Samfélagsmiðlar

Ný kynslóð Evrópumanna

Frá mótmælum í Búdapest - MYND: Unsplash / Mihály Köles

Nú um mánaðamótin voru 20 ár liðin frá umfangsmestu stækkun á Evrópusambandinu til þessa, þegar aðildarríkjunum fjölgaði úr 15 í 25. Það var 1. maí 2004 að Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Kýpur, Malta, urðu fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Að frátaldri Kýpur tilheyra öll þessi ríki Schengen-svæðinu, sem gerir fólki fært að ferðast með frjálsum hætti yfir landamæri – án hindrana.

Evrópusambandið – MYND: Unsplash

Ekki leikur vafi á því að það hefur haft mikil áhrif á þróun stjórnmála í álfunni að ríki sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, eða voru á áhrifasvæði þeirra og síðar Rússlands, gengu í Evrópusambandið. Í tilefni þessara tímamóta lét Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, hafa eftir sér að aðild landsins hefði orðið til mikilla heilla. Evrópusambandið væri í stöðugri þróun og Eistar hefðu lagt mikið af mörkum, þeir nytu trausts og skoðanir þeirra væru metnar. Með stuðningi sambandsins hefði verið fjárfest á mörgum sviðum samfélagsins og aðildin hefði fært landsmönnum frelsi til að ferðast, starfa og menntast í öðrum aðildarlöndum.

Í kjölfar áðurnefndra 10 ríkja komu Rúmenía og Búlgaría, sem gengu í Evrópusambandið 2007, og síðan Króatía 2013. Á dyrnar banka fleiri Balkanlönd: Bosnía og Hersegóvína, Svartfjallaland, Kósóvó, Albanía, Norður-Makedónía og Serbía – og svo auðvitað Úkraína sem berst fyrir tilveru sinni vegna ágangs Rússa, ásamt Moldóvu og Georgíu. 

Á þessum tíma sem liðinn er frá 2004 hafa orðið miklar sviptingar í stjórnmálum, efnahagslífi – og auðvitað í tækni. Með útvíkkun Evrópusambandsins var milljónum manna sköpuð ný tækifæri – en á síðari árum hafa átök alþjóðahyggju og þjóðernislegra viðhorfa harðnað, stafræna byltingin leiðir í ljós gjá á milli þeirra sem fylgt hafa breytingum og hinna sem sitja eftir – eða óttast það og telja hraða breytinga of mikinn. Þá eru samfélög auðvitað misjafnlega hæf eða búin til að mæta kröfum um orkuskipti og kolefnishlutleysi. 

Það ganga ekki allir í takt en við því var auðvitað ekki að búast. Ýmis landsvæði og héruð í Austur-Evrópu hafa ekki notið sömu tækifæra og þau sem liggja nær meginstraumum hins evrópska fjármagns og markaðstækifæra. Margir horfa með trega til fortíðar, þegar allt á að hafa verið betra – vilja hægja á pólitísku og efnahagslegu samrunaferli – rækta sinn þjóðlega garð, halda útlendingum fjarri.

Hins vegar er óumdeilt að í Austur-Evrópu er vaxin upp kynslóð ungs fólks sem fengið hefur miklu fleiri tækifæri en foreldrar þeirra fengu. Það er ekki síst í höndum þessa fólks að ákveða hver stefnan til framtíðar verður.

Dagana 6.- 9. júní geta þau sem fæddust í Austur-Evrópuríkjunum eftir inngönguna í Evrópusambandið 2004 í fyrsta skipti kosið til Evrópuþings og haft sitt að segja um þróun mála. Pólitískt landslag í heimaríkjum þessa fólks um tvítugt er auðvitað gjörbreytt frá því sem foreldrar þeirra höfðu vanist fyrir hrun kommúnismans en á sama tíma eru væntingar blendnar og margir eru uggandi um framtíðina.

Rússar réðust á Úkraínu og sér ekki fyrir endann á þeirri ógn og skelfingu eða hver áhrifin verða á nærliggjandi ríki. Búist er við að þjóðernissinnaðir flokkar yst til hægri vinni mikið á í Evrópuþingkosningunum í júní en styrkur þeirra getur ráðið miklu um framgang ýmissa mála innan sambandsins, ekki síst umhverfismála og líka um stefnuna í samskiptum við Rússa og gagnvart inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið. Evrópuþróunin mótast af því valdi sem greidd atkvæði færa kjörnum fulltrúum. Tekst Evrópusambandinu að glæða áhuga fólks á starfi þess og stefnu?

Ungu austur-evrópsku Evrópuþingskjósendurnir velta vafalaust fyrir sér hvort eðlilegt sé að efnahagur landa þeirra sé látinn gjalda fyrir heildarhagsmuni Evrópusambandsins, þann metnaðarfulla ásetning að ná markmiðum um kolefnishlutleysi á næstu áratugum. Hvaða áhrif mun það hafa á þungaiðnað og landbúnað í Póllandi – og þar með efnahagslega stöðu landsins – ef kolanámum verður lokað og hömlur lagðar á notkun jarðefnaeldsneytis? 

Úr mótmælagöngu í Póllandi – MYND: Unsplash / Kasia Derenda

Nýlega ræddi Reuters-fréttastofan við Austur-Evrópubúa sem fæddir eru eftir að lönd þeirra voru gengin í Evrópusambandið og kjósa nú í fyrsta skipti í Evrópuþingkosningum sem geta orðið örlagaríkar fyrir þróun mála innan sambandsins og hvernig samskiptum við Rússa verður háttað. Damian Krajsa er 19 ára bóndi, sem tekur þátt í stjórnmálum í bænum Luka í norðaustanverðu Póllandi:

„Við höfum bara upplifað að hafa aðgang að öllu. Það er auðveldara fyrir okkur en fyrri kynslóðir að þróast og taka þátt í samfélaginu – þökk sé Evrópusambandinu – og fleiru,“ segir Damian. Hann telur þó að stofnanirnar í Brussel komi öðruvísi fram við Austur-Evrópuríkin en önnur sambandsríki og nefnir sérstaklega umhverfisstefnuna sem eigi eftir að skaða efnahag Póllands.

Sá ótti skýri af hverju hann hafi ákveðið að láta til sín taka í sveitarstjórnarmálum. Damian telur að á sama tíma og Pólverjar verði í nafni umhverfisstefnu, sem hann telur innantóma, þvingaðir til að draga úr kolavinnslu muni ýmis þróunarríki á móti auka sína framleiðslu til að mæta mikilli spurn eftir orkugjöfum. Þá sitji Pólland í súpunni.

Það er hinsvegar allt annar tónn í jafnaldra unga bóndans, Juliu Klimkiewics, háskólastúdent í Varsjá sem jafnframt er kjörinn sveitarstjórnarfulltrúi. Hún fagnar öllum þeim tækifærum sem Evrópusambandsaðild Póllands hefur fært henni – til að taka þátt í nemendaskiptum og ferðast að vild. Samt varar hún við blindri fylgispekt við Evrópusambandið og hvetur til gagnrýnnar afstöðu og þátttöku í lýðræðislegu samráði innan þess. Nefnir hún sérstaklega þörfina fyrir öflugum Evrópuher í ljósi framvindunnar í Úkraínustríðinu. 

Ungur maður stígur upp í lest í Varsjá – MYND: Unsplash / Adam Borkowski

Það er mikil gerjun á evrópska stjórnmálasviðinu og úrslitin í Evrópuþingkosningunum í júní geta haft mikið að segja um það hver þróunin verður í mörgum þeim viðamestu málum sem núlifandi kynslóðir eru að takast á við.

Verður áfram stefnt með markvissum hætti að kolefnishlutleysi og nauðsynlegum breytingum á atvinnuháttum og umgengni um náttúruna – og tekst að fá alla með í þann langa og vafalaust erfiða leiðangur? Mun Evrópusambandið og samstarfsþjóðir þess í Vestur-Evrópu standa saman um grunngildi lýðræðis og mannréttinda – og reynast tilbúin að verja það sem áunnist hefur gegn öflum sem vilja stefna í aðra átt? 

ÁSKRIFTARTILBOÐ: FYRSTI MÁNUÐURINN Á AÐEINS 650 KRÓNUR. Í FRAMHALDINU FULLT VERÐ (2.650 KR.) – ALLTAF HÆGT AÐ SEGJA UPP

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …