Samfélagsmiðlar

Ný loftslagsáætlun vekur spurningar

Verksmiðja Elkem á Grundartanga. Losun frá staðbundnum iðnaði á Íslandi innan ETS-kerfisins hefur aukist um 120% frá 2005 - MYND: ÓJ

Ný aðgerðaráætlun í loftslagsmálum hefur nú verið kynnt og viðbrögðin eru smám saman að koma í ljós. Eftirvæntingin var töluverð. Kvittur hafði verið á sveimi allt frá byrjun árs um að áætlunin yrði kynnt á hverri stundu. Þann 14. júní síðastliðinn kom svo loksins að því. 

Samkvæmt lögum á að uppfæra aðgerðaráætlun á fjögurra ára fresti, og sú fyrri á undan þessari var samþykkt árið 2020, þannig að hér er unnið innan settra tímamarka. En hvað einkennir hina nýju áætlun og hver eru viðbrögðin? 

Sunnlenskir nautgripir njóta veðurblíðunnar. Stærsti hluti losunar á Íslandi er vegna landnotkunar – MYND: ÓJ

Jú, eins og lesa má á kynningarsíðu áætlunarinnar, sem heitir því viðeigandi nafni co2.is, hefur aðgerðum fjölgað umtalsvert frá fyrri áætlun. Þær voru áður 48 en eru núna 150. Hér er þó ekki öll sagan sögð. Það hefur vakið athygli hversu margar af þessum aðgerðum eru í raun í lausu lofti. Þær eru ófjármagnaðar og óútfærðar. Einungis 68 þeirra rúmast innan núverandi fjármálaáætlunar, en 82 eru á einhvern hátt fyrirhugaðar, en ósamþykktar, eða beinlínis bara á hugmyndastigi enn sem komið er. 

Á sameiginlegum blaðamannafundi umhverfisverndarsamtaka á Íslandi í tilefni af áætluninni, sem haldinn var á dögunum, lýstu forsvarsmenn undrun á þessu, en vildu þó ekki afskrifa áætlunina alveg, eða eins og lesa má á heimasíðu Landverndar: „Það er greinilega mikil vinna fram undan og Landvernd lýsir yfir einlægum vilja til þess að aðstoða stjórnvöld við að útfæra ókláruðu aðgerðirnar.“ 

En er áætlunin þá mestmegnis bara pælingar? Þær Hrafnhildur Bragadóttir lögfræðingur og sérfræðingur í loftslagsmálum og Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur, sem m.a. starfaði við loftslagsbókhald Íslands og skil á því til margra ára, létu á dögunum sitt álit í ljós með grein sem lesa má á síðunni Himinn og haf.  Hún ber titilinn Loftslagsáætlun á hugmyndastigi, og á þeim má skilja, já, að aðgerðaráætlunin sé nánast „ómarkviss hugarflugsæfing“. Þær lýsa þeirri von sinni að samráð við hagsmunaaðila og almenning, sem nú mun fara fram — áður en áætlunin verður endanlega afgreidd — muni skerpa á plagginu, jarðtengja það og gera það mun markvissara.

Skemmtiferðaskip og dísilrútur á Skarfabakka í Sundahöfn. Mikil losun fylgir þessum farartækjum ferðaþjónustunnar – MYND: ÓJ

Hrafnhildur og Birna benda á að það sé víða pottur brotinn þegar kemur að framkvæmdinni í kringum aðgerðaráætlunina. Til dæmis beri, samkvæmt loftslagslögum, að gera stöðuskýrslur þar sem staðan er tekin á aðgerðunum og metið hvort árangur sé að nást, í samræmi við áætlun. Engin slík skýrsla hefur komið út síðan í júlí árið 2022. Þá benda þær einnig á að af 150 aðgerðum í nýju áætluninni hafi einungis 26 verið metnar með tilliti til áhrifa á loftslagið. Í 124 aðgerðum liggur ekki fyrir slíkt mat. 

Margir myndu vafalítið telja það verulegan galla á loftslagsáætlun, að ekki sé vitað hver áhrif hennar eru á loftslagið. Einnig benda þær stöllur á að ekkert kostnaðarmat fylgi áætluninni, þó svo að skýrt sé kveðið á um það í lögum að kostnaðarmat skuli ávallt fylgja. „Þetta gerir hagsmunaaðilum og almenningi erfitt um vik að átta sig á raunverulegri þýðingu aðgerða fyrir loftslagsmarkmið Íslands og áhrifum á ríkissjóð og íslenskt samfélag,“ skrifa þær. 

Þá er einnig ljóst, eins og þær benda á, að Loftslagsráð var ekki látið rýna áætlunina áður en hún var lögð fram, eins og lög kveða líka á um. Fyrir því er raunar einföld, en svolítið bagaleg ástæða: Ekkert Loftslagsráð var starfandi á Íslandi frá júní 2023 þangað til rétt nýverið. Mjög dróst að skipa nýtt ráð. Það var rétt að funda í fyrsta skipti nú á dögunum. 

Eins og áður segir gefst öllum almenningi, fræðasamfélagi og hagsmunaaðilum nú tækifæri til þess að gera athugasemdir við áætlunina, en ljóst er af þessum fyrstu viðbrögðum að á henni virðast verulegir vankantar.  

Byggingarframkvæmdir á Ártúnshöfða. Mikil losun fylgir allri uppbyggingu – MYND: ÓJ

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér einhver metnaðarfyllstu loftslagsmarkmið í heimi. Stefnt er að kolefnishlutleysi árið 2040, og Ísland hefur meira að segja sett sér metnaðarfyllri markmið um að draga úr losun, heldur en landinu ber sem aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu. Sem þátttökuþjóð í sameiginlegum loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins hefur Ísland skuldbundið sig til að draga úr svokallaðri samfélagslosun innan hagkerfisins um, að öllum líkindum, 41%, miðað við losun 2005, fyrir árið 2030. Íslensk stjórnvöld hafa bætt um betur og sett sér sjálfstætt markmið um að draga úr þessari losun um 55%.

Þetta er ekki að gerast. Samkvæmt nýjustu losunartölum hefur samfélagslosun Íslands dregist saman um 12% frá 2005, og þeim fækkar bara árunum sem eru til stefnu. Í nýju áætluninni er í raun að finna vissa uppgjöf gagnvart hinu sjálfstæða, metnaðarfulla markmiði, því þar er fullyrt að árangur aðgerðanna muni líklega skila sér í minnst 35% samdrætti, en mest 45%, fyrir 2030.  Og það er augljóslega minna en 55%. 

Ef Ísland nær ekki einu sinni skuldbindingum sínum gagnvart Evrópusambandinu, svo ekki sé talað um sínum eigin metnaðarfullu markmiðum, er ljóst að grípa verður til aðgerða í loftslagsbókhaldinu til þess að rétta einhvern veginn úr kútnum. Hrafnhildur og Birna hafa bent á það að áður, að íslensk stjórnvöld virðist fyrir þónokkru hafa áttað sig á því að samfélagið væri ekki að ná settu marki. Í annarri grein fyrr í vor fjölluðu þær um þá hljóðlátu ákvörðun stjórnvalda, sem tekin var árið 2020, um að sækja um leyfi til þess að fá að nýta vissan sveigjanleika í losunarbókhaldinu til þess að mæta þeirri stöðu að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar. 

Á Keflavíkurflugvelli. Kostnaður vegna losunar mun á endanum hækka farmiðana – MYND: ÓJ

Í Evrópu er rekinn uppboðsmarkaður með losunarheimildir innan svokallaðs ETS kerfis, sem er aðskilinn frá samfélagslosuninni. Markmiðið er að allur mengandi stóriðnaður, flug og skipaflutningar og orkuvinnsla borgi fyrir mengun sína með því að kaupa þar losunareiningar, og smám saman muni losun trappast niður innan kerfisins. Ísland fær úthlutað vissu magni af þessum heimildum og hugmyndin er að Ísland selji þær til stórmengandi aðila, og fái hagnaðinn í ríkissjóð. Þar getur hann nýst til dæmis til ýmissra aðkallandi loftslagsverkefna og réttlátra umskipta. 

En nú býðst Íslandi semsagt sveigjanleiki, sem snýst um það að stjórnvöld geta nýtt þessar uppboðsheimildir til þess að bæta upp fyrir eigin skort á samdrætti í losun. Með öðrum orðum: Í stað þess að selja þær og fá pening, geta þær notað þær til þess að stoppa upp í gatið sem vantar uppá til þess að ná markmiðum varðandi samfélagslosun. 

Það er útlit fyrir að þetta muni bjarga Íslendingum fyrir horn, en fjármunir munu þá ekki rata í ríkissjóð, og hinn boðaði metnaður fjarar óneitanlega út í sandinn. 

Aðgerðaráætlunin er núna komin í samráðsferli. Það er um að gera að kynna sér hana vel, en hún er í heild sinni hér. Og samráðið fer fram hér

Allar hugmyndir vel þegnar. 

Nýtt efni

„Við erum á lokametrunum í undirbúningi og opnum vonandi í september," segir Inga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Flóra hotels, um nýtt íbúðahótel á vegum Reykjavik Residence við Vatnsstíg. Á nýja hótelinu verða 26 íbúðir í nýuppgerðum fasteignum milli Laugavegs og Hverfisgötu en Reykjavik Residence rekur íbúðahótel á nokkrum stöðum í miðborginni. Flóra hotels, móðurfélag Reykjavík Residence, rekur …

Níunda fjórðunginn í röð lækkar verð á notuðum lúxus úrum og verðlækkun ársins nemur 1,2 prósentum, samkvæmt fjárfestingabankanum Morgan Stanley sem vel fylgist með verðþróuninni. Dýrustu úrin hafa lækkað ennþá meira og þannig hefur verðið á notuðu Rolex farið niður um 7,2 prósent síðastliðna 12 mánuði. Morgan Stanley gerir ráð fyrir að þessi verðþróun verði …

Rekstrarafkoma Play var neikvæð um 2,9 milljarða króna í fyrra og svo bættust við rúmir þrír milljarðar í fjármagnskostnað. Tapið fyrir skatt nam því 6,3 milljörðum króna. Afkomuspáin fyrir yfirstandandi ár gerði ráð fyrir að rekstrarafkoman yrði í kringum núllið en nú hefur staðan versnað og reiknað er með neikvæðri afkomu. Þetta kemur fram í …

Verð á hlutabréfum í þýska rafhlöðuframleiðandanum Varta hrundi við opnun markaðar í Frankfurt í dag, eða um nærri 80%, eftir að fréttir bárust af tillögum um endurskipulagningu fyrirtækisins. Þær myndu leiða til þess að hlutabréf núverandi eigenda yrðu nánast verðlaus.  Meðal þess sem að rætt er um er að núverandi meirihlutaeigandi, austurríski milljarðamæringurinn Nichael Tojner, …

Meðal þess sem kom í ljós eftir Covid-19-faraldurinn var að starfsfólk skorti í vaxandi ferðaþjónustu víða um heim. Faraldurinn truflaði gangverk vinnumarkaðar margra landa og sér ekki fyrir endann á því. Skortur á starfsfólki gæti hamlað vexti í greininni. Ætli megi ekki segja að fólk vilji fremur ferðast en þjóna öðrum? Vandræði eru á mörgum …

Íslandssjóðir eru ekki lengur meðal 20 stærstu hluthafa Icelandair en sjóðastýringafyrirtækið, sem er í eigu Íslandsbanka, varð stærsti hluthafinn í Play eftir hlutafjáraukningu í apríl sl. Íslandssjóðir hafa síðustu mánuði dregið töluvert úr fjárfestingu sinni í Icelandair og eru ekki lengur meðal tuttugu stærstu hluthafanna. Nú eru aftur á móti tvö eignarhaldsfélög á vegum Högna …

Ekkert félag flýgur fleirum innan Evrópu en lágfargjaldaflugfélagið Ryanair gerir og síðustu mánuði hafa farþegar félagsins að jafnaði borgað minnað fyrir sætin en þeir sem voru á ferðinni í fyrra. Tekjur félagsins lækkuðu þannig á milli ára samkvæmt uppgjöri sem félagið birti í morgun fyrir fjórðunginn apríl til júní. Sá er fyrsti fjórðungur reikningsársins hjá …

BYD

Kínverski rafbílaframleiðandinn BYD lækkaði verð á bílum sínum á íslenska markaðnum í ársbyrjun þegar dregið var úr opinberum stuðningi við kaup á nýjum rafbílum. Þar með gat Vatt, sem er með umboð fyrir BYD hér á landi, boðið ódýrustu tegundina á lægra verði en í fyrra að því gefnu að kaupandinn fái hinn nýja rafbílastyrk …