Samfélagsmiðlar

Hverjir sitja í nýju Loftslagsráði? 

Ferðafólk á fallegum degi við Gullfoss en náttúra landsins er eitt helsta aðdráttaraflið. Á sama tíma eykst losun frá flugi og komur skemmtiferðaskipa eru tíðari en áður MYND: ÓJ

Áhugafólk um loftslagsmál á Íslandi hefur núna um allnokkurt skeið endurhlaðið fréttasíður í eftirvæntingarfullri bið eftir því að nýtt Loftslagsráð verði skipað. Nú er loksins komið að því. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, hefur gengið frá skipan nýs ráðs, eins og tilkynnt hefur verið á heimasíðu Stjórnarráðsins. 

Loftslagsráði er ætlað að gegna lykilhlutverki í viðureign Íslendinga við loftslagsvána. Um er að ræða sjálfstætt ráð, fjármagnað af hinu opinbera, sem hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald í loftslagsmálum og vera eins konar gagnrýnið framfaraafl í þessum mikilvæga málaflokki, einkum þegar kemur að stefnumarkandi ákvörðunum og markmiðssetningum fyrir Ísland.  

Ráðið var fyrst sett á fót á grundvelli þingsályktunar árið 2018, og tilvist þess var svo lögfest með breytingum á lögum um loftslagsmál árið 2019. Skipunartími gamla Loftslagsráðsins rann út í júní fyrir ári. Ísland hefur því verið án Loftslagsráðs í marga dýrmæti mánuði, því í loftslagsmálum, í válegri stöðu á heimsvísu, er jú keppt við tímann.

En hvað olli þessum töfum? Jú, boðað hafði verið að Loftslagsráð skyldi endurhannað. Það átti að gera það faglegra, vísindalegra og hnitmiðaðra, en ekki eins hagsmunatengt og fyrri ráð. Í fyrra ráði var meginhugmyndin sú að leiða fólk saman úr ólíkum geirum samfélagsins, með tilnefningum frá ýmsum hagaðilum.  Meðlimir nýja ráðsins eiga að sitja þar meira í krafti þekkingar sinnar, fremur en að vera fulltrúar samtaka eða geira. 

Til þess að færa ráðið meira í þessa átt var ráðist í vissa greiningarvinnu. Ómar H. Kristmundsson prófessor við HÍ gerði skýrslu um starfsemi ráðsins og setti fram tillögur til úrbóta og haldið var málþing.  Í stað þessa að breyta ráðinu með lögum, sem þó hefur verið boðað, var ráðinu breytt með reglugerð.

Töluverðan hluta af losun hér á landi er hægt að skrifa á álframleiðslu. MYND: ÓJ

Hún tók gildi í vor og þar er kveðið á um að ráðherra skuli hafa viss hæfniviðmið til hliðsjónar við skipan fulltrúa í ráðið, sem þó eru allir tilnefndir af hagaðilum, utan formanns og varaformanns sem ráðherra skipar beint.  Hinir sjö fulltrúarnir, af alls níu, skulu koma úr háskólasamfélaginu, sveitarfélögum, atvinnulífinu og frá umhverfisverndarsamtökum. Pælingin var að þessir aðilar skyldu tilnefna marga, og síðan yrði valið úr tilnefningum á grunni hæfni og þekkingar.

Um hæfnina er fjallað sérstaklega í nýju reglugerðinni.  Við greiningu á hæfni er núna horft til þess hvort fulltrúi hafi þekkingu og reynslu á alla vega einu af eftirtöldum fræðasviðum:

1) Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.

2) loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.

3) skipulagi og landnýtingu.

4) hagrænum og samfélagslegum greiningum.

5) samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.

6) líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu.

7) nýsköpun og tækniþróun og 8) orkumálum í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis. 

Fullskipað ráð skal síðan búa yfir þekkingu á öllum þessum sviðum. 

Þessar breytingar og val í ráðið, eftir tilnefningar frá viðeigandi aðilum, tóku tímann sinn. En nú er ráðið skipað og allt að ske. En þá blasir við spurningin: Hverjir eru þá fulltrúarnir og hver er þekking þeirra og bakgrunnur þegar kemur að loftslagsmálum?  Í hvaða box þekkingar og reynslu, sem nefnd eru hér að ofan, tikkar hver og einn þeirra? 

Fyrir loftslagsnörda er svona greining, sem hér fer á eftir, auðvitað ekkert annað en sælgætiskassi. Hvað fólk er þetta og hvað hefur það gert? 

Við byrjum á formanninum. Þar situr Halldór Þorgeirsson, sem jafnframt var formaður í fyrra ráði. Halldór er hokinn af reynslu í loftslagsmálum, fyrrum yfirmaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í Bonn, þar sem hann hélt utan um samninga vegna Parísarsáttmálans. Hann var íka lykilráðgjafi ráðstefnuhaldara á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Dubai, COP28, í desember síðastliðnum. Á árum áður var Halldór skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu, en á sér líka fortíð sem brautryðjandi í rannsóknum á kolefnisbúskap íslenskra skógarvistkerfa. Hann er með doktorsgráðu í plöntulíffræði frá háskólanum í Utah í Bandaríkjunum.  Halldór býr yfir víðri þekkingu, en líklega má segja að hann skori einkum hátt í flokkum 1), 2) og 6) hér að ofan.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. MYND: STJÓRNARRÁÐIÐ

Varaformaðurinn er svo Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði og jafnframt aðaldrifskaftið í stofnun þeirrar námsbrautar við Háskóla Íslands. Hún hefur um langt árabil verið þungavigtarmanneskja í orku-, umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi, leitt fjölmjörg rannsóknarverkefni ekki síst varðandi hagrænar greiningar og komið að opinberri stefnumörkun hér á landi og annars staðar, en Brynhildur var um nokkurt skeið ráðgjafi Skotlandsstjórnar í orku- og loftslagsmálum. Hún er með BS próf í líffræði frá HÍ upphaflega, en lauk svo doktorprófi í orku- og umhverfisfræðum við Bostonháskóla. Með Brynhildi kemur víð þekking, eins og með Halldóri, en það má kannski segja að sérþekking komi inn í ráðið einkum á sviðum 1), 4) og 8). 

Brynhildur Davíðsdóttir. MYND: HÁSKÓLI ÍSLANDS

Víkjum þá að öðrum fulltrúum ráðsins. Úr fræðasamfélaginu kemur Halldór Björnsson. Hann er fagstjóri veðurs- og loftslags hjá Veðurstofu Íslands og með doktorspróf í haf- og veðurfræði frá McGill háskóla í Montreal. Hér er kominn lykilfulltrúi þegar kemur að þætti 2) loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá, en Halldór er formaður vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu kemur inn í ráðið frá Samtökum atvinnulífsins. Hún er efnaverkfræðingur að mennt og með áratuga reynslu úr atvinnulífinu, til dæmis við matsgerðir á umhverfisáhrifum og gerð lífsferilsgreininga, greiningu loftslagsáhrifa, úrgangsmála og jarðvegsástands. Hún hefur líka fengist við ráðgjöf við mannvirkjagerð, út frá sjálfbærniþáttum, og við háskólakennslu. Hér virðist koma inn í ráðið þekking á sviðum 3), 6) og 7). 

Reykur frá skemmtiferðaskipum hefur angrað íbúa á Akureyri. MYND: ÓJ

Stefán Þór Eysteinsson er formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og fyrrum fótboltakappi þar á bæ, og er tilefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hann er líka verkefnisstjóri hjá Matís, með aðsetur á Neskaupsstað þar sem hann fer fyrir teymi sem m.a. greinir sýni frá matvælaframleiðendum. Hann varði doktorsritgerð sína í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 2020, en hún fjallað um eiginleika rauðátu og nýtingarmöguleika úr hliðarstraumum frá vinnslu uppsjávarfiska. Hann hefur haldið áfram rannsóknum á því sviði. 

Auður Alfa Ólafsdóttir er sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands og kemur í ráðið sem hinn fulltrúi atvinnulífsins. Hún er með háskólapróf í heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði (PPE) frá Bifröst og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Starfsreynslan hefur þokað Auði í átt að loftslagsmálum, en hjá ASÍ hefur Auður m.a. umhverfismál, loftslagsmál og réttlát umskipti á sínu borði, sem varðar jú svið 5). 

Bjarni Már Magnússon er prófessor við Háskólann á Bifröst og forseti lagadeildar þar. Hann er með embætispróf í lögfræði frá HÍ auk meistaraprófa í alþjóðasamskiptum og haf- og strandrétti, og doktorsprófs í lögfræði frá Edinborgarháskóla. Sérsvið hans, samkvæmt heimasíðu Háskólans á Bifröst, eru þjóðarréttur, hafréttur, geimréttur, stjónskipunarréttur og öryggis- og varnarmál. Það má gera ráð fyrir að Bjarni Már sitji í ráðinu vegna þekkingar á loftslagsrétti, þótt það sé ekki tilgreint beint sem sérsvið hans. 

Hinn fulltrúinn tilnefndur af Samstarfsnefnd háskólastigsins er Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er líffræðingur með doktorspróf í skógvistfræði og vistkerfisfræði frá Uppsölum. Hann hefur sinnt skógrannsóknum á Íslandi um árabil og er prófessor í skógfræði. Hér kemur því inn í ráðið umtalsverð þekking á sviði 6), sem lýtur að líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu. 

Síðast en ekki síst er svo níundi fulltrúinn í ráðinu. Það er Þorgerður María Þorbjarnardóttir, tilnefnd af umhverfis- og náttúruverndarsamtökum. Þorgerður er með BS próf í jarðfræði frá Háskóla Íslands og lauk líka leiðtoganámi til náttúruverndar við háskólann í Cambridge, þar sem t.d. varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni bar töluvert á góma. Hún er formaður Landverndar og fyrrverandi formaður Ungra umhverfissinna. Þorgerður er ung að árum og í þvi felst kannski líka viss sérþekking. Sjónarmið ungs fólks eru lykilatriði í loftslagsmálum, sem varða jú framtíðina.

Tveir varafulltrúar eru svo skipaðir að auki. Það eru þær Helga Ögmundsdóttir, dósent við HÍ og Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við HÍ. 

„Öflugt loftslagsráð sem endurspeglar þá breiðu þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við loftslagsbreytingar getur nú tekið til starfa,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í frétt Stjórnarráðsins. Ráðið er komið, og innan þess er greinilega að finna töluverða þekkingu, en mismikla þó, af gúggli að dæma. Sumir hafa beinan fræðilega bakgrunn, aðrir kannski meira starfsreynslu. Það virðist vera að ráðið sé enn eins konar sambland af fulltrúum hagaðila, eins og áður var, og fólki með ríka sérfræðiþekkingu. Það verður í öllu falli spennandi að fylgjast með störfum ráðsins nú í framhaldinu og ljóst að margir vænta mikils, enda loftslagsmálin aðkallandi. 

En er þá hægt að hefjast handa? Nei ekki alveg. Ráðið var skipað, en þá sagði framkvæmdastjórinn upp.  Þórunn Wolfram Pétursdóttir sem gegnt hefur starfinu í um eitt og hálft ár hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa. Þannig að nýtt ráð, loksins þegar það er komið, er framkvæmdastjóralaust. 

Það er í mörg horn að líta. 

FF7 Í 30 DAGA FYRIR 300 KRÓNUR – FULLT VERÐ Í FRAMHALDINU EN ENGINN BINDITÍMI

Nýtt efni

Sauðfjársetrið var stofnað árið 2002 af heimamönnum og hefur vaxið og dafnað í þeirra umsjá allar götur síðan. Nýverið hlaut það tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir samfélagslegra nálgun í safnastarfi. Í umsögn með tilnefningunni segir meðal annars að hér sé um að ræða mikilvæga og öfluga menningarstofnun sem hafi gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum. …

Unnið er að því á flugvellinum í Nice á Côte d´Azur að rafvæða alla starfsemi hans með 4 milljóna evra fjárstuðningi frá Evrópusambandinu. Er verkefnið liður í loftslagsstefnu sambandsins. Allar flugvélar í stæði eiga að fá aðgang að raforku sem unnin er með endurnýjanlegum hætti. Settar verða upp um 70 tengistöðvar í þessu skyni. Á …

Nýja-Sjáland var á meðal þeirra ríkja sem fylgdu hörðustu lokunarstefnunni á meðan Covid-19 geisaði. Nú vilja stjórnvöld þar blása meira lífi í ferðaþjónustu á landinu og helst utan vinsælasta tímans sem er nýsjálenska sumarið - frá desemberbyrjun til febrúarloka, þegar dagarnir eru langir og sólríkir og nætur mildar.  Ferðaþjónusta er einn helsti atvinnuvegur Nýja Sjálands …

Talsmenn þýsku sambandsstjórnarinnar staðfestu í dag að hún væri að leita lausnar á viðskiptadeilu Evrópusambandsins og Kína. Það fæli væntanlega í sér að boðuð hækkun verndartolla um allt að 38,1 prósent nái fram að ganga. Það er ekki umhyggja fyrir kínverskum hagsmunum sem ræður afstöðu þýskra stjórnvalda heldur vilja þau vernda hagsmuni stórfyrirtækja í eigin …

Schiphol-flugvöllur við Amsterdam er meðal fjölförnustu flugvalla Evrópu og hefur umferðin um hann lengi verið umdeild meðal íbúa. Umfangi flugvallarins, hávaða frá honum og mengun, hefur ítrekað verið mótmælt og brugðist hefur verið við með því að setja takmarkanir á þjónustutíma og fjölda véla sem um hann fara. Schiphol er þó og verður áfram ein …

Verulega hefur dregið úr magni ósoneyðandi gastegunda í andrúmsloftinu og þykir núna nokkuð ljóst, samkvæmt nýrri rannsókn, að hið alþjóðlega átak um að bjarga ósonlaginu hafi tekist framar vonum.  Margir sem komnir eru á miðjan aldur muna eftir brúnaþungum sjónvarpsfréttamönnum segja frá válegum tíðindum af ósonlaginu á níunda og tíunda áratugnum, inni á milli lagstúfa …

Á meðan franskir og spænskir bílaframleiðendur þrýstu á um að Evrópusambandið brygðist hart við meintum óðeðlilega miklum ríkisstuðningi Kínverja við rafbílaframleiðslu sína og hækkuðu verndartolla vöruðu þýskir keppinautar þeirra við því að slegið gæti í bakseglin: Gríðarlega mikilvægur markaður í Kína gæti lokast að verulegu leyti. Um þriðjungur af sölutekjum Mercedes Benz, BMW og Volkswagen …

Óhætt er að segja að það kosti Hlyn Guðjónsson, sendiherra Íslands í Ottawa, mikil ferðalög að sinna íslenskum hagsmunum í Kanada, sem er næst víðfeðmasta land heimsins. Sendiráð Íslands er hinsvegar lítið, starfsmenn aðeins þrír - Hlynur og tveir staðarráðnir. Nýlega var Hlynur staddur í Halifax, höfuðborg Nova Scotia. Það tekur um tvo tíma að …