Samfélagsmiðlar

Skammtímaleiga íbúða til ferðamanna verður bönnuð í Barselóna árið 2028

Jaume Collboni, borgarstjóri Barselóna, á meðal kjósenda - MYND: Instagram/Jaume Collboni

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum – ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum sem leigja ferðamönnum íbúðir í miðborg Barselóna er gefinn rúmlega fjögurra ára frestur til að hætta þeirri atvinnustarfsemi að leigja ferðamönnum íbúðir til skamms tíma.

Síðasta 1. maí-gangan í Barselóna. Húsnæðismál brenna heitt á fólki í borginni – MYND: ÓJ

Í gær tilkynnti nýr borgarstjóri Barselóna, sósíalistinn Jaume Collboni, að í nóvember 2028 yrðu numin úr gildi leyfi allra 10.101 íbúðarinnar í borginni í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. „Við ætlum að bregðast þannig við stærsta vandanum sem er Barselóna er að kljást við,“ sagði Collboni á hátíðarsamkomu á vegum borgaryfirvalda. 

Skilaboð á vegg nærri dómkirkjunni í Barselóna – MYND: ÓJ

Borgarstjórinn sagði að sprengjan í skammtímaleigu íbúða til ferðamanna hefði leitt til þess að sjálfir íbúarnir réðu ekki við að mæta kröfum um húsaleigu sem hækkað hefði um 68% á síðasta áratug. Á sama tíma hefði húsnæðisverð hækkað um 38%. Leitin að heppilegu húsnæði endurspeglar ójafna efnahagslega stöðu fólks, einkum unga fólksins, hefur Reuters eftir Collboni. 

Spánn er eitt vinsælasta ferðamannaland heims. Á sama tíma og landsstjórnin á Spáni fagnar velgengni ferðaþjónustunnar, sem færir miklar tekjur í ríkiskassann, þá hafa þessar vinsældir það í för með sér að íbúar víða í landinu verða undir í grimmri verðsamkeppni. Hinum fátækari er hent út úr húsnæði sem eigendur vilja frekar breyta í dýrar ferðamannaíbúðir. 

Þetta verður stöðugt heitara viðfangsefni stjórnmála í Evrópu og þeim borgum fjölgar þar sem yfirvöld taka til sinna ráða. Nægir að nefna Berlín og Lissabon. Og nú gæti Barselóna orðið fyrirmynd í ferðamannalandinu Spáni. Ráðherra húsnæðismála í ríkisstjórn sósíalista á Spáni, Isabel Rodriguez, hefur lýst stuðningi við ákvörðun borgaryfirvalda í höfuðborg Katalóníu. Í færslu á X sagði hún að þetta snérist um að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði. 

Forráðamaður APARTUR, samtaka þeirra sem leigja ferðamönnum íbúðir í Barselóna, segir hinsvegar í samtali við Reuters: „Collboni er að gera mistök sem eiga eftir að leiða til meiri fátæktar og atvinnuleysis.“ Hann bætti því við að útleigubannið myndi leiða til fjölgunar ólöglegra leiguíbúða.

 

Sölumenn á Katalóníutorgi bíða færis – MYND: ÓJ

Fyrirhuguð breyting eftir rúm fjögur ár ætti að koma sér vel fyrir hótelrekendur í Barselóna. Fyrri borgarstjórn Barselóna, þar sem róttæk öfl voru ráðandi, höfðu bannað byggingu nýrra hótela á vinsælustu svæðum borgarinnar á árunum 2015 til 2023, en nú hefur Collboni gefið til kynna að slakað verði á því banni. Fyrri borgarstjórn hafði jafnframt hafnað útgáfu fleiri leyfa fyrir ferðamannaíbúðum í miðborginni og 9.700 ólöglegum íbúðum hefur verið lokað frá 2016. Um 3.500 þeirra hefur þegar verið breytt í leiguíbúðir fyrir íbúa borgarinnar. Með stefnu Collboni er markmiðið að koma enn fleirum þessara íbúða á almennan leigumarkað. 

Nýtt efni

„Við erum á lokametrunum í undirbúningi og opnum vonandi í september," segir Inga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Flóra hotels, um nýtt íbúðahótel á vegum Reykjavik Residence við Vatnsstíg. Á nýja hótelinu verða 26 íbúðir í nýuppgerðum fasteignum milli Laugavegs og Hverfisgötu en Reykjavik Residence rekur íbúðahótel á nokkrum stöðum í miðborginni. Flóra hotels, móðurfélag Reykjavík Residence, rekur …

Níunda fjórðunginn í röð lækkar verð á notuðum lúxus úrum og verðlækkun ársins nemur 1,2 prósentum, samkvæmt fjárfestingabankanum Morgan Stanley sem vel fylgist með verðþróuninni. Dýrustu úrin hafa lækkað ennþá meira og þannig hefur verðið á notuðu Rolex farið niður um 7,2 prósent síðastliðna 12 mánuði. Morgan Stanley gerir ráð fyrir að þessi verðþróun verði …

Rekstrarafkoma Play var neikvæð um 2,9 milljarða króna í fyrra og svo bættust við rúmir þrír milljarðar í fjármagnskostnað. Tapið fyrir skatt nam því 6,3 milljörðum króna. Afkomuspáin fyrir yfirstandandi ár gerði ráð fyrir að rekstrarafkoman yrði í kringum núllið en nú hefur staðan versnað og reiknað er með neikvæðri afkomu. Þetta kemur fram í …

Verð á hlutabréfum í þýska rafhlöðuframleiðandanum Varta hrundi við opnun markaðar í Frankfurt í dag, eða um nærri 80%, eftir að fréttir bárust af tillögum um endurskipulagningu fyrirtækisins. Þær myndu leiða til þess að hlutabréf núverandi eigenda yrðu nánast verðlaus.  Meðal þess sem að rætt er um er að núverandi meirihlutaeigandi, austurríski milljarðamæringurinn Nichael Tojner, …

Meðal þess sem kom í ljós eftir Covid-19-faraldurinn var að starfsfólk skorti í vaxandi ferðaþjónustu víða um heim. Faraldurinn truflaði gangverk vinnumarkaðar margra landa og sér ekki fyrir endann á því. Skortur á starfsfólki gæti hamlað vexti í greininni. Ætli megi ekki segja að fólk vilji fremur ferðast en þjóna öðrum? Vandræði eru á mörgum …

Íslandssjóðir eru ekki lengur meðal 20 stærstu hluthafa Icelandair en sjóðastýringafyrirtækið, sem er í eigu Íslandsbanka, varð stærsti hluthafinn í Play eftir hlutafjáraukningu í apríl sl. Íslandssjóðir hafa síðustu mánuði dregið töluvert úr fjárfestingu sinni í Icelandair og eru ekki lengur meðal tuttugu stærstu hluthafanna. Nú eru aftur á móti tvö eignarhaldsfélög á vegum Högna …

Ekkert félag flýgur fleirum innan Evrópu en lágfargjaldaflugfélagið Ryanair gerir og síðustu mánuði hafa farþegar félagsins að jafnaði borgað minnað fyrir sætin en þeir sem voru á ferðinni í fyrra. Tekjur félagsins lækkuðu þannig á milli ára samkvæmt uppgjöri sem félagið birti í morgun fyrir fjórðunginn apríl til júní. Sá er fyrsti fjórðungur reikningsársins hjá …

BYD

Kínverski rafbílaframleiðandinn BYD lækkaði verð á bílum sínum á íslenska markaðnum í ársbyrjun þegar dregið var úr opinberum stuðningi við kaup á nýjum rafbílum. Þar með gat Vatt, sem er með umboð fyrir BYD hér á landi, boðið ódýrustu tegundina á lægra verði en í fyrra að því gefnu að kaupandinn fái hinn nýja rafbílastyrk …