Samfélagsmiðlar

Væntingar og veruleiki

Mikil þróun er í tækni sem draga á úr mengun frá skemmtiferðaskipum, sem er enn mjög mikil og áhyggjuefni yfirvalda víða um heim. FF7 íhugar væntingar og veruleika í þessum efnum í tilefni af því að skip sem taldist umhverfisvænt fyrir áratug staldraði við í Reykjavík í hálfan sólarhring.

Íslenskar rútur og þýskt skip - MYND: ÓJ

Að morgni nýliðins föstudags lagðist að Skarfabakka í Sundahöfn þýska skemmtiferðaskipið Mein Schiff 3, sem er rúmlega 100 þúsund rúmlestir, 293 metra langt, smíðað í Finnlandi fyrir áratug. Þá lýsti eigandi skipsins því yfir að Mein Schiff 3 væri fyrirmyndarskip þegar kæmi að tækni sem bætti nýtingu eldsneytis. Byrjað var að taka tillit til loftslagsumræðunnar, ekki síst í heimalandi skipsins, Þýskalandi.

TUI Cruises er samstarfsverkefni þýsku ferðaskrifstofunnar TUI AG og bandarísku skemmtiferðaskipaútgerðarinnar Royal Caribbean Group. Samsteypan gerir út 16 skip undir merkjum Tui Cruises, Hapag-Lloyd Cruises og Marella Cruises í ferðum um allan heim, þar á meðal kringum Ísland. 

Skipafarþegar koma úr dagsferð – MYND: ÓJ

Sagt var 2014 að skipið nýja, Mein Schiff 3, brenndi allt að þriðjungi minna af olíu en önnur að sambærilegri stærð. Þá var fullyrt að Mein Schiff-skipin væru brautryðjendur í notkun vothreinsibúnaðar (scrubbers), sem á að koma í veg fyrir loftmengun skipa sem brenna svartolíu. Vísindamenn við Chalmers-tækniháskólann í Gautaborg sýndu síðar fram á það að búnaðurinn veldur mikilli mengun í höfnum vegna losunar frá hreinsibúnaðinum. Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í október 2023. Það er ekki allt sem sýnist.

En þarna var Mein Schiff 3 komið að Skarfabakka á föstudagsmorgni. Skipið er skráð fyrir 2.500 farþega og 1.000 manns í áhöfn. Á fjórða þúsund manns gætu hafa verið um borð. Rútufjöldi kom á bakkann að sækja þá farþega sem vildu í land, þeysast um Gullna hringinn eða annað í 12 tíma stoppi. Já, gamla stolt TUI Cruises var horfið um kvöldmatarleytið þennan sama dag. FF7 fylgdist þá með gestunum streyma út úr dísilrútunum, sem komu hver af annarri, og fara um borð í skipið sem beið við bakkann undir eigin vélarafli – ótengt við rafmagn úr landi.

Á heimasíðu útgerðarinnar er ekki að finna upplýsingar sem benda til annars en að Mein Schiff 3 brenni venjulegri svartolíu, þó það sé líklega sparneytnara en mörg önnur 10 ára gömul skip. Hins vegar má lesa á síðu TUI Cruises að næsta skip sem Finnar smíðuðu fyrir útgerðina, Mein Schiff 4, hafi verið fyrsta skipið til að brenna olíu blandaðri að þriðjungi með lífdísil og þannig hafi kolefnisfótspor verið minnkað. Einnig má fræðast um það að nýjasta skipið í flotanum, Mein Schiff 7, sem sjósett var nýverið, brenni einungis þessari vistvænni eldsneytisblöndu (marine diesel) í stað svartolíu, og að í framtíðinni sé gert ráð fyrir að það geti brennt metanóli unnu með sjálfbærum hætti.

Farþegar koma með rútum og hverfa inn í farþegamiðstöðina, sem reist hefur verið til bráðabirgða – MYNDIR: ÓJ

Það má lesa hjá TUI Cruises, eins og á heimasíðum annarra skipafélaga, að töluvert er lagt upp úr því að bregðast við háværri gagnrýni á að farþegaskipin séu mengandi ferðaþjónustufyrirbæri, sem valdi álagi á umhverfi og samfélög.  

Sjósetningu nýjasta skips TUI Cruises, Mein Schiff 7, fagnað á dögunum – MYND: TUI Cruises

„Þegar rætt er um sjálfbærni, þá er Þýskaland kröfuharðasta evrópska markaðssvæðið. Við hjá TUI Cruises höfum sett sjálfbærnikröfuna á oddinn og leitumst við að vera í fararbroddi í nýrri tækni hringrásarhagkerfisins. Árið 2030 stefnum við að því að hafa dregið úr losun CO2 um 27% í skipaútgerð TUI-samsteypunnar,“ er haft eftir Georgios Vagiannis, yfirmanni nýsmíða fyrir TUI Cruises, á heimasíðu Evac, fyrirtækis sem hóf göngu sína í Finnlandi, og sérhæfir sig í fullvinnslu sorps og úrgangs.

Ný tegund búnaðar frá Evac, sem hreinsar og endurnýtir lífrænan úrgang og sorp – án losunar, verður komið fyrir í nýjum skipum TUI Cruises. Úrgangurinn er þurrkaður við 200 gráðu hita og eftir verður næringarrík aska sem nota má til að auka gæði jarðvegs. Eitt skref af mörgum til að bregðast við gagnrýni á kæruleysislega umgengni risaskipanna gagnvart náttúru og lífríki.

Búnaður til að þurrrka blautan lífrænan úrgang í skemmtiferðaskipum – MYND: Evac

Það er sannarlega margt að gerast sem í framtíðinni ætti að gera siglingar skemmtiferðaskipa vistvænni. Enn er þó gríðarmargt óunnið í þeim efnum. Nýjustu skipin eru skást, þau eldri hins vegar börn síns tíma, þegar miklu færri voru meðvitaðir um þvílík losun fylgdi þessum fljótandi stórhótelum – bæði út í andrúmsloft og í hafið. 

„Ég sé fyrir mér að heimsóknir skemmtiferðaskipa verði mengunarlausar. Þau eigi að geta siglt inn á rafhlöðum, hlaðið þær hér, og siglt aftur út á afli frá þeim,“ sagði Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í viðtali við FF7 í apríl. Landtengingar eru nú í boði fyrir leiðangursskipin sem leggjast að á Faxabakka og Miðbakka í gömlu Reykjavíkurhöfn. Innan þriggja ára er stefnt að landtengingu stóru skemmtiferðaskipanna við Skarfabakka – áður en frestur Evrópusambandsins um það rennur út 2030. Þangað til mun reyk frá skipum eins og Mein Schiff 3, og öðrum sem losa mun meira en það, leggja yfir borgina – og aðra viðkomustaði um landið.

Það vakti mikla athygli þegar samtökin Transport & Environment, sem beita sér fyrir vistvænum samgöngum, greindu frá því í fyrra að skemmtiskipaútgerðin losaði jafn mikið af brennisteinsoxíði og einn milljarður bíla. Þau lönd sem verða fyrir mestum áhrifum af þessari losun eru Ítalía, Spánn, Grikkland og Noregur. Niðurstöður rannsóknar Transport & Environment sýndi að skemmtiferðaskip sem sigldu milli Evrópulanda árið 2022 losuðu 8 milljónir tonna af CO2 sem svarar til 50 þúsund flugferða á milli Parísar og New York. Og jafnvel umskiptin yfir í fljótandi gas (LNG), sem á að vera hreinna eldsneyti en kol og olía, hefur leitt til fimmföldunar á losun metans og þannig stuðlað að loftslagsbreytingum.

Nokkrar hæðir í Mein Schiff 3. Einhverjir urðu eftir um borð – MYND: ÓJ

Þeim fjölgar viðkomustöðum skemmtiferðaskipanna sem reisa hömlur við komum þeirra til að draga úr mengun og ágangi: Feneyjar, Palma, Santorini, Dubrovnik, Barselóna og síðast Amsterdam eru hafnir sem hafa ákveðið að grípa í taumana. En á Íslandi eru menn feimnir við að setja stíf mörk, telja líklega að það myndi skaða bissnissinn.

Í áðurnefndu viðtali sagði hafnarstjóri Faxaflóahafna raunar að það væri ekki markmiðið að fjölga skipakomum heldur auka tekjurnar af komu hvers farþega með aukinni þjónustu. „Hitt markmiðið er að draga hratt og örugglega úr umhverfisáhrifum skipanna, sem eru töluverð í dag. Stórar dísilvélar eru í gangi nánast inni í miðri borg. Þetta er vandamál út um allan heim.“

Þessi ummæli hafnarstjórans rifjuðust upp þegar horft var á eftir síðustu þýsku ferðamönnunum ganga um borð í Mein Schiff 3.

„Skipið mitt“ er einfalt nafn á farkosti sem flytur á fjórða þúsund manns, farþega og skipverja, kringum Ísland og víðar um heim. Það er hins vegar „okkar vandi“ hversu mikið þetta skip sem og aðrir farkostir ferðaþjónustunnar menga.

Nýtt efni

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …

Á fyrri helmingi ársins komu aðeins færri Bandaríkjamenn til Íslands en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir tíðari flugferðir. Há verðbólga vestanhafs er væntanlega ein af skýringunum á þessum samdrætti enda hafa skuldsettir Bandaríkjamenn nú minna á milli handanna. Nú gæti hagur þess hóps vænkast því verðlag í Bandaríkjunum lækkaði meira í síðasta mánuði …

Vestanhafs er hefur ekkert flugfélag verið rekið með meiri hagnaði en Delta síðustu ár. Á nýafstöðnum öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, voru tekjur félagsins hærri en nokkru sinni áður á þessum hluta árs en aftur á móti var kostnaðurinn líka hærri. Þar með lækkaði hagnaðurinn um 30 prósent á milli ára samkvæmt uppgjöri sem flugfélagið …