Samfélagsmiðlar

Úr ys og þys Englaborgarinnar í afskekkta sveit í Arnarfirði

Leslie og Greg - MYND: HÓ

„Við vildum komast í burtu – sérstaklega frá Los Angeles,“ segir Leslie Schwartz, bandarískur rithöfundur, sem er nú búsett, ásamt manni sínum Greg Littlewood, á Laugabóli Í Arnarfirði. 

Laugaból er ekki í alfaraleið. Bærinn er Mosdal á norðanverðu Langanesi í Arnarfirði – handan fjarðarins frá Hrafnseyri. Afleggjarinn að bænum liggur frá Dynjanda og er eini bærinn á Langanesi þar sem enn er heilsársbúseta.  

Hliðið á veginum heim að Laugabóli er opið – MYND: HÓ

Greg og Leslie festu kaup á bænum og jörðinni Laugabóli síðasta haust með það í huga að opna þar listavinnustofur. Sá draumur kviknaði árið 2021 þegar Leslie og Greg ferðuðust um Ísland og Leslie varði nokkrum vikum í listavinnustofu í Gilsfirði. 

Voru miður sín að snúa aftur til Los Angeles

Leslie er rithöfundur en Greg lét nýlega af störfum sem barnaskólakennari til tuttugu ára en áður starfaði hann sem kvikmyndatökumaður. Þótt þau hafi búið og starfað að mestu leyti í Los Angeles eiga þau líka hús í Oregon. 

„Það er erfitt að búa í Bandaríkjunum, það er svo margt sem er að,“ segir Leslie. Greg segir að það hafi verið vanalegt fyrir hann að vera um tvær vikur að lenda eftir ferðalög en að eftir að hafa ferðast um á Íslandi hafi hann verið miður sín í þrjá mánuði. „Svo sagði Leslie að hún hefði aldrei skrifað betur en þessar vikur í listavinnustofunni í Gilsfirði,“ bætir hann við. 

Ef þú hugsar of lengi um að gera eitthvað þá gerirðu það ekki

„Ég náði að klára bókina mína, sem er hjá umboðsmanni mínum núna, sem er þriðja skáldsagan mín,“ segir Leslie. „Og það var margt sem hafði áhrif á okkur; í fyrsta lagi þá elskum við Íslendinga, hvernig fólk er bæði vinalegt og gestrisið. Og það er svo friðsælt hér – engar byssur. Við höfðum lengi rætt að flytja frá Bandaríkjunum svo það var bara komið að því. – Ef þú hugsar of lengi um að gera eitthvað þá gerirðu það ekki. Svo við létum vaða,“ segir Leslie.

Kvikmynd var gerð 2011 eftir skáldsögunni Angels Crest eftir Leslie Schwartz

Vildu ekki verja eftirlaunaárunum í Los Angeles

Á þessum tíma var Greg að láta af störfum sem barnaskólakennari, en hann kenndi aðallega börnum með sérþarfir, til að fara á eftirlaun og þau Leslie vissu að þau vildu ekki verja eftirlaunaárum sínum í Los Angeles. 

„Við viljum vera á stað þar sem við erum örugg,“ segir Leslie. „Við söknum Bandaríkjanna eins og þau voru – en allt er breytt, allt er að fara á verri veg hvað varðar kynþáttahyggju, trú, kvenréttindi, heilbrigðisþjónustu og fleira,“ segir Leslie. 

Nokkurn veginn þarna er Laugaból

Leslie og Greg eiga tvö uppkomin börn sem bæði búa í New York – nokkurn vegin á milli Los Angeles og Íslands. Greg og Leslie seldu því húsið sitt í Los Angeles og fluttu til Íslands. Listavinnustofan í Gilsfirði lokaði stuttu eftir að Leslie var þar 2021 og því fannst þeim Greg tilvalið að opna aðra á Vestfjörðum í staðinn. 

Laugaból uppfyllti allar óskir þeirra – og enn bætist við

„Þegar við vorum að leita að rétta staðnum þá spáðum við í því hvort þetta væri við sjóinn, á Vestfjörðum, hvort það væri hægt að fara í gönguferðir, hvort það væri hljóðlátt og nógu mikið rými fyrir gesti – og þessi staður uppfyllti alla þær kröfur,“ segja þau Greg og Leslie.

Þau fréttu af jörðinni síðasta haust og drukku marga kaffibolla við eldhúsborðið á Laugabóli áður en þau keyptu jörðina. Þau voru svo flutt vestur skömmu síðar. „Og svo er þetta eins og að fá gjafir í marga mánuði í röð. Við erum enn að uppgötva þennan stað, þetta er svo ótrúlegur staður. Sérstaklega núna þegar allt er að verða grænt og það er að hlýna,“ segir Leslie. 

Mikil hús og margir möguleikar

Jörðin er nokkuð stór, 1.700 hektarar eða 17 ferkílómetrar, og á henni er fjöldi húsa og bygginga – en fyrrum eigandi stóð fyrir mikilli uppbyggingu á jörðinni. Þar er stórt íbúðahús á þremur hæðum, stórt hesthús og hlaða, sundlaug, gróðurhús, reiðhöll, skeiðvöllur og fjárhús. Svo er lítill bústaður nálægt fjörunni. Sá sem átti jörðina á undan Leslie og Greg var mikill hestamaður og stundaði hestarækt á jörðinni.  

Reiðhöllin býður upp á ýmsa möguleika – MYND: HÓ

„Við erum að velta fyrir okkur því sem við getum gert með öll þessi hús, gætum jafnvel verið með tónlistarhátíð í reiðhöllinni,“ segir Greg. „Svo erum við að spá í að bjóða fólki að geyma húsbíla og slíkt í henni yfir veturinn – við þurfum að finna not fyrir öll þessi hús,“ segir Leslie. 

Heitt vatn á jörðinni

Ein af uppgötvunum hjónanna er náttúrulaug með 39-40 gráðu heitu vatni. Þau vissu af heitu vatni á jörðinni, sem rennur til að mynda í sundlaugina og um gróðurhúsið, en ekki af þessari litlu laug. Hún rúmar um þrjá til fjóra og er með útsýni út á hafið. Og oft ramba Leslie og Greg á eitthvað óvænt í gönguferðum sínum um jörðina. „Við höfum til dæmis fundið gamlar rústir af torfbæ hérna,“ segir Leslie. „Og svo koma selirnir að kíkja á okkur og það eru hvalir í firðinum og refir í kring,“ bætir hún við. 

Leigja út í skammtímaleigu fyrst um sinn

Fyrstu listavinnustofurnar á Laugabóli eru áætlaðar í ágúst og nóvember en í sumar leigja þau Leslie og Greg út herbergi í skammtímaleigu, á Airbnb. Í íbúðarhúsinu eru fimm stór svefnherbergi og stórt eldhús, stofa og borðstofa á tveimur hæðum en Leslie og Greg hafa komið sér fyrir í lítilli íbúð í kjallara hússins. „Langtímaplanið er svo að vera hér alfarið með listavinnustofur,“ segir Greg. „Og við viljum stækka þetta, fjölga herbergjum og þar af leiðandi lækka verðið. Þetta ræðst svo auðvitað af orðsporinu – sem tekur tíma,“ segir Greg. Á annarri hæð hesthússins hafa þau einnig útbúið nokkur herbergi fyrir gesti. 

Eitt herbergjanna. Útsýn yfir Arnarfjörð – MYND: HÓ

Verður fyrir hughrifum á Laugabóli

Þau Leslie og Greg hafa trú á því að Laugaból sé einkar hentugur staður fyrir listafólk. „Ég verð fyrir hughrifum hér, ég var að klára skáldsögu en er farin að hugsa um þá næstu,“ segir Leslie. „Ég hef verið að vinna í hlöðunni og ég held að það sé draugur þar – svo ég er farin að hugsa um að skrifa draugasögu – ég hef aldrei gert það áður,“ segir hún. 

Hluti af framtíðarsýn hjónanna er að tengja Laugaból við nærsamfélagið. „Okkur langar til að eiga í samskiptum og samstarfi við nærsamfélagið og opna lítið gallerí og bókabúð þar sem við seljum list úr nágrenninu,“ segir Leslie – það sé langtímaplanið. „Og við viljum hitta forsvarsfólk skólanna í nágrenninu til að átta okkur á því hvað þau gætu séð fyrir sér með samstarfi við okkur,“ segir Leslie. 

Á afskekktum stað sem var þó enn afskekktari

Áður en Dýrafjarðargöng opnuðu var oft erfitt að komast að Laugabóli marga mánuði á ári, enda heiðarnar í kring ekki ruddar árið um kring – Hrafnseyrarheiði norðan við Arnarfjörð og Dynjandisheiði sunnan við Dynjandisvog.  Fyrrum eigandi var til að mynda með bát sem hann notaði til að komast á Bíldudal – þegar það var ófært yfir heiðarnar. Dýrafjarðargöng leystu svo Hrafnseyrarheiði af hólmi árið 2020 og þá var farið að ryðja Dynjandisheiði árið um kring og tryggja þannig heilsárssamgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða, sem og að afleggjaranum að Laugabóli. Það hefur þó ekki orðið til þess að vegurinn að Laugabóli sé ruddur reglulega og Leslie og Greg geta því lokast inni yfir háveturinn. 

Áskorun að geta ekki komið og farið þegar þau langar

„Það hafa komið erfiðir tímar,“ segir Leslie, þegar hún hefur viljað komast í burtu en ekki getað það og því upplifað sig fasta. „Ég hefði ekki getað hugsað mér að vera hérna fyrir tilkomu Dýrafjarðarganga. Við erum ekki að sækjast eftir algjörri einangrun – heldur viljum við opna aðgengi að þessum stað – að fólk fái að njóta hans,“ segir hún. „Veturnir eru svo fallegir, sólarupprásin og vetrarveðrið,“ segir Leslie, en hún segir að það hafi verið erfitt að venjast því að geta ekki komið og farið þegar þau vildu. Næsta skref sé að fá sér bát. „Og við erum búin að læra að vera með stóra frystikistu,“ segir Greg, „og auðvitað er þetta eitthvað sem fólk hefur löngum vanist.“

Horft inn Arnarfjörð – MYND: HÓ

Það er laxeldi í firðinum og svo er fólk stundum á Hrafnseyri, handan fjarðarins, aðallega á sumrin en líka einstaka sinnum yfir veturinn. „Svo þegar það kemur allt í einu fiskibátur siglandi inn fjörðinn þá fylgjumst við grannt með honum. „Við spáum í því hver þetta sé og hvort þeir vilji koma í kaffi,“ segir Leslie og hlær. 

Stórt verkefni framundan – á dásamlegum stað

Greg og Leslie bíður stórt verkefni – að byggja upp þá starfsemi sem þau dreymir um. „Við erum að hugsa þetta til framtíðar. Þetta er langtímaplan – við stukkum á þetta, og byrjum á því sem við getum og svo vinnum við þetta áfram,“ segir Greg. Þau segja að suma daga séu þau yfirþyrmd af verkefnunum en aðra sé þetta bara frábær tilfinning.  

„En svo þegar eitthvað bjátar á, þá getum við bara alltaf farið út í náttúruna,“ segir Greg. „Farið út með hundinn og notið náttúrunnar við ströndina. Horft á selina – það er svo fallegt,“ segir Leslie,  „og svo reddast hlutirnir alltaf,“ bætir hún við. – „Það birtist allt í einu eitthvað fólk og leysir málin,“ bætir Greg við.  

Listavinnustofa á sama tíma og bandarísku forsetakosningarnar

„Fólk óskaði eftir því að koma í listavinnustofu á sama tíma og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum verða í nóvember, svo við ákváðum að bjóða Bandaríkjamönnum uppá listavinnustofu á þeim tíma. – Fólk sem getur þá bara komið í kyrrðina og hugsað um listina,“ segir Greg.  

„Þú áttar þig ekki á því hversu mikil læti og niður er í Bandaríkjunum fyrr en þú ferð þaðan, – hér er svo mikil kyrrð,“ segir hann. „Og það er ekki hægt að taka fanga þennan stað í einni mynd. Þú verður að upplifa hann. Finna fyrir honum, heyra þögnina. Hvernig ætlarðu að miðla því á heimasíðu? Það er ekki hægt – fólk þarf bara að koma.“  

Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …