Samfélagsmiðlar

„Barið á mér endalaust úr öllum áttum. Jafnvel þó ég hafi náð að snúa við rekstri sem hafði verið erfiður í 40 ár.“

„Þetta var eitt af því sem mér hefur tekist best til með á ferlinum og mér bar gæfa til að fá inn gott fólk með mér.“ Almar Örn Hilmarsson um tíð sína hjá Iceland Express.

Það má segja að enginn Íslendingur hafi álíka reynslu af stjórnun flugfélaga og Almar Örn Hilmarsson hefur. Hann fór frá því að stýra Iceland Express í að sameina tvö dönsk en ólík flugfélög. Reksturinn var kominn réttum megin við núllið en svo var allt búið tæpu ári síðar. Almar ræðir fer hér yfir tíð sína hjá Iceland Express og Sterling.

„Ég var aldrei neinn áhugamaður um flug og hafði engan metnað til að vera í flugrekstri. Þetta kom bara upp í hendurnar á mér á sínum tíma þegar Pálmi [Haraldsson] og Jóhannes [Kristinsson] voru að skoða Iceland Express. Ég var þá forstjóri Tæknivals og langaði ekki að fara frá því fyrirtæki. En þeir gengu á eftir mér og fór ég að skoða málið betur og sá að það eitthvað þarna. Þetta var vörumerki og valkostur sem fólk var ánægt með. Neytendur vildu eitthvað nýtt,“ segir Almar Örn Hilmarsson um aðdraganda þess að hann tók við sem framkvæmdastjóri Iceland Express árið 2004. Hann var þá rétt liðlega þrítugur að aldri.

„Á þessum tíma var Iceland Express nýkomið með tvær flugvélar og bauð upp á tvö flug á dag til London og jafnmörg til Kaupmannahafnar. Við sáum þó fljótlega að þetta var eiginlega of mikið. Við förum því til fundar við flugvélaleiguna og stilltum þeim upp við vegg. Annað hvort tækju þeir aðra vélina eða við færum í gjaldþrot. Þeir stukku til og komu vélinni innan fárra vikna í vinnu annars staðar. Við sluppum ótrúlega vel því þú gengur ekki að einhverju svona í fluginu. Að skila flugvél er ekki eins og að skila bílaleigubíl.“

Neytendur vildu prófa eitthvað annað en Icelandair

Með þessari breytingu urðu sætin færri sem þurfti að selja og nýtingin í fluginu hækkaði. Um leið fór kostnaðurinn niður útskýrir Almar. „Birgir Jónsson [forstjóri Íslandspósts í dag,innsk.blm] kom með mér inn í þetta og við herjuðum á bílaleigur og alla þá sem við vorum að selja fyrir og fórum fram á hærri þóknanir og betri kjör. Þetta tókst helvíti vel því eftir sex til átta mánuði voru við komin í plús en auðvitað með pínkulítið fyrirtæki.“

Á þessum tíma var ásýnd Icelandair ekki spennandi að sögn Almars. Vefsíða flugfélagsins var léleg og farþegar gátu ekki keypt stakar ferðir heldur þurftu að kaupa báðar leiðir í einu. „Það var fullt af veikleikum í módeli Icelandair sem gerði það að verkum að bæði einstaklingar og fyrirtæki voru til í að prófa eitthvað nýtt,“ rifjar Almar upp.

Þarna var ferðamannastraumurinn til Íslands mun minni en síðar varð og íslenskir farþegar í miklum meirihluta í ferðum Iceland Express. 

„Við vorum auðvitað ekki með neitt fjármagn til að setja í auglýsingar í útlöndum. En það voru nokkrar erlendar ferðaskrifstofur í viðskiptum við okkur enda voru menn ánægðir með að hafa valkost um annað félag eftir að hafa sætt sig við einokunina fram að því. Þetta var skemmtilegur tími, fyrirtækið naut velvildar á markaðnum og starfsfólkið var frábært. Við vorum „underdogs“ og þegar ég lít um öxl þá þykir mér mjög vænt um þetta tímabil. Þetta var eitt af því sem mér hefur tekist best til með á ferlinum og mér bar gæfa til að fá inn gott fólk með mér.“

Hélt að Sterling væri breskt en ekki danskt flugfélag

Ferill Almars hjá Iceland Express var þó ekki langur því vorið 2005 keyptu eigendur félagsins, þeir Pálmi og Jóhannes, Sterling flugfélagið. „Þeir spurðu mig svo hvort ég vildi vinna fyrir þá hjá Sterling og ég sagðist til í það að uppfylltu einu skilyrði: Að ég fengi að taka bílinn minn með mér,“ rifjar Almar upp og hlær.

„Ég þekkti félagið ekki neitt og hélt meira að segja að það væri í Bretlandi. Ég fór því heim og sagði kærustunni að við værum að flytja til London. En svo komst ég að því að þetta væri í Danmörku. En áður en ég fer út þá lendir okkur saman, einu sinni sem oftar, mér og Pálma. Hann segir mér að drulla mér í burtu og að ég myndi aldrei vinna fyrir hann framar. Ég sagði honum að það væri ekkert mál, fór til Las Vegas og hélt upp á afmælið mitt.“

Þriðjungur áhafna kominn yfir sextugt

Þeir félagar sættust að lokum og Almar hélt til Danmerkur vorið 2005. „Ég var bara hefðbundinn Íslendingur. Lítill í mér og hélt að Danirnir væru rosalega klárir. En svo komst maður auðvitað að því eftir nokkra daga að þeir voru bara alveg eins og við. Nema vinnudagarnir voru styttri og svo minnti hlaðborðið í hádeginu í raun á íslenskt jólahlaðborð. Hamborgarhryggur, smurbrauð og fíneri.“

Sterling átti sér meira en fjörutíu ára sögu en hafði alltaf verið leiguflugfélag sem flaug Dönum í sólarlandaferðir. Nýir eigendur ætluðu þó aðra leið en það var ekki einföld breyting.

„Viðskiptamódelið var ekkert gírað inn á að rekstur lággjaldaflugfélags. Ef ég vissi það sem ég veit í dag þá hefði ég aldrei farið þessa leið með félagið, að breyta því lágfargjaldafélag. Til að mynda var um þriðjungur áhafnanna yfir sextugt þannig að þær voru komnar í efsta þrep launastigans og einingakostnaður var mjög hár. En á móti kom að við vorum að keppa við SAS sem var ennþá verr sett hvað þetta varðar. Og svo Maersk Air sem var lika gamalt leiguflugfélag sem var í tilvistarkreppu.“

Fékk að reykja á skrifstofum Maersk

Það leið ekki langur tími frá því að Íslendingarnir tóku við Sterling og ljóst var að eigendur Maersk Air höfðu áhuga á að selja. „Það myndast flötur fyrir viðræðum við Maersk Air og við fórum til fundar við stjórnendur Maersk grúbbunnar á Esplanaden. Þetta er kannski mikilvægasta húsið í Kaupmannahöfn á eftir konungshöllinni. Þangað mætti ég í gallabuxum og bol og þeir buðu mér meira að segja að reykja á skrifstofunni. Það hafði ekki verið reykt þarna í áraraðir. Það var því ljóst að þeir vildu gera allt til að losna við flugfélagið.“

Þegar þarna er komið við sögur er Sterling var með tíu vélar í rekstri og sex til sjö hundruð starfsmenn. Maersk Air var með hátt í tvöfalt fleiri vélar og við sameininguna verður til flugfélag með um tvö þúsund starfsmenn og 27 flugvélar. 

Óskýr skilaboð við samrunann

„Við vorum kannski að reyna það ómögulega, að byggja lágfargjaldafélag ofan á legacy kerfi og þess háttar kjarasamninga. Á sama hátt voru það ákveðin mistök í samrunanum að fara út með þau skilaboð að við myndum nýta það besta úr báðum heimum. Við vildum í raun aðeins byggja félagið upp í kringum rekstrarmódel Sterling en ekki Maersk Air. Það fyrra var mun einfaldara.“ 

Almar segir að þessi óskýru skilaboð hafi í raun valdið því að starfsmennirnir sem komu frá Maersk Air hafi orðið fyrir vonbrigðum og fannst þeir hafa verið sviknir. Þau gerðu sér vonir um að Sterling setti upp viðskiptafarrými í þotunum og svo framvegis. Það var þó aldrei ætlunin.

„Við sögðum reyndar upp helling af fólki og enduðum með um þúsund manns í vinnu. Kannski hefði verið skynsamlegra ef við hefðum sagt eigendum Maersk Air að loka félaginu og við hefðum svo ráðið hluta af starfsfólkinu til okkar og tekið einhverjar flugvélar. Að ætla sér að breyta Sterling í lágfargjaldafélag og sameina það svo Maersk Air var einfaldlega of stórt verkefni á þessum tíma,“ bætir Almar við.

Talaði ekki við stjórnarformanninn í þrjá mánuði

Afkoman var í takt við það en fór þó batnandi. Tapið var fyrsta árið var um fjórðungar af veltunni, svo um fimm prósent árið eftir og 2007 var reksturinn réttum megin við núllið. Almar viðurkennir að það hafi verið mikið fyrir því haft og töluverður niðurskurður hafi átt sér stað í lok þess árs. 

Á þessum tíma var samband Almars og Pálma aftur orðið stirrt. Þeir höfðu ekki talað saman í þrjá mánuði. „Hann var stjórnarformaður og ég forstjóri og þetta var því erfitt ástand en þetta var ekkert frekar honum að kenna en mér. Ég get alveg verið ömurlegur.“

Bauðst til að hætta

Það urðu líka breytingar á eignarhaldi Sterling á þessum tíma og Þorsteinn Örn Gunnarsson tekur við sem stjórnarformaður fyrir hönd NTH Holdings sem var dótturfélag FL-Group. 

„Á fyrsta fundi okkar Þorsteins þá tjáði ég honum að ég væri alveg til í að hætta ef hann vildi gera breytingar. Ég var orðinn þreyttur á þessu enda hafði þetta ekki verið auðveldur tími. Ég var einn í Danmörku og það var barið á mér endalaust úr öllum áttum. Jafnvel þó ég hafi náð að snúa við rekstri sem hafði verið erfiður i 40 ár þá var hagnaðurinn ekki í takt við eitthvað sem aðrir höfðu búið til í Excel.“

Strax í janúar 2008 hættir Almar og Bandaríkjamaðurinn Reza Teleghani sest í forstjórastólinn. Almar segist lítið hafa fylgst með gangi mála hjá Sterling en orðið var við að nýi forstjóri hafi vilja breyta ásýnd félagsins og salan hafi soldið setið á hakanum. Þarna hafi líka eiginlega allt farið úrskeiðis sem hugsast gat í rekstri flugfélags á stuttum tíma.

„Það verður almennur samdráttur í eftirspurn, eldsneytið hækkar hratt og dollarinn líka. Þoturnar sem höfðu verið leigðar komu of seint og þá þurfti að fylla í skarðið með dýrari flugvélum.“ 

Sagði starfsfólkinu að nú væri lífróður framundan

Undir lok sumars 2008 héldu þeir Pálmi og Jóhannes aftur um stjórnartaumana í Sterling. Þeir leituð á ný til Almars og kynntu honum áform sín um að skera flugflotann niður í fimmtán flugvélar og þannig koma félaginu í gegnum yfirstandandi niðursveiflu. Almar þáði starfið og fór aftur út til Kaupmannahafnar.

„Ég man þegar kom inn aftur. Þá var framundan starfsmannaveisla boðað hafði verið til löngu áður. En þegar fólk sá mig birtast þá vissi það að nú væri eitthvað vesen í gangi. Eftirmaður minn farinn og ég tekinn við á ný. Það gat ekki boðað gott hugsuðu þau. Ég var líka alveg hreinskilinn og sagið að framundan væri lífróður. Eigendurnir höfðu samt ákveðið að leggja það fé í reksturinn sem þurfti til að fleyta félaginu í gegnum veturinn.“

Allt búið þegar Guð blessaði Ísland

Þarna var haustið í uppsiglingu og ekkert venjulegt haust því efnahagshrunið mikla var framundan.

„Í fluginu eru október og nóvember verstu mánuðirnir því þá þarftu að borga mikið af kostnaðinum sem varð til um sumarið. Þú ert þó ekkert farinn að selja af viti inn á næsta ár og sjóðsstaðan því mjög léleg. Og um leið og Guð blessaði Ísland þá var það ljóst að við myndum ekki ná þeim peningum frá Íslandi sem þurfti. Tilraunir til að selja reksturinn gengu ekki upp og þetta endaði svo bara með því að við fórum með gjaldþrotabeiðni inn í skiptarétt í Danmörku.“

Sárasjaldan orðið fyrir aðkasti vegna gjaldþrotsins

Í framhaldinu var boðað til starfsmannafundar í matsal Sterling. Þar segist Almar hafa staðið upp á borði með tár í augunum og sagt fólkinu að þetta væri búið.

„Þetta var alveg ömurlegt. Fullt af fólki sem var búið að vinna þarna í 30 til 40 ár. Einstakur hópur, gríðarleg samheldni og allir góðir við hvorn annan. Ég er ennþá í sambandi við fólk sem var að vinna með mér hjá Sterling og ég hef sárasjaldan orðið fyrir einhverju aðkasti út af þessu. Fólk áttar sig á að maður var að gera sitt besta og lagði sig fram. Þegar upp er staðið þá var gjaldþrot Sterling heldur ekki slæmt. Ef það hefðu ekki verið bankahöft í kjölfar hrunsins þá hefði þetta ekki þurft að enda svona.“

Fjárfesting Íslendinganna var Dönum góð

Þegar Almar hugsar tilbaka þá segir er hann sannfærður um fjárfesting Íslendinga í Sterling hafi verið af hinu góðu þó viðkomandi menn hafi verið kallaðir glæpamenn og sitthvað fleira. 

„Við flugum fleiri milljónum manna í frí til útlanda og í heimsóknir til ættingja fyrir sanngjarnt verð. Auk þess greiddum við laun til þúsunda manna í nokkur ár til viðbótar. Því ef Íslendingar hefðu ekki keypt félögin þá hefðu þau ekki starfað svona lengi. Við veittum líka stóra bróður í SAS aðhald.“

Þeir sem vilja heyra meira frá Almari ættu að hlusta á hlaðvarp hans The Bunker:How the hell did we end up here? Þar ræðir Almar við útlendinga sem búa í Prag en borgin hefur verið heimili Almars undanfarin ár. 

Þess ber að geta að sá sem hér heldur á penna er fyrrum starfsmaður Sterling flugfélagsins.

Nýtt efni

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …