaf að líta á Gullna hringinn sem verðmætt vörumerki í markaðssetningu á Íslandi. Um leið þurfum við að vera tilbúin til að standa með þessu vörumerki: Þetta eru fjölsóttustu ferðamannastaðir okkar. Við höfum bætt skipulag þeirra, stýrum betur flæði fólks um þá.

Þessum þótti spennandi að fikra sig upp steinlagða Stekkjargjá á Þingvöllum – MYND: ÓJ

Þingvellir eru gott dæmi. Þar hafa verið markaðar nýjar leiðir og búnir þar með til nýir seglar. Þá verður þú ekki eins mikið var við fjölmenni af því að svæðið er stórt og fólk dreifist víða. Svipað er verið að gerast við Geysi. Þar er kominn útsýnispallur á Laugarfelli og verið að bæta stígana. Siðan eru hugmyndir um að gera lengri gönguleiðir við Gullfoss svo fólk geti skoðað svæðið þar í kring á lengri tíma.  

Við þurfum að bjóða upp á ólíka staði sem koma til móts við mismunandi þarfir. Á Suðurlandi eru nokkrar rótgrónar ferðaleiðir, s.s. Gullni hringurinn og suðurströndin, og svo höfum við unnið að því að kynna nýja staði og erum þá að huga meira að áhugasviði gestanna. Þar má nefna Vitaleiðina, á milli Selvogsvita og Knarrarósvita, og svo Eldfjallaleiðina, þar sem áherslan er á eldfjöllin og eldvirkni. Sérstaða Suðurlands felst í eldvirkninni og nálægð við jöklana. Þetta samspil finnst ekki víða annars staðar. Vinna við þróun Eldfjallaleiðarinnar hófst formlega 2021 þó hugmyndin hafi komið fram fyrr.“ 

Ragnhildur segir að ferðaþjónustufyrirtækin sem tekið hafa þátt í þróunarvinnunni séu áhugasöm um Eldfjallaleiðina. Markaðsstofan leggi grunninn en síðan sé það fyrirtækjanna að nýta þá vinnu og benda ferðamönnum á þessa áhugaverðu leið.  

Markaðssetning Eldfjallaleiðarinnar er í samvinnu við Markaðsstofu Reykjaness en hafi verið frestað þegar eldsumbrotin hófust á Reykjanesskaga og Grindavík var rýmd í nóvember síðastliðinn. Þarna liggi mikil tækifæri, að kynna eldvirknina, náttúruna sem hún hefur mótað, söguna sem henni tengist – og alla þá afþreyingarmöguleika sem skapaðir hafa verið á þessum grunni.  

Útreiðartúr í Suðursveit – MYND: ÓJ

„Auðvitað er Eldfjallaleiðin enn á dagskrá. Við styrktumst í trúnni á að kynna þessa leið vegna þess að þörf er á að bregðast við neikvæðri umræðu í kringum eldvirknina og af því að ferðamenn séu áhyggjufullir. Við viljum þess vegna nýta þekkinguna og þær sögur sem hægt er að segja til að styrkja ímynd Íslands sem eldfjallaeyju.“

Ragnhildur segir að þó að þessi vinna hafi tafist verði verkefninu hrundið af stað þegar líður á sumarið. 

Ágústdagur á Suðurlandi – MYBND: ÓJ

Við ræðum almennt þróunina í ferðaþjónustunni á síðustu árum, sprenginguna sem varð, vaxtaverkina sem allir fundu fyrir – og áhrif samfélagsmiðlanna. Allir voru á harðahlaupum að fylgja þróuninni eftir. Eftir Covid-19 kom á meira jafnvægi. Síðustu misserin hefur hins vegar vaknað meiri umhverfisvitund, krafan um sjálfbærni er háværari og að brugðist sé við of miklum ágangi. 

„Það er áskorun að hafa þennan fjölda ferðamanna á Suðurlandi. Opinbert fjármagn fylgir ekki alltaf þeirri miklu umferð sem er um landshlutann. Víða sér t.d. á vegakerfinu, þungaflutningar eru miklir og margir bílar á ferðinni. Manni finnst stundum skorta samræmi á milli þess hversu margir fara hér um og þeirra fjármuna sem settir eru í innviði. 

Góður dagur við Jökulsárlón – MYND: ÓJ

Íbúafjöldi í mörgum samfélögum margfaldast á degi hverjum, sér í lagi yfir háannatímann á sumrin. Allur þessi fjöldi reynir á innviði og þjónustu í samfélaginu þar sem fjárframlög miða oft við íbúafjölda en ekki raunverulegan fjölda þeirra sem eru á svæðinu.“ 

Auðvitað veldur stóraukin umferð ferðamanna á Suðurlandi álagi en Ragnhildur ítrekar að mikilvægt sé að stynja ekki bara undan því heldur hafa í huga hversu mikil tækifæri felist í komum alls þessa fólks. 

„Það er kannski eðlilegra að segja að vegna þeirra auknu tekna sem fylgja komum ferðamanna þá getum við fjárfest meira í innviðum til góðs fyrir samfélögin – í stað þess að segja að vegna ferðamannafjöldans neyðumst við til að eyða peningum í innviði.

„Það er áskorun að hafa þennan mikla fjölda ferðamanna á Suðurlandi“ – MYND: ÓJ

Mikilvægt er að horfa á heildina þegar kemur að þróun ferðaþjónustu, út frá náttúru, samfélagi og efnahag. Það þarf að ríkja sátt og sameiginlegur skilningur á þeim hag og tækifærum sem felast í því að taka vel á móti okkar flottu gestum sem sækja okkur heim.“

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …