Samfélagsmiðlar

„Það hefur verið barningur að halda í við fjölgun ferðamanna“

Þolmörk náttúru og ferðamannsins sjálfs eru viðfangsefni náttúrusviðs Umhverfisstofnunar og landvarða. Það vantar meiri rannsóknir til að meta betur upplifun ferðamanna á Íslandi svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana, segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri, sem vill líka setja skýrari reglur varðandi komur skemmtiferðaskipa: „Við þurfum skýrari reglur og ramma utan um þessi mál, sem endurspegla hvað Íslendingar sjálfir vilja í þessum efnum."

Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun - MYND: ÓJ

Þegar ferðamannastraumurinn til Íslands jókst til muna fyrir rúmum áratug reyndi á ýmsa innviði en líka viðkvæma náttúru landsins – helsta aðdráttaraflið. Það átti auðvitað ekki að koma á óvart að vaxandi umferð reyndi á þolmörk en engu að síður er eins og við séum ævinlega einhverjum skrefum á eftir þróuninni. Við bregðumst við í stað þess að fyrirbyggja. Íslensk saga – gömul og ný. 

Blaðamaður velti þessu fyrir sér í lyftuferð í húsinu við Suðurlandsbraut, þar sem Umhverfisstofnun starfar á þremur hæðum, á leið til fundar við Ingu Dóru Hrólfsdóttur, sviðsstjóra náttúruverndar. Þetta er stórt og viðamikið verkefni – fyrir þjóð sem státar einmitt helst af einstakri náttúru þegar hún kynnir land sitt fyrir umheiminum.  

Á verkefnasviði Ingu Dóru og hennar fólks er að hafa umsjón með 129 friðlýstum svæðum. Þar er Snæfellsjökulsþjóðgarður meðtalinn, en hvorki Þingvallaþjóðgarður né Vatnajökulsþjóðgarður. Hlutverk Umhverfisstofnunar er auðvitað að horfa til landsins alls og starfa í þágu umhverfisverndar.  

Við Inga Dóra setjumst niður í fundarherbergi á 5. hæð, með útsýn yfir austurborgina, sundin og til fjalla.  

Gengur samspil náttúruverndar og ferðaþjónustu bærilega? 

„Ég myndi klárlega segja það þegar horft er á landið í heild. Það blasa auðvitað við ýmsar áskoranir á einstökum áfangastöðum, þar sem flestir ferðamenn eru, eins og t.d. við Geysi og Gullfoss, sem við höfum umsjón með, og á Þingvöllum – á þessum Gullna hring. En það er hægt að fara ýmsar leiðir til að bregðast við álagi á þessum slóðum, eins og annars staðar, og það gerum við.” 

Ferðamenn á Þingvöllum – MYND: ÓJ

Hvernig er brugðist við álagi? 

„Þar er fyrst og fremst um að ræða einhverja tegund stýringar. Hún getur falið í sér uppbyggingu innviða, að leggja göngustíga, byggja palla – og stýra umferð fólks um þau mannvirki í gegnum áfangastaðinn. Svo eru það landverðirnir, sem gegna mjög mikilvægu hlutverki við að stýra umferð, hafa eftirlit og fræða gesti – miðla þekkingu um náttúruverndina. Hingað til hefur það verið þetta tvennt sem snýr að álagsstýringu, en nú erum við að fikra okkur aðeins lengra með því að láta væntanlega gesti í Landmannalaugum bóka þar bílastæði fyrirfram.” 

En hvernig er eftirliti ykkar háttað? 

„Við gerum mat á stöðu áfangastöðum með tilliti til ágangs einu sinni á ári og gefum út ástandsmatsskýrslu um það, sem hægt er að finna á heimasíðu okkar. Þetta er samstarfsverkefni okkar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs. Það er ekki verið að greina öll friðlýst svæði á Íslandi heldur áfangastaði ferðamanna. Af því að þetta hefur verið gert í nokkur ár má sjá hvernig staðir halda verndargildi sínu. Á grunni þessara athugana má svo taka ákvarðanir um einhverjar aðgerðir eða uppbyggingu mannvirkja, eins og að leggja stíga og smíða palla, til að stýra straumi fólks betur, gera  einhverjar breytingar á viðkomandi stað – eða fjölga landvörðum. Það hefur sýnt sig að þegar einhver áfangastaður ferðamanna hefur hnignað þá hefur uppbygging innviða breytt mjög miklu.  

Mannmergð við Strokk – MYND: ÓJ

Það hefur töluvert verið byggt upp víða á vinsælustu áfangastöðum ferðamanna og alltaf má gera betur. Mikill ágangur var farinn að taka sinn toll á Geysissvæðinu. Nú er unnið þar að endurbótum, ekki satt? 

„Loksins þegar Geysissvæðið hafði verið friðlýst og gerð stjórnunar- og verndaráætlun var ráðist i framkvæmdir þar, sem standa munu fram á haust. Ætlunin er að auka öryggi, bæta aðgengi og  upplifun gesta og auðvelda stýringu gangandi fólks á endurnýjuðum stígum og pöllum – og hlífa þannig gróðri á hverasvæðinu. Þessar framkvæmdir fara fram í áföngum, þannig að áfram verði hægt að fara að Geysi.”  

Geysissvæðið og fyrirhugaðar framkvæmdir – MYND: Umhverfisstofnun

Þegar maður kemur á Þingvelli, að Geysi eða Gullfossi á sumardegi blasir við mikill gestafjöldi, eiginlega stöðugur straumur fólks. Virða gestir almennt reglurnar, fylgja leiðum sem hafa verið markaðar og byggðar upp? 

„Já, það er okkar reynsla. Fólk fylgir almennt settum reglum. Auðvitað freistast einn og einn til að fara út fyrir mörkin til að ná góðri sjálfu!” 

Ferðamenn bíða þess að Strokkur gjósi – MYND: ÓJ

En kemur til greina að takmarka frekar gestafjöldann, t.d. ákvarða hámark gestafjölda á hverjum degi? 

„Við erum ekki alveg komin þangað, en auðvitað kemur allt til greina. Slíkar fjöldatakmarkanir þekkjast erlendis. En nú erum við í fyrsta sinn á Íslandi að takmarka gestafjölda á friðlýstu svæði með bókunarfyrirkomulagi í Landmannalaugum. Allir sem ætla í Landmannalaugar á einkabílum og bílaleigubílum á milli klukkan 8 og 15 á tímabilinu 20. júní til 15. september þurfa að bóka stæði fyrirfram og greiða þjónustugjald. Þetta er í fyrsta skipti sem þessari aðferð er beitt á Íslandi. En þó að við höfum undirbúið þetta mjög vel þá koma vafalaust í ljós einhverjir hnökrar sem við þá lagfærum. En ég vænti mikils af þesssari breytingu.” 

Hvernig hefur þessu verið tekið af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustunni? 

„Við höfum átt mikið og gott samstarf við SAF um þetta. Allir eru sammála um að þetta sé rétta leiðin. Auðvitað er spurningin hvernig ferðamaðurinn upplifir áfangastaðinn. Náttúruvernd og upplifun ferðamannsins fara saman. Ferðamaðurinn sækir í náttúruna og hana þarf að verja.” 

Auglýsing Umhverfisstofnunar á bókunarfyrirkomulaginu í Landmannalaugum

Ertu bjartsýn á að bókunarfyrirkomulagið bæti upplifun fólks í Landmannalaugum? 

„Ástæðan fyrir því að við völdum þessa leið í Landmannalaugum var ekki endilega að bæta upplifun fólks – tryggja að þarna væru ekki of margir gestir, heldur var einfaldlega ekki pláss fyrir alla þessa bíla sem fólk kom á upp eftir. Allur dagurinn fór í að stýra umferðinni. Ákvörðun um pöntunarkerfið byggist ekki á rannsóknum á þolmörkum út frá náttúruvernd eða upplifun ferðamanna. Það eru komnir góðir göngustígar þarna í kring en ekki var pláss fyrir alla þessa bíla. Þetta var praktískt úrlausnarefni. Við urðum að gera eitthvað.  

Deilt hefur um það hversu langt eigi að ganga í uppbyggingu í Landmannalaugum, hversu mikil mannvirki eigi að rísa þar til að bæta þjónustu við gesti. Eru þau mál orðin skýr? 

„Það er unnið með sveitarfélaginu að því að finna tæknilega úrlausn vegna skjólveggs við laugarnar – hvort að þurfi byggingar- eða framkvæmdaleyfi. En auðvitað eru ólíkar skoðanir uppi um það hvernig svona mannvirki eigi að líta út. Það var langt og mikið ferli að skipuleggja allt svæðið. Samkvæmt skipulagi á líka að reisa nýtt þjónustumannvirki þarna á óröskuðu svæði í 4 til 5 kílómetra fjarlægð frá laugunum. Þetta er hinsvegar mjög umdeilt þar sem væntanleg bygging yrði á óröskuðu svæði. 

Við Landmannalaugar – MYND: Unsplash / Nancy O´Connor

Núverandi stæði við Námskvísl er alltof lítið – miðað við þann fjölda sem vill koma í Landmannalaugar. Þess vegna tökum við upp þessa takmörkun með bókunarfyrirkomulagi. Síðan gerir samþykkt skipulag líka ráð fyrir að aðstaða fyrir ferðamenn verði bætt, með salernum, sturtum og búningsaðstöðu. Þarna er nú komin göngubrú. Eftir á að hanna þessi mannvirki og ég get ekki sagt til um það hvenær framkvæmdir hefjast. Aðstaða Ferðafélags Íslands þarna á svæðinu er sprungin, getur ekki þjónað fleiri gestum, og því er brýnt að laga aðstöðuna.” 

Kemur til greina að flytja gesti með rafmagnsrútum frá væntanlegri nýrri þjónustumiðstöð að Landmannalaugum? 

„Já, sú hugmynd hefur verið rædd. Það mætti endurheimta gamla andann í Landmannalaugum með því að fjarlægja alla bíla þar nærri, flytja fólk í staðinn frá þjónustumiðstöðinni. En eins og ég segi, þá eru hugmyndir um það mannvirki mjög umdeildar af því að þá yrði byggt á óröskuðu svæði.” 

Flaumur ferðamanna við Gullfoss – MYND: ÓJ

Margir eru svo rómantískir að þeir láta sig dreyma um að endurheimta gamla Ísland – fá til baka þann tíma þegar við vorum ein á svona stað. En gamla Ísland kemur ekki aftur, er það? 

„Þegar ég er að ferðast um landið vil ég finna einhverja nýja staði. Við Íslendingar getum átt okkar staði ein – alveg þangað til Justin Bieber kemur og setur mynd af sér þar á samfélagsmiðla! Nei, gamla Ísland er ekki lengur til.” 

Sýnist þér vera almennur skilningur á því sem þið eruð að gera – vill fólk jafnvel ganga lengra í náttúruvernd? 

„Já, en það má huga betur að þolmörkum gagnvart ýmsu. Við metum þolmörk náttúru, hversu mikið álag hún þolir á hverjum stað. Þá hafa farið fram rannsóknir og búið er að finna út að verndargildi sé mikið vegna náttúru – landslags, náttúruvætta eða lífríkis. Svo eru það þolmörk ferðamannsins sem sækir áfangastaðinn heim – það sem snýr að upplifun hans og ánægju. Er það mannfjöldinn sem er að skerða ánægju hans á tilteknum stað – upplifun hans? Svo eru það þolmörk samfélagsins og innviða. Hvað þola vegir, salerni og aðrir innviðir af umferð fólks? Það þarf að huga að þessu öllu.

  

Á bílastæðinu við Gullfoss er rétt að hafa gát á umferð – MYNDIR: ÓJ

Hinsvegar vantar meiri rannsóknir, t.d. á því hversu ánægðir ferðamenn eru. Stakar rannsóknir hafa verið gerðar en þær duga ekki til að lýsa þróun á lengra tímabili. Við þurfum samræmda mælingu, eins og rætt var í hópastarfi um mótun aðgerðaáætlunar í ferðamálum. Í hópnum sem ég vann með var tillaga um auknar rannsóknir sett á oddinn. Áður en teknar eru ákvarðanir þarf rannsóknir. Við verðum að vita hver staðan er.” 

Heimurinn fór á flug eftir heimsfaraldur og á mörgum vinsælum ferðamannastöðum er mikill gestafjöldi. Þetta sér maður líka hér. Búið þið ykkur ekki undir að þessi mikli gestafjöldi verði áfram og að bregðast verði við því? 

„Jú, það er engin spurning. Við þurfum að hafa augun á þessu til framtíðar. Og það má nefna í þessu sambandi að Umhverfisstofnun ásamt Vatnajökulsþjóðgarði, Þingvallaþjóðgarði, Ferðamálastofu, Háskóla Íslands og SAF höfum í hyggju að standa fyrir málþingi í haust til að ræða álagsstýringu og hvar við stöndum í þeim efnum. Í Landmannalaugum erum við bara að stíga fyrstu skrefin með ákveðinni aðferð við álagsstýringu.” 

Snæfellsjökull, rútur og ferðamenn – MYND: ÓJ

Töluverð umræða hefur verið síðustu misseri um aukna umferð skemmtiferðaskipa og flutninga á skipafarþegum með rútum á vinsæla áfangastaði, Þykir sumum að þessir hópar séu stundum of stórir, of margir séu að koma á tiltekna staði í einu, Tekur þú undir það að þetta sé ákveðið vandamál? 

„Já, ég geri það. Þetta toppálag getur valdið vandræðum en það er hægt að leysa margt með samskiptum og sjá til þess að rútur fari ekki allar sömu leið í einu heldur sé þeim dreift. Of mikill ágangur er áhyggjuefni – ekki síst fyrir viðkomandi samfélag, og hann skerðir upplifun annarra ferðamanna sem eru á viðkomandi stað þegar rúturnar með skipafarþegana birtast. Svo er landtaka utan hafna líka áhyggjuefni.  

Við þurfum skýrari reglur og ramma utan um þessi mál, sem endurspegla hvað Íslendingar sjálfir vilja í þessum efnum. Ég tel að hægt sé að setja skýrari reglur um það að skip sem menga mikið komi ekki til Íslands.” 

Það er hlutverk ykkar að verja íslenska náttúru. Hvað er mikilvægast að horfa til í þeim efnum? 

„Ég held að það sé líffræðileg fjölbreytni – verja hana eins vel og við mögulega getum. Ágangur ferðamanna og öll nærvera fólks hefur áhrif á þætti sem lífríki náttúrunnar treystir á. Þetta er það sem ég set í fyrsta sæti.” 

Hvað er svo framundan hjá ykkur í sumar? Þið eruð auðvitað spennt að sjá hvernig takmörkunum í Landmannalaugum verður tekið. 

„Það verður áhugaverðasta verkefnið að fylgjast með í sumar. Ég vona bara að fólk taki þessu vel og skilji ástæðurnar að baki. Almennt held ég að fólk geri það. Erlendir ferðamenn þekkja svona kerfi. Eru vanir því að þurfa að panta pláss og þjónustu hér og þar.  

Síðan eru það reglubundin verkefni – móttaka ferðamanna um allt land. Svæðin sem við rekum eru mjög fjölbreytt. Nú erum við að ráða landverði. Landvarðarstarfið er mjög vinsælt og eftirsótt. Við tvöfölduðum fjöldann sem gat sótt undirbúningsnámskeiðið. Um 70 manns sóttu það.” 

Bílastæði í Dyrhólaey – MYND: ÓJ

Er líklegt að fjölga þurfi landvörðum og öðru starfsfólki til að gæta og verja náttúru Íslands gagnvart þessum mikla straumi ferðamanna? 

„Já, það er þörf á því. Þetta er alltaf spurning um það fjármagn sem við fáum. Það hefur verið barningur að halda í við fjölgun ferðamanna, sjá til þess að fleiri landverðir séu við störf þó að framlög hafi ekki aukist.  Gjaldtaka á bílastæðinu við Landmannalaugar er til að mæta kostnaði við rekstur þess og aukna vörslu. Við ætlum líka að innheimta bílastæðagjöld við Dynjanda og í Dyrhólaey. Tekjurnar fara í mæta kostnaði við umsjón viðkomandi svæða, salerni og annan rekstur.” 

Má þá búast við að slíkum sérgjöldum fjölgi á ferðamannastöðum til að mæta kostnaði? 

„Já, það er lílklegt. Umsjón með friðlýstum hefur verið kostuð með beinum framlögum ríkisins. Það er auðvitað pólitískt mál að ákveða hver eigi að borga fyrir veitta þjónustu –  skattgreiðendur í landinu eða ferðamenn sem heimsækja landið. Það er hægt að fara margar leiðir.” 

Inga Dóra með fjólublátt Akrafjall og Skarðsheiði í baksýn – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …