Samfélagsmiðlar

Magurt ár hjá flugvélaframleiðendum

Valdimar Björnsson fer hér yfir stöðuna hjá flugvélaframleiðendum í ár. Afhendingar á þotum hafa dregist umtalsvert saman í heimsfaraldrinum.

„Miðað við afhendingartölur flugvéla í ár þá má búast við að 2021 verði hvorugum risanum gjöfult," segir Valdimar Björnsson í grein sinni.

Stærstu flugvélaframleiðendur heimsins, Boeing og Airbus, hafa afhent samtals 514 flugvélar fyrstu sjö mánuði ársins. Þessi fjöldi endurspeglar þá erfiðu stöðu sem ríkir í flugrekstri vegna Covid-19 hjá langflestum flugrekendum og þar með flugvélaframleiðendum. Ekki liggja fyrir tölur frá öðrum flugvélaframleiðendum sem af er árinu. 

Árið 2019 afhentu Boeing, Airbus, Embraer (Brasilíu), Bombardier (Kanada), Sukhoi (Rússlandi) og Comac (Kína) í allt sextán hundruð flugvélar og árið eftir voru þær um eitt þúsund. Fækkunin á milli þessara tveggja ára skýrist meðal annars af þeim vandræðum sem Boeing lenti í vegna hönnunargalla í MAX vélunum.

Eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan þá fer Boeing frá því að vera með markaðsráðandi stöðu í að verða jafningi Airbus árið 2018. Tveimur árum síðar afhenti Airbus svo fleiri flugvélar en keppinauturinn og það sama á við sem af er þessu ári.

344 flugvélar hafa flogið frá verksmiðjum Airbus en 170 frá Boeing. Sá síðarnefndi hefur þó afhent ögn fleiri breiðþotur en keppinauturinn, 43 á móti 41.

Þegar afhendingatölur í ár eru skoðaðar nánar þá kemur í ljós að Airbus hefur afhent fleiri flugvélar í öllum mánuðum ársins en Boeing ef janúar er undanskilinn.

Southwest er það flugfélag sem hefur fengið flestar Boeing vélar það sem af er ári eða alls nítján, allt 737 MAX. United Airlines er með næst flestar þotur eða ellefu eintök, bæði 737 MAX og Dreamliner. Jafn margar hafa farið til Ryanair og þar af níu 737 MAX vélar nú í júlí.

Boeing hefur afhent alls 127 MAX þotur í ár og nemur það þremur fjórðu af öllum þeim flugvélum sem Boeing hefur afhent flugfélögum í ár.

Hjá Airbus þá er það Delta Air Lines sem hefur fengið flestar þotur í ár eða 25. Þar af sextán A321ceo vélar. Þar á eftir kemur China Eastern Airlines með átján vélar.

Airbus hefur afhent mest af A320 neo flugvélum í ár eða alls 147. Þar á eftir koma 112 A321 neo. Airbus afhenti þrjár A320neo vélar til Spirit og þrjár A321neo vélar til Wizz Air í júli í ár.

Vinsældir flugvéla með minna drægi, færri sætum og með einn gang („narrowbody“), skýrist að miklu leiti af innanlandsflugi í landfræðilega víðfeðmu löndunum. Eftirspurn eftir innanlandsflugi í Bandaríkjunum og Kína hefur verið meiri en í millilandaflugi í faraldrinum.

Til að átta sig á stærð félaganna tveggja þá var samanlögð heildarvelta þeirra í fyrra 15.207 milljarðar króna, umreiknað í krónur á loka gengi ársins. Þetta eru tuttugufaldar áætlaðar skatttekjur íslenska ríkisins.

Samanlagður starfsmannafjöldi Boeing og Airbus telur 272.363 manns eða 74 prósent af íbúum Íslands. Bæði félögin skiluðu tapi á síðasta ári og var afkoma Boeing meira en áttfalt lakari en hjá Airbus.

Airbus tapaði 182 milljörðum árið 2020 en bandaríski keppinauturinn 1.524 milljörðum. Miðað við afhendingartölur flugvéla í ár, samanborið við árið 2020, þá má búast við að 2021 verði hvorugum risanum gjöfult.  

Um höfundinn: Valdimar Björnsson er flugvélaverkfræðingur með einkaflugmannspróf og hefur lokið áfanga í flugslysarannsóknum. Hann er með MBA gráðu með áherslu á flugrekstur og hefur starfað hjá Icelandair, Icelandair Cargo og Primera Air.

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …