Samfélagsmiðlar

Útkjálkastaður sem allt í einu varð blómlegasti bær Danmerkur

Velgengni danska lyfjarisans Novo Nordisk hefur breytt Kalundborg á Sjálandi í blómlegan iðnaðarbæ og peningarnir streyma í sveitarsjóðinn. Forráðamenn ýmissa vinnustaða í þessum bæ, sem áður var frægastur fyrir Carmen-rúllurnar, kvarta raunar undan því að Novo Nordisk sogi til sín allar vinnandi hendur, eins og Snæbjörn Arngrímsson lýsir.

Árið 1969 var þarna akur í útjaðri Kalundborgar en í dag er þarna 1,1 milljón fermetra framleiðskusvæði - MYND: Novo Nordisk

Danski bærinn Kalundborg er á vesturströnd Sjálands, um 100 km vestur af Kaupmannahöfn. Íbúarnir eru nú um það bil 20.000. Fyrir mörgum árum var bærinn þekktastur fyrir verksmiðju sem framleiddi Carmen-rúllur. Carmen-verksmiðjan var stofnuð árið 1963 og hafði í upphafi sex starfsmenn á launaskrá. Uppúr 1970 urðu Carmen-rúllur skyndilega algjör metsöluvara og voru hárrúllurnar svo eftirsóttar að varla var til það heimili í Evrópu eða Bandríkjunum sem ekki gat státað af því að eiga Carmen-rúllur í baðherbergisskúffu. Það var um svipað leyti og hárrúllurnar frá Carmen komust í tísku að Novo Nordisk ákvað að byggja sína fyrstu verksmiðju í bænum.

Sjónvarpsþættirnir Carmen Curlers fjalla um rúlluævintýrið í Kalundborg – MYND: DR

Í verksmiðju Carmen-Curlers, eins og hún hét, unnu 3.500 manns þegar umsvifin voru mest, þar af voru meira en 80 prósent starfsmanna konur. Verksmiðjan lagði þó upp laupanna árið 1990 með breyttri hártísku. En Novo verksmiðjan hélt áfram að starfa og vaxa og nú árið 2024 hafa meira en 4.000 manns atvinnu í verksmiðjunni í Kalundborg eða 25 prósent íbúa bæjarins. Í verksmiðjunni í Kalundborg fer fram helmingur allrar insúnlín-framleiðslu heimsins. 

Frá árinu 2022 hefur lyfjaframleiðandinn Novo Nordisk, sem nú er orðið eitt af stærstu fyrirtækjum heims, dælt inn peningum til uppbyggingar á nýrri, risastórri lyfjaverksmiðju í Kalundborg. Hingað til hefur fyrirtækið ekki getað annað eftirspurn eftir sykursýkislyfinu Ozempic og megrunarlyfinu Wegovy. Hin síaukna eftirspurn eftir lyfjunum á heimsvísu hefur orðið til þess að fyrirtækið tók þá ákvörðun að leggja í 1.200 milljarða króna fjárfestingu í nýjum verksmiðjubyggingum í Kalundborg til að sjá til þess að ekki verði skortur á þessum eftirsóttu lyfjum. Verksmiðjan á að vera fullbyggð árið 2029. Nú þegar er Kaldundborg mikilvægur iðnaðarbær í Danmörku.

Það er fyrst og fremst vegna ákvörðunar Novo Nordisk að staðsetja framleiðslueiningar sínar í Kaldundborg og auka framleiðslugetu verksmiðjanna að bærinn hefur blómstrað. Novo hagnaðist um 2.000 milljarða íslenskra króna árið 2023 og íbúarnir í Kalundborg finna vel fyrir velgengninni því Novo greiðir árlega meira en sem svarar tveimur milljörðum íslenskra króna í skatta til bæjarfélagsins.

Einn af eldri bæjarbúum Kaldundborg sagði í samtali við Danska útvarpið að ef starfsemi Novo Nordisk væri ekki í bænum myndi bærinn kallast útkjálkahola sem enginn hefði sérstakan áhuga á. „Það hefði hræðilegar afleiðingar ef verksmiðjan lokaði. Dóttir mín vinnur hjá Novo, tengdasonur minn og líka barnabörnin. Þar að auki er alls konar þjónusta sem blómstrar vegna viðskipta sinna við Novo.“

Umsvif Novo hafa sannarlega áhrif á lífið í Kalundborg og er mikil lyftistöng fyrir bæinn og nærliggjandi sveitir. Milljarðarnir streyma inn á svæðið til að byggja hina nýju verksmiðju. Allt vex í Kalundborg; fleiri störf skapast, meiri eftirspurn er eftir þjónustu fyrirtækja, húsaleigumarkaðurinn stækkar, íbúum fjölgar, íbúðaverð hækkar og velsæld eykst. Það vantar bæði hendur og hugsandi fólk. Árið 2022 óx veltan í Kalundborg um 26,8 prósent á meðan vöxtur þjóðarframleiðslu í Danmörku var 2,7 prósent. 

Þrátt fyrir þessa miklu sveiflu er jafnsyfjuleg stemmning yfir Kalundborg og öðrum dönskum bæjum – þegar sólin skín á litlu göngugötuna, þar sem vínbúðin selur gæðavín og fatabúðir og hárgreiðslustofur eru hlið við hlið. Ekki eru sérlega margir á ferli yfir hábjartan daginn enda virðast flestir hafa meira en nóg að gera og vera uppteknir í vinnunni sinni. Og þótt enginn kaupi lengur Carmen-hárrúllur og hárrúlluverksmiðjan sé fyrir löngu farin á hausinn er svo sannarlega eftirspurn eftir vinnuafli í bænum. Þetta eru hin jákvæðu áhrif, en nábýlinu við Novo Nordisk fylgja líka vandamál.

Biotekbyen Kalundborg – sveitarfélagið Kalundborg kynnir sig sem miðstöð líftækniiðnaðar – MYND: Kalundborg Kommune

Fyrirtækin á svæðinu missa nefnilega starfsmenn sína sem vilja taka þátt í hinu gífurlega viðskiptaævintýri sem Novo Nordisk er. Bílaverkstæði, spítalarnir og meira að segja hárgreiðslustofurnar horfa á eftir starfsmönnum sínum. 

„Við getum ekki keppt við þau launakjör sem Novo Nordisk býður fólkinu,“ segir Kenneth Brunsholm hjá bílasölunni Samler Mobility, sem hefur misst 20 bifvélavirkja til Novo Nordisk á síðustu þremur árum. „Að missa 20 bifvélavirkja er mjög mikið þegar við tökum ekki nema fimm lærlinga inn í fyrirtækið á hverju ári. Við náum því ekki að mennta nýja bifvélavirkja fyrir okkur með þessari þróun. Novo Nordisk hreinlega ryksugar upp allt vinnuafl hér í bænum og nærliggjandi umhverfi. Við notum mikla peninga í að mennta okkar fólk en svo kemur Novo Nordisk og hirðir fólkið af okkur. Novo ætti að leggja meiri áherslu á að mennta sitt eigið fólk í stað þess að taka fólk frá öðrum fyrirtækjum. Kannski þyrfti að innleiða sama kerfi og í fótboltanum þar sem leikmenn ganga kaupum og sölum. Þá fengjum við kannski eitthverjar krónur fyrir að mennta alla þessa bifvélavirkja.“ 

Í Danmörku hefur Novo Nordisk 28.692 starfsmenn á launaskrá og gerir fyrirtækið ráð fyrir að ráða til sín meira en 1.000 nýja starfsmenn árlega næstu árin.

„Við finnum svo sannarlega fyrir Novo Nordisk,“ segir Pia Krohn Hansen, sem er deildarstjóri í sjúkrahússins í Slagelse, í samtali við Børsen. „Við notum mikla krafta í að mennta fólk og þjálfa. Líffræðingar, lífefnafræðingar og annað fagfólk kemur á sjúkrahúsin í læri til að læra um sjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Þetta er markvisst nám og þjálfun. Eftir nokkra ár í læri kemur Novo Nordisk með sín gylliboð og tekur okkar fólk. Novo ætti að taka meiri ábyrgð á að mennta sitt fólk í stað þess að stela því af spítölunum.“

En Novo Nordisk leitar víða fanga. Sérstaklega vantar háskólamenntað fólk til verkefnastjórnunnar, markaðssetningar, lögfræðinga, hagfræðinga og mannauðsstjóra. 

Starfsmannastjóri Novo Nordisk, Mille Borchorst, segir í samtali við Børsen að lyfjafyrirtækið geri allt sem í þeirra valdi stendur til að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að hafa mikla þörf fyrir menntað stafsfólk. „Við erum mjög meðvituð um samfélagsábyrgð okkar. Þess vegna erum við sífellt að auka samstarf okkar við menntastofnanir. Við ráðum fleiri lærlinga á rannsóknarstofur okkar en nokkru sinni fyrr og í dag eru starfandi fleiri en 500 lærlingar á okkar vegum.“

Þó að hinn mikli vöxtur Novo Nordisk þýði aukna eftirspurn eftir starfsfólki segir Mille Borchorst að Novo vilji alls ekki vera leiðandi í almennum launahækkunum. „Við vitum að vegna stæðrar okkar höfum við síaukin áhrif og við viljum ekki vera það afl sem knýr óæskilega launaspírala í landinu. Við finnum til mikillar ábyrgðar gagnvart launaþróuninni í samfélaginu.“

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …