Spurningarnar sem erlendir greinendur vildu svör við á uppgjörsfundi Alvotech

Sem fyrr kveða íslenskir greinendur sér ekki hljóðs á uppgjörsfundum Alvotech, verðmætasta fyrirtækisins í Kauphöllinni. Fulltrúar erlendra fjármálafyrirtækja eiga því sviðið og spurningar þeirra til stjórnenda Alvotech á uppgjörsfundi vikunnar voru nokkuð krefjandi að mati Helga Frímannssonar. 

Stjórnendur Alvotech sem sátu fyrir svörum á fundi vikunnar, frá vinstri: Anil Okay, Linda Jónsdóttir og Róbert Wessman. MYNDIR: ALVOTECH

Á fimmtudaginn fór fram uppgjörsfundur Alvotech vegna annars ársfjórðungs 2025. Róbert Wessman forstjóri og Linda Jónsdóttir nýr fjármálastjóri kynntu uppgjörið og svöruðu spurningum greinenda ásamt Anil Okay, framkvæmdastjóra sölu og markaðsmála.

Þrír greiningaraðilar frá alþjóðlegum fjármálastofnunum komu með nokkuð krefjandi spurningar sem sneru að áætlunum stjórnenda um tekjur og rekstrarhagnað fyrir árið. Einnig var spurt um markaðsaðstæður og samskipti við eftirlitsaðila. Sem fyrr á opnum uppgjörsfundum (earnings call) félagsins bárust engar spurningar frá íslenskum greinendum.

Fyrstur var fulltrúi sænska SEB-bankans en Alvotech hefur verið skráð á Nasdaq-markaðinn í Stokkhólmi frá því í maí sl.

Christopher Uhde (SEB): Hvernig líta stjórnendur á tekjuspá ársins í ljósi tekju- og rekstrarniðurstöðu á öðrum ársfjórðungi og er gert ráð fyrir uppfærslu áætlunar á þeim þriðja?
Svar frá Lindu Jónsdóttur: Sterk þróun á fyrri hluta árs með tekjuvexti í vörusölu og jákvæðum rekstrarhagnaði EBITDA. Áfangatekjur eru sveiflukenndar, svipað og 2024, og gert er ráð fyrir veikum þriðja ársfjórðungi í bæði vöru- og áfangatekjum en mun sterkari fjórða ársfjórðungi. Engar breytingar eru á áætlunum eins og er.

Christopher Uhde: Vöxtur AVT02 (Humria) hjá Quallent söluaðilanum í Bandaríkjunum – hefur hann verið hámarkaður?
Svar frá Anil Okay: Samningur er í gildi, en áhersla á verðmæti umfram magn. Góð sala á fyrri hluta árs en síðari hluti árs verður krefjandi.

Christopher Uhde: Má búast við fréttatilkynningum um niðurstöður bandaríska lyfjaeftirlitsins FDA fyrir AVT03, AVT05, AVT06?
Svar frá Róberti Wessman: Eftirlit er hluti af hefðbundnu ferli og verksmiðjan hefur farið í gegnum bandaríska, evrópska og japanska eftirlitsaðila margoft. Tvö FDA-eftirlit fóru fram árið 2024 og gengu vel.

Næstu spurningar komu frá Ashwani Verma sem sérhæfir sig í lyfjafyrirtækjum hjá stórbankanum UBS. Hans fyrsta spurning snéri að afkomuspá stjórnenda Alvotech en eigi hún að ganga eftir þarf hagnaðurinn á seinni hluta ársins að vera umtalsvert meiri en á fyrri hlutanum.

Ashwani Verma (UBS): Er afkomuspá ársins, 600-700 milljónir dollara í tekjur og 200-280 milljónir dollara rekstrarhagnað, óbreytt í ljósi 306 milljóna dollara tekna og 54 milljóna dollara rekstrarhagnaðar á fyrri hluta ársins?
Svar frá Róberti Wessman: Spáin er óbreytt og í takt við eða aðeins betri en væntingar. Það verða áfram sveiflur milli ársfjórðunga og við gerum ráð fyrir sterkum 4F 2025 eins og 2024.

Ashwani Verma: Þið teljið markaðshlutdeild Humira í Bandaríkjunum fari úr 40% í 50% við árslok, hvernig áætlið þið þróunina áfram á næsta ári? Hlutdeild samheitalyfja við Stelara er um 20% núna, hvernig sjáið þið það þróast út árið?
Svar frá Anil Okay: Humira var með um 30% vöxt milli ára í Evrópu, drifinn áfram af Frakklandi. Staðan er sterk í Bandaríkjunum og Alvotech er í topp 3 í markaðshlutdeild samheitalyfja Humira ásamt Sandoz og Organon. Vöruafhendingar til söluaðilanna Quallent og Teva eru samkvæmt áætlun. Stelara er í fyrsta eða öðru sæti á lykilmörkuðum og áframhaldandi vöxtur er fyrirséður. Innkoman á bandaríska markaðinn er vel heppnuð og í takt við áætlanir. Aukin dreifing til sjálfstæðra aðila í gegnum Teva.

Þriðji og síðasti greinandinn til að bera fram spurningar var frá bandaríska lánasjóðnum Northland Capital Markets. 

Carl Edward Byrnes (Northland Capital Markets): Hafið þið áhyggjur af því að niðurstöðum markaðsumsókna frá FDA vegna AVT03 (Prolia/Xgeva), AVT05 (Simponi), og AVT06 (Eylea) í Bandaríkjunum, sem eru væntanlegar fyrir árslok, gæti seinkað til 2026?
Svar frá Róberti Wessman: Stefnt ert að niðurstöðum um samþykki frá FDA svokallað BsUFA (Biosimilar User Fee Amendments) á þessu ári og sögulega séð eru litlar líkur á seinkun.

Carl Edward Byrnes: Er áætlun seinni hluta ársins raunhæf? Miðgildi afkomuspár ársins um vörusölu er 375 milljónir dollara og salan var 205 milljónir dollara á fyrri hluta ársins, sem þýðir að 170 milljónir dollara vantar upp í miðgildið. Varðandi áfangatekjur þá voru þær um 100 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins og miðgildi áætlunar er 275 milljónir dollarar. Þar vantar því 175 milljónir dollara á seinni hluta ársins.
Svar frá Róberti Wessman: Já, venjulega eru áfangagreiðslur tengdar samþykki á markaðsleyfum og vörusendingum. Þetta styður sterka spá fyrir fjórða ársfjórðung.

Fleiri voru spurningarnar ekki en gengi hlutabréfa Alvotech lækkaði um nærri 8 prósent í kjölfar birtingar uppgjörsins en hækkaði svo aðeins í gær. Lækkun ársins nemur nú 43 prósentum.

Alvotech birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs eftir lokun markaða þann 12. nóvember næstkomandi og fróðlegt verður að fylgjast með fréttum af umsóknum um markaðsleyfi fyrir þau þrjú lyf sem bíða afgreiðslu hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu. Litlar líkur eru á að félagið uppfæri afkomuspá fyrr en eftir áramót þegar vöruframboðið gæti hafa aukist úr tveimur lyfjum í fimm.

Þetta eru helstu niðurstöður uppgjörsins fyrir annan ársfjórðung:

Helstu atriði rekstrarins voru að tekjur á fyrri helming ársins jukust um 30% milli ára og námu 306 milljónum dollara, drifið áfram af meira en 200% vexti í vörutekjum sem námu 205 milljónum dollara sem komu aðallega frá sölu AVT02 (Humira) og AVT04 (Stelara). 

Tekjur á öðrum ársfjórðungi voru 173 milljónir dollara þar af 95 milljónir dollara í vörusölu og 78 milljónir dollara í áfangatekjur. Aðlagaður rekstrarhagnaður (Adj. EBITDA) nam 54 milljónum dollara fyrir fyrri hluta ársins og 18 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi.

Jákvætt sjóðstreymi frá rekstri náði 77 milljónum dollara á fyrri hluta ársins þar af 59 milljónum dollara í öðrum fjórðungi sem er sterkasti ársfjórðungur hingað til.

Í lok annars ársfjórðungs var reiðufé 151 milljón dollara og skuldir 1.139 milljónir dollara. Vextir á eignatryggðum lánum lækkuðu í SOFR (viðmiðunarvextir í dollar) að viðbættu 6% álagi sem sparar um 8,2 milljónir dollara í vexti á næstu 12 mánuðum.

Samheitalyfið AVT02 (Humira): Góð aukning markaðshlutdeildar í Evrópu. Hlutfall samheitalyfja við Humira í Bandaríkjunum er orðið um 40% og búist er við að það nái 50% fyrir árslok; Alvotech er með næststærstu markaðshlutdeild á bandaríska markaðnum. Lyfið er selt í 33 löndum og samþykkt í 67 löndum.

Samheitalyfið AVT04 (Stelara): Umfram væntingar stjórnenda í Evrópu (fyrsta eða annað sæti á lykilmörkuðum). Sala í Bandaríkjunum hófst í febrúar; hlutdeild samheitalyfja við Stelara er þar um 20% sem er í takt við spár. Verðsamkeppni á Stelara-markaðnum er afar hörð þar sem sumir samkeppnisaðilar bjóða verð sem ekki eru talin vera sjálfbær til lengri tíma litið. Stefna Alvotech felst í því að leggja áherslu á framlegð vörunnar fremur en magn.

Markaðsumsóknir í umsagnarmeðferð fyrir samheitalyfin AVT03 (Prolia/Xgeva), AVT05 (Simponi), og AVT06 (Eylea) og búist við niðurstöðum fyrir lok árs 2025.

Greinarhöfundur hefur 20 ára reynslu á fjármálamarkaði, bæði sem sérfræðingur í eignastýringu og verðbréfamiðlari hjá Arion banka, og er nú einn af forsvarsmönnum kauphallarsjóðsins GlacierShares Nasdaq Iceland ETF.

Með áskrift getur þú lesið greinina - Tilboð: Áskrift í 1 ár fyrir 19.500 kr. - fullt verð 25.440 kr.

Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 1 ár á fullu verði en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]

Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.

 

Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér:

 

Nýtt efni

Innflutningur Evrópusambandsins á fljótandi jarðgasi frá Rússlandi jókst verulega á fyrri helmingi ársins, þrátt fyrir stríðsrekstur landsins í Úkraínu. Samkvæmt hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, var á fyrstu sex mánuðum ársins keypt jarðgas fyrir 640 milljarða króna frá Rússlandi. Þetta var aukning um næstum 30 prósent frá sama tímabili í fyrra. Evrópusambandið hefur sett viðskiptabann á rússneska …

Ferðamannastraumurinn hefur því aukist í ár og það sama má segja um notkun erlendra greiðslukorta hér á landi. Fyrstu sjö mánuði ársins nam erlenda kortaveltan 208,5 milljörðum króna. Það er viðbót um 7 prósent, eða nærri 14 milljörðum króna, frá sama tíma í fyrra samkvæmt tölum Seðlabankans. Eins og sjá má hér fyrir neðan þá …

Flugvél SAS á leið frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar þurfti í gærkvöldi að millilenda í Bergen til að losa sig við fullan farþega. „Viðkomandi var of ölvaður til að bera ábyrgð á sjálfum sér og var settur í fangageymslu,“ upplýsti lögreglan í Bergen skömmu fyrir miðnætti í gær samkvæmt frétt norsku fréttaveitunnar NTB. Lögreglan hefur engar …

Um þarsíðustu helgi hélt dagskrá Keflavíkurflugvallar í öllum tilvikum nema einu þegar Icelandair aflýsti flugi til Nerlerit Inaat eða Constable Point flugvallar á austurströnd Grænlands. Reglulega þarf að fella niður ferðir til nágrannalandsins vegna veðurskilyrða og til marks um það þá felldi Icelandair niður fjögur flug til Nerlerit Inaat í síðasta mánuði. Um nýliðna helgi …

Nú eru hlutfallslega fleiri ferðamenn í þotunum sem lenda á Keflavíkurflugvelli en í fyrra og þar með færri sæti fyrir þá sem aðeins millilenda hér á landi á leið sinni yfir milli Evrópu og Norður-Ameríku. Í júlí voru taldir 252 þúsund tengifarþegar á Keflavíkurflugvelli, eða þriðjungi færri en á sama tíma í fyrra. Ef miðað …

Á fimmtudaginn fór fram uppgjörsfundur Alvotech vegna annars ársfjórðungs 2025. Róbert Wessman forstjóri og Linda Jónsdóttir nýr fjármálastjóri kynntu uppgjörið og svöruðu spurningum greinenda ásamt Anil Okay, framkvæmdastjóra sölu og markaðsmála. Þrír greiningaraðilar frá alþjóðlegum fjármálastofnunum komu með nokkuð krefjandi spurningar sem sneru að áætlunum stjórnenda um tekjur og rekstrarhagnað fyrir árið. Einnig var spurt …

Fulltrúar 180 landa hafa síðustu daga fundað í Genf í Sviss í þeim tilgangi að ná samkomulagi á heimsvísu um takmarkanir á plastnotkun. Fundarhöldum lauk fyrr í dag án niðurstöðu. „Það eru vonbrigði að fundi var slitið án samkomulags. Ísland vildi sjá metnaðarfullan samning og var hluti af Metnaðarbandalagi ríkja (High Ambition Coalition - HAC) …

Tveir af stærstu hluthöfum Play, þeir Einar Örn Ólafsson forstjóri og Elías Skúli Skúlason varaformaður stjórnar, féllu í byrjun júlí frá yfirtökutilboði sínum í flugfélagið og samhliða því var gefið út að „stærstu eigendur félagsins og aðrir íslenskir fjárfestar” ætluðu að kaupa breytanleg skuldabréf í Play að andvirði 2.425 milljóna króna, eða 20 milljónir Bandaríkjadollara …