Samfélagsmiðlar

En hvað með skattsporið hans Skúla?

Rekstur íslenskra flugfélaga skapar þjóðarbúinu miklar tekjur líkt og forsvarsmenn þeirra hafa vísað til þegar á brattann er að sækja.

Gjaldeyristekjur af farþegum Wow Air, flugfélags Skúla Mogensen, námu um 120 milljörðum króna árið 2018 samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir flugfélagið.

Icelandair Group var það fyrirtæki sem fékk langhæstu styrkina frá hinu opinbera vegna áhrifa heimsfaraldursins. Ríkið lagði flugfélaginu til um fimm milljarða króna í tengslum við hlutabótaleiðina og eins í uppsagnarstyrki.

Á ræðu sinni á aðalfundi Icelandair á fimmtudag, sem send var fjölmiðlum sama dag, fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins, að ríkið hefði fengið upphæðina fimmfalt til baka því svokallað skattspor félagsins hafi numið 26 milljörðum króna síðustu tvö ár.

Með þessu var ætlun forstjórans að svara fyrir þá umræðu sem „skotið hef­ur upp koll­in­um“ um nýt­ingu Icelandair á úrræðum rík­is­ins eins og það er orðað í frétt Mbl.is um ræðuna. Sú grein er skrifuð af nýráðnum ritstjóra viðskiptafrétta Morgunblaðsins sem síðustu ár hefur verið ráðgjafi Icelandair í almannatengslum og þar með á lista Fjármálaeftirlitsins yfir innherja í flugfélaginu.

Stefna á hagnað í ár

Útreikningar á skattspori Icelandair byggja á öllum greiddum sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga og þar með talinn skattur af launum starfsmanna. Ríkissjóður fær þó engar skatttekjur af afkomu Icelandair því flugfélagið tapaði þrettán milljörðum króna í fyrra. Þetta var fjórða tapárið í röð en stjórnendur félagsins stefna á jákvæða afkomu í ár. Sú spá var gefin út áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst sem valdið hefur ennþá hærra olíuverði og eins gæti eftirspurn eftir Evrópureisum í Bandaríkjunum dregist saman vegna ástandsins.

Óbeinu áhrifin á pari við Wow Air

Í ræðu sinni á aðalfundinum á fimmtudag sagði forstjóri Icelandair að auk skattsporsins fyrrnefnda þá hefðu jákvæð óbein áhrif af starfsemi flugfélagsins verið gríðarleg. Þannig hafi þeir 350 þúsund ferðamenn sem flugu með Icelandair í fyrra keypt vörur og þjónustu hér á landi fyrir um 85 milljarða króna.

Sú upphæð er sjö milljörðum lægri en farþegar Wow Air eyddu hér á landi árið 2018 samkvæmt útreikningi sem Reykjavík Economics vann fyrir flugfélagið í árbyrjun 2019 þegar falast var eftir opinberum stuðningi við reksturinn.

Ríkisstjórnin varð ekki við þeirri beiðni en ef rökstuðningi forstjóra Icelandair fyrir ríkisstuðningi væri beitt þá má segja að það hefði borgað sig fyrir ráðamenn að rétta flugfélagi Skúla Mogensen hjálparhönd.

Skattspor Wow Air árið 2019 hefði nefnilega líka geta hlaupið á tugum milljarða árið 2019 og ekki síst í ljósi þess að það ár var Icelandair vængbrotið vegna kyrrsetningar Boeing Max þotanna. Samkeppnin við Wow Air hefði því getað reynst Icelandair mjög erfið við þær aðstæður.

Almenn úrræði en sérsniðin

Til að geta allrar sanngirni þá stóðu úrræðin sem Icelandair nýtti sér í heimsfaraldrinum almenn en ekki sértæk eins og sú aðstoð sem Wow Air leitaði eftir. Aðstoðin sem ríkið bauð atvinnulífinu vegna Covid-19 voru þó sniðin að töluverðu leyti að þörfum Icelandair og á það sérstaklega við um uppsagnarstyrkina.

Alþingi samþykkti þó að veita Icelandair sérstaka ríkisábyrgð á allt að sextán milljarða króna láni. Það vilyrði nýttu stjórnendur Icelandair sér ekki og afsöluðu sér ábyrgðinni á sama tíma og nýtt kaupréttakerfi fyrir yfirmenn og sérvalda starfsmenn flugfélagsins var kynnt í síðasta mánuði.

Besta fjárfestingin fyrir alla nema Skúla

Í fyrrnefndri skýrslu Reykjavík Economics eru engir útreikningar á svokölluðu skattspori en þar segir að gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af farþegum Wow Air hafi numið 120 milljörðum króna árið 2018 og reyndar líka árið áður. Það er meira en allur sá gjaldeyrir sem áliðnaðurinn skilaði inn í íslenskan efnahag á sama tíma líkt og Egill Almar Ágústsson, fyrrum forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og Wow Air, benti á í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í fyrra.

Þar kemst Egill meðal annars að þeirri niðurstöðu að þeir fjórir milljarðara króna sem Skúli Mogensen fjárfesti í Wow Air hafi líklega verið besta fjárfesting Íslandssögunnar fyrir alla nema Skúla sjálfan því flugfélagið endaði í gjaldþroti.

Egill bendir nefnilega á að hagsmunir íslensks samfélags af rekstri flugfélaga séu miklu meiri en hagsmunir eigendanna sjálfra. Og það er kannski það sem forstjóri Icelandair var að reyna að benda á með útreikningum sínum á skattspori Icelandair síðustu tvö ár.

Nýtt efni

Árið 1970 barst Pattie Boyd nafnlaust og dularfullt ástarbréf frá einhverjum sem þráði hana afar heitt. Vandinn var bara sá að Pattie var þegar gift öðrum manni og ekki ófrægum; hún og George Harrison gítarleikari The Beatles höfðu búið saman í sex ár þegar bréfið barst Pattie.  „Ég skrifa þér þessa orðsendingu í þeim megintilgangi …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …