Samfélagsmiðlar

Nýtt hraðhleðslukort og haturspóstar

Það eru allt að 160 kílómetrar á milli hraðhleðslustöðva á hringveginum. Nýtt kort á vegum Orkuseturs sýnir hvernig landið liggur í þessum efnum. Umfjöllun um rafbíla getur vakið hörð viðbrögð eins og Eyrún Gígja Káradóttir fékk nýverið að reyna.

Íslensk hleðsla við þjóðveginn. MYND: ÓJ

„Þetta kort er aðallega hugsað fyrir þá sem eru að skipuleggja ferðalagið sitt og skoða áður en þeir leggja af stað hvar er heppilegast að hlaða,“ segir Eyrún Gígja Káradóttir, verkefnastjóri hjá Orkusetri. Orkustofnun hefur núna á heimasíðu sinni birt nýtt kort sem sýnir allar hraðhleðslustöðvar á Íslandi. Stefnt er á að gefa kortið út sem app líka, von bráðar. Á kortinu er einungis að finna hraðhleðslustöðvar, frá öllum rekstraraðilum, og er þá miðað við 50kw stöðvar og stærri. 

Kortið nýtir í grunninn hraðhleðslustöðvaupplýsingar frá Google Maps, þannig að kortið uppfærist um leið og rekstraraðilar mata Google með upplýsingum. Orkusetur hvetur þá til þess. En kortið gengur lengra og matreiðir þessar upplýsingar fyrir íslenska rafbílaeigendur. Hægt er að stimpla inn hvert förinni er heitið og fá upp fjölda og staðsetningu hleðslustöðva á leiðinni, og þar með skipuleggja ferðina með tilliti til hleðslu, og jafnframt er gefin upp lengsta vegalengdin á milli hleðslustöðva. 

Þegar landið allt er skoðað, til dæmis ef planið væri að keyra hringinn, segir kortið áhugaverða sögu. Á Norðausturlandi, frá Mývatni til Egilsstaða, er mikið bil, það lengsta á hringveginum, eða um 160 kílómetrar án hraðhleðslu.  Á þessum kafla þarf fólk því að vera vel hlaðið áður en það leggur í hann. Og svo er hálendið auðvitað allt hraðhleðslulaust enn sem komið er. 

Kortið sýnir núna 707 tengla á 135 stöðum víðs vegar um landið. „Við höfðum samband við alla helstu aðila sem reka hraðhleðslustöðvar fyrir nokkrum vikum til að láta þá vita af þessum áformum okkar og hvöttum þá aðila til að skrá sínar stöðvar á Google Maps svo að þær birtist á kortinu,“ segir Eyrún.

Eyrún Gígja Káradóttir flytur hér erindi sitt á Loftslagsdeginum. MYND: GUNNAR SVERRISSON

„Núna erum við að taka á móti ábendingum. Sumar stöðvar komu til dæmis tvisvar inn, því þær eru skráðar hjá tveimur aðilum. Stefnan er að leiðrétta allt svona áður en kortið verður að appi.“

Það er mikið að gerast í þessum málum segir Eyrún og töluvert um uppsetningar á nýjum hleðslustöðvum áætlaðar í sumar.  Allt þetta mun uppfærast hratt og örugglega á kortinu, ef allt gengur eins og það á að ganga. Varðandi eyður í hraðhleðslustöðvum, eins og þessari á milli Mývatns og Egilsstaða, segir Eyrun að Orkusjóður leggi nú á það áherslu að styrkja verkefni sem stoppa upp í þess göt. 

Eyrún Gígja kynnti kortið á Loftslagsdeginum á dögunum, í erindi sem hún flutti um rafbílavæðingu  og orkuskipti á Íslandi. Kortið var þar ekki aðalatriði heldur hitt, að Eyrún fór markvisst yfir það að í raun væri búið að ryðja öllum helstu tæknilegum hindrunum úr vegi þegar kæmi að því að rafbílavæða bílaflotann. Hleðslustöðvar væru komnar um land allt, eins og nýja kortið sýndi, drægni bílanna hefði aukist, framboðið af bílum væri orðið gríðarlegt, og að þeir stæðust vel samanburð í verði við bensín- og dísilbíla, og borguðu sig raunar upp á skömmum tíma miðað við þá. 

Í þessu samhengi lét Eyrún þau orð falla að ef ákveðið yrði að banna nýskráningar á bensín og dísilbílum á morgun, þá væri það hægt. Engar tæknilegar hindranir væru fyrir slíkri ákvörðun lengur.  Frá sjónarhóli orkuskipta og loftslagsmála er það auðvitað mikilvægur og góður punktur. Hindranirnar, benti Eyrún á í erindi sínu, eru núna bara mannlegar. Það er hægt að flýta orkuskiptum, ef vilji er fyrir hendi. 

Hleðslustöðvarnar á Íslandi í dag.

Margir kinkuðu kolli á Loftslagsdeginum. Þessi málflutningur lét ljúft í eyrum þar. En Eyrún var tekin tali af fjölmiðlum, og eftir fréttaflutninginn virðast sumir landsmenn hafa skilið hana svo að hún væri þeirrar skoðunar að það ætti hikstalaust að banna dísil og bensínbíla núna strax, helst á morgun. Henni fóru að berast haturspóstar og hótanir, í vinnupóstinum og á Facebook. Fólki er heitt í hamsi. 

„Já ég spurði í erindinu í Hörpu hvort við værum hætt við orkuskiptin og hvort hindranirnar væru nú bara mannlegar og hvort við þyrftum kannski að flýta banni á nýskráningum á bensín og dísilbílum í þeim flokkum þar sem framboðið væri orðið nóg, og það varð allt vitlaust. Magnað hvað fólk heldur að ég hafi mikil völd. Ég var náttúrulega bara að spyrja til að skapa umræðu en athugasemdakerfin fóru á fullt og augljóst að þeir sem senda bréfin og athugasemdirnar horfðu ekki á erindið í Hörpu og taka orð mín viljandi úr samhengi. En þannig er þetta bara víst, ekkert sem maður hefur ekki heyrt áður. En það er ótrúlegt hvað það er mikil heift í fólki. Maður myndi halda að fólk hefði skilning á því að þeir sem vinna við orkuskipti hjá ríkinu vilja auðvitað að þau gangi hraðar og að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.“

Eyrún fékk bara átta mínútur til að koma sínum boðskap á framfæri í erindinu á Loftslagsdeginum, og umfjöllunarefnið sjálf orkuskiptin, sem er ekki svo lítið. Hún þurfti því að vera beinskeytt og blátt áfram, og náði meðal annars að kynna skýrt og skilmerkilega áðurnefnt kort svo eftir var tekið. „Ég fékk auðvitað miklu fleiri hrós fyrir erindið en löst. Maður verður samt bara svo hissa á þessari hegðun og því hvernig fólk leyfir sér að skrifa án þess að hafa kynnt sér heildarsamhengið.“

Jarðsprengjusvæðin í umræðunni virðast vera víða. Bann við jarðefnaeldsneyti í samgöngum er greinilega eitt af því sem getur gert fólk brjálað. En fyrst Eyrún er byrjuð, þá er ekki úr vegi að spyrja hana hvort hún vilji ekki sprengja upp önnur tabú líka. Hvað með til dæmis að fara í annað viðtal og tala um rautt kjöt? Banna það?

Hún hlær. 

„Ég myndi ekki ekki leggja í það. Ég er ættuð úr sveit og yrði fljótt útskúfuð.“

Semsagt: Jarðsprengjusvæði. 

„Ég er með lista yfir hluti sem ég ræði ekki í fjölskylduveislum: endurheimt votlendis, hversu háð öll matvælaframleiðsla í landinu er innfluttri olíu, skógrækt. Svo það er best að ræða bara veðrið.“

Veðrið segir hún. En kemur ekki að því að það verður erfitt að tala um það líka? Það tengist jú loftslagsbreytingum. Mjög viðkvæmt mál. 

„Reyndar! Það er orðið mjög krefjandi að halda uppi samræðum.“

Kannski best að þegja bara? Og þó. Varla. Eyrún tók reyndar aðra ótrúlega áhættu í erindi sínu, hvað tabú og haturspósta varðar, þannig að það er greinilegt að hún er mjög áhættusækin þegar kemur að umræðunni. 

Eyrún er að norðan. Hún stóð á sviðinu fyrir framan fullan sal af fólki, í beinu streymi á internetinu, og sagði skýrt svo allir heyrðu að í vetur hefði verið vont veður á Akureyri. 

Vont veður. Akureyri. 

Slíkt segir maður ekki. Aldrei. 

Nýtt efni

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …

Kínversku bílaframleiðendurnir BYD og SAIC, sem er eigandi framleiðslufyrirtækis MG-rafbílana vinsælu, hafa ekki ákveðið enn hvort verð á rafbílum sem seldir verða í Evrópu eftir 4. júlí hækka í verði. Þá tekur gildi umtalsverð hækkun tolla á kínversku rafbílana. Samkvæmt heimildum Reuters verður engin verðbreyting ákveðin fyrir þann tíma. Evrópusambandið ákvað að tollur á MG-bílum …

Gengi hlutabréfa í Norwegian féll í gærdag eftir að greinendur norska bankans DNB færðu niður verðmat sitt á félaginu úr 19 norskum krónum á hlut niður í 17 kr. Hið nýja verðmat var engu að síður 30 prósent yfir markaðsgenginu, 14 norskar kr., en engu að síður féll gengið um tíu prósent í gær og …