Samfélagsmiðlar

Túristi vill betri upplýsingar

Beiðnum um greinargóðar upplýsingar um farþegaflug til og frá landinu hefur sífellt verið hafnað af Isavia. Málinu hefur því verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Útgefandi Túrista hefur sent kæru á hendur Isavia ohf. til úrskurðarnefndar upplýsingamála sökum þess hve erfiðlega gengur að fá upplýsingar frá fyrirtækinu. Upplýsingar sem flugmálayfirvöld víða um heim veita fúslega í einni eða annarri mynd.

Málavextir eru raktir í kærunni sem er hér að neðan:

Allt frá árinu 2011 hefur Túristi gert daglegar talningar á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli. Um hver mánaðarmót birtast svo fréttir á miðlinum, byggðar á þessum upplýsingum, þar sem fram kemur hvert vægi hvers flugfélags er í brottförum talið. Upplýsingar um fjölda ferða til ákveðinna áfangastaða birtast líka reglulega í greinunum.

Þessar samantektir Túrista eru líklega einu opinberu gögnin sem til eru um flugumferð til og frá landinu þar sem hvorki Isavia ohf. né Samgöngustofa birta sambærilegar upplýsingar. Isavia birtir hins vegar mánaðarlega upplýsingar um heildarfjölda farþega á Keflavíkurflugvelli.

Víða um heim veita flugmálayfirvöld hins vegar greinargóðar upplýsingar um flugumferð í sínum löndum. Þannig hef ég endurtekið sótt upplýsingar frá bandarískum flugmálayfirvöldum um fjölda sæta og fjölda farþega á hverri einustu flugleið, brotið niður á tímabil og flugfélög sem fljúga til og frá viðkomandi áfangastað. Með þessum hætti má t.d. nálgast nákvæmar upplýsingar um sætaframboð og -nýtingu í áætlunarflugi milli Íslands og Bandaríkjanna

Þessar upplýsingar er með öðrum orðum hægt að fá sundurliðaðar eftir flugfélögum, áfangastöðum og mánuðum. Þannig er t.d. hægt að sjá hversu margir nýttu sér ferðir Icelandair til Seattle í ákveðnum mánuði og hversu mörg auð sæti voru í umræddum ferðum. Sömu upplýsingar er hægt að fá um ferðir WOW air til San Franscisco o.s.frv. Einu takmarkanirnar á þessari upplýsingagjöf bandarískra yfirvalda eru þær að tölurnar eru fyrst gerðar opinberar þegar þær eru orðnar sex mánaða gamlar.

Hinu megin Atlantshafsins birta bresk flugmálayfirvöld mánaðarleg uppgjör á heimasíðu sinni þar sem fram kemur hversu margir flugu milli Íslands og breskra flugvalla. Farþegafjöldinn er enn fremur flokkaður niður eftir áætlunar- og leiguflugi.

Til enn frekari samanburðar birta dönsk flugmálayfirvöld upplýsingar um fjölda farþega eftir flugleiðum og ef litið er til Kastrup flugvallar í Kaupmannahöfn þá eru birt gögn sem sýna fjölda farþega á 10 fjölmennustu flugleiðunum og fjölda farþega hjá 20 stærstu flugfélögunum.

Eins og framangreint leiðir í ljós þá er upplýsingagjöfin ekki sú sama hjá þessum þremur þjóðum, en í öllum tilfellum þykir sjálfsagt að birta ákveðnar upplýsingar. Slíkar upplýsingar varða almenning og hefur vefritið Túristi byggt fjölmargar greinar á þessum tilteknu upplýsingum. Þær greinar hafa vakið athygli og umræðu í þjóðfélaginu, enda eru flugumferð og ferðaþjónusta lykilatvinnugreinar og varðar staða hennar og þróun almenning miklu.

Verði þessar upplýsingar gerðar opinberar, líkt og tíðkast í fjölmörgum löndum, fæst betri mynd af því hvernig farþegar sem fljúga til og frá landinu skiptast á milli flugleiða og flugfélaga. Þá er enn fremur hægt að greina skiptingu milli innlendra og erlendra flugfélaga. Slíkar upplýsingar geta ásamt því að vera fréttnæmar fyrir almenning varðað rekstraraðila í ferðaþjónustu miklu auk þess sem þær eru grundvöllur rannsókna á þróun og stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og flugrekstrar.

Ég hef ítrekað óskað eftir því Isavia ohf. að aðgangur verði veittur að sambærilegum upplýsingum um flugumferð um Keflavíkurflugvöll, en þeirri beiðni hefur endurtekið verið synjað. Er mér því nauðugur sá kostur að skjóta afstöðu Isavia ohf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Rökstuðningur:

Eins og áður er rakið hefur Isavia ohf. endur tekið hafnað beiðni um að veita umræddar upplýsingar. Sú synjun hefur ekki verið ítarlega rökstudd, heldur eingöngu vísað til þess að um viðskiptaupplýsingar sé að ræða.

Verður að ganga út frá því að Isavia ohf. sé þar að byggja afstöðu sína á 2. málslið 1. mgr. 9.gr. upplýsingalaga sem heimilar takmörkun á upplýsingarétti er varðar mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Því er ekki borið við að umrædd gögn séu ekki til, eða að þeirra þurfi að afla sérstaklega.

Ég tel umrædda afstöðu ganga þvert gegn tilgangi upplýsingalaga eins og hann er útlistaður í lögunum sjálfum. Í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 9. gr., þ.e. viðskiptahagsmuni:

„Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi.“

Það er óskiljanlegt að íslensk flugmálayfirvöld telji að upplýsingar sem eru birtar á greinargóðan hátt í öðrum löndum séu sérstakar viðskiptaupplýsingar sem óheimilt sé að birta almenningi. Skilmerkilegar upplýsingar um farþegafjölda sem ferðast milli landa eru ekki viðskiptaleyndarmál og alls ekki þess eðlis að opinberum aðila á borð við Isavia ohf. beri að halda þeim frá almenningi. Nægir þar að vísa til þeirrar stöðu sem farþegaflutningar og ferðaþjónustu skipar í íslensku hagkerfi, sem og tilgangs upplýsingalaga.

Samantekt:

Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að úrskurðað verði að Isavia ohf. sé skylt að birta upplýsingar um framboð á flugsætum og farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll, sundurgreint niður á flugrekstraraðila og tímabil.

Séu slíkar upplýsingar ekki tiltækar er til vara þess krafist að Isavia ohf. verði gert skylt að birta eins greinargóðar og niðurbrotnar upplýsingar og fyrir liggja um flugumferð og farþegaflutninga til og frá Keflavíkurflugvelli.

Í báðum tilfellum að upplýsingarnar nái a.m.k. 5 ár aftur í tímann.

Virðingarfyllst,

Kristján Sigurjónsson, útgefandi Túrista.

Nýtt efni

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …

Í marsmánuði fór fjöldi erlendra ferðamanna í Japan í fyrsta skipti yfir 3 milljónir, samkvæmt tölum sem birtar voru í síðustu viku. Um 2,7 milljónir komu í febrúar. Auðvitað nýtur japönsk ferðaþjónusta nú uppsafnaðrar löngunar erlendra ferðamanna á að heimsækja loks Japan eftir langvarandi lokun og ferðahindranir í tengslum við Covid-19 en það er ekki …

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands var heiðraður á ársfundi Meet in Reykjavik í gær. Hann leiddi til sigurs umsókn Íslands um að fá ráðstefnuna „International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS)“ til Reykjavíkur í júlí 2027. Gert er ráð fyrir að 2.500 erlendir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna …

United Airlines tilkynntu í gær um betri afkomu en vænst var á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur í framhaldi af því að tapið á fyrsta fjórðungi var minna en óttast hafði verið. Megin ástæða þess að vel gengur er einfaldlega mikill áhugi á ferðalögum. Hlutabréf í United hækkuðu strax í fyrstu viðskiptum eftir að tilkynnt var …

Japanskir bílaframleiðandur hafa dregist aftur úr nýrri fyrirtækjum á borð við bandaríska Tesla og kínverska BYD í þróun rafbílasmíði. En menn velta því fyrir sér hvort japanskir framleiðendur á borð við Toyota og Nissan verði ekki fljótir að vinna upp það forskot - og jafnvel ná forystu - með þróun nýrrar gerðar rafhlaðna, sem vonir …

„Viltu nýjan bíl? Ef svarið er já, þá þurfum við að finna pening til að kaupa bílinn. Við getum aflað hans með sjávarútvegi en sú grein er takmörkuð og margir vilja setja skorður á fiskeldi. Til að auka framleiðslu á málmum þarf meiri raforku. Þá er það ferðaþjónustan sem er eftir og því þarf að …

Yfir veturinn eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en fyrstu þrjá mánuði þessa árs innrituðu 109 þúsund breskir farþegar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Fjöldinn stóð í stað frá sama tíma í fyrra en hins vegar fjölgaði brottförum útlendinga um tíund þessa þrjá mánuði. Efnahagsástandið í Bretlandi kann að skýra að það …

Því var fagnað í gær að undirrituð hefði verið viljayfirlýsingu um að Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum ætluðu að byggja og reka fjögurra stjörnu hótel við Skógarböðin í Eyjafirði gegnt Akureyri. Á væntanlegu baðhóteli verða 120 herbergi. Sjallinn - MYND: Facebook-síða Sjallans Íslandshótel hafa líka haft áform um að reisa hótel í miðbæ Akureyrar, þar …