Samfélagsmiðlar

Tíbeskt smjörte fyrir kalda morgna

Þó vorið sé komið og sumarið á næsta leiti getum við alltaf stólað á að morgnarnir reynast nokkuð svalir. Íbúar Tíbet þekkja kalda morgna vel af eigin raun en öldum saman hefur þeirra svar við þeim verið orkuríkt smjörte.

Frá Tíbet - MYND: Unsplash/Daniele Salutari


Löngu áður en hið svokallaða „Bulletproof“ kaffi leit dagsins ljós settu Tíbetar smjörklípu út í morgunteið sitt til að byrja daginn á rjúkandi og næringarríkan hátt. Í köldu háfjallalofti Himalaja-fjallanna hefur þessi salti, rjómakenndi og hitaeiningaríki drykkur orðið að daglegri hefð sem er ómissandi í matarmenningu þjóðarinnar.

Á máli heimamanna nefnist drykkurinn „po cha,“ sem einfaldlega útleggst sem smjörte, en te er talið hafi borist á þessar slóðir á 10. öld. Smjörte var hugsað sem leið til að lifa af í samfélagi þar sem matur var oft af skornum skammti og hráefnið sótt í nærumhverfið. Svart te var ræktað í sífrera fjallahéraðanna og smjörið unnið úr jakuxamjólk úr nágrenninu, þaðan sem einnig var náð í salt sem er mikilvægt hráefni í smjörte.

Tíbeskar lækningar hafa einnig reitt sig á mátt þess að blanda saman te og smjöri til að skerpa huga og efla þrótt. Ólíkt þjóðum sem hafa ríkar hefðir og athafnir tengdar tedrykkju, líkt og í Japan, þekkist slíkt ekki þegar kemur að tíbesku smjörtei. Það er einfalt og hugsað sem nauðsynleg næring án allra flókinna útfærslna eða athafna.

Þrátt fyrir að það sé auðvelt að útbúa teið sjálft getur það verið talsverð fyrirhöfn að útvega hráefnið. Svart te er undirstöðuatriðið þar sem sterkt og reykkennt bragðið er grunnurinn fyrir mýkt smjörsins sem fylgir. Mikið magn af laufum er látið liggja í bleyti í afar langan tíma, stundum hálfan dag, og teinu svo hellt í sérstakan bambus hitabrúsa. Nokkrum matskeiðum af smjöri, ríku magni af salti og stundum meira af jakuxamjólk er bætt út í áður en teið er hrist duglega, ekki ósvipað því og verið sé að búa til kokteil.

Munkur í Tashilhu í Tíbet hellir smjörtei í skálar – MYND: Wikipedia

Smjörið úr jakuxamjólkinni er talið betra í drykkinn þó svo að stundum láti fólk sér nægja smjör úr kúamjólk. Jakuxamjólkin er ekki jafn sæt og kúamjólk sem kemur til af því að jakuxarnir eru á nokkurs konar háfjallamatarræði og bíta eingöngu gras og lauf af runnum. Í tíbeskri menningu táknar smjör gnægð og velmegun svo notkun þess í teið er engin tilviljun, fyrir utan augljósan kostinn við að neyta einhvers sem er heitt og næringarríkt sem hittir á réttan stað í matarræðinu í köldu loftslagi.


Fæstir falla í stafi við að bragða smjörte í fyrsta sinn en komast fljótt upp á lag með að drekka það og verða jafnvel svo gott sem háðir frískandi áhrifum þess. Sú var raunin með Dave Asprey, sem kom Bulletproof-kaffinu á kortið í Bandaríkjunum en hann kynntist po cha eftir fjallgönguferð til Tíbet og var algjörlega dolfallinn yfir áhrifum þess. Síðan hafa margir hoppað á Bulletproof-vagninn og bera því góða söguna, allt frá skýrari og einbeittari huga til þess að hjálpa til við að ná kjörþyngd.

Í Himalajafjöllunum er drykkurinn þó ekki tískufyrirbrigði heldur lífsmáti sem fylgt hefur þjóðinni í aldanna rás og mun eflaust gera áfram.

Nýtt efni

Sauðfjársetrið var stofnað árið 2002 af heimamönnum og hefur vaxið og dafnað í þeirra umsjá allar götur síðan. Nýverið hlaut það tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir samfélagslegra nálgun í safnastarfi. Í umsögn með tilnefningunni segir meðal annars að hér sé um að ræða mikilvæga og öfluga menningarstofnun sem hafi gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum. …

Unnið er að því á flugvellinum í Nice á Côte d´Azur að rafvæða alla starfsemi hans með 4 milljóna evra fjárstuðningi frá Evrópusambandinu. Er verkefnið liður í loftslagsstefnu sambandsins. Allar flugvélar í stæði eiga að fá aðgang að raforku sem unnin er með endurnýjanlegum hætti. Settar verða upp um 70 tengistöðvar í þessu skyni. Á …

Nýja-Sjáland var á meðal þeirra ríkja sem fylgdu hörðustu lokunarstefnunni á meðan Covid-19 geisaði. Nú vilja stjórnvöld þar blása meira lífi í ferðaþjónustu á landinu og helst utan vinsælasta tímans sem er nýsjálenska sumarið - frá desemberbyrjun til febrúarloka, þegar dagarnir eru langir og sólríkir og nætur mildar.  Ferðaþjónusta er einn helsti atvinnuvegur Nýja Sjálands …

Talsmenn þýsku sambandsstjórnarinnar staðfestu í dag að hún væri að leita lausnar á viðskiptadeilu Evrópusambandsins og Kína. Það fæli væntanlega í sér að boðuð hækkun verndartolla um allt að 38,1 prósent nái fram að ganga. Það er ekki umhyggja fyrir kínverskum hagsmunum sem ræður afstöðu þýskra stjórnvalda heldur vilja þau vernda hagsmuni stórfyrirtækja í eigin …

Schiphol-flugvöllur við Amsterdam er meðal fjölförnustu flugvalla Evrópu og hefur umferðin um hann lengi verið umdeild meðal íbúa. Umfangi flugvallarins, hávaða frá honum og mengun, hefur ítrekað verið mótmælt og brugðist hefur verið við með því að setja takmarkanir á þjónustutíma og fjölda véla sem um hann fara. Schiphol er þó og verður áfram ein …

Verulega hefur dregið úr magni ósoneyðandi gastegunda í andrúmsloftinu og þykir núna nokkuð ljóst, samkvæmt nýrri rannsókn, að hið alþjóðlega átak um að bjarga ósonlaginu hafi tekist framar vonum.  Margir sem komnir eru á miðjan aldur muna eftir brúnaþungum sjónvarpsfréttamönnum segja frá válegum tíðindum af ósonlaginu á níunda og tíunda áratugnum, inni á milli lagstúfa …

Á meðan franskir og spænskir bílaframleiðendur þrýstu á um að Evrópusambandið brygðist hart við meintum óðeðlilega miklum ríkisstuðningi Kínverja við rafbílaframleiðslu sína og hækkuðu verndartolla vöruðu þýskir keppinautar þeirra við því að slegið gæti í bakseglin: Gríðarlega mikilvægur markaður í Kína gæti lokast að verulegu leyti. Um þriðjungur af sölutekjum Mercedes Benz, BMW og Volkswagen …

Óhætt er að segja að það kosti Hlyn Guðjónsson, sendiherra Íslands í Ottawa, mikil ferðalög að sinna íslenskum hagsmunum í Kanada, sem er næst víðfeðmasta land heimsins. Sendiráð Íslands er hinsvegar lítið, starfsmenn aðeins þrír - Hlynur og tveir staðarráðnir. Nýlega var Hlynur staddur í Halifax, höfuðborg Nova Scotia. Það tekur um tvo tíma að …