Samfélagsmiðlar

Þúsundir kaupglaðra ferðamanna kjósa nú París, Mílanó og Madríd frekar en London

Til móts við Oxford Circus-stöðina. Horft eftir Oxford Street - MYND: UNsplash/Johen Redman

Ákvörðun Breta, í framhaldi af því að þeir gengu úr Evrópusambandinu, að hætta að endurgreiða erlendum ferðamönnum virðisaukaskatt af varningi sem keyptur er í landinu hefur leitt til breytinga á verslunarferðamynstri.

Bloomberg hefur eftir Global Blue í Sviss, umsvifamesta fyrirtækinu á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts til ferðamanna, að fimmtungur þess fjölda sem sótti um endurgreiðslu í Bretlandi 2019 leiti nú eftir því í borgum innan Evrópusambandsins: í París, Mílanó og Madríd.

Brexit-forkólfar höfðu sagt að það myndi engu breyta fyrir verslun í landinu að fella niður þessi hlunnindi ferðamanna en kaupmenn sem þekktu til verslunarvenja erlendra ferðamanna vöruðu eindregið við því. Nú blasir við að fólk í fjarlægum heimsálfum sem vill versla í Evrópu sniðgengur Bretland í vaxandi mæli. Verslunarborgin London geldur fyrir Brexit.

Flestir eru þessir kaupendur frá Mið-Austurlöndum, um þriðjungur, og Bandaríkjunum, tæpur fimmtungur. Bresk stjórnvöld segja þó að þetta hafi ekki komið niður á ríkiskassanum og ferðamenn streymi til landsins.

Kvöld í Regent Street – MYND: Unsplash/Benjamin Cheng

Ný skýrsla, sem Bloomberg vísar til, sýnir að 162 þúsund manns frá löndum utan Evrópusambandsins leituðu eftir endurgreiðslu virðisaukskatts í Bretlandi 2019. Nú hafa 34 þúsund verslunarferðamenn snúið baki við Bretlandi en beint viðskiptum sínum til borga innan Evrópusambandsins, þar sem endurgreiðslur eru enn í boði, og keypt fyrir hærri fjárhæðir að meðaltali en áður.

Samkvæmt tölum Global Blue verslaði hver þessara á síðasta ári fyrir sem svarar 555 þúsund krónum í stað 423 þúsunda árið 2019. Frakkland og Ítalía draga til sín stærsta hluta þessara viðskipta, eða um tvo þriðju hluta, en Spánn sækir í sig veðrið.  

Forsvarsmenn breskra verslunarkeðja og kaupmenn í London og víðar hafa auðvitað áhyggjur af afleiðingum þess að bjóða erlendum ferðamönnum engin sérkjör. Samdráttur í þeirri verslun bæti gráu ofan á svart á samdráttarskeiði í Bretlandi.

Stjórn Íhaldsflokksins trúir því hins vegar staðfastlega að ríkiskassinn hafi notið góðs af því að hætta endurgreiðslum á skattinum og ekki fælt ferðamenn frá landinu. Þvert á móti virðist uppgangur í ferðaþjónustunni. Gistinætur í desember hafi verið fleiri en fyrir heimsfaraldur og 18,5 milljónir farþega hafi farið um Heathrow-flugvöll á fyrsta fjórðungi ársins og hafi aldrei verið fleiri. Þá séu miklar annir á Oxford Street. 

Á Oxford Street – MYND: Unsplash/Sabrina Mazzeo

Það virðast ekki síst vera þeir sem selja margskonar lúxusvarning í Bretlandi, eins og Harrods, sem hafa áhyggjur – en þeir eru ekki bjartsýnir um að núverandi stjórnvöld breyti stefnu sinni gagnvart ferðamannaversluninni og mjög ólíklegt sé að Verkamannaflokkurinn standi fyrir niðurfellingu skatta, ef hann kemst til valda í næstu þingkosningum. 

„Ef við viljum að breskir framleiðendur geti fjárfest í störfum, verslunum og þekkingu fólks verðum við að laða að erlenda ferðaverslunarmenn og fá þá til að eyða peningum í Bretlandi,“ segir yfirmaður Mulberry-tískuvöruframleiðans í viðtali við Bloomberg – og bætir við: „Það þýðir að bjóða verði þeim sama skattfrelsi og býðst annars staðar í veröldinni.“

Mulberry, sem þekktast er fyrir handtöskur sínar, hefur átt í basli á síðustu árum og skýrt minnkandi sölu með því tilvísun í niðurfellingu tollfrjálsrar verslunar. 

„Þetta eru glötuð tækifæri. Ferðamenn eru margir í Bretlandi eins og annars staðar í Evrópu – en þeir versla ekki mikið hjá okkur. Þar liggur munurinn,“ segir Paul Barnes, framkvæmdastjóri AIR (Association of International Retail), samtaka þeirra sem standa vörð um alþjóðaverslun í Bretlandi.

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …