Samfélagsmiðlar

„Ég held að hóflegur vöxtur sé góður“

„Við þurfum að fara varlega en við þolum alveg meiri fjölda ferðamanna,“ segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures. Helsta áhyggjuefnið nú segir hann sé það að dvalartími ferðamanna á Íslandi styttist. Starfsfólk Arctic Adventures er af 38 þjóðernum og telur Ásgeir það mikinn styrkleika.  „Stjórnvöld mættu bera meiri virðingu fyrir greininni," segir forstjórinn.

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

„Stjórnvöld mættu bera meiri virðingu fyrir greininni," segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins.

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík. 

Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við að hraður vöxtur ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldur héldi áfram. Nú er annað hljóð komið í strokkinn. Menn eru ekki jafn brattir og áður, segja bókunarstöðuna ekki jafn góða og vonast hafi verið til. Hugsanlega fækkar litlum og veikburða fyrirtækjum en þau öflugri styrkjast. 

Ferðamenn við Reykjavíkurhöfn velta fyrir sér afþreyingarkostum – MYND: ÓJ

Hvernig horfir staðan í íslenskri ferðaþjónustu um þessar mundir við þér?

„Það er óvissa á markaðnum. Við erum að fá misvísandi skilaboð. Það eru fínar bókanir í sumt sem í boði er en annars staðar er það lakara. Augljóst er að dvöl er að styttast, sem hefur mikil áhrif á okkur. Auðvitað er verra þegar erlendir ferðamenn dvelja skemur á landinu. Afleiðingar af því eru margar neikvæðar, ferðamenn kaupa þá minna af vörum og afþreyingu, og þeir ferðast frekar til staða sem eru fjölfarnastir fyrir – af því að þeir vilja sjá hápunktana, áhugaverðustu staðina. Fyrir vikið verður það meiri áskorun að byggja upp staði með aðdráttarafli á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Það berast líka góðar fréttir, eins og að Easyjet ætli að auka framboð á flugi til Akureyrar. Það er stórkostlegt. En hvort sem ferðavenjur eru að breytast eða að landið þyki of dýrt, þá tel ég helsta áhyggjuefnið núna vera það að dvalartíminn hefur verið að styttast. Vonandi náum við að bregðast við þeirri þróun,“ segir Ásgeir og bendir líka á að margt sé í gangi í Evrópu sem geti haft áhrif á ferðalög fólks:

„Síðan eru utanaðkomandi kraftar. Sumir tala um að Þjóðverjar og aðrir íbúar í Mið-Evrópu vilji vera heima hjá sér og fylgjast með úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla – og seinka ferðalagi. Þá verða Ólympíuleikar haldnir í París og kannski hafa þeir þau áhrif að fleiri haldi sig heima eða sæki þessa viðburði. Það sem við sjáum er að fyrri hluti sumars er veikari en vænst var en seinni hlutinn og haustið líta bara vel út.“

Ferðamenn njóta leiðsagnar í miðborginni – MYND: ÓJ

En er dvalartími erlendra ferðamanna á Íslandi ekki að styttast einfaldlega vegna þess að það er orðið of dýrt að dveljast hér?

„Verðlag getur haft áhrif. Eitt af því sem ég hef lært á starfstíma mínum er að verðnæmni í þessari grein er ótrúlega mikil. Það var neikvætt að fá gistináttaskatt. Stundum heyrist sagt að 600 krónur skipti ekki máli – en í lok dags skiptir það máli. Eftir tvö mjög góð ár, 2022 og 23, fóru hótelin kannski aðeins of bratt í verðlagningu. Þegar við berum saman verð á hótelgistingu hér og í Noregi þá sést að hótelgistingin þar er orðin ódýrari þegar háönn er á Íslandi.“

Og þar gengur vel núna.

„Það er auðvitað sjokkerandi, af því að við vitum að það er ekki ódýrt að dvelja í Noregi. En almennt tel ég að ferðir og afþreying hér sé hóflega verðlögð – af því að við vitum af samkeppninni og að viðskiptavinir eru viðkvæmir fyrir verðhækkunum.“

Er ekki í lagi að íslensk ferðaþjónusta vaxi hægar en sumir virðast hafa væntingar um?

„Auðvitað viljum við Íslendingar oft að hlutirnir gerist hratt og í stórum stökkum. Við erum vertíðarfólk. Ég held að hóflegur vöxtur sé góður. Svo má alltaf velta fyrir sér út frá hverju staðan er metin: fjölda ferðamanna, fjölda gistinátta, hversu miklu fólk eyðir. Að sama skapi verðum við að gæta að því að Ísland keppir við áfangastaði sem hafa margt að bjóða af því sem Ísland státar af. Þess vegna þóttu mér það ekki skemmtileg skilaboð frá stjórnvöldum í erlendum fjölmiðlum að það væri eiginlega markmið að draga úr fjölda erlendra ferðamanna af því að hann væri orðinn sjálfstætt vandamál. Við þurfum að fara varlega en við þolum alveg meiri fjölda ferðamanna. En þeim þarf að fjölga í hóflegum skrefum. Við miðum dálítið enn við árin 2018 til 19 þegar fjöldi ferðamanna var hér mestur.“

Ferðamenn stíga um borð í ferðabíl Arctic Adventures – MYND: ÓJ

En þá var afkoma í ferðaþjónustunni ekki góð.

„Nei. Það eru margir þættir sem taka verður tillit til í þessu. Ég held að margir hafi búist við því á þessu ári að fá aukinn fjölda ferðamanna, eins og flestir greiningaraðilar, Ferðamálastofa, bankarnir og aðrir, gerðu ráð fyrir. Fyrirtæki höfðu mannað starfsemi sína miðað við meiri fjölda en kemur svo til landsins. Þá skila fjárfestingar sér ekki. Lykilatriði í ferðaþjónustu er nýting. Um leið og hótelherbergi eru tóm eða fáir farþegar í rútum þá lenda viðkomandi fyrirtæki í vandræðum.“

Er þá afkastageta greinarinnar of mikil?

„Ég held að það sé raunin sumstaðar. Skort hefur víðast hótelherbergi á háannatíma. Vonandi er markaðurinn að jafna sig, en við höfum séð vísbendingar um meiri árstíðasveiflur. Febrúar og mars eru fínir mánuðir en rólegra er í apríl og maí. Þessar sveiflur er erfitt að jafna. Stundum er afkastagetan of mikil en á öðrum tímum er það á hinn veginn.“

Stefnir í að Ísland verði jafnvel vinsælla á vetrum en á sumrum?

„Margir segja að eina vitið sé að koma til Íslands á veturna.“

Þá veldur veðrið ekki vonbrigðum!

„Nei, það veldur ekki vonbrigðum, og það er margt í boði á veturna: Það er betra að skoða íshella á veturna og norðurljósin eru þá mikið aðdráttarafl, þó að við séum þar í mikilli samkeppni við önnur lönd. Já, febrúar, mars og október eru mjög sterkir mánuðir. Vandinn er hins vegar sá að margir í hinum vestræna heimi fara í frí um sumarið – og auðvitað er Ísland stórkostlegt á sumrin. Nú finnur maður fyrir spenningi vegna þess að fyrstu hálendisferðirnar eru að hefjast, gönguferðir um Laugaveginn og Landmannalaugar að opnast. Hver árstíð hefur sinn sjarma. Við eigum að gera Ísland að meiri vetraráfangastað. Það er töluverð umferð á sumrin en hins vegar ansi rólegt á veturna á stórkostlegum svæðum á Austurlandi, Norðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum.“

Bátar í höfninni

Bátur Special Tours og fleiri fley í Reykjavíkurhöfn – MYND: ÓJ

Arctic Adventures er að stækka. Nýlega keyptuð þið Special Tours. Hver var hugsunin að baki þeim kaupum?

„Við leitumst við að breikka vöruframboð okkar til að geta veitt fleiri viðskiptavinum okkar aukna þjónustu. Eitt af því sem þarf að gerast er að ná verður fram meiri hagræðingu í greininni til að auka arðsemi hennar. Með því að fjölga tekjustoðunum þá náum við að nýta fastakostnað okkar betur. Svo var þarna um að ræða stóran hluta þeirrar afþreyingar sem fólk er komið til að njóta á Íslandi. Við erum sterk þegar kemur að jöklum og íshellum. Við höfum ekki boðið upp á afþreyingu í Reykjavík. Nú erum við komin með hvalaskoðun og Hvalasafnið.“

Það er töluverð samkeppni í hvalaskoðun – hér á Faxaflóa, í Eyjafirði og á Skjálfanda. Sérðu fyrir þér meiri uppbyggingu Special Tours?

„Já, við keyptum gott fyrirtæki, með góðan rekstur í Reykjavík og nú líka á Akureyri, sterka stjórnendur og gott starfsfólk. Við horfum til þess að nýta allt það góða sem býr í þessu fyrirtæki og leggja okkar af mörkum til að bæta það. Engin sérstök áform eru um útvíkkun. Við sjáum líka mikil tækifæri á Hvalasafninu, sem er mjög áhugavert og hefur gengið vel.“

Svo hafið þið verið að fikra ykkur áfram í fjárfestingum í gistiþjónustu. Eru einhver ný áform á þeim vettvangi?

„Nú erum við að stækka Hótel Geirland við Kirkjubæjarklaustur og bæta í sumar við 40 nýjum herbergjum. Því ætti að vera lokið með haustinu. Við erum að hefja uppbyggingu í Skaftafelli, þar sem við erum með lóðir undir smáhýsi, sem verða góð viðbót hjá okkur. Svo eru nokkur fleiri verkefni í skoðun, t.d. að stækka hótelið á Hellissandi, bæta þar við herbergjum.“

Á skrifstofunni á Köllunarklettsvegi, þaðan sem flutt verður annað fljótlega – MYND: ÓJ

Mér heyrðist á þér áðan að þú værir ekki alveg sáttur við það hvernig stjórnvöld koma fram gagnvart ferðaþjónustunni?

„Mér finnst stundum að stjórnvöld mættu kynna sér aðeins betur hvað er að gerast í greininni. Stundum er talað af vanþekkingu – að greinin sé byggð upp af innfluttu vinnuafli og að það sé slæmt. Er þá efast um að greinin sé sjálfbær. En staðan er nú sú að margar atvinnugreinar á Íslandi treysta á erlent vinnuafl. Við erum fjölþjóðasamfélag. Mjög margir þeirra sem komið hafa til starfa hjá okkur hafa fjárfest í húsnæði og búið hér í langan tíma, tilheyra okkar stjórnendahópi. Stundum heyrir maður talað af vanþekkingu um hlutina. Hér starfar mjög margt flott fagfólk af erlendum uppruna og hefur gert lengi. Þetta er ekki að öllu leyti þessi vertíðarbransi sem stundum er talað um. Þá er verið að tala greinina niður. Ef við eigum að tala um atvinnugreinar á Íslandi sem byggja á erlendu vinnuafli, þá er byggingaiðnaðurinn líklega ekki sjálfbær, fiskvinnslan að stórum hluta ekki heldur. Ferðaþjónusta hefur bætt lífsgæði á Íslandi – ekki bara með því að skila miklum skatttekjum, heldur værum við ekki með sömu afþreyingarmöguleika, skemmtileg veitingahús og hótel, nema vegna hennar. Stjórnvöld mættu bera meiri virðingu fyrir greininni.“

Sjálft fyrirtækið heitir ensku nafni og þegar maður gengur inn í höfuðstöðvar ykkar þá heyrist enska töluð. Þetta er alþjóðlegt fyrirtæki.

Ásgeir Baldurs

Ásgeir í kaffikróknum – MYND: ÓJ

„Já, við erum alþjóðlegt fyrirtæki, en gerum okkur grein fyrir mikilvægi íslenskrar tungu og mikilvægi þess að gæta hennar sem hluta af menningararfi okkar. Hjá okkur starfa rúmlega 300 manns af 38 þjóðernum og af því erum við stolt. Margir okkar bestu leiðsögumenn eru af erlendu bergi brotnir en eru ótrúlega vel að sér um náttúru og sögu landsins. Auðvitað skiptir máli að þeir sem koma til Íslands að starfa læri að skilja og tala íslensku. Það er gríðarlega mikilvægt. En fyrir þá sem ekki tala íslensku felast tækifærin ekki síst í ferðaþjónustu, þar sem samskipti fara að miklu leyti fram á ensku eða öðrum erlendum tungumálum. Þar af leiðandi eru mestu tækifæri til starfsframa og þróunar í starfi fyrir útlendinga í fyrirtækjum eins og okkar. Viðskiptavinirnir tala erlend tungumál og margir af okkar birgjum gera það líka. En að því sögðu, þá viljum við helst að fólk læri íslensku – og margir hafa gert það. Eitt af því jákvæða við ferðaþjónustuna er að hún gefur fólki af erlendu þjóðerni tækifæri til að þróast í starfi. Það er víðast erfitt nema að viðkomandi sé mjög góður í íslensku.“

Þú segir að hjá Arctic Adventures starfi fólk af 38 þjóðernum. Hvaða þjóðarhópur er stærstur?

„Að frátöldu okkar frábæra íslenska starfsfólki, eru Portúgalar stærsti hópurinn. Nánast allir starfsmenn á hótelum okkar á Suðurlandi, stjórnendur og aðrir, koma frá Portúgal.“

Og reynslan er góð af öllu þessu fólki?

„Já, við metum fólk eingöngu út frá því hvernig það stendur sig í starfi en ekki út frá þjóðerni. Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast við að starfa hjá Arctic Adventures er hversu fjölbreyttur starfsmannahópurinn er. Ítalir eru stór hluti jökla- og köfunarleiðsögumanna, mannauðsstjórinn er frá Færeyjum  – og við tölum um að hún tengi okkur Íslendingana við erlendu starfsmennina.“

Nýtt efni

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …

Á fyrri helmingi ársins komu aðeins færri Bandaríkjamenn til Íslands en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir tíðari flugferðir. Há verðbólga vestanhafs er væntanlega ein af skýringunum á þessum samdrætti enda hafa skuldsettir Bandaríkjamenn nú minna á milli handanna. Nú gæti hagur þess hóps vænkast því verðlag í Bandaríkjunum lækkaði meira í síðasta mánuði …

Vestanhafs er hefur ekkert flugfélag verið rekið með meiri hagnaði en Delta síðustu ár. Á nýafstöðnum öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, voru tekjur félagsins hærri en nokkru sinni áður á þessum hluta árs en aftur á móti var kostnaðurinn líka hærri. Þar með lækkaði hagnaðurinn um 30 prósent á milli ára samkvæmt uppgjöri sem flugfélagið …

Þessa dagana er mikið rætt um samdrátt í íslenskri ferðaþjónustu miðað við síðasta ár en þá er einblínt á að vöxturinn haldi ekki áfram á sama hraða og hann hefur gert eftir heimsfaraldur. Ef bornar eru saman tölur um komur erlendra ferðamanna á fyrstu fimm mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil 2019 sést að …