Samfélagsmiðlar

Flugfélag sem vill ekkert með stéttarfélög hafa

Nú er deilt um kjarasamning Play og Íslenska flugstéttafélagsins. ASÍ segir launin vera umtalsvert lægri en stjórnendur Play fullyrða að þau verði. Á sama tíma njóta áhafnir næststærsta flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli mun verri kjara og mega ekki vera í verkalýðsfélagi.

Allt frá falli Wow Air hefur Wizz Air verið næst umsvifamesta félagið á Keflavíkurflugvelli og á því verður engin breyting þó Play verði með þrjár þotur í rekstri seinni hluta sumars.

„Horfðu á flugfélögin þar sem stéttarfélög hafa náð yfirráðunum, þau eru öll á barmi gjaldþrots.“ Þessi orð lét Josef Varadi, forstjóri Wizz Air, falla í október í fyrra í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv. Þar útskýrði hann ástæður þess að „Wizz Air væri flugfélag án stéttarfélaga“ og fullyrti að rekstur keppinautanna sinna væri óskilvirkur vegna afskipta verkalýðsfélaga.

Skömmu áður hafði fjöldi stéttarfélaga í Noregi skorað á félagsmenn sína til að sniðganga Wizz Air. Alþýðusamband Íslands tók til sömu ráða í gær gagnvart Play og sakar fyrirtækið um undirboð með samningum sínum við Íslenska flugstéttafélagið.

Útreikningar sem ASÍ birti í gær sýna að lægstu laun flugfreyja og -þjóna Play verða nokkuð undir atvinnuleysisbótum og reyndar ná lægstu laun áhafna Icelandair ekki heldur þeirri tölu.

Því samkvæmt því sem fram kemur í ályktun miðstjórnar ASÍ, sem birt var seinnipartinn í gær, þá verða lægstu laun áhafna Play aðeins 266.500 krónur. Lágmarkslaunin hjá Icelandair eru hins vegar 307 þúsund kr. eða 430 krónum lægri en sem nemur atvinnuleysisbótum.

Stjórnendur Play mótmæltu aðgerðum ASÍ harðlega í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gærkvöld. Þar segir að fastar mánaðarlegar tekjur flugliða Play verði á bilinu 351.851 til 454.351 kr., óháð vinnuframlagi.

„Ofan á þær tekjur bætast svo flugstundagreiðslur, sölulaun og dagpeningar. Meðal mánaðartekjur sem almennir flugliðar Play geta vænst, sem eru að koma inn til starfa á kjarasamningi Íslenska flugstéttafélagsins, eru í kringum 500 þúsund íslenskar krónur og þá hefur verið tekið tillit til sumar- og vetrarfrísmánuða. Launin miðast við 67,1 fartíma að jafnaði,“ segir í yfirlýsingunni.

Það eru umtalsvert hærri laun en eru í boði hjá Wizz Air þar sem meðallaun flugfreyja og -þjóna munu vera í kringum 180 þúsund krónur á mánuði samkvæmt fréttum í Noregi. Forstjóri Wizz Air hefur þó ekki viljað staðfesta þá tölu í norskum fjölmiðlum né gefa upp hver launin eru. Hann fullyrðir þess í stað að Wizz Air borgi markaðslaun í þeim löndum sem félagið gerir út frá en kjörin séu ólík eftir svæðum.

Þrátt óvissuna um launakjör áhafna Wizz Air þá liggur fyrir að launakostnaður vegur ekki nærri því eins þungt í rekstri félagsins og raunin er hjá keppinautunum á norska markaðnum. Launaliðurinn er nefnilega rétt um níu prósent ef heildarrekstrarkostnaði Wizz Air á meðan hlutfallið er 25 til 30 prósent hjá SAS og Norwegian.

Hjá Icelandair var hlutfallið líka 30 prósent árið 2018 samkvæmt þeim gögnum sem félagið birti í tengslum við hlutafjárútboð sitt síðastliðið haust.

Þess má geta að gagnrýnin á starfsemi Wizz Air í Noregi kemur ekki aðeins úr röðum verkalýðsfélaganna. Þannig hefur Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, lýst því yfir að hún muni ekki fljúga með Wizz Air svo lengi sem flugfélagið viðurkennir ekki rétt starfsmanna til að ganga í stéttarfélög.

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …