Samfélagsmiðlar

Íslandstenging mikilvægur hluti endurreisnar alþjóðaflugs í Nova Scotia

„Ísland var einn fyrsti áfangastaðurinn sem við tengdum áætlun okkar um endurreisn eftir heimsfaraldurinn,“ segir Joyce Carter, forstjóri alþjóðaflugvallarins Halifax Stanfield í viðtali við FF7 í tilefni af því að Icelandair er farið að fljúga að nýju til höfuðborgar Nova Scotia-fylkis í Kanada.

Joyce Carter, forstjóri alþjóðaflugvallarins Halifax Stanfield í Nova Scotia - MYND: ÓJ

Árið 1996 varð Halifax fyrsti áfangastaður Icelandair í reglubundnu flugi til Kanada og var þessari nýju flugtengingu mjög fagnað, en frá þeim tíma hefur tvisvar verið gert hlé á þessu flugi. Síðast var reglubundið áætlunarflug til Halifax 2018 en ein af afleiðingum kyrrsetningar Boeing 737 MAX-vélanna var sú að ekki var flogið milli Íslands og höfuðborgar Nova Scotia sumarið 2019.

„Við sem bjuggum á Atlantshafsströndinni misstum margar flugtengingar við Evrópu á þessum tíma – líka flugleiðina til Íslands. Síðan kom heimsfaraldurinn og við munum öll hvernig ástandið var 2020. En við ræddum fljótlega hvort mögulegt væri að fá Icelandair til að hefja flug að nýju – af því að hér í samfélagi okkar í Nova Scotia var þessarar flugtengingar sárlega saknað. Fljótlega hófst aftur daglegt áætlunarflug Air Canada á milli Halifax og Heathrow í London en við misstum aðrar alþjóðlegar tengingar. Ísland var einn fyrsti áfangastaðurinn sem við tengdum áætlun okkar um endurreisn eftir heimsfaraldurinn,“ segir Joyce Carter, forstjóri alþjóðaflugvallarins Halifax Stanfield, í viðtali við FF7 í heimaborg hennar.

Joyce Carter býr að langri reynslu í viðskiptalífi og mikilli þekkingu á flugmálum. Árið 2023 var hún valin af The Atlantic Business Magazine ein af 25 áhrifamestu konum í viðskiptalífinu á Atlantshafsströnd Kanada. Hún kom til starfa á alþjóðaflugvellinum Halifax Stanfield árið 1999, fyrst sem fjármálastjóri, síðan yfirmaður stefnumörkunar, en varð forstjóri árið 2014. Undir hennar stjórn varð Stanfield Halifax meðal þeirra kanadísku flugvalla sem endurheimtu hraðast umferð og flugfarþega eftir faraldurinn. Þá var Joyce Carter fyrst kvenna til að leiða Kanadíska flugvallaráðið, frá 2020 til 2022 og hefur beitt sér fyrir framgangi kvenna í kanadíska flugheiminum.

Við setjumst niður síðdegis á laugardegi eftir móttöku sem sendiherra Íslands bauð til í Halifax til að fagna 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands – og því að hafa endurheimt flugtenginguna á milli Nova Scotia-fylkis og Íslands.

Loftmynd af alþjóðaflugvellinum í Halifax – MYND: Halifax Stanfield International Airport

„Við veltum því fyrir okkur síðla árs 2021 hversu langur tími liði þar til að við fengjum fleiri alþjóðlegar flugtengingar. Ísland var meðal fyrstu áfangastaða sem komu til tals. Við höfðum byggt upp gott viðskiptasamband við WestJet en ég velti fyrir mér hvernig koma mætti aftur á tengingu við Ísland. Og þegar við fréttum af því á síðasta ári að Icelandair væri að huga að því að bæta við nýjum áfangastöðum í Norður-Ameríku, þá stefndum við ákveðið að því að Halifax yrði þar á meðal. Við lögðum mikið á okkur til að koma þessu sambandi á að nýju, að teknu tilliti til allra þeirra breytinga sem Icelandair hafði gengið í gegnum og því að félagið var að komast á flug aftur eftir heimsfaraldurinn.“

Mikið umstang var í kringum alþjóðlega sigingakeppni sem háð var í Halifax fyrstu helgina í júní – MYND: ÓJ

Joyce Carter segir að það hafi verið gott að finna að Icelandair hafi fljótt sýnt áhuga á að hefja flug að nýju til Halifax og rifjar upp mikilvægi heimsóknar Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og kanadískrar eiginkonu hans, Elizu Reid, til Halifax á síðasta ári. Flugvallaryfirvöldin hafi tekið þátt í undirbúningi heimsóknarinnar. Haldinn hafi verið fundur á flugvellinum í tengslum við heimsóknina og þá segist Joyce Carter hafa tilkynnt að hún kæmi sjálf til Íslands um haustið til viðræðna við Icelandair vegna sumaráætlunar 2024.

„Ég flaug í gegnum Boston til Íslands, hélt fund með fólkinu hjá Icelandair – en var ekki viss hvaða árangri það hefði skilað. Öll flugfélög voru varfærin í áætlunum um endurreisnina eftir faraldurinn. En um mánuði síðar var sumaráætlun Icelandair kynnt – og að flogið yrði þrisvar í viku til Halifax. Við vorum himinlifandi og viðbrögðin hér í samfélaginu voru ótrúlega góð. Allir voru ánægðir að fá þessa þjónustu aftur og viðbrögðin síðan hafa verið frábær,“ segir Joyce Carter.

Litskrúðugar húsaraðir í Halifax – MYNDIR: ÓJ

Það hefur hreinlega verið mikilvægt fyrir sjálfstraust ykkar að endurheimta þessa flugtengingu, en er hún mikilvæg út frá viðskiptalegum sjónarhóli?

„Já, þessi flugtenging hefur tvöfalt vægi: Annars vegar fyrir ferðaþjónustuna. Kanadamenn vilja komast til Íslands. Við komumst að því með könnunum okkar að Ísland var meðal þeirra áfangastaða sem íbúar Nova Scotia og annars staðar á Atlantshafsströndinni létu sig helst dreyma um að heimsækja fyrst eftir heimsfaraldur. Það lenti í fyrsta og öðru sæti í þeim könnunum sem við gerðum. Þær niðurstöður kynntum við Icelandair. Svo hefur Nova Scotia margt að bjóða íslensku ferðafólki. Hins vegar er svo þessi flugtenging mikilvæg fyrir viðskiptalíf landanna.“

Miklir skipaflutningar fara um höfnina í Halifax – MYND: ÓJ

Flestir þeirra sem komu til móttöku sendiherra Íslands í Kanada, sem nefnd var að framan, komu úr viðskiptalífi og stjórnsýslu í Nova Scotia. Þeirra á meðal var Susan Corkum-Greek, ráðherra efnahagsþróunar í Nova Scotia. Hún fagnaði því mjög að hafa endurheimt flugsambandið við Ísland, sem væri ekki síst mikilvægt fyrir sjávarútvegs- og tæknifyrirtæki. Þá staðfesti Paul Jewer, forstjóri fiskframleiðslufyrirtækisins High Liner Foods, eiganda Icelandic Group, mikilvægi þessarar tengingar fyrir hans starfsgrein og viðskipti landanna. Joyce Carter segir að þegar flugvallaryfirvöldin hófu vinnu við að endurheimta Íslandsflugið hafi þau ekki gert sér fulla grein fyrir mikilvægi tengingarinnar fyrir viðskiptalífið:

„Þú kemst til Íslands á rúmum fjórum klukkutímum þrisvar í viku, getur klárað þín viðskipti og snúið heim aftur sama dag. Auðvitað vonumst við til að í framtíðinni verði flogið daglega en við verðum að sjá hvernig þetta gengur.“

Epli til sölu á bændamarkaði á laugardagsmorgni – MYND: ÓJ

Hvaða beinar flugtengingar hafið þið núna við Evrópu?

„Air Canada flýgur daglega árið um kring frá Halifax til Heathrow í London. Þetta er eina fasta heilsárs tengingin sem við höfum. Auðvitað væri gott að Icelandair flygi oftar, þó þrjú flug í viku sé nú býsna gott, en óskandi væri líka að flugáætlunin lengdist, hæfist fyrr um vorið og næði lengra fram eftir hausti. Þegar við fáum niðurstöður eftir þetta sumar getum við vonandi sannfært Icelandair um þetta.“

Fleiri erlend flugfélög halda úti sumaráætlun til Halifax og sagðist ráðherra efnahagsþróunar í Nova Scotia vonast til að á þessu ári verði ferðafjöldinn orðinn eins og fyrir heimsfaraldur. Joyce Carter bendir á að flugtengingar við Evrópu séu nú þegar orðnar meira en tvöfalt fleiri en fyrir faraldur. Auk daglegs flugs Air Canada til Heathrow fljúgi Condor og Discover Airlines (áður Eurowings) 9 sinnum í viku á breiðþotum milli Halifax og Frankfurt, og WestJet 3-4 sinnum á viku til Dublin, Edinborgar og Gatwick. Nú bætist við vikulega þrjár ferðir Icelandair til Íslands.

Ferðamenn á hafnarbakkanum – MYND: ÓJ

Flestar flugferðir frá Halifax eru til áfangastaða í þessu víðfeðma landi en Logan-flugvöllur í Boston er meðal mikilvægra tengivalla íbúa Nova Scotia. Þangað þurfti Joyce Carter að fara síðast til að ná flugi til Íslands. En hún segir að Halifax eigi ekki aðeins í samkeppni við Boston og aðra flugvelli við Atlantshafsströndina um Evrópuflug heldur alla flugvelli, sem flugvél eins og Boeing 737 MAX ná til án millilendingar innan Norður-Ameríku.

Er mikil spurn núna eftir flugferðum í Kanada?

„Mjög mikil og ekkert lát er á. Litið var á Nova Scotia sem öruggan áfangastað á meðan heimsfaraldurinn geisaði. Þegar við opnuðum dyrnar á ný vildu allir komast þangað í hreina loftið við sjóinn. Þessi eftirspurn heldur áfram. Bandaríkjamenn koma gjarnan í vinnutengdar skemmtiferðir (bleisure travel). Síðasta sumar var flogið tvisvar sinnum á dag hingað frá New York en ferðirnar verða 6 á dag í sumar. Eftirspurnin er gríðarleg. Og þörf væri á meiri þjónustu á milli Boston og Halifax. Þessi ferðafjöldi kemur sér vel fyrir íbúa Nova Scotia, sem þurfa ekki að millilenda á flugvellinum í Montreal eða Toronto, sem mikil umferð er um, til að komast til Bandaríkjanna. Beint flug er til Boston, New York, Washington D.C. og Philadelphia. Við eigum eftir að endurheimta Chicago-flugið.“

Flugstöðvarbyggingin í Halifax séð frá flugvellinum – MYND: Halifax Stanfield International Airport

Meira en 3,5 milljónir farþega fóru um Halifax-flugvöll á síðasta ári og eins og áður sagði er vonast til að á þessu ári verði þeir enn fleiri. Miklir vöruflutningar eru líka um völlinn.

„Ferðalög hafa breyst frá því fyrir heimsfaraldur. Þegar hann hófst höfðum við nýlokið við 20 ára uppbyggingaráætlun. Nú er umferðin orðin álíka og hún var áður en faraldurinn skall á. Við erum miðstöð flugs á svæðinu en vegna fjölgunar ferða í Frankfurt-fluginu eru miklar annir þegar mest er, meiri en voru fyrir faraldur. Við erum þess vegna að gera endurbætur á komusvæði farþega úr alþjóðaflugi, sem á eftir að koma sér t.d. vel fyrir farþega Icelandair, og gera fólki auðveldara að ná í tengiflug. Þessum framkvæmdum á að ljúka fyrir sumarið 2025.“

Annasamasti mánuðurinn á Halifax-flugvelli er ágúst. Með endurbótunum vonast Joyce Carter til að komið verði í veg fyrir þrengsli í komusalnum og afgreiðsla verði einfaldari. Farþeginn þurfi ekki lengur að sækja farangurinn sinn og innrita sig á öðrum stað í tengiflug. Þetta verður allt á sama stað. Þá eru alltaf í skoðun leiðir til að mæta miklu tímabundnu álagi.

Um hálftíma akstur er frá flugvellinum inn í miðborg Halifax. Auk leigubíla ganga á milli rútur á hálftíma fresti á daginn en sjaldnar yfir hánóttina. „Hugmyndir um betri, nútímalegri og umhverfisvænni samgöngur við Halifax-flugvöll eru hluti samstarfsverkefnis stjórnvalda og hagaðila (Joint Regional Transportation Agency) sem nú er unnið að,“ segir Joyce Carter og bætir við:

Beðið brottfarar frá Halifax – MYND: ÓJ

„Við þurfum að horfa lengra fram í tímann í flutningum til og frá flugvellinum. Við megum ekki festast í rútuflutningum og þurfa að bæta stöðugt við bílastæðum.“

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …