Ef við lítum svo á að jarðarbúar ættu að axla jafna ábyrgð á þeirri kolefnislosun sem bætast má við án þess að meðalhiti hækki um meira en 1,5°C þá kláraði ríkasta eina prósentið sinn skammt áður en 10 dagar voru liðnir af nýja árinu. Nú ættu þessar 77 milljónir manna: milljarðamæringar, milljónamæringar – og raunar allir með kaupmátt upp á jafnvirði um 19 milljóna íslenskra króna árlega – að hafa hægt um sig alla 355 dagana sem eftir eru af árinu.
Þetta eru niðurstöður útreikninga sem mannúðarsamtökin Oxfam hafa látið gera. Þau nefna þennan áfanga Pollutocrat Day, eða bara Auðsóðadaginn, til að undirstrika hvernig ábyrgðin á losuninni deilist ójafnt niður á íbúa jarðar. Losunin er knúin áfram af hinum ofurríku. Það tekur fátækari helming jarðarbúa næstum þrjú ár, eða 1.022 daga, að nýta sinn hluta árlegrar kolefnislosunar.
Á meðan ríkasta eina prósentið er ábyrgt fyrir yfir tvöfalt meiri kolefnislosun en fátækasti helmingur mannkyns er það einmitt fólkið sem minnst hefur stuðlað að loftslagsbreytingum sem verður verst fyrir áhrifum þeirra. Oxfam segir að ef ná eigi hinu lífsnauðsynlega markmiði að hitastig aukist ekki umfram 1,5°C verði ríkasta eina prósentið að hafa dregið úr losun sinni um 97% árið 2030:
„Framtíð jarðar er mjög óviss. Engu að síður leyfist hinum ofurríku að ógna framtíð mannkyns með eyðslusömum lífsstíl og fjárfestingum sem menga. Ríkisstjórnir verða að hætta að dekra ríkustu mengunarvaldana en láta þá í staðinn greiða sanngjarnan hlut fyrir þá eyðileggingu sem þeir standa fyrir. Leiðtogar sem bregðast ekki við bera sína ábyrgð á hörmungum sem ógna lífi milljóna manna,“ segir Chiara Liguori, ráðgjafi Oxfam í Bretlandi, sem vill að notkun hinna ofurríku á snekkjum og einkaþotum verði skattlögð í þágu aðgerða til stuðnings þeim sem gjalda fyrir loftslagslagsbreytingar.

Einkasnekkjur á Eyjahafi – MYND: ÓJ
Oxfam hefur reiknað út að umhverfisskattar á snekkjur og einkaþotur í Bretlandi hefðu getað aflað sem svarar 335 milljörðum íslenskra króna árið 2023 og nýst í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Samtökin hafa áætlað að 50 ríkustu milljarðamæringar heimsins skilji að meðaltali á innan við þremur klukkustundum eftir dýpra kolefnisspor með fjárfestingum sínum, snekkjum og einkaþotum en meðal Bretinn gerir á allri ævi sinni.