Ríkisstjórnin boðar frumvarp til breytingar á lögum sem snúa að skammtímaleigu á húsnæði. Þetta kom fram í kynningu á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Umfang útleigu á húsnæði til ferðafólks hefur lengi verið mikið hér á landi og sérstaklega í gegnum fyrirtæki eins og Airbnb.
Þessi bandaríska gistimiðlun veitir ekki upplýsingar um umsvif sín í hverju landi fyrir sig en greiningarfyrirtækið Airdna fylgist náið með umsvifum Airbnb á hinum ýmsu mörkuðum, þar á meðal hér á landi.
Nýjar tölur sem Airdna tók saman fyrir FF7 sýna að framboð á gistikostum í gegnum Airbnb hér á landi jókst um sjö prósent árið 2024.
Að jafnaði var fyrirtækið með 7.134 íslenska gistikosti á boðstólum í fyrra sem er viðbót um 7 prósent frá árinu undan. Framboðið var enn þá meira árið fyrir heimsfaraldur eins og sjá má á grafinu. Um 36 prósent af framboðinu í fyrra var í Reykjavík eða 2.559 gistirými á mánuði að jafnaði.
Í frumvarpinu sem ríkisstjórnin boðaði í síðustu viku verður lagt til að sýslumaðurinn fái heimild til að afla „upplýsinga frá Skattinum er lúta að tekjum, gjöldum og öðrum atriðum er kunna að skipta máli vegna eftirlits sýslumanns með skammtímaleigu.“ Eftirlitið verður sem sagt aukið með leigutekjum fólks.
Önnur breyting snýr að skráningu á skammtímaleigu en reglan er sú að allir þeir sem leigja út húsnæði til skemmri tíma eigi að vera með sérstakt leyfi. Í boðuðu frumvarpi verður þessi leyfisveiting takmörkuð við lögheimili og frístundahús leigusalans. Það verður því ekki tekið við skráningu á húsnæði sem fasteignaeigandinn nýtir ekki persónulega.
Það liggur þó ljóst fyrir að stór hópur fólks sem leigir út húsnæði í gegnum Airbnb hefur ekki látið skrá sig á þennan opinbera lista sem Sýslumaðurinn heldur utan um. Í dag eru um 850 leyfi í gildi.
Þriðja breytingin sem ríkisstjórnin boðar snýr að þeim sem stunda skammtímaleigu á húsnæði sem atvinnurekstur. Nú verða rekstrarleyfin tímabundin til fimm ára ef um er að ræða fasteignir í þéttbýli. Í dag eru rekstrarleyfin ótímabundin.
Til viðbótar við þessar þrjár breytingar þá verður í frumvarpinu kveðið á um að stjórnvöld hér á landi taki til skoðunar þær breytingar sem nýverið voru innleiddar innan Evrópusambandsins á gagnaöflun um skammtímaleigu. Það er nefnilega víðar en hér á landi sem reynt er að takmarka umsvifin í skammtímaleigu til túrista.
Með áskrift getur þú lesið greinina - 50% afsláttur: 3 mánuðir á 3.975 krónur
Nú færðu aðgang að öllum greinum FF7 með 50% afslætti í 3 mánuði. Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 3 mánuði á fullu verði (2.650 kr. á mánuði) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: