Samfélagsmiðlar

Menningarmiðstöð á Ströndum

Í Sævangi við Steingrímsfjörð er til húsa merkilegt safn og menningarmiðstöð með ótrúlegan fjölda fjölbreyttra viðburða árið um kring. Sauðfjársetur á Ströndum er allt í senn miðstöð menningar og fræða, samkomustaður heimamanna og áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn.

Gestir skemmtiferðaskipsins Nansen í heimsókn á Sauðfjársetrinu. Bændur frá bænum Gröf kíktu við með lömb sem vöktu mikla lukku

Sauðfjársetrið var stofnað árið 2002 af heimamönnum og hefur vaxið og dafnað í þeirra umsjá allar götur síðan. Nýverið hlaut það tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir samfélagslegra nálgun í safnastarfi.

Í umsögn með tilnefningunni segir meðal annars að hér sé um að ræða mikilvæga og öfluga menningarstofnun sem hafi gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum. Sauðfjársetrið hafi jafnframt staðið fyrir frumlegri og fræðandi nálgun í rannsóknarstarfi og menningarmiðlun með viðburðum eins og sviðaveislu og Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum svo fátt eitt sé nefnt. Starfsfólk Sauðfjársetursins hafi jafnframt eflt mannlíf og menningu langt umfram umfang starfseminnar sjálfrar og vakið ekki aðeins áhuga heimamanna heldur einnig lands- og ferðamanna á sögu og menningu svæðisins. 

Ester Sigfúsdóttir er framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins og segir það afar ánægjulegt að hafa hlotið þessa tilnefningu. Það hafi einfaldlega verið eins og lottóvinningur fyrir þau sem standa að starfseminni og vakið mikla gleði. Hún segir að á bak við Sauðfjársetrið standi hópur af góðu fólki, stjórn, starfsfólk og sjálfboðaliðar, sem skipuleggja og vinna að margvíslegum skemmtunum og samkomum árið um kring.

„Sauðfjársetrið er bæði safn og samkomustaður en það er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin af sveitarfélaginu. Þetta er það sem við lögðum upp með frá byrjun, að Sauðfjársetrið yrði okkar menningarmiðstöð og okkur finnst það hafa heppnast mjög vel. Hér eru fjölbreyttir viðburðir árið um kring en þeir stærstu eru Náttúrubarnahátíðin, hrútadómarnir og sviðaveislan. Starfsemi eins og þessi gengi ekki upp nema fyrir dugnaðinn í þessum góða kjarna af fólki sem að Sauðfjársetrinu stendur,“ bætir hún við.

Ester Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum

Hrútar og náttúrubörn
Sauðfjársetrið hefur sinnt faglegu safnastarfi af krafti og safnað á skipulagðan hátt munum, myndum og minningum Strandamanna og miðlað þeim með margvíslegum hætti, til dæmis með hlaðvarpsþáttunum Sveitasíminn þar sem sjónum er beint að ýmsu sem tengist sveitinni og búskap, fyrr og nú. 

„Íslandsmeistaramótið í hrútadómum er dæmi um samkomu sem verður fjölmennari ár frá ári og hefur fært hrútadóma nær þeim sem ekki þekktu til þeirra áður. Nú kemur fólk hvaðanæva að af landinu og fjöldi gesta á deginum er farinn að slaga upp í 300 manns. Fólk ýmist fylgist með eða spreytir sig í flokki áhuga- eða atvinnumanna og á safninu er hægt að kaupa kjötsúpu og kaffihlaðborð.“

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum er orðinn fastur liður í starfsemi Sauðfjársetursins

Náttúrubarnaskólann segir Ester vera dæmi um starf sem sífellt verður umfangsmeira og fjölsóttara en þar er saga og náttúra svæðisins tengd saman á áhugaverðan hátt. Skólinn hefur verið starfræktur síðan 2015 og byggir á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu þar sem boðið er upp á margvísleg námskeið fyrir börn og listasmiðjur, útivist, þjóðfræði og skemmtun eru í fyrirrúmi. Náttúrubarnahátíðin er svo afsprengi skólans og verður haldin dagana 12.-14. júlí. Aðgangur er ókeypis eins og síðustu ár, þökk sé Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. 

Í fyrrasumar komu gestir af einu skemmtiferðaskipi við á Sauðfjársetrinu. Í ár verða þau níu talsins

Viðkomustaður skemmtiferðaskipa
Landsmenn hafa ef til vill tekið eftir skemmtiferðaskipunum Nansen og Fram sem hafa bæði legið við bryggju í Reykjavík og ferðast með strönd landsins. Gestir skipanna hafa haft viðkomu á Sauðfjársetrinu á leið sinni og þá er jafnan handagangur í öskjunni enda heilmikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað áður en tekið er á móti slíkum fjölda.

Sviðaveislan klár!

„Þetta hefur verið í undirbúningi í um það bil eitt og hálft ár og í fyrrasumar tókum við á móti einu skipi. Í ár verða þau níu. Dagskráin er fjölbreytt og fólk hefur meðal annars verið að týna rusl í fjörunni, farið í fuglaskoðun, kajakferðir og skoðun með neðansjávardróna. Á góðum dögum hafa þau brugðið sér í fjallgöngu í nágrenninu þar sem hægt er að fá gott útsýni yfir Steingrímsfjörðinn og svæðið í kring. Auk þess hefur Dagrún Ósk, þjóðfræðingurinn okkar, farið út í skip og haldið fyrirlestur. Gestirnir fá svo aðgang að safninu, kaffi og köku og þegar mest lætur erum við að taka á móti um 500 manns. Hlutfallið milli íslenskra og erlendra gesta hefur verið nokkuð jafnt hjá okkur í gegnum árin en það breytist auðvitað nú í sumar með tilkomu skemmtiferðaskipanna.“

Sauðfjársetrið heldur áfram að vera miðstöð menningar og viðburða yfir vetrartímann þó dagskráin sé með nokkuð öðru sniði og þá eru það fyrst og fremst heimamenn sem sækja ýmsa viðburði og skemmtanir. Þar má nefna félagsvist, kvöldvökur, fyrirlestra og sviðakvöldið vinsæla. Þá eru líka haldnir tónleikar auk þess sem Leikfélag Hólmavíkur hefur sett upp sýningar í Sævangi. 

Sauðfjársetur á Ströndum er opið alla daga í sumar frá kl.10-18 og á kaffihúsinu eru seldar kökur, kaffi, súpur og lambasteik. Heimsókn á safnið eða einhverjir af fjölmörgum viðburðum þess eru því tilvalin ástæða til að njóta menningar og fallegrar náttúru á Ströndum.

Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …