Samfélagsmiðlar

„Það þarf alltaf að ræða krónuna“

„Krónan gerir allt örlítið örðugra fyrir þessa aðila. Því er ekki að neita. Og af því að ferðaþjónusta er mannaflsfrek óttast margir fámennið hér. Það verður að vera hægt að manna stöður, þjálfa fólk og treysta því að halda því,“ segir Arnar Guðmundsson, fagstjóri fjárfestinga hjá Íslandsstofu, um áhuga erlendra fjárfesta á ferðaþjónustu. Hann sér ekki fyrir sér mikið meiri umsvif, frekar að fjárfest verði í að auka framleiðni og verðmæti.

Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Arnar Guðmundsson, fagstjóri fjárfestinga hjá Íslandsstofu - MYND: ÓJ

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum – og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem nú er í vinnslu, en leiðarljósið þar verður sjálfbærni. Ísland á að verða þekkt fyrir að vera leiðandi í sjálfbærni.

Arnar Guðmundsson, verkefnastjóri Íslandsstofu á sviði fjárfestinga, fór yfir þetta á fundi sem Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn stóðu að um nýsköpun og fjárfestingar í ferðaþjónustu í síðustu viku. Þar kom fram að þessi áhersla á sjálfbærni myndi fela það í sér hvað varðar ferðaþjónustuna að draga ætti úr árstíðasveiflu, fá ferðafólk til að dvelja lengur og fara víðar um landið. Með þessu á að draga ur álagi á umhverfi og samfélag – og bæta rekstrarforsendur greinarinnar. Um þetta hljóta allir að vera sammála.

Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir efnahagslífið er óumdeilt enda stóð greinin undir um 38 prósentum útflutningstekna á síðasta ári. Þá mætti því ætla að lítt grunduðu máli að gríðarlegur áhugi væri meðal fjárfesta á að láta til sín taka á þessum mikilvæga vettvangi.

Myndin er samt flóknari. Þegar horft er til erlendra fjárfestinga á Íslandi síðustu áratugi bar þar auðvitað mest á fjárfestingum í orkufrekum iðnaði fram yfir aldamót. Síðan jókst fjölbreytnin, fleiri geirar löðuðu til sín fjárfesta, þeirra á meðal ferðaþjónustan. En lengi var greinin ekki meðal helstu starfssviða Íslandsstofu. Það var ekki fyrr en ferðamönnum tók að stórfjölga eftir 2010 að fjárfestar fóru að banka títt á dyr Íslandsstofu. 

FF7 fór og hitti Arnar Guðmundsson í húsakynnum Íslandsstofu í Grósku í Vatnsmýri:

Leið flestra erlendra ferðamanna á Íslandi liggur um Laugaveginn – MYND: ÓJ

„Þegar þetta ævintýri blasir við hafa erlendu hótelkeðjurnar samband og sýna áhuga á að eiga hlutdeild. Svo hefst eiginlega kapphlaup við að anna þörfinni, koma öllu þessu ferðafólki fyrir. Það vantaði innviði til að taka á móti ferðamannastraumnum. Airbnb-bólan sem þarna sprakk út var ákveðið viðbragð við eftirspurninni. Ætli það hafi verið margir bóndabæir frá Selfossi austur að Jökulsárlóni sem höfðu ekki fundið einhverja leið til að bjóða heimagistingu? Síðan sjáum við stórfjárfestingar í hóteluppbyggingu á Suðurlandi, t.d. Hótel Jökulsárlón á vegum Fosshótela, sem er nánast fullt árið um kring. Gisting í hærri gæðaflokki verður til – en það eru innlendir aðilar sem að mestu standa þar að baki,“ segir Arnar, og heldur áfram:

Hvarvetna er margmennt flesta daga á ferðamannastöðum á Suðurlandi, eins og við Seljalandsfoss – MYND: ÓJ

„Erlendir aðilar sem sýnt hafa áhuga á gistirekstri hafa mest horft á suðvesturhorn landsins, höfuðborgarsvæðið og nærumhverfi Keflavíkurflugvallar. Ef maður talar við fulltrúa hótelkeðjanna og spyr hvort þær hafi áhuga á að koma til Íslands, þá er útlátalítið af þeirra hálfu að segjast vilja koma, af því að þær fjárfesta ekki í húsnæði heldur vilja bara koma með sitt merki, finna einhvern sem á húsnæði – og þurfa svo oft til viðbótar einhvern rekstraraðila. Það er stundum púsl að koma þessu saman. Það getur að vísu vakið áhuga erlendra hótelfjárfesta eða rekenda þegar merkin sýna landinu áhuga – og stundum vinna þeir með ákveðnum fjárfestum. Fyrsta stóra fjárfestingin í eignum var þegar Carpenter & Company, sem eru fjárfestar frá Boston, koma og gerast kjölfestan í fasteigninni þar sem Edition-hótelið hóf rekstur. Fínt merki og góð hönnun löðuðu að fjárfestinn.“

En er eitthvað um að íslenskir aðilar byggi hús og reyni síðan að laða til sín erlenda fjárfesta eða rekstraraðila?

„Fasteignafélög sem ráða yfir hótelreitum eða byggingatækifærum hafa kannað áhuga hjá öðrum til að fá þetta til að ganga upp. Svo hafa aðrir, sem ráða yfir reitum sem ætlaðir eru blandaðri byggð, talað við hótelfjárfesta um að verða kjölfesta í slíkum verkefnum. Við höfum líka fengið fyrirspurnir frá stórum fjárfestingaraðilum í þessum geira, sem eru bara að skoða það sem er að gerast hér á landi. Eina stóra verkefnið sem var mikið í umræðunni um tíma var um hágæða hvíldarhótel fyrir austan Höfn í Hornafirði, með þátttöku innlendra aðila. Það virðist hafa hægst á framvindu þess þegar Covid-19 skall á,“ segir Arnar en nefnir í leiðinni að hann hafi þó nýlega heyrt í einum aðstandenda verkefnisins og sagðist sá enn hafa áhuga á því að láta það verða að veruleika. 

Ferðamenn í biðstöðu við Skógafoss – MYND: ÓJ

Af og til heyrist af áformum um uppbyggingu hótela eða aðstöðu til afþreyingar hér og þar um landið. Arnar segir blaðamanni frá einu slíku verkefni á Suðurlandi, sem sé komið á lokastig í undirbúningi, en hann má ekki segja nánar hvar það verður:

„Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri annars staðar í heiminum og er með stóran og öflugan viðskiptamannahóp sem hann þjónar, vill auka vöruframboð sitt og lítur þess vegna til Íslands, þar sem aðstæður eru kunnuglegar fyrir viðkomandi. Hann skoðar áherslur hér varðandi umhverfisvernd og sjálfbærni – af því að þessi starfsemi gengur út á vera eins sjálfbær og mögulegt er – enda starfað mikið í tengslum við þjóðgarða og friðuð svæði. Nú er þessi ónefndi aðili að tryggja sér lóð fyrir ævintýramiðstöð með gistingu, sem hægt verður að tengja þjónustu í kring og gönguleiðum. Þetta fyrirtæki kemur til með að byggja upp á þessu svæði og skapa ný störf. Sennilega verður það í samstarfi við innlenda aðila en viðkomandi fjárfestir kemur með sinn viðskiptamannahóp. Svona hlutir gerast líka,“ segir Arnar og bætir við að verið sé að hnýta síðustu lausu endana áður en farið verður af stað. Meira fæst ekki upp úr honum að sinni um nýja ævintýramiðstöð á Suðurlandi.

Hvíldartími í ævintýraför um Suðurland – MYND: ÓJ

Við ræðum aðrar erlendar fjárfestingar á síðustu árum, eins og Fly Over Iceland, sem leiddi af sér þátttöku í Sky Lagoon í Kópavogi – en þessar sögur gerast flestar á suðvesturhorninu.

„Það sem við heyrum frá landshlutasamtökum og frumkvöðlum úti á landi er að erfitt sé að sannfæra fjárfesta um að taka þátt í verkefnum þar. Til dæmis þá leituðu þau sem stóðu að Vök nærri Egilsstöðum lengi að einhverjum til að fjármagna með sér verkefnið en gekk það illa framan af. Ólíkt hótelfjárfestingum þar sem menn skoða streymi ferðamanna, hvar þeir gista, og reikna sér síðan einhverja hlutdeild út frá einhverjum reiknilíkönum sem þeir þekkja, keyra inn í Excel og fá síðan niðurstöðu, þá fylgir miklu meiri óvissa því að byggja upp nýjan áfangastað – að ekki sé talað um ef hann er ekki nærri þéttbýli þar sem margir ferðamenn eru. Þá þarftu að fá ferðamenn til að stoppa, draga þá að – grafa miklu dýpra í dæmið og reyna að skilja það.“

Vetrarferðamenn í Borgarfirði – MYND: ÓJ

Þeir eru ekki margir fjárfestarnir sem vilja búa til segla þar sem lítið er um ferðamenn?

„Þar verðum við að reiða okkur á sjálft heimafólkið – og aðila hér á landi sem þekkja til, kunna þetta, og geta hugsanlega fengið með sér aðra, ef málið er vel undirbúið og sýnt er fram á hvað hægt er að gera. Óbyggðasetrið í Norðurdal í Fljótsdal fékk með sér innlendan fjárfesti – en það treysta ekki allir frumkvöðlar sér til að vinna með fjárfesti.“

Þetta vekur spurningar um stærð fjárfestanna og þá áhættu sem þeir taka. Er of mikið treyst á að fjárfestir komi með mikla peninga – kosti uppbyggingu að fullu? Eigum við að leggja meiri áherslu á að fá fleiri fjárfesta með smærri framlög?

„Þegar við horfum á tækifæri sem blasa við víða um land þá eru þar oft frumkvöðlar sem þekkja sína heimasveit, hafa kannski fengið í hendurnar jörð frá ömmu og afa og áttað sig á því að þar væru einstakar perlur – og skapa mætti mikil verðmæti með því að byggja þar upp og fá ferðamenn til að upplifa eitthvað og njóta. Þessir frumkvöðlar velta því fyrir sér hvar þeir geti náð í fjármagn en erlendir fjárfestar og stórir sjóðir hafa yfirleitt ekki áhuga á þessu. En stundum birtast ástríðu-fjárfestar, fólk sem kynnst hefur landinu og vill leggja eitthvað af mörkum eða taka þátt í verkefnum, t.d. stofna jógasetur. Ég hef sent erindi til landshlutasamtaka og spurt hvort þau viti um einhvern sem væri með tiltekna aðstöðu og til í samstarf, eins og reynda jógakennara sem eigi sinn markhóp og gætu hugsanlega starfað hér á landi hluta af sumri og komið með viðskiptavini. Maður reynir að tengja fólk saman.

Á vordegi í ferðamannabænum Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Nú er verið að stofna fyrstu samtök englafjárfesta [fjársterkir einstaklingar sem vilja festa fé í nýjum verkefnum] á Íslandi. Áhugavert verður að fylgjast með því hvort íslensku englafjárfestarnir búi til gáttir fyrir erlenda fjárfesta, t.d. reynslubolta í atvinnulífi erlendis, sem vilja koma með peninga, góð ráð og þekkingu til Íslands.

Stundum þegar um er að ræða stórar fjárfestingar, eins og Vök eða Geosea á Húsavík, þá er þetta oft erfitt þar til einhver íslenskur aðili, sem hefur sannað sig, fengið reynslu og gengið vel, er tilbúinn til að taka þátt í verkefninu. Þá geta augu annarra opnast. Þetta segir manni að það þurfi að fjárfesta í þekkingu á greininni til að þurfa ekki að treysta einvörðungi á þá sem þegar hafa náð árangri við að byggja upp nýja segla. Austurbrú gerði þetta, skoðaði tækifærin á Austurlandi, skilgreindi með Ferðamálastofu hvernig flæði ferðamanna væri um Austurland, hvaða hópar kæmu og eftir hverju þeir væru að sækjast, hvaða framboð væri á staðnum – hvernig mögulega væri hægt að lækka þröskuldinn fyrir nýja fjárfesta og fá þá til að hugsa um þann möguleika að koma að verkefnum. Það er fullt af tækifærum fyrir austan.

Svo horfir maður á Norðvesturland, sem verðlaunuð ferðamannaleið liggur um – Norðurstrandarleið, en skoðaðu framboð á hótelum á Norðvesturlandi!“

Vetrarsíðdegi í Fljótum – MYND: ÓJ

Er eitthvað í íslensku efnahagsumhverfi: reynslan frá bankahruninu, smæð gjaldmiðilsins, verðlagið í landinu, eða annað, sem eru hindranir í vegi frekari erlendra fjárfestinga í ferðaþjónustu hér?

„Það þarf alltaf að ræða krónuna, allir leita leiða til að verja sig eins og kostur er gagnvart sveiflum á henni. Krónan gerir allt örlítið örðugra fyrir þessa aðila. Því er ekki að neita. Og af því að ferðaþjónusta er mannaflsfrek óttast margir fámennið hér. Það verður að vera hægt að manna stöður, þjálfa fólk og treysta því að geta haldið því. Stundum er talað um ferðaþjónustuna eins og hún búi bara til láglaunastörf en þegar um er að ræða uppbyggingu góðra áfangastaða með mikilli þjónustu þá breytist sú mynd. Þá þarf þjálfað starfsfólk. Það stendur upp úr öllum fjárfestum, hvar sem þeir koma saman er það sama: Mannauður, mannauður, mannauður!“

Þið á Íslandsstofu voruð framan af upptekin við að sinna fjárfestum með áhuga á orkugeiranum, græna geiranum, sjávarútvegi og nýjum tæknilausnum. Sérðu fyrir þér að ferðaþjónustan komist ofar á listann?

„Ég veit ekki hvort hlutur ferðaþjónustunnar vaxi mikið meira í heildina. Við getum aldrei orðið einhver ofurstór áfangastaður – massastaður, íslenskt verðlag býður ekki upp á það.

Ísland verður alltaf staður þar sem fólk leitar að einhverju sérstöku, ákveðnum gæðum. Það er mögulega hægt að auka verulega framleiðni í ferðaþjónustu með fjárfestingum, þannig að hver ferðamaður skili meiri arði. Það er erfiðara að sjá fyrir sér endalausan vöxt í greininni – þar setur mannauðurinn líka ákveðin mörk.“

Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

„Ísland verður alltaf staður þar sem fólk leitar að einhverju sérstöku“ – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …