Samfélagsmiðlar

Góður árangur af urðunarbanni

Íbúar höfuðborgarsvæðisins flokkuðu um 10.500 tonn af matarleifum á síðasta ári, eða um 40 kíló á mann. MYND: GS

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir efist á köflum. 

Ef lífrænn úrgangur er urðaður gefur hann frá sér mikið metangas, sem liðast út í andrúmsloftið. Metangas er gróðurhúsalofttegund sem hefur áhrif til hlýnunar og er um 80 sinnum sterkari í þeim efnum heldur en koltvísýringur. Metangas lifir hins vegar mun skemur í andrúmsloftinu. 

Andrúmsloftið má ekki við mikilli viðbótarhlýnun, þótt hún sé til skemmri tíma. Það er því til mikils að vinna þegar kemur að því að draga úr losun metans. Áður en bannið við urðun lífræns úrgangs, sem mestmegnis eru matarleifar, tók gildi hér á landi fór slíkur úrgangur í blandaða tunnu — a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu — nema ef fólk var með moltukassa heima hjá sér.  Þessi úrgangur var síðan að langmestu leyti urðaður, með tilheyrandi útblæstri.

Sérsöfnun á matarleifum hófst strax í kjölfarið á banninu um mitt ár 2023, og á höfuðborgarsvæðinu bættist við tunna við heimilin fyrir lífrænan úrgang. Íbúar hafa tekið vel í þessa breytingu og flokkunarviljinn virðist vera mikill. Samkvæmt tölum frá Sorpu flokkuðu íbúar höfuðborgarsvæðisins um 10.500 tonn af matarleifum á síðasta ári, eða um 40 kíló á mann. Gert er ráð fyrir að á yfirstandandi ári muni þessi tala hækka upp í 24 þúsund tonn. Um 90 prósent höfuðborgarbúa flokka nú matarleifar sérstaklega, samkvæmt könnun Gallup sem gerð var fyrir Sorpu.

Íbúar eru velflestir hættir að setja matarleifar í blandaðan úrgang. Markmið Sorpu var að koma magni matarleifa í blönduðu tunnunni úr 58 kg árið 2002, niður í 29 kg, eða niður um helming, árið 2023. Þetta náðist og gott betur. Í lok árs 2023 var magn matarleifa í blönduðu tunninni komið niður í 19 kg, og restin rataði í nýju tunnuna. Urðun á lífrænum úrgangi dróst saman um 90 prósent.

Úr kynningarherferð Sorpu.

Íbúar virðast líka flokka af vandvirkni. Matarleifarnar eru hreinar, sem er mikilvægt fyrir vinnslu þeirra í framhaldinu. Í GAJU, sem er gas- og jarðgerðarstöð SORPU, er lífræna úrgangnum breytt í metangas, sem hægt er að nota sem eldsneyti með mun minni umhverfisáhrifum heldur en ef gasið færi beint út í andrúmsloftið, og hins vegar er gerð molta, sem nýtist sem áburður fyrir gróður.

Hér er því hringrásarhagkerfið á fullu gasi, svo notað sé viðeigandi orðalag, og andrúmsloftið nýtur góðs af.  Það blasir við að í viðureigninni við loftslagsvána þarf að beita mörgum verkfærum. Boð og bönn, séu þau vel tímasett og vel kynnt, þannig að þau mæti skilningi í samfélaginu, geta greinilega virkað, sem áhrifamikið tól í verkfæraboxinu. 

Á heimsvísu eru margir að vakna til vitundar um mikilvægi þess að minnka útblástur metans, og það er hugur í fólki, ekki síst vegna þess að aðferðirnar sem hægt er að beita til að draga úr útblæstrinum eru þekktar, tiltölulega einfaldar í mörgum tilvikum, og áhrifamiklar, eins og dæmi Íslands sýnir. 

Rannsóknum fleygir fram. Nú er auðveldara en nokkru sinni að sjá útblást metans, þar á meðal frá urðuðum úrgangi, hvar sem er í heiminum. Fyrr á árinu var gervihnetti skotið á braut um jörðu, sem hefur það hlutverk að vakta og greina metanútblástur á jörðu niðri.  Gervihnötturinn, sem heitir einfaldlega MethaneSAT, bætist við yfir tug annarra slíkra hnatta sem hringsóla um jörðu og greina ýmiss konar mengun og útblástur.  Þessi mun greina metangas sérstaklega. 

Lífrænn úrgangur ratar nú miklu sjaldnar í almennt rusl. MYND: DENISENYS/PEXELS

Metanhnötturinn er einstakur, að því leyti til að upplýsingarnar sem hann mun veita verða gríðarlega nákvæmar og munu sýna ljóslifandi hvaðan metan er að leka út í andrúmsloftið og hversu mikið. Fyrsti gagnaskammturinn frá hnettinum mun berast til jörðu síðar á árinu, og upplýsingarnar verða öllum aðgengilegar. Þær munu nýtast til að sjá umfang vandans, greina árangur og hvaða aðgerðir eru mikilvægastar í viðureigninni við loftslagsvána þegar kemur að metangasi. 

Að MethaneSAT standa virtar rannsóknarstofnanir, þar á meðal Harvard, og stórir einkaaðilar, eins og Google, sem hefur jú þónokkra reynslu af því að kortleggja jörðina. Áður en hnötturinn var sendur úti í geim var staðið að umfangsmiklum prófunum á búnaðinum. Það var gert með því að taka myndir úr flugvél. Sú myndataka leiddi í ljós að útblástur metans af mannavöldum virðist vera mun meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir. 

Fyrsti loftslagsráðunautur Hvíta hússins á árum áður og fyrrum yfirmaður Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, Gina McCarthy, fór yfir þessi mál í grein í Guardian í vor.  Þar gerir hún að umtalsefni, hvernig á þessi myndataka hafi leitt í ljós það sem marga hafði áður grunað: Útblástur metans frá urðuðum úrgangi er gríðarlegur. 

Útblástur metans hefur í hugum margra fremur verið tengdur ropi og vindgangi kúa eða leka úr olíuleiðslum. En útblástur metans frá lífrænum úrgangi hefur líklega verið vanmetinn á heimsvísu, þó svo að greiningar hingað til hafi þó gefið til kynna að hann sé mikill. Í Bandaríkjunum hefur verið áætlað að lífrænn úrgangur sé þriðja stærsta uppspretta metanlosunar af manna völdum, á eftir olíuleiðslum og kúm.

Hér á landi, samkvæmt nýjustu losunartölum frá Umhverfisstofnun, nám útblástur frá urðuðum úrgangi árið 2022 — áður en umrætt bann við urðun lífræns úrgangs tók gildi — um 200 þúsund tonnum af koltvísýringsígildum, en þá hefur metanið verið umreiknað yfir í ígildi koltvísýrings. Þetta nam um 7% af samfélagslosun Íslands. 

Það verður fróðlegt að sjá tölur yfir síðasta ár og yfirstandandi ár og hvort losun frá urðuðum úrgangi hafi þá ekki minnkað umtalsvert. Rannsóknirnar úr lofti, á útblæstri frá urðunarstöðum í Bandaríkjunum, sýndu að um helmingur þeirra urðunarstaða sem flogið var yfir var ógnarmikið magn af metani að leka út í andrúmsloftið, og lekinn virtist vera viðvarandi. Í 80% þessara tilvika láku yfir 100 kíló af metani út í loftið á klukkustund. Ef losun fer yfir þau mörk telst vera um stórmengandi aðila að ræða, samkvæmt mælikvörðum sem gilda í Bandaríkjunum. 

Þessi mikla losun hafði ekki ratað í greiningargögn áður. Hún hafði verið stórlega vanmetin. Nýi búnaðurinn hefur þegar leitt í ljós, einungis með því að nota hann í flugvél, að útblástur metans frá urðunarstöðum var 40% meiri en Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hafði áður áætlað. Það verður því í meira lagi fróðlegt að skoða gögnin þegar þau berast úr gervihnettinum síðar á árinu, og kannski verður einstaklega ánægjulegt að sjá Ísland á þeim myndum. 

Farið ekki langt.


Þú varst að lesa opna grein en ef þú vilt fá aðgang að öllum okkar frásögnum þá geturðu keypt áskrift hér. Með fleiri áskrifendum verður FF7 ennþá betri.

Nýtt efni

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

Icelandair var stundvísasta flugfélag Evrópu í nýliðnum júní samkvæmt lista greiningafyrirtækisins Cirium. Að jafnaði voru 84 prósent ferða Icelandair á réttum tíma í síðasta mánuði sem er á pari við stundvísina í maí. Í öðru sæti á lista Cirum er Iberia Express og Iberia í þriðja sæti. SAS varð í fjórða og Finnair í fimmta …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …

„Ef maður vill færa út kvíarnar þá verður að taka áhættuna þegar „eina raunverulega" vöruhúsakeðjan í Evrópu er til sölu," segir Ayad Al-Saffar, stofnandi Axcent of Scandinavia, sem um helgina keypti belgíska verslunarfélagið Inno í félagi við fjárfestingafélagið Skel. Stjórnarformaður þess síðastnefnda er Jón Ásgeir Jóhannesson sem jafnframt fer fyrir meirihluta í fjárfestingafélaginu en Jón …

Kaupmannahafnarflugvöllur er fjölfarnasta flughöfn Norðurlanda og fóru hátt í 2,9 milljónir farþega þar um í júní eða ríflega þrefalt fleiri en um Keflavíkurflugvöll á sama tíma. Íslenski flugvöllurinn kemst þó á blað yfir vinsælustu áfangastaðina fyrir farþega í Kaupmannahöfn og er í níunda sæti á topplistanum fyrir júní. Í þeim mánuði nýttu 55.515 farþegar sér …

Þegar heimsfaraldurinn hófst í febrúar árið 2020 lækkaði gengi hlutabréfa í ferðaþjónustufyrirtækjum hratt og hjá Icelandair fór það niður um þrjá fjórðu fyrstu mánuðina eftir að landamærum var lokað til að hefta útbreiðslu veirunnar. Gengið hélt svo áfram að lækka fram á haustið þegar efnt til hlutafjárútboðs þar sem hver hlutur var seldur á 1 …

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …