Samfélagsmiðlar

Lítil bjartsýni eftir loftslagsfund í Bonn

Loftslagsráðstefnan í Bonn - MYND: SÞ

Á hverju ári hittast fulltrúar þjóða heimsins á loftslagsráðstefnu, sem sífellt verður stærri og stærri. Þá síðustu, COP28 í Dubai, sóttu um 100 þúsund manns. Næsta ráðstefna, COP29, mun fara fram í Aserbædjan í nóvember.  Það sem færri hins vegar vita, er að árlega fer fram önnur loftslagsráðstefna þjóðanna, á sumri hverju. Það fer minna fyrir henni, en þá hittast samninganefndir í Bonn í Þýskalandi, meira í rólegheitum, og bera saman bækur sínar, en Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna á heima í Bonn. 

Þessari árlegu sumarráðstefnu er núna nýlokið. Það er óhætt að segja að pressan á þessum ráðstefnum hafi vaxið, en þau boð hafa ítrekað komið frá vísindasamfélaginu á undanförnum árum að tími aðgerða sé að renna út. Heimurinn er að hitna hratt, eins og lífshættulegar hitabylgjur sumarsins í Sádi-Arabíu og á Indlandi uppá síðkastið bera vitni um. 

Erindrekar hittust í loftkældum rýmum, í jakkafötum og buxnadrögtum, og ræddu hvað gera skyldi í málinu. Og um hvað var rætt? Jú, samkvæmt yfirferð í Guardian voru á  dagskrá fundarins margir gamlir kunningjar. 

Fyrir það fyrsta mun töluverður tími hafa farið í að ræða fram og til baka sígilt deilumál þegar kemur að loftslaginu, nefnilega þetta: Hvernig á að fjármagna loftslagsaðgerðir, eins og allt það sem þarf að gera í heiminum til þess að hætta að nota jarðefnaeldsneyti? Til þess þarf haug af peningum. Ríkar þjóðir eru margar á góðri leið með umskiptinguna yfir í hreina orku, og eru að byggja upp innviði, en hins vegar þurfa þróunarlöndin mikla aðstoð til þess að gera slíkt hið sama. Krafan er sterk og skiljanleg um það að þessi peningar komi frá ríku löndunum, í gegnum ríkisstjórnir eða einkaaðila, enda hafa ríkar neysluþjóðir nær eingöngu valdið loftslagsvandanum. 

Það hefur hins vegar gengið brösulega að fá ríkar þjóðir til að stíga inn í þetta verkefni með nægilega miklu fjármagni. Þetta er einkum kaldhæðnislegt í ljósi þess að ríkar þjóðir verja gríðarlegu fjármagni til þess að niðurgreiða notkun á jarðefnaeldsneyti. Ef þær myndu beina þeim fjármunum í uppbyggingu á hreinorku alls staðar í heiminum í staðinn, væri málið leyst. 

Þróunarlöndin þurfa ekki bara fé til þess að byggja upp hreinorkuinnviði heldur líka til þess að búa sig undir vaxandi hörmungar vegna loftslagsbreytinga, og taka á sívaxandi afleiðingum þeirra. Vegna hnattrænnar stöðu flestra þróunarlanda bitna loftslagsbreytingar, sem þær hafa ekki orsakað, af einna mestum þunga á þeim. 

Þjóðirnar reyndu því enn einu sinni í Bonn að finna einhverja skilgreinda upphæð sem væri hægt að lofa þróunarlöndunum í aðstoð og fjárfestingar.  Fulltrúar allra þjóða reyndust sammála um þörfina og að hún skipti trilljónum Bandaríkjadala, en nú var hins vegar meira deilt um það hvaðan peningarnar ættu að koma. Ríkisstjórnir benda á einkageirann, og telja að fjármögnun þurfi að koma meira í gegnum skattkerfið, eins og með vaxandi kolefnisgjöldum, auðlegðarsköttum, álagi á flug og þess háttar. En þetta er allt saman óútfært og oft mikið deiluefni heima fyrir. 

Í öðru lagi er deilt um það hvað telst vera skilgreining á þróunarlandi. Hingað til hefur verið stuðst við skilgreiningu frá 1992, þegar loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna var samþykktur í Ríó í Brasilíu. Samkvæmt þeirri skilgreining er Kína þróunarland, og ætti því að þiggja aðstoð, en mörgum finnst það ekki beint sanngjarnt í ljósi þess að Kína er núna næststærsta hagkerfi heims og langstærsta losunarríki gróðurhúsalofttegunda. Kína ætti því að teljast til þjóða sem greiða stuðning, frekar en þeirra sem þiggja hann. Sama gildir um önnur ríki, sem voru ekki rík en eru það núna, eins og Suður-Kóreu og Singapúr. 

Einn vandinn við loftslagsráðstefnur, sem gerir glímuna við þetta vandamál sérstaklega erfitt, er að loftslagsráðstefnur eru sóttar af umhverfisráðherrum en fjármálaráðherrar eru fjarri góðu gamni. Tengingar við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn skortir á þessum samkomum, og þar er heldur ekkert umboð til að taka ákvarðanir um ríkisfjármál. 

Í annan stað var svo beinlínis rætt um það í Bonn hvernig í ósköpunum ætti að draga úr losun í heiminum. Ennþá eru bundnar vonir við það að þjóðum heims takist hið nánast ómögulega, sem er að halda hlýnuninni innan við 1,5 gráðu mörkin, miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu. En til þess að það takist þarf að draga úr losun um helming fyrir lok þessa áratugar. Það markmið er orðið æði fjarlægt. 

Notkun hreinorku hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum, en þrátt fyrir það vex notkun á jarðefnaeldsneyti líka. Heildarorkunotkunin fer semsagt vaxandi, þannig að bæði hreinorka og jarðefnaeldsneyti vex. Áætlanir ríkja heimsins um að draga úr losun, sem ríkin settu fram á Parísarráðstefnunni 2015, eru núna ófullnægjandi. Þessar áætlanir, eða landsframlög í losun (NDC), þarf að uppfæra og það fljótt. Markmiðið er að þjóðir heimsins tilkynni ný landsframlög á COP30 í Brasilíu á næsta ári. 

Þetta gerir það að verkum að mest mengandi þjóðirnar þykja full rólegar í því að draga úr losun sinni, þar sem þær þurfa jú ekki formlega að hugsa um það og tilkynna neitt fyrr en á næsta ári. Því er hætt við að krafan um að gefa í varðandi samdrátt í losun verði léttvæg fundin á næsta COP, á þessu ári. Í Bonn mun hafa verið lögð áhersla á það að þetta gerðist ekki, heldur væri þjóðunum haldið við efnið. Þegar kemur að samdrætti í losun er hvert ár mikilvægt. Það er keppt við tímann. 

Í þriðja lagi mun það hafa verið áberandi í fundinum í Bonn hvað óvissan er mikil á stjórnmálasviðinu. Þar getur brugðið til beggja vona. Það er víða kosið á þessu ári, og líklega er afdrifaríkasta kosningabaráttan fyrir loftslagið háð í Bandaríkjunum. Ef Donald Trump sigrar er viðbúið að hann dragi Bandaríkin aftur úr Parísarsáttmálanum og dragi til baka þær aðgerðir í loftslagsmálum sem Bandaríkjastjórn hefur ráðist í undir forsæti Joe Bidens.  Þetta gæti haft gríðarleg áhrif á bæði hraðann í samdrætti í losun og eins á fjármögnun loftslagsaðgerða, en Bandaríkin hafa fjármagnað mest hingað til, enda losað langmest allra þjóða í sögulegu samhengi, og ættu í raun að leggja til mun meiri fjármuni. 

Hvað gerist í Bandaríkjunum skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir loftslagið og umhverfið. Eins eru blikur á lofti fyrir þessi mál í Evrópu, en öfgahægriflokkar — sem nú sópa að sér fylgi í áflunni — hafa ekki mikinn metnað í loftslagsmálum.  Í Bonn var m.a. rætt hvernig ætti að leiða þessum öflum fyrir sjónir, að þegar kemur að loftslaginu væri mun ódýrara til lengri tíma að grípa til aðgerða núna heldur en að bíða eftir þeim óheyrilega kostnaði sem afleiðingar loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. 

Hér er stólað á að jafnvel hægriöfl skilji slíkar röksemdir. Þessu tengt mun töluvert einnig hafa verið rætt um það hvernig eigi að bæta fátækum þjóðum upp það ógnarmikla tjón sem loftslagsbreytingar valda þeim. Þetta málefni hlaut mikla athygli bæði á COP28 og COP27 í Egyptalandi, og ákveðið var að stofna alþjóðlegan hamfarasjóð. En nú vantar peninginn í sjóðinn. 

Enginn árangur mun hafa náðst í Bonn varðandi þetta mál. Enginn árangur náðist heldur þegar kom að heitu kartöflunni, eða fílnum í herberginu, sem er notkun jarðefnaeldsneytis og gríðarlegur hagnaður olíuframleiðenda. Kröfunni um að skattur verðir settur á hagnað olíuframleiðenda vex mjög fiskur um hrygg með hverju árinu, en olíuframleiðsluríkin mega hins vegar ekki heyra á slíikt minnst. Í Bonn brugðust þau ókvæða við þessari umræðu. 

Allt þetta gefur vísbendingar um það hvernig stemmningin verður í Aserbædjan. Sem sagt: Erfið. 

Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …