Rekstrartekjur skráðu fasteignafélaganna fjögurra Eikar, Heima, Kaldalóns og Reita námu samtals um 25 milljörðum króna á fyrri helmingi árs 2025 samkvæmt nýbirtum uppgjörum. Það er 9,5% aukning frá sama tímabili í fyrra.
Hlutfallslega var tekjuaukningin mest hjá Kaldalóni eða 23,7%. Reitir bættu við sig 833 milljónum króna í tekjur sem jafngildir 10,5% aukningu. Eik fasteignafélag eykur tekjur sínar um 8,5% á fyrri helmingi ársins en að þessu sinni var tekjuaukningin minnst hjá Heimum í krónum og prósentum talið.
Það síðastnefnda hækkar tekjuáætlun sína hins vegar mest allra eða um 850 milljónir króna og segja stjórnendur þess að þar muni mest um leigutekjur vegna tveggja nýlegra viðskipta sem stækka eignasafn félagsins um 30 þúsund fermetra.
Ágæt tekjuaukning skilar sér ekki eins vel niður í rekstrarhagnaðinn sem má rekja til aukins kostnaðar við starfsemina. Samtals var rekstrarhagnaður félaganna fyrir matsbreytingu 16,5 milljarðar króna sem er 1,2 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra eða 7,9% aukning.
Kaldalón náði að auka rekstrarhagnaðinn um 384 milljónir, sem skilar 23% aukningu, en Reitir bættu rekstrarhagnað sinn um 432 milljónir króna, sem er 8,2% hærra en á sama tíma í fyrra. Mun minni hækkun var á hagnaði af rekstrinum hjá Eik (4,9%) og Heimum (4,5%).
Samhliða 6 mánaða uppgjörum uppfærðu félögin öll áætlanir sínar um tekjur ársins og rekstrarhagnað fyrir matsbreytingu og afskriftir.
Eik
Ný afkomuspá: Rekstrartekjur 12.270 – 12.650 milljónir króna (áður spáð 12.055 – 12.545 millj. kr.) og rekstrarhagnaður 7.735 – 7.975 milljónir króna (var 7.620 – 7.940 m.kr.).
Uppfærðar horfur taka m.a. mið af samkomulagi sem félagið gerði á öðrum ársfjórðungi við einn leigutaka um slit á leigusamningi sem hefur um 80 m.kr. áhrif til lækkunar í ár.
Heimar
Ný afkomuspá: Rekstrartekjur 15.200-15.500 milljónir króna (áður spáð 14.400-14.600 m. kr.) og rekstrarhagnaður 10.800-11.100 milljónir króna ( var 10.300-10.500 m. kr.).
Skýring á hækkuninni liggur í tveimur stórum viðskiptum á fyrri hluta árs, kaupum á Grósku og fasteignum Exeter-hótelsins í Tryggvagötu.
Kaldalón:
Ný afkomuspá: Rekstrartekjur 5.500-5.670 milljónum króna (fyrri spá 5.350-5.550 m. kr.) og rekstrarhagnaður 4.270-4.430 milljónir króna (var 4.200-4.350 m. kr.).
Tekjuspá er meðal annars hækkuð vegna kaupa á eignum sem eru í útleigu og því gert ráð fyrir tekjum á bilinu.
Reitir:
Ný afkomuspá: Rekstrartekjur 17.900-18.200 milljónir króna (áður spáð 17.700-18.000 m. kr.) og rekstrarhagnaður á bilinu 11.850-12.150 milljónir króna (var 11.750 – 12.050 m. kr.).
Uppfærðar horfur byggja á fjárfestingum ásamt endurnýjun leigusamninga þar á meðal tveggja hótela, Natura hótelsins við Reykjavíkurflugvöll og Nordica við Suðurlandsbraut.
Öll lækkað í ár
Markaðsvirði fasteignafélaganna fjögurra nam samtals um 222 milljörðum króna og hefur gengi hlutabréfa þeirra lækkað frá áramótum eftir miklar hækkanir í fyrra. Mest hafa bréf Kaldalóns lækkað eða um tæp 10% á meðan hlutabréfaverð Eikar er nánast óbreytt frá áramótum eins og sjá má hér fyrir neðan. Til viðmiðunar hefur gengi úrvalsvísitölunnar OMXI15 lækkað um 9,71% frá áramótum.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Tilboð: Áskrift í 1 ár fyrir 19.500 kr. - fullt verð 25.440 kr.
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 1 ár á fullu verði en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: