Samfélagsmiðlar

Einstök náttúra og þjóðlegt með kaffinu í Ögri

Í Ísafjarðardjúpi stendur bærinn Ögur. Eins og margir þekkja er þarna um að ræða eitt af sögufrægari höfuðbólum landsins þar sem hvert stórmennið, öðru meira og auðugra, bjó. Í dag er í Ögri kaffihús sem er opið yfir sumartímann í umsjá kraftmikilla kvenna sem leggja áherslu á þjóðlegt bakkelsi og upplifun gesta af þessu fallega svæði.

Guðfinna Hreiðarsdóttir og ánægður viðskiptavinur kaffihússins

Kaffihúsið er rekið af Ögur Travel sem er fyrirtæki í eigu fjölskyldunnar frá Ögri. Það er staðsett í gömlu ungmennafélagshúsi sem var byggt árið 1925 og er eingöngu opið yfir sumarmánuðina. Frá árinu 2014 hefur daglegur rekstur verið í höndum Guðfinnu Hreiðarsdóttur og Jónu Símoníu Bjarnadóttur sem hafa gefið út kökubækur undir heitinu Þjóðlegt með kaffinu. Báðar eru þær sagnfræðingar og búsettar á Ísafirði, Jóna Símonía er starfsmaður Byggðasafns Vestfjarða og Guðfinna er starfsmaður í Safnahúsinu á Ísafirði.

Stóran hluta sumarsins dvelja þær í Ögri þar sem þær taka á móti gestum og bjóða upp á þjóðlegt bakkelsi. Þeim til aðstoðar er Bjarnþóra Egilsdóttir, sunnlensk sveitastelpa að uppruna en hefur þó megnið af ævinni verið búsett á höfuðborgarsvæðinu og starfar hjá Fjallafélaginu við að skipuleggja ævintýraferðir um víða veröld. Ýmsar góðar konur koma svo til aðstoðar á kaffihúsinu þegar þörf krefur.

Systurnar Jóna Símónía og Guðný Bjarnadætur

Á kaffihúsinu í Ögri er því að sjálfsögðu boðið upp á þjóðlegt bakkelsi, nokkuð sem Guðfinna segir Íslendingana sækja í með smá fortíðarþrá og erlendu ferðamönnunum þyki gaman að prófa til að upplifa menninguna í gegnum mat. Hún segir gestahópinn skiptast nokkuð jafn á milli þess að vera heimamenn, erlendir ferðamenn og landsmenn á ferð og flugi.

Ögur við Ísafjarðardjúp

Hvernig kviknaði hugmyndin að því að opna kaffihús á staðnum og hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Það hefur verið veitingarekstur í samkomuhúsinu í Ögri um árabil, fyrst í höndum Maríu Guðröðardóttir, sem rak bú í Ögri ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Hafliðasyni, en þegar þau voru bæði fallin frá stofnuðu börn þeirra ferðþjónustufyrirtækið Ögur Travel sem tók yfir veitingareksturinn ásamt því  að bjóða upp á kajak- og gönguferðir. Árið 2014 tókum ég og Jóna Símonía að okkur að sjá um kaffihúsið og hefur það verið í okkar höndum síðan.
Viðtökur hafa verið mjög góðar og gestir almennt ánægðir með veitingar og þjónustu sem boðið er upp á.“

Hvernig undirbúið þið ykkur fyrir sumarið í Ögri?
„Undirbúningur hefst þegar líður að vori, þá er vaktaplan sumarsins lagt fram og við skráum okkur á kaffihúsavaktir út frá sumarfríum og ýmsum plönum sem á dagskrá eru hjá hverri og einni yfir sumarið. Hálfum mánuði fyrir opnun er farið að huga að innkaupum, mála og dytta að því sem þarf að laga, húsið þrifið, leirtau þvegið og húsgögnum stillt upp. Daginn fyrir opnun er kaffivélin prufukeyrð og byrjað að baka tertur sem þurfa að standa í kæli yfir nótt. Opnunardagur hefst á því að baka hjónabandssælu, hveitikökur, skonsur og  súpubrauð og gera fyrstu sveppasúpu sumarsins,“ segir Guðfinna og bætir við að í kjölfarið sé farið að huga að öðrum bakstri og skellt í súkkulaðiköku, rommkúlur, pönnukökur og fleira.

Tertan Dísudraumur er í uppáhaldi hjá mörgum og skildi engan undra

Og gestir kaffihússins eiga sannarlega sitt uppáhald.
„Dísudraumurinn og skonsutertan eru vinsælustu terturnar og eiga sér dyggan hóp aðdáenda sem mætir reglulega yfir sumarið til að fá sneið af uppáhalds tertunni sinni.“

Hversu mikilvægt er að halda í þjóðlegar matarhefðir?
„Fyrir Íslendinga er það ákveðin nostalgía að fá gamaldags tertur eða kaffibrauð sem fólk þekkir frá fyrri árum og tengir jafnvel minningum um gleði-, sorgar- og hátíðarstundir í fjölskyldunni. Kaffi og með‘í var hefð óháð því hvert tilefnið var. Fyrir útlendinga er áhugavert og spennandi að smakka þjóðlegan, staðbundinn mat sem eykur innsýn og upplifun af landi og þjóð.“ 

Í ár verður Ögurhátíðin haldin dagana 19.-21. júlí

Hvaða þýðingu hefur það fyrir nærsamfélagið að hafa kaffihús á svæðinu?
„Meiri og fjölbreyttari þjónusta hefur jákvæð áhrif á ímynd svæðisins og ýtir undir áhuga fólks á að heimsækja Vestfirði auk þess sem það veitir ferðafólki ákveðna öryggiskennd að vita af áningarstöðum í strjálbýlinu. Á kaffihúsinu er boðið upp á frítt wifi og eru margir sem kunna að meta það, ekki síst erlent hjólreiðafólk sem upplifir sig í óbyggðum og finnst gott að geta látið vita af sér. Á staðnum er einnig hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla og sífellt fleiri sem nýta sér hana.“

Hverjir eru helstu viðburðirnir hjá ykkur yfir sumarið?
„Stærsti viðburður sumarsins er Ögurhátíðin sem jafnan er haldin hálfum mánuði fyrir verslunarmannahelgi. Hápunktur hennar er Ögurballið, alvöru sveitaball sem haldið er á laugardagskvöldinu. Dagskráin hefst hins vegar með skötuveislu í hádeginu á föstudeginum, enda Þorláksmessa á sumri um þetta leyti, pub quiz og brekkusöngur um kvöldið. Að morgni laugardagsins er söguganga um svæðið sem lýkur við Ögurkirkju, gamla fallega sveitarkirkju, þar sem messað er kl. 11.“

Skötuveisla á Ögurhátíð

Að lokum hvetur Guðfinna fólk til að heimsækja Vestfirði og bendir á Vestfjarðaleiðina sem er ný ferðamannaleið um Vestfirði og Dali sem varð til við opnun Dýrafjarðarganga í október 2020. „Leiðin er um 950 km með einstökum áningarstöðum og þeirra á meðal er hið sögufræga höfuðból, Ögur við Ísafjarðardjúp. Kaffihúsið er staðsett við þjóðveginn og tilvalið að kíkja þar við í kaffi og njóta náttúrufegurðar við Djúp.“


Þú varst að lesa opna grein en með fleiri áskrifendum verður FF7 ennþá betri. Smelltu hér til að gerast áskrifandi í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. Í framhaldinu fullt verð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.


Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …