Samfélagsmiðlar

Setjið á ykkur svunturnar

Starbucks-kaffihús í Flórída - MYND: Unsplash/Denis Volkov

Kaffihúsakeðjan Starbucks greindi frá því í síðustu viku að sala og hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hefði verið undir væntingum. Gestum kaffihúsa Starbucks fækkaði á fyrstu þremur mánuðum ársins og tekjur drógust saman um 2 prósent. Þetta hefur ekki gerst frá árinu 2020. Búist er við að samdráttur haldist áfram það sem eftir lifir árs. 

Howard Schultz eignaðist Starbucks árið 1987 og gerði það að stórveldi með um 39 þúsund kaffihúsum um heim allan – ekki þó á Íslandi. Hann gekk úr stjórn á síðasta ári og gegnir ekki lengur formlegu starfi en er einskonar heiðursforseti. Árið 1992 skráði Schultz fyrirtækið á almennan hlutabréfamarkað.

Enn er Schulz stærsti einstaki hluthafinn í Starbucks og hann, eins og aðrir hluthafar, er ósáttur við slakan árangur í rekstrinum það sem af er árinu.

Howard Schultz er maðurinn á bak við velgengni Starbucks – MYND: Wikipedia

Um helgina birti Schultz áhugaverða færslu á LinkedIn, þar sem hann lýsti takmarkalausri ást sinni á Starbucks-keðjunni og umhyggju fyrir öllum þeim sem bera hinar grænu svuntur kaffihúsanna. Um leið staðfesti hann vonbrigðin vegna þess að markmið félagsins hefðu ekki náðst:

„Það að hafa ekki náð markmiðum sínum skiptir ekki öllu, heldur það hvað tekur við. Hvernig er vandinn greindur? Hver eru áhrifin á starfsandann? Og hvernig á að bæta úr?“ segir hinn reyndi kaffikeðjuforstjóri og bætir við að menn verði að kyngja vonbrigðunum, skerpa sýn á aðalatriðin en sleppa öllum afsökunum. Oft sé tilhneigingin sú að reyna að gera of margt á of skömmum tíma. Schultz varar við öllu bráðræði en segir að leiðtogar þurfi að sýna gott fordæmi með auðmýkt og sjálfstrausti – um leið og þeir endurvinni traust og bæti árangur heildarinnar. 

Kaffidrykkur á Starbucks í Tyrklandi – MYND: Unsplash/Denis Volkov

„Ég er viss um að Starbucks mun ná aftur vopnum sínum. Starbucks bjó til starfsgrein sem ekki var til staðar. Vörumerkið er orðið eitt það þekktasta og viðurkenndasta í heiminum. Ég hef góðar vonir um að starfsemin í Kína nái sér á strik og að þar verði stærsti markaður fyrirtækisins. Vörumerkið er þrautseigt þó að augljóslega gangi viðskiptin gangi ekki alveg smurt þessa dagana,“ segir Schultz. 

Gamli forstjórinn segist oft vera spurður þessa dagana af fólki innan og utan Starbucks hvað sé helst til ráða. Segist hann þá ævinlega benda á að það verði að byrja heima fyrir. Árangurinn í Bandaríkjunum sé meginskýringin á slakri útkomu. Það þurfi í sölustarfinu að leggja „brjálæðislega áherslu“ á upplifun gesta. Svarið liggi ekki í tölfræði heldur í gangi mála á sjálfum sölustöðunum.

Svo koma skilaboð Howard Schultz á LinkedIn sem vakið hafa athygli í viðskiptaheiminum: 

„Æðstu yfirmenn verða að verja meiri tíma með fólkinu með grænu svunturnar.“

Schultz hvetur til þess að rafrænt farsímapöntunar- og greiðslukerfi Starbucks verði endurnýjað. Þar hafi fyrirtækið haft áður forystu en nú verði að endurskoða kerfið og gera það viðmótsþýðara og meira upplífgandi, eins og því var ætlað að vera.

Endurskoða þurfi markaðsstefnuna, efla nýsköpun og skerpa aðgreiningu Starbucks á markaði. 

„Á Starbucks er það vinnumenningin sem mestu skiptir og innri verkferlar. Menningin og afgreiðslumátinn er helsti gjaldmiðill fyrirtækisins. Allt ræðst af menningunni innanhúss: byltingarkennd nýsköpun, linnulaust starf, áralangur vöxtur, afkoma umfram væntingar og velvild hluthafa. Engar skyndilausnir eru til. Það sem ætti að ráða til framtíðar er það sama og skapaði velsæld fyrirtækisins: Veittu fólki þínu innblástur, farðu fram úr væntingum viðskiptavina þinna – láttu vinnumenninguna og þjónandi forystu marka framtíðarbrautina.“

ÁSKRIFTARTILBOÐ: FYRSTI MÁNUÐURINN Á AÐEINS 650 KRÓNUR. Í FRAMHALDINU FULLT VERÐ (2.650 KR.) – ALLTAF HÆGT AÐ SEGJA UPP

Nýtt efni

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …

Á fimmta hundrað flugvallarstarfsmenn í Ósló og Bergen munu leggja niður störf á miðnætti ef ekki nást samningar um nýjan kjarasamning. Viðræðurnar stranda aðallega á kröfum um bætt lífeyrisréttindi og aukin veikindarétt að því segir í frétt Norska ríkisútvarpsins. Ef til verkfalls kemur er viðbúið að það hafi mikil áhrif á umferðina um flugvellina í …