Samfélagsmiðlar

Ísland í rusli: Hvað segja tölurnar?

Gámar

Meðal Íslendingurinn henti 626 kílóum í ruslið 2022 - MYND: ÓJ

Um 90% af öllum úrgangi sem fellur til á Íslandi, bæði frá heimilum og rekstri, ratar í einhvers konar endurvinnslu eða endurnýtingu. Þetta sýna nýjar úrgangstölur frá Umhverfisstofnun, fyrir árið 2022. 

Það er fróðlegt að rýna í þessar tölur og fá þar með yfirsýn yfir neyslu Íslendinga, en Íslendingar eru á meðal mestu neysluþjóða í heimi. Magn úrgangs frá íslenskum heimilum hefur löngum verið með hæsta móti miðað við önnur Evrópulönd.  

Nýju tölurnar benda til að landinn sé eitthvað að vakna til vitundar um sjálfbærari neysluhegðun og sé hugsanlega að reyna að draga úr úrgangsmyndun. Árið 2022 dróst magn heimilisúrgangs saman um 9% miðað við árið áður, sem telst töluvert, en þó þarf að bíða eftir tölum fleiri ára til þess að sjá hvort að um varanlegan samdrátt sé að ræða eða einungis sveiflu.

Djúpgámar í nýju fjölbýlishúsahverfi í Reykjavík – MYND: ÓJ

Þetta þýðir að íslensk heimili hentu 626 kílóum af rusli á mann í tunnurnar og gámana árið 2022, sem er töluvert yfir Evrópumeðaltalinu, sem er 513 kíló, en þó ekki jafnmikið og Austurríkismenn létu frá sér, en þar nam heimilissorpið 827 kílóum á mann.  Danskt heimilissorp var líka mikið, eða 787 kíló á mann og íbúar í Lúxemborg eru jafnframt afkastamiklir á þessu sviði, með 720 kíló á mann. Íslendingar eru á pari við Finna, í sjötta sæti Evrópuþjóða þegar kemur að ruslmyndun innanhúss. Pólverjar, Rúmenar og Eistar henda minnstu á mann. Í Rúmeníu fara um 300 kíló á mann í heimilissorpið. 

Úrgangstölur skiptast jafnan niður í heimilisúrgang og rekstrarúrgang. Til heimilisúrgangs teljast allar umbúðir, pappírs- og pappaúrgangur, viðarúrgangur sem er ekki frá mannvirkjagerð, textílúrgangur, viss raftækja- og rafgeymaúrgangur, matarúrgangur frá eldhúsum og verslunum, garðaúrgangur og blandaður heimilisúrgangur.  Magn heimilisúrgangs hefur sveiflast töluvert á liðnum árum og stig velmegunar getur speglast í magntölunum. Á hrunárinu, 2008, á lokametrum góðæris, nam heimilissorp um 650 kílóum á mann, en árið eftir — þegar hagkerfið var farið í ruslið— fór sorpið niður í 410 kíló á mann. Frá þeim tíma hefur það heldur vaxið, og náði hápunkti árið 2018 í ríflega 700 kílóum. 

Vaxandi fjöldi ferðamanna hefur ekki verið reiknaður inn í þessar tölur, en þeim fylgir auðvitað neysla og rusl eins og öðrum. Miðað við tölur um fjölda túrista og meðalfjölda gistinátta má áætla hvað mikið ruslið er á mann, séu ferðamenn teknir með í reikninginn. Þá lækkar talan fyrir árið 2022 niður í 590 kíló. 

Rekstrarúrgangur, sem nær yfir allan úrgang frá iðnaði og mannvirkjagerð, hefur vaxið mun meira en heimilisúrgangur á liðnum árum. Ef grúskað er í tölum Umhverfisstofnunar, eins og menn gera, kemur í ljós að rekstrarúrgangur hefur aukist um 180% að heildarmagni frá 2008, en heimilisúrgangur um 11%. Úrgangur í heild hefur aukist um 129%.  Frá 2021 til 2022 jókst hann um ríflega 20%.  Af heildinni er heimilisúrgangur um 14% en rekstrarúrgangur 86%. 

En hvaða rusl er þetta?  Skoðum málið. 

Alls nam heildarúrgangur, bæði frá rekstri og heimilum, 1.580.987 tonnum á Íslandi árið 2022.  Langstærsti hluti þessa úrgangs, í tonnum talið, er ýmiss konar úrgangur frá mannvirkjagerð og framkvæmdum.  Þetta er gömul steypa, malbik, steinar, möl, sandur, alls konar steinefni, blandaður úrgangur, og jarðvegur. Alls nam þessi úrgangsstraumur 1.042.618 tonnum árið 2022, eða 66% af öllum úrgangi.  Þessi úrgangur hefur vaxið gríðarlega frá 2008, en það skýrist að stórum hluta af því að hann er núna betur skráður.  Áður fyrr var hann ekki skráður svo nákvæmlega. 

Langt á eftir öllum þessum úrgangi koma næst um 100 þúsund tonn af alls konar efnaúrgangi frá iðnaði, um 60 þúsund tonn af ýmiss konar málmum, og svo um 47 þúsund tonn af blönduðum heimilisúrgangi, um 30 þúsund tonn af pappa og álíka mikið af alls konar lífrænum úrgangi eins og mat, sláturúrgangi, dýrahræum, seyru og húsdýraskít. Svo fóru tæplega ríflega 16 þúsund tonn af gleri í söfnunargáma og 12 þúsund tonn af úr sér gengnum ökutækjum rötuðu til bílahimnaríkis. Í söfnunargámana fóru líka um 9 þúsund tonn af notuðum olíum, 8.500 tonn af plasti, ríflega 5 þúsund tonn af raftækjum og rafgeymum og 2.600 tonn af textíl, sem eru aðallega notuð föt. 

Pappírsumbúðir á leið á réttan stað – MYND: ÓJ

Langmesti hluti alls þessa úrgangs fer í einhvers konar endurvinnslu eða endurnýtingu, en endurnýtingarhlutfallið á Íslandi er um 90% eins og áður segir. Hér skiptir miklu máli að hinn mikli úrgangur sem fellur til vegna framkvæmda og niðurrifs ratar eiginlega allur í einhvers konar endurnot. Sandur og möl verður fyllingarefni fyrir grunna og þess háttar. Jarðvegur verður aftur jarðvegur.  Endurnýtingarhlutfallið er nánast 100%.  Sama gildir um málma, þeir rata nánist allir í endurvinnslu, og endurnýtingarhlutfall pappa er líka mjög hátt, en nánast allur pappi fer í endurvinnslu. Ekkert úr gömlum bílum er heldur urðað, né heldur af notuðum olíum, og mjög lítið af raftækjum og rafhlöðum, ef nokkuð. Allt ratar í annan hring í hagkerfinu, með einhverjum hætti. Plast er annað hvort endurunnið, sem getur verið tæknilega erfitt, eða nýtt til orkuvinnslu með brennslu. Allt safnað plast fer í annað hvort. 

Í fyrsta skipti er textíll hafður með í úrgangstölum, en þar er um stóran úrgangsstraum að ræða og að mörgu leyti erfiðan, því erfitt getur verið að endurvinna textíl. Föt eru til dæmis oft gerð úr mörgum efnum, sem láta illa að stjórn þegar reynt er að endurvinna flíkur.  Árið 2022 var textíll í fyrsta skipti hafður með í úrgangstölfræðinni, en áður hafði textíll verið hafður fyrir utan sviga. Rauði krossinn sá um söfnun á textílúrgangi á Íslandi, en nú hefur því verið breytt.  

Þessar fyrstu tölur fyrir þennan erfiða úrgangstraum gefa nokkuð tilefni til bjartsýni. Alls fóru 89% af söfnuðum textíl í endurvinnslu og 11% var fargað. 

Sá úrgangur sem einkum hefur ratað í urðun á Íslandi er blandaður heimilisúrgangur. Það hefur verið töluvert keppikefli í úrgangsmálum að reyna að minnka urðun á þessu sorpi, og auka endurvinnslu. Lög um bann við urðun á lífrænum úrgangi skipta hér miklu máli, en þau tóku gildi í upphafi árs 2023. Þau gera það að verkum að matarleifar mega ekki lengur vera í blönduðum úrgangi. Við það minnkar blandaði úrgangurinn til muna. 

Hringrásarhagkerfið – MYND: Umhverfisstofnun

Árið 2022 náðist þó nokkur árangur í því að minnka urðun heimilisorps, þrátt fyrir að nýju lögin hefði ekki tekið gildi. Urðun minnkaði töluvert milli ára, en um 33% af öllu heimilissorpi fór í urðun. Evrópuþjóðirnar keppa hér að sameiginlegu marki, og Íslendingar eru á réttri leið hvað þetta varðar. Árið 2035 má ekki urða nema 10%. 

Hins vegar liggur fyrir að það er mikið verkefni fyrir höndum hér á landi þegar kemur að því að koma öllum blandaða heimilisúrgangnum í raunverulega endurvinnslu, því stór hluti endurnýtingarinnar enn sem komið er felst í brennslu með orkunýtingu eða að úrgangurinn er notaður sem fyllingarefni. Raunverulegt endurvinnsluhlutfall var því bara 23% árið 2022, og minnkaði frá árinu áður. 

Hér er brotið á bága við gildandi reglugerð, en endurvinnsla heimilisúrgangs skal vera að lágmarki 50% og skal vera komið upp í 65% árið 2035.  Hér er því verk að vinna. 

Það er í mörg horn að líta.  En það er um að gera að enda þetta á jákvæðu nótunum. Fiskveiðiþjóðin virðist vera að standa sig ágætlega þegar kemur að endurvinnslu á veiðarfærum, loksins. Endurvinnsluhlutfall veiðafæra var 49% árið 2021, en tók risastökk upp í 73% árið 2022. Og hlutfall veiðarfæra sem fer í urðun hefur farið hríðlækkandi.  Hér er tvennt á seyði: Skráning hefur batnað, en móttökustöðvum fyrir veiðarfæri hefur líka fjölgað. 

Svona á að gera þetta.

Nýtt efni

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

Icelandair var stundvísasta flugfélag Evrópu í nýliðnum júní samkvæmt lista greiningafyrirtækisins Cirium. Að jafnaði voru 84 prósent ferða Icelandair á réttum tíma í síðasta mánuði sem er á pari við stundvísina í maí. Í öðru sæti á lista Cirum er Iberia Express og Iberia í þriðja sæti. SAS varð í fjórða og Finnair í fimmta …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …

„Ef maður vill færa út kvíarnar þá verður að taka áhættuna þegar „eina raunverulega" vöruhúsakeðjan í Evrópu er til sölu," segir Ayad Al-Saffar, stofnandi Axcent of Scandinavia, sem um helgina keypti belgíska verslunarfélagið Inno í félagi við fjárfestingafélagið Skel. Stjórnarformaður þess síðastnefnda er Jón Ásgeir Jóhannesson sem jafnframt fer fyrir meirihluta í fjárfestingafélaginu en Jón …

Kaupmannahafnarflugvöllur er fjölfarnasta flughöfn Norðurlanda og fóru hátt í 2,9 milljónir farþega þar um í júní eða ríflega þrefalt fleiri en um Keflavíkurflugvöll á sama tíma. Íslenski flugvöllurinn kemst þó á blað yfir vinsælustu áfangastaðina fyrir farþega í Kaupmannahöfn og er í níunda sæti á topplistanum fyrir júní. Í þeim mánuði nýttu 55.515 farþegar sér …

Þegar heimsfaraldurinn hófst í febrúar árið 2020 lækkaði gengi hlutabréfa í ferðaþjónustufyrirtækjum hratt og hjá Icelandair fór það niður um þrjá fjórðu fyrstu mánuðina eftir að landamærum var lokað til að hefta útbreiðslu veirunnar. Gengið hélt svo áfram að lækka fram á haustið þegar efnt til hlutafjárútboðs þar sem hver hlutur var seldur á 1 …

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …