Samfélagsmiðlar

Draumaborgin París og aðsteðjandi ógnir

Frakkland er vinsælasta ferðamannaland heimsins og stjórnvalda þar bíða krefjandi úrlausnarefni sem varða aðgengi, öryggi og umhverfisáhrif um leið og þau vilja endurheimta tekjurnar sem töpuðust í heimsfaraldrinum.

Rusl á götu í París

Túristarnir taka sitt pláss í París - og skilja eftir sig spor.

Það er óvissa í loftinu í Frakklandi eftir að úrslit þingkosninganna í landinu lágu fyrir. Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, sem fagnaði stórsigri, sagði í ársbyrjun að hún vildi mæta samdrætti í komum erlends ferðafólks með því að þróa staðbundna franska ferðaþjónustu. Vissulega mætti ekki vanrækja erlend viðskiptasambönd en fráleitt væri að láta hagsmuni franskrar ferðaþjónustu stjórnast af hinni ósýnilegu hönd markaðarins, eins og fælist í stefnu Emmanuels Macron. Skipulagðar aðgerðir þyrfti til að skjóta sterkari stoðum undir þessa mikilvægu atvinnugrein Frakka. Hún sagðist vilja meiri sveigjanleika í vinnulöggjöfinni til að mæta sárri þörf fyrir vinnuafl í greininni og lækka álögur á atvinnurekendur. Þá sagði Le Pen mikilvægt að tryggja betur öryggi í landinu – sérstaklega í þágu erlends ferðafólks. Le Pen laut svo í lægra haldi fyrir keppinautnum Macron í baráttunni um forsetaembættið en í þingkosningunum snérist þetta við. Nú er að sjá hvernig meirihluti verður til á þinginu og hver áhrifin verða á franska ferðaþjónustu og þá sérstaklega París, eina vinsælustu ferðaborg heimsins. 

Þolið gagnvart fjöldanum

Um hálf milljón manna hefur starfa af ferðaþjónustu í París, um 12 prósent íbúa. Á árunum fyrir heimsfaraldurinn fóru vinsældir Parísar stöðugt vaxandi og hafa ýmis vandamál fylgt fjöldatúrismanum. Margir helstu ferðamannastaðir borgarinnar eru yfirfullir á álagstímum, svo mjög að yfirvöld hafa hugleitt ýmsar leiðir til að dreifa álagi, t.d. með gjaldtöku. Vandinn er bara sá að borgin þarfnast peninganna sem ferðafólkið færir henni. Það má ekki styggja ferðafólkið um of, segja þeir sem hugsa um hagrænan veruleika dagsins. En svo eru það hinir sem benda á ómældan kostnaðinn af fjöldatúrismanum: umhverfisáhrifin, mengunina, skert lífsgæði íbúanna. Ferðafólkið yfirtekur stóran hluta miðborgarinnar. Álagið á hreinsunardeildir, samgöngukerfi og önnur mannvirki er gífurlegt. Þó margt hafi verið gert til að draga úr bílaumferð í miðborginni þá er hún enn mikil. Í hitabylgju eins og þeirri sem skall á um miðjan júnímánuð mátti finna hversu erfiðar aðstæður geta skapast í ferðaborginni miðri. Ferðafólkið þolir þetta í nokkurra daga heimsókn en íbúarnir sitja í súpunni. Yfirvöld í París, eins og víðar, þurfa að búa sig undir það að hreyfingar sem berjast gegn fjöldatúrisma láti til sín taka – á sama tíma og þjónustugetan er við þolmörk. 

Viðmót ræður miklu

Búist er við að um 33 milljónir ferðafólks sæki borgina heim á árinu 2022, um fimm milljónum færri en 2019 – á síðasta árinu fyrir Covid-19-faraldurinn. Hrunið sem fylgdi faraldrinum var gríðarlegt áfall, ferðafólki fækkaði um 70 prósent. Á fyrri helmingi þessa árs hefur evrópskt ferðafólk þó skilað sér vel til baka, en Bandaríkjamenn verða líklega eitthvað færri í París í ár en fyrir faraldurinn. Ferðaþjónustan leikur aftur stórt efnahagslegt hlutverk í borginni: söfnin, hótelin og veitingastaðirnir hafa fengið nauðsynlegt súrefni til að halda lífi. Enn eru Kínverjarnir þó fjarri og óvíst er hvaða áhrif stríðið í Úkraínu á eftir að hafa til lengri tíma, ekki síst á verðlag. París hefur orð á sér fyrir að vera dýr – og er það fyrir flesta. Frekari verðhækkanir gætu dregið úr vilja og getu til að sækja borgina heim. Í franska blaðinu Le Monde sagði á dögunum að það gæti líka haft áhrif hvernig viðtökur ferðafólk fengi í París. Sérfræðingar teldu að upplifun ferðafólks skipti sköpum um aðdráttarafl borgarinnar. Allt spyrst hratt út á dögum samfélagsmiðla. Bent var á í blaðinu að nýverið hefðu umfangsmiklar lögregluaðgerðir gegn ólöglegri sölustarfsemi farið fram við Eiffelturninn og hrappar sem seldu falsaða miða inn á Louvre-safnið hafi verið handteknir. Við þetta bætast áhyggjur af löngum biðröðum fólks á flugvöllum borgarinnar. Einhver dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða í allt að þrjá tíma í biðröð og misst af bókuðu flugi. Já, það vantar svo sem ekki áhyggjuefnin og framundan eru risastór verkefni fyrir París og Frakka. 

Öryggi og skipulag

París verður vettvangur heimsmeistaramótsins í rúgbí haustið 2023 og síðan Ólympíuleikanna og Ólympíumóts fatlaðra sumarið 2024. Milljónir manna munu sækja þessa viðburði og reyna verulega á alla innviði, ekki síst öryggisgæslu. Uppákoman við Stade de France 28. maí síðastliðinn þegar miklar tafir urðu fyrir leik Real Madrid og Liverpool í Meistaradeild Evrópu veldur áhyggjum. Yfirvöld vörpuðu sökinni á breskar fótboltabullur með enga eða falsaða miða en þær skýringar duga ekki þeim milljónum manna sem biðu þess að útsending hæfist frá leiknum. Orðsporið laskaðist, traustið minnkaði. „Hvernig verður þetta á Ólympíuleikunum?“ spurðu eflaust margir. Borgir sækjast eftir því að halda Ólympíuleika til að styrkja ímynd sína og auka áhuga og velvild heimsbyggðarinnar. Ljóst er að meðal stórverkefna franskra yfirvalda á komandi misserum er að bæta og styrkja öryggisgæslu og berjast gegn hverskyns svikastarfsemi sem beinist að ferðafólki og áhorfendum þeirra stórviðburða sem í vændum eru í París. 

Aðdráttarafl og ógnir

En á meðan Eiffelturninn stendur, Lovre-safnið hýsir Monu Lisu, glæsileiki og þokki borgarinnar blasir við þeim sem fara um Champs-Élyées, sigla um Signufljót eða rölta um Île de la Cité, Latínuhverfið, Mýrina eða Montmartre, verður París einn sterkasti segullinn í heimstúrismanum. Viðmótið sem ferðafólk fær í borginni nú er allt annað en fyrir 40 árum þegar fjöldatúrisminn var að taka flugið. Heimurinn allur hefur breyst mikið með alþjóðavæðingu fjármagnsins, bættum lífskjörum og tæknibyltingu. Sumarið 1982 gat ferðamaðurinn lent í vandræðum ef frönskukunnáttan var lítil. Þjónar í París voru stórir upp á sig og töldu það lágmarkskröfu að gesturinn gæti kraflað sig hjálparlaust í gegnum klassískan franskan matseðil. Þetta varð að breytast og gerði það. Nú dugar hrafl í ensku til að njóta flestra gæða Parísar – þó auðvitað dýpki frönskukunnátta upplifun og skilning. Hættan er bara sú að gamla og góða París drukkni nánast í fjöldatúrisma, alþjóðleg stöðlun og flatneskja mái burt sérkennin. Af þessu hafa margir áhyggjur þó enginn sjái skynsamlega leið til að vinda ofan af því sem orðið er. Valdið liggur ekki hjá hinum staðbundnu yfirvöldum eins og fyrir daga alþjóðavæðingarinnar. Litlar hömlur eru á ferðafrelsi, mikið framboð er á flugferðum og alþjóðlegir hringir í hótelrekstri og annarri ferðaþjónustu geta óáreittir haldið áfram að selja fólki aðgang að lystisemdum Parísar. Það er erfitt að snúa til baka. Ástand og horfur í loftslagsmálum og vitundarvakning almennings og skipulögð barátta gegn fjöldatúrisma, líka pólitísk andstaða við fjölþjóðahyggju og frjálslynt samfélag, gætu þó dregið úr ferðavilja – eða fækkað möguleikum milljóna manna um að láta drauminn um Parísarferð rætast.

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …