Samfélagsmiðlar

Túristi vill betri upplýsingar

Beiðnum um greinargóðar upplýsingar um farþegaflug til og frá landinu hefur sífellt verið hafnað af Isavia. Málinu hefur því verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Útgefandi Túrista hefur sent kæru á hendur Isavia ohf. til úrskurðarnefndar upplýsingamála sökum þess hve erfiðlega gengur að fá upplýsingar frá fyrirtækinu. Upplýsingar sem flugmálayfirvöld víða um heim veita fúslega í einni eða annarri mynd.

Málavextir eru raktir í kærunni sem er hér að neðan:

Allt frá árinu 2011 hefur Túristi gert daglegar talningar á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli. Um hver mánaðarmót birtast svo fréttir á miðlinum, byggðar á þessum upplýsingum, þar sem fram kemur hvert vægi hvers flugfélags er í brottförum talið. Upplýsingar um fjölda ferða til ákveðinna áfangastaða birtast líka reglulega í greinunum.

Þessar samantektir Túrista eru líklega einu opinberu gögnin sem til eru um flugumferð til og frá landinu þar sem hvorki Isavia ohf. né Samgöngustofa birta sambærilegar upplýsingar. Isavia birtir hins vegar mánaðarlega upplýsingar um heildarfjölda farþega á Keflavíkurflugvelli.

Víða um heim veita flugmálayfirvöld hins vegar greinargóðar upplýsingar um flugumferð í sínum löndum. Þannig hef ég endurtekið sótt upplýsingar frá bandarískum flugmálayfirvöldum um fjölda sæta og fjölda farþega á hverri einustu flugleið, brotið niður á tímabil og flugfélög sem fljúga til og frá viðkomandi áfangastað. Með þessum hætti má t.d. nálgast nákvæmar upplýsingar um sætaframboð og -nýtingu í áætlunarflugi milli Íslands og Bandaríkjanna

Þessar upplýsingar er með öðrum orðum hægt að fá sundurliðaðar eftir flugfélögum, áfangastöðum og mánuðum. Þannig er t.d. hægt að sjá hversu margir nýttu sér ferðir Icelandair til Seattle í ákveðnum mánuði og hversu mörg auð sæti voru í umræddum ferðum. Sömu upplýsingar er hægt að fá um ferðir WOW air til San Franscisco o.s.frv. Einu takmarkanirnar á þessari upplýsingagjöf bandarískra yfirvalda eru þær að tölurnar eru fyrst gerðar opinberar þegar þær eru orðnar sex mánaða gamlar.

Hinu megin Atlantshafsins birta bresk flugmálayfirvöld mánaðarleg uppgjör á heimasíðu sinni þar sem fram kemur hversu margir flugu milli Íslands og breskra flugvalla. Farþegafjöldinn er enn fremur flokkaður niður eftir áætlunar- og leiguflugi.

Til enn frekari samanburðar birta dönsk flugmálayfirvöld upplýsingar um fjölda farþega eftir flugleiðum og ef litið er til Kastrup flugvallar í Kaupmannahöfn þá eru birt gögn sem sýna fjölda farþega á 10 fjölmennustu flugleiðunum og fjölda farþega hjá 20 stærstu flugfélögunum.

Eins og framangreint leiðir í ljós þá er upplýsingagjöfin ekki sú sama hjá þessum þremur þjóðum, en í öllum tilfellum þykir sjálfsagt að birta ákveðnar upplýsingar. Slíkar upplýsingar varða almenning og hefur vefritið Túristi byggt fjölmargar greinar á þessum tilteknu upplýsingum. Þær greinar hafa vakið athygli og umræðu í þjóðfélaginu, enda eru flugumferð og ferðaþjónusta lykilatvinnugreinar og varðar staða hennar og þróun almenning miklu.

Verði þessar upplýsingar gerðar opinberar, líkt og tíðkast í fjölmörgum löndum, fæst betri mynd af því hvernig farþegar sem fljúga til og frá landinu skiptast á milli flugleiða og flugfélaga. Þá er enn fremur hægt að greina skiptingu milli innlendra og erlendra flugfélaga. Slíkar upplýsingar geta ásamt því að vera fréttnæmar fyrir almenning varðað rekstraraðila í ferðaþjónustu miklu auk þess sem þær eru grundvöllur rannsókna á þróun og stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og flugrekstrar.

Ég hef ítrekað óskað eftir því Isavia ohf. að aðgangur verði veittur að sambærilegum upplýsingum um flugumferð um Keflavíkurflugvöll, en þeirri beiðni hefur endurtekið verið synjað. Er mér því nauðugur sá kostur að skjóta afstöðu Isavia ohf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Rökstuðningur:

Eins og áður er rakið hefur Isavia ohf. endur tekið hafnað beiðni um að veita umræddar upplýsingar. Sú synjun hefur ekki verið ítarlega rökstudd, heldur eingöngu vísað til þess að um viðskiptaupplýsingar sé að ræða.

Verður að ganga út frá því að Isavia ohf. sé þar að byggja afstöðu sína á 2. málslið 1. mgr. 9.gr. upplýsingalaga sem heimilar takmörkun á upplýsingarétti er varðar mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Því er ekki borið við að umrædd gögn séu ekki til, eða að þeirra þurfi að afla sérstaklega.

Ég tel umrædda afstöðu ganga þvert gegn tilgangi upplýsingalaga eins og hann er útlistaður í lögunum sjálfum. Í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 9. gr., þ.e. viðskiptahagsmuni:

„Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi.“

Það er óskiljanlegt að íslensk flugmálayfirvöld telji að upplýsingar sem eru birtar á greinargóðan hátt í öðrum löndum séu sérstakar viðskiptaupplýsingar sem óheimilt sé að birta almenningi. Skilmerkilegar upplýsingar um farþegafjölda sem ferðast milli landa eru ekki viðskiptaleyndarmál og alls ekki þess eðlis að opinberum aðila á borð við Isavia ohf. beri að halda þeim frá almenningi. Nægir þar að vísa til þeirrar stöðu sem farþegaflutningar og ferðaþjónustu skipar í íslensku hagkerfi, sem og tilgangs upplýsingalaga.

Samantekt:

Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að úrskurðað verði að Isavia ohf. sé skylt að birta upplýsingar um framboð á flugsætum og farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll, sundurgreint niður á flugrekstraraðila og tímabil.

Séu slíkar upplýsingar ekki tiltækar er til vara þess krafist að Isavia ohf. verði gert skylt að birta eins greinargóðar og niðurbrotnar upplýsingar og fyrir liggja um flugumferð og farþegaflutninga til og frá Keflavíkurflugvelli.

Í báðum tilfellum að upplýsingarnar nái a.m.k. 5 ár aftur í tímann.

Virðingarfyllst,

Kristján Sigurjónsson, útgefandi Túrista.

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …