Samfélagsmiðlar

Ógnarlegir þurrkar og ferðamannaflóð

Vatnsskortur vegna langvarandi þurrka í Katalóníu er íbúum mikið áhyggjuefni og vilja margir þess vegna hemja vaxandi ferðamannastrauminn sem liggur til Barselóna. Milljónum saman koma gestir úr öllum heimshornum til að sjá undraverk Antoni Gaudí og njóta fegurðar og anda borgarinnar. Ferðaþjónustan skilar borginni miklum tekjum - en er ekki sjálfbær við núverandi aðstæður.

Skýr skilaboð á vegg húss nærri dómkirkjunni í Barselóna - MYND: ÓJ

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi – en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í dagsferð til borgarinnar, landleiðina eða með skemmtiferðaskipum. Búast má við að ferðamönnum eigi enn eftir að fjölga.

Allur þessi troðningstúrismi þjarmar að heimamönnum, sem eru 1,6 milljónir. Margt fólk lendir í basli með að fá þokkalegt húsnæði – verður undir í keppni við Airbnb og aðra slíka. Og ekki horfir vel með vatnsstöðuna í þessu gróskumikla og blómlega héraði – Katalóníu.

Ferðamenn á gangi við Port Vell og túristarúta ekur hjá – MYND: ÓJ

Ferðamannastraumurinn skapar Barselóna og Katalóníu allri auðvitað miklar tekjur og um 130 þúsund störf, en ágangurinn kostar líka sitt, mikið umhverfisálag og skert lífsgæði íbúanna. Barselóna er umlukin fjöllum og þéttbýl. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að fjölga ferðamönnum. Þess vegna beitti borgarstjórinn Ada Colau sér fyrir því að Airbnb-íbúðir yrðu leyfisskyldar, stóð gegn byggingu nýrra hótela í miðborginni og var ekki hlynnt stækkun flugvallarins. Þessi róttæki borgarstjóri, fyrsta konan í því embætti, græningi og fyrrverandi aktívísti í húsnæðismálum, varð undir í kosningum á síðasta ári.

Dyravörður á hóteli skimar eftir leigubíl í Eixample – MYND: ÓJ

Það var ekki síst eindregin stefna Colau í umhverfismálum sem féll í grýttan jarðveg hjá gömlu kerfisflokkunum. Neikvæð afstaða hennar til ferðaþjónustu var sögð skaða efnahag borgarinnar. Eftir kosningarnar tók Jaume Collboni Cuarado við embætti borgarstjóra, en hann er úr flokki katalónskra sósíalista, sem náðu hreinum meirihluta. Cuarado hefur dregið úr áherslu Colau á húsnæðismálin en sett efnahagslegan uppgang á oddinn, fjölgun starfa, bætta almannaþjónustu og hollustu við stofnanir Evrópusambandsins, Katalóníu – og Spánar, sem hann gerði t.d. með því að koma aftur á sambandi við Spánarkóng, sem yfirvöld í Barselóna hafa hunsað í vel á annan áratug. 

Stöðugur straumur fólks liggur að Casa Batlló, einu sköpunarverka Antoni Gaudí – MYND: ÓJ

Hjólað og gengið um Carrer de Ferran – MYND: ÓJ

En vandamál Barselóna, sem þungur ferðamannastraumurinn skapar, hafa ekki horfið. Loftslagsbreytingar halda áfram, miklir þurrkar ganga nærri vatnsbúskap Katalóna og ógna öllum landbúnaði, ekki síst vínræktinni í héraðinu, sem er mikilvæg atvinnugrein og afurðirnar njóta viðurkenningar.

Síðustu þrjú árin hafa þurrkar verið í Katalóníu, sem áður var þekkt fyrir rakt og milt loft, skýjabakkana sem gengu yfir og gáfu jarðargróða nauðsynlega vökvun – og tryggðu Barselónabúum nægt vatn. Inn í þessa langvarandi þurratíð kom hins vegar flóð ferðamanna að loknum heimsfaraldri, milljónir manna sem nota miklu meira vatn en íbúarnir. Á meðan venjuleg fjölskylda í Barselóna notar um 99 lítra á dag, þá er áætlað að hótelgestur láti sér ekki duga minna en 163 lítra. Og þó að það hafi rignt nú í apríl og fram í maí, þegar blaðamaður FF7 fór um Barselóna og Katalóníu, þá hrekkur það skammt. Nú er sumarhitinn kominn og Katalónar eru kvíðnir: Kemur enn eitt hita- og þurrkasumarið. 

Sölumenn bíða færis á Katalóníutorgi – MYND: ÓJ

Í febrúar síðastliðinn var lýst yfir neyðarástandi vegna lágrar vatnsstöðu í Katalóníu og gripið til skömmtunar og ýmissa ráða. Bannað var að vökva grasflatir og þvo bíla en auðvitað dugar svoleiðis lagað engan veginn á meðan milljónir og aftur milljónir gesta streyma að og nota mikið vatn á sama tíma og almennum borgurum verður sagt að spara það. Ferðaþjónustan í Barselóna hefur hingað til sloppið við vatnsskömmtun eða takmarkanir. Úr sturtum og handlaugum hótelherbergja og útleiguíbúða í miðborginni fossar vatnið kvölds og morgna, eins og það gerði löngu áður en menn fóru að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. 

Lögregla og ferðamenn – MYND: ÓJ

Ferðaþjónustan í Barselóna er tekin vettlingatökum á meðan þjarmað er að íbúum, segja sumir. Nýleg hækkun gistináttagjalds fælir engan í burtu. Og nýir stjórnendur í borginni eiga vafalaust eftir að sæta mikilli gagnrýni fyrir linkind. Þennan harðnandi tón mátti greina í nýafstaðinni baráttu vegna héraðskosninga sem fram fóru 12. maí. Undarlegt þótti að slaka á vatnsskömmtun þó dálítið hefði rignt og heyrðist sagt að með því vildu ráðandi öfl bjarga laugarstemmningunni við hótelin í borginni. 

Varningur skoðaður á Mercat de Colom og leigubílstjóri bíður eftir túr – MYND: ÓJ

Það sem Barselóna er að kljást við núna, þessir miklu þurrkar og lág vatnsstaða, er því miður líklega bara forsmekkur þess sem koma skal. Loftslagsbreytingar eru að breyta lífsskilyrðum víða í Evrópu, ekki síst í sunnanverðri álfunni, þar sem langvarandi hiti og þurrkar ganga nærri öllu lífríki. Er skammt að minnast gróðurelda á Grikklandi og ógnarflóða víða, þegar hörð jörðin tók ekki á móti leysingavatni eða ofsaregni sem skall á.

Hinsvegar er ekki hægt að rekja öll vandræði Katalóna til loftslagsbreytinga. Það hefur skort fyrirhyggju og betri stýringu á vatnsnotkuninni, þróaðra veitukerfi og meiri endurnýtingu, sem þó er mikil nú þegar. Það ætti auðvitað ekki að nota hreint vatn til að sturta niður úr klósettum – í íbúðum fólks og á hótelherbergjum. Og nú eru breytingar í farvatninu. 

Síðar á árinu tekur gildi í Barselóna reglugerð um að í nýju húnæði með 16 íbúðum og fleirum verði búnaður sem endurvinni grávatn. Miðað er við að þessi búnaður nýtist í húsum þar sem árleg notkun á handþvotta- og baðvatni er 500 rúmmetrar eða meiri og blasir við að með þessu er stigið markvert skref í átt að aukinni sjálfbærni. Grávatnið nýtist til að sturta niður úr klósettum – en hreina vatnið er þá sparað til lífsnauðsynlegra nota. Áætlað er að draga megi úr vatnsnotkun með þessum hætti um hátt í þriðjung. Það er bæði hagkvæmt og gott fyrir umhverfið ef þetta gengur eftir. 

Mannlífið á Plaça Nova – MYND: ÓJ

Vandi Barselóna á veltiárum í ferðaþjónustu heimsins er að á sama tíma eru áhrif loftslagsbreytinga að koma fram með æ alvarlegri afleiðingum. Þegar hitinn er mestur og þurrkarnir sárastir koma flestir ferðamenn. Og þó að venjulegir borgarbúar átti sig á efnahagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar þá fer óánægja meðal þeirra vaxandi vegna þess hversu ósjálfbær hún er. Ferðaþjónusta sem gengur svo á auðlindir að lífskjör íbúa skerðast er auðvitað ósjálfbær og getur varla átt rétt á sér. Menn sjá ekki alveg fyrir sér hvernig hægt er að bjóða upp á hótelgistingu með miklum takmörkunum á vatnsnotkun eða skerða neyslu ferðamanna frekar en venjulegra íbúa. Eina leiðin virðist þá vera sú að setja mörk á þann fjölda gesta sem kemur árlega. En hvernig á að gera það? 

Ferðamenn og einn vinnandi – MYND: ÓJ

Barselónabúar þurfa eins og margir aðrir að stokka spilin. Ólympíuleikarnir í borginni 1992 vöktu mikinn áhuga á öllu því sem hún hefur að bjóða. Barselóna komst í tísku, lenti í flokki með vinsælustu ferðamannaborgum Evrópu – og situr þar enn – dálítið þurrgóma og blúsuð. Það er auðvitað margt hægt að gera til að auka sjálfbærni ferðamannaborgarinnar. Rætt er hvort ekki megi setja enn meiri takmarkanir á Airbnb og aðra útleigu íbúða til ferðamanna og hætta uppbyggingu á starfsemi sem krefst mikillar vatnsnotkunar og eykur álag. Í fyrrasumar mótmæltu þúsundir Katalóna fyrirætlunum Hard Rock International um byggingu hótel-spilavítis í Tarragona sunnan Barselóna. Umhverfisverndarsinnar bentu á að vatnsnotkun þar yrði álíka og í heilu sveitarfélagi. Þá hefur líka verið andstaða við að stækka frekar El Prat-flugvöllinn í Barselóna. Umræða um hvernig stjórna eigi betur ferðamannastraumnum til Barselóna heldur örugglega áfram. 

Einn helsti segull Barselóna er La Sagrada Família – MYNDIR: ÓJ

Blaðamaður hugleiddi þessi mál öll í stuttu fríi í Katalóníu. Komið var við í Barselóna og endurnýjuð kynnin við þessa mögnuðu borg, hrifist af listasmíðinni í Sagrada Família, sköpunarverki Antoni Gaudí, sem birtist nú gestum nánast fullklárað, rölt um Barri Gòtic, dáðst að byggingunum og skipulaginu í Eixample og sprangað um Passeig de Gràcia – en sneitt að mestu hjá Römblunni og mannþrönginni þar. 

Já, það er sannarlega skiljanlegt að fólk vilji heimsækja Barselóna og hvarvetna mætir ferðamaðurinn góðu viðmóti í borginni, þó búast megi við að stemmningin fari að súrna þegar líður á sumarið – þegar lang flestir koma.

Vonandi finna íbúar þessarar heillandi borgar gott jafnvægi í ferðaþjónustunni, finni leiðir til að þjóna hæfilegum fjölda vel og tryggja öllum góða upplifun – án þess að skerða lífsgæði sjálfra íbúanna og skaða Barselóna sjálfa, sem vonandi tekst að varðveita anda sinn og eldmóð.

 Stutt frá Barselóna má svo finna friðsæla vík við klettótta strönd – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …