Samfélagsmiðlar

Alvarlegast hversu lítið ferðafólk dreifist um landið

„Væri íslensk ferðaþjónusta eitt fyrirtæki þá væri enginn vafi í mínum huga að hún myndi leggja í verulegar fjárfestingar úti á landi,” segir Friðrik Pálsson á Hótel Rangá, sem hefur verið fullbókuð frá því Ameríkuflug hófst að nýju.

Friðrik Pálsson á Hótel Rangá

Hótel Rangá kemur vel undan heimsfaraldri. Eigandinn, Friðrik Pálsson, ber lof á aðgerðir stjórnvalda sem tryggt hafi festu í starfsmannahópi hans. Þó mörg fyrirtæki hafi komið löskuð út úr faraldrinum þá hefðu þau ekki lifað af án þeirra aðgerða sem gripið var til. 

„Mér tókst að halda flestu starfsfólkinu í gegnum þá leið sem stjórnvöld buðu upp á. Það var mér gríðarlega mikilvægt, bæði persónulega og af viðskiptalegum ástæðum. Við höfðum búið til góðan hóp starfsmanna og gátum haldið í hann. Starfsfólkið var þakklátt og eins urðum við vör við að viðskiptavinir okkar erlendis fylgdust með því hvernig staðið var að þessum málum í faraldrinum og hvernig farið væri af stað aftur.” 

Fullbókað frá 1. júní 2021

Þegar Delta tilkynnti vorið 2021 að félagið ætlaði að hefja flug til Íslands varð sprenging. 

„Ég nefni Delta sérstaklega af því að félagið er svo sterkt á Bandaríkjamarkaði og gerði þetta með pomp og prakt. Menn frá Delta komu hingað og fóru yfir það hvernig staðið yrði að málum. Þarna opnast allt og eiginlega má segja að það hafi verið fullt hjá okkur frá 1.júní 2021. Við höfum alltaf verið með markaðsstarfsemi erlendis, fyrst í nokkuð mörg ár í Evrópu, en við höfðum flutt okkur yfir til Bandaríkjanna, unnið mjög vel með Icelandair, og vorum þess vegna með sterkt vörumerki þar þegar opnað var eftir heimsfaraldurinn. Síðan hefur gengið vel.”

Sterkt gengi kemur niður á afkomu

En það er ekki nóg að hafa fullbókað. Fyrirtæki sem starfa á Íslandi þurfa að þola sveiflur á gengi íslensku krónunnar. Friðrik þekkti það frá fyrri reynslu við sölu fiskafurða erlendis að varan er seld í gjaldmiðli viðkomandi lands þó að kostnaðurinn hafi orðið til í íslenskum krónum. Eftir að hann hóf hótelreksturinn hefur evran verið gjaldmiðilinn og honum fundist það sanngjarnt gagnvart viðskiptavininum – að hann viti hvað greiða eigi fyrir það sem á að kaupa. 

„Styrking krónunnar undanfarið misseri hefur þess vegna auðvitað haft áhrif – en það er í lagi. Stundum gengur þetta í hina áttina. Þannig að ég kvarta ekki undan því. Hinsvegar verðum við vör við gríðarlegar hækkanir á aðföngum og launum. En þetta er eðli viðskipta að stundum er góðæri og svo hremmingar inn á milli.”

Skuldaði helst sjálfum sér

Friðrik hefur átt einn og rekið Hótel Rangá frá því í júlí 2003. Friðrik segir að hótelið hafi staðið illa fjárhagslega fyrstu árin sem hann rak það. Hann hafi borgað með rekstrinum úr eigin sjóði, sem hann hafi ekki ætlað sér að gera, og íhugaði alvarlega að loka árið 2007. Það var hátt gengi krónunnar sem á útþenslutíma fjármálakerfisins var að drepa þá sem báru tilkostnað í íslenskum krónum en seldu þjónustu eða vörur í erlendum gjaldmiðlum. En snemma árs 2008 fór krónan að falla í verði og staðan breyttist – líka á Hótel Rangá. Túristar sem áður töldu Ísland of dýrt að heimsækja létu nú sjá sig. Svo kom bankahrunið. Friðrik segir að í raun hafi það bjargað miklu í ferðaþjónustunni – nema auðvitað þeim sem voru mjög skuldsettir. Sjálfur skuldaði Friðrik helst sjálfum sér, ef svo má segja, ekki bönkunum. 

Eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 breytti síðan öllu. Friðrik líkir eldgosinu við gríðarlega fjárfestingu sem ekki hafi kostað ferðaþjónustuna neitt. Ýmiss kostnaður hafi lent á öðrum. 

„Umfjöllun sem gat orðið slæm varð að stórkostlegu markaðsævintýri,” segir Friðrik og lofar þátt Íslandsstofu í kynningarmálum. „Auðvitað höfum við búið að því alla tíð síðan.”

Lítil dreifing ferðafólks alvarlegasti vandinn

Hótel Rangá er á miðju Suðurlandi, sem notið hefur mest allra landshluta þeirrar uppsveiflu sem verið hefur í ferðaþjónustunni frá 2010. Afkoma ferðaþjónustufyrirtækja fyrir vestan, norðan og austan er almennt miklu lakari en fyrir sunnan. Friðrik viðurkennir það og segist hafa mjög sterkar skoðanir á því hvernig bregðast eigi við: 

„Það er alvarlegasti vandi ferðaþjónustunnar í dag hversu lítið ferðamenn dreifast út á land. Stundum verður mér á að líta á Ísland sem eitt fyrirtæki. Væri íslensk ferðaþjónusta eitt fyrirtæki þá væri enginn vafi í mínum huga að hún myndi leggja í verulegar fjárfestingar úti á landi og þá um leið markaðssetningu til þess að tryggja að sú fjárfesting skilaði sér. Það koma mjög margir sem vilja geta farið hringinn en þegar staðan er sú að ekkert hótel finnst fyrir vestan, norðan eða austan þá endar það með því að fólkið annað hvort hættir við að koma til Íslands eða heldur sig bara á suðvesturhorninu og á Snæfellsnesi. Það er út af fyrir sig ágætt fyrir okkur hér sunnanlands til skemmri tíma litið en til lengri tíma litið þá er ég ekki í vafa um að það myndi skila ferðaþjónustunni í heild mjög miklu.” 

Suðurland myndi njóta velgengni í öðrum landshlutum

Stundum ber á ríg milli landshluta en Friðrik, hótelhaldari á Suðurlandi, er ekki í vafa um að allir bæru hag af meiri dreifingu ferðafólks um landið.

„Við verðum að hugsa um þetta fyrir heildina. Alveg eins og í gamla daga þegar stóru sölusamtökin hugsuðu um alla út um allt land, seldu fiskinn á sama verði fyrir þann sem sótti hann frá Kópaskeri og hinn sem gerði út frá Reykjavík, þá skilaði þetta sér í hærra verði, betri markaðssetningu – betri afkomu fyrir alla. Ég er ekki í vafa um að ef við lítum fimm eða tíu ár fram í tímann og það tækist að efla ferðaþjónustuna fyrir norðan og austan með meiri uppbyggingu og lengra ferðatímabili, þá myndi það skila sér fyrir alla – líka fyrir okkur hér á Suðurlandi. Þetta myndi ekki koma niður á okkur. Heildarverðmæti Íslands sem ferðamannalands yrði meira.

Ég fagna hverju einasta nýja hóteli sem rís. Því fínna, því betra. Þetta snýst allt um upplifun, umfjöllun um upplifun, og fólk er ekkert endilega að hengja sig á það hvort það gerist nákvæmlega á þessum stað eða hinum á landinu. Það segir bara frá þeirri upplifun sem það verður fyrir. Í þessum nútímaheimi snýst allt um umfjöllun og hvar er hún í dag? Hún er í samfélagsmiðlunum og í miðli eins og Túrista. Vægi auglýsinga eins og við þekktum fyrir 40 árum er horfið. Ferðamaður sem kemur með Niceair til Akureyrar og talar fallega um Norðurland, Austurland, Ísland allt, hefur áhrif á minn rekstur fyrir sunnan.”

Friðrik segir að það sé örugglega eitthvað til í því sem Þráinn Lárusson, hótel-og veitingamaður á Héraði, sagði við Túrista um að of mikil áhersla hefði verið lögð á markaðssetningu á Suðurlandi af hálfi opinberra aðila og Icelandair. 

„Það er oft sagt að besti nýi markaðurinn sé inni á gamla markaðnum.

Ef fólk á samfélagsmiðlunum er alltaf á Suðurlandi, og upplifir það, þá segir það auðvitað frá Suðurlandi – ekki öðrum landshlutum. Til verður keðjuverkun. Ef þú býrð til sterkt vörumerki þá selur það sig sjálft. Allt sem þú gerir til að styrkja það getur leitt af sér örlítinn kostnað í samanburði við hvað myndi kosta að skapa nýtt vörumerki.”

Friðrik, Embla og Aleksandra í afgreiðslu Hótels Rangár

Sorglegt að þurfa að loka á veturna

Við ræðum dálítið eina grundvallarspurninguna í rekstri hótela og annarra ferðaþjónustufyrirtækja: Er mögulegt að hafa opið allt árið? Margir benda Túrista á að til lengri tíma litið sé mikilvægt að geta haldið starfsemi gangandi árið um kring, jafnvel þó afkoman sé lítil eða tap verði um tíma. Ef haldið er opnu takist betur að halda í dýrmætt starfsfólk, mikilvæga þekkingu. 

„Auðvitað er sorglegt að hótelkeðjur sem hafa verið að byggja upp úti á landi loki yfir vetrartímann en ég skil að þær geri það ef ekki er sjáanlegur möguleiki til að halda þeim gangandi.”

Friðrik bendir á að uppi við Hálendismiðstöðina við Hrauneyjar starfræki hann Hótel Háland árið um kring þó að vegir upp á hálendi lokist á haustin. Smám saman skapist sú tilfinning á markaðnum að það sé alltaf hægt að koma þarna við. En mikilvægast sé að halda sem mest í sama fólkið. Það sé raunin í hótelrekstrinum við Hrauneyjar, sem pólskir starfsmenn annast um að mestu. 

Klósettlaus hús á ferð um landið

Friðrik segir að Íslendingar tali gjarnan um örtröð á ferðamannstöðum en flestir erlendir ferðamenn upplifi þetta ekki þannig. Auðvitað skemmi það upplifunina við að skoða Geysissvæðið ef 30 rútur frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík eru þar á sama tíma, svoleiðis mætti skipuleggja betur, en víðast um landið sé upplifun ferðafólks stórkostleg af því að fáir eru á ferð. 

„Það eina neikvæða sem mér finnst vera að gerast í íslenskri ferðaþjónustu er það sem ég vil kalla klósettlaus herbergi á ferð um landið. Það er hræðilega sorglegt að koma á fallega staði norður á Ströndum eða vestur á fjörðum þar sem er tiltölulega fámennt og finna klósettpappír og annað sem fylgir á bak við stein. Það er að aukast rosalega.” 

Þarna vantar meiri uppbyggingu, fleiri þjónustustaði og vatnsklósett – og opinbera viðurkenningu á vandanum. 

Þurfum meiri áherslu á umhverfismálin

„Við eigum að leggja meiri áherslu á umhverfismálin. Það er grundvallaratriði að það náist samtal á milli þeirra sem fara með umhverfismálin og almennings. Þetta yfirbragð að stofnanir sem fjalla um umhverfismálin hafi nánast rannsóknar- eða lögregluvald yfir hinum almenna borgara setur slæmt fordæmi, býr til samskiptaerfiðleika. 

Þá vil ég líka nefna að ferðafólk sem ég tala við er mjög upptekið af umhverfismálum, það er hrifið af því að við séum með þessu hreinu orku. Enginn fettir fingur út í virkjanir. Upp í Hrauneyjum, þar sem ég er með sjö virkjanir í kringum um mig, veltir einn og einn ferðamaður því fyrir sér af hverju flutningslínurnar eru ekki grafnar í jörðu. Þær fara í taugarnar á fólki. 

Við eigum að ýta undir það sem við erum að gera – ekki fela það. Orkufyrirtækin ættu ekki einungis að vera með gestastofur heldur bjóða í stórum stíl erlendum stúdentum hingað, sýna þeim virkjanirnar og að kynna hvernig við gerum þetta. Við höfum ofboðslega góða sögu að segja en tölum okkur oft niður.”

Breyttir túristar

Við ræðum möguleika einyrkjanna í samkeppni við keðjurnar. Á einyrkinn, eða segjum frekar sjálfstætt hótel, góða möguleika? 

„Svo sannarlega. Ef eitthvað tengist þjónustu á einhvern hátt þá eiga þeir mesta möguleika sem eru næstir kúnnanum. Þú verður að finna æðasláttinn í fyrirtækinu. Við vorum svo heppin að ganga í samtök sem nefnast Small Luxury Hotels of the World (SLH). Þessi hótel eru að meðaltali með 50 herbergi. Ég er með 51. Þau leggja áherslu á að ná til ferðalanga sem hugsa sjálfstætt með einstæðri þjónustu. Hver einasti ferðalangur hugsar sitt með sjálfum sér – þó hann komi í hópi með öðrum. Við höfum fengið athygli vegna þess hvernig við hugsum starfsemina í tengslum við náttúruna. Þess vegna segi ég: Ef okkur tækist að ná vingjarnlegu samtali á milli þeirra sem eru að vinna að umhverfimálum í landinu og okkar hinna þá gætum við skapað ótrúlega sérstöðu. Við höfum sérstöðu en gerum ekki út á hana.“ 

Það er ómögulegt að fá Friðrik Pálsson til að kvarta og kveina. Hann er sáttur – líka við vegina.

„Ég hef engar stórar áhyggjur af því að vegirnir í kringum landið séu mjóir og umferðin þurfi þá að ganga aðeins hægar.“  

Það eru ekki vegirnir eða mannvirkin sem ráða úrslitum um það hvort gestinum líður vel í fríinu að mati hótelhaldarans við Rangá.

„Hvað er það sem ég vil fá út úr mínu fríi? Ég vil upplifun, sjá eitthvað nýtt, eitthvað öðruvísi, mér líði vel þar sem ég er og fólkinu í kringum mig líði vel. Verkefnið er að sannfæra þá sem vilja koma að gera það. 

Það hafa orðið breytingar eftir heimsfaraldurinn. Ég held að við séum öðruvísi túristar í dag en áður. Við fáum núna fólk sem vill greinilega fá meira út úr því ferðalaginu en áður.” 

Nýtt efni

Fyrstu fimm mánuði ársins hefur verð á flugmiðum frá Íslandi til útlanda verið ódýrara en á sama tímabili í fyrra. Í maí lækkaði verðið um 5,7 prósent samkvæmt nýjum mælingum Hagstofunnar en til samanburðar hækkaði verðlag almennt um 6,2 prósent á milli ára. Verðmælingar Hagstofunnar ná til fleiri flugfélaga en þeirra íslensku en þau standa …

Þess hefur verið beðið að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti um refsitolla á innflutning kínverskra rafbíla. Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um óeðlilega mikinn ríkisstuðning við innlenda framleiðendur og var þetta meðal umræðuefna í Evrópuferð forseta Kína nýverið. Ný tollheimta myndi þýða milljarða evra aukalegar álögur á kínverska rafbílaframleiðendur.  Xi-Jingping, forseti Kína - MYND: Britta Pedersen/dpa-Zentralbild/dpa/Alamy Nú …

Það er stundum margt um ferðamanninn á Skólavörðustíg og á Laugavegi. Einhverjir tuða vegna þessa, segjast vilja endurheimta miðborgina, en fleiri gera sér grein fyrir því að ferðamenn hafa glætt miðborgina nýju lífi. Það er svo annað mál að ferðamannafjöldi leiðir gjarnan til einhæfni í þjónustu: Ferðamannamenn í miðborginni - MYND: ÓJ Minjagripaverslunum fjölgar óhæfilega, …

Kynnisferðir hf. hagnaðist um rúmlega 1,3 milljarða króna á síðasta ári og tvöfaldaðist hann á milli ára. Tekjur félagsins námu 14,5 milljörðum króna og jukust um 30 prósent frá í fyrra. „Við erum afar stolt af þeim árangri sem náðist í rekstri félagsins á síðasta ári þrátt fyrir hátt vaxtastig og aðrar krefjandi ytri aðstæður. …

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ríkisstjórn hans með Janet Yellen, fjármálaráðherra, fremsta í flokki, hafa nú kynnt fyrstu opinberu leiðbeiningarnar fyrir markað með kolefniseiningar þar í landi. Leiðbeininginum er ætlað auka líkurnar á því að kolefniseiningar sem ganga kaupum og sölum séu af nægilegum gæðum og að verkefnin sem liggi þeim til grundvallar skili raunverulegum árangri, …

„Fyrir þessa aðgerð voru rúmlega 800 manns í störfum sem ekki eru flugtengd og uppsagnirnar náðu eingöngu til þeirra," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en fyrirtækið samdi í dag um starfslok 82 starfsmanna. Uppsagnirnar náðu ekki til áhafna líkt og FF7 hafði áður greint frá. „Eins og við höfum sagt þá var árið …

Ráðuneyti viðskipta og sjávarútvegsmála í Noregi kynnti fyrir tveimur árum drög að frumvarpi um að þarlendir kjarasamningar og reglur um aðbúnað næðu líka til áhafna erlendra skipa sem færu um norska lögsögu. Litið yrði svo á að um leið og erlent skip færi inn fyrir norska lögsögu giltu um það sömu reglur og alla innlenda …

Fjárfestar lögðu Play til 4,6 milljarða króna í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 11. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið urðu töluverðar breytingar á hópi stærstu hluthafa félagsins. Nú er lífeyrissjóðurinn Birta stærsti einstaki hluthafinn en samanlagt fara sjóðir á vegum Íslandssjóða fyrir enn stærri hlut. Meðal nýrra stórra hluthafa er félag í eigu Einars Sveinssonar og …