Samfélagsmiðlar

Vildu að Íslendingar uppgötvuðu Skógarböðin á notalegan hátt

Skógarböðin í Vaðlaskógi gegnt Akureyri hafa dregið til sín um 60 þúsund gesti án mikils markaðsstarfs. Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, segir að í sumar hafi Íslendingar verið um helmingur gesta og þeir uppgötvað staðinn á notalegan hátt. Hún segir að ein helsta áskorunin hafi verið að byggja upp eigin bókunarvef. Það skili sér.

Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna

Það er auðvitað magnað að Skógarböðin séu aukaafurð Vaðlaheiðarganganna. Þegar verið var að bora fyrir göngunum var opnað fyrir heitavatnsæð og fossaði vatnið þaðan engum til gagns til sjávar þar til að komið var fyrir röri sem leiddi það í Skógarböðin – á baðstaðinn glæsilega sem opnaður var í vor og fengið hefur frábærar viðtökur gesta. Frumkvöðlarnir og aðaleigendur Skógarbaðanna, hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, eiga heiðurinn af þessu framtaki sem færir Akureyri upp um flokk í afþreyingu fyrir ferðafólk. Nú íhuga hjónin að reisa hótel við Skógarböðin og bæta þannig úr sárri þörf á fyrsta flokks gistingu á Akureyri. Túristi heimsótti Skógarböðin og ræddi við Tinnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra: 

Gengið heim að Skógarböðunum – Mynd: ÓJ

„Við opnuðum í lok maí og viðtökur hafa verið framar okkar björtustu vonum. Farið var rólega inn í sumarið, böðin voru ekki opnuð til fulls, en engu að síður erum við búin að taka á móti um 60 þúsund gestum. Það verður að teljast góður árangur af því að við höfum ekki auglýst mikið – ekki sett út alla okkar öngla. Við vitum að Skógarböðin eiga mikið inni næsta sumar. Af því að við opnuðum svona seint þá misstum við í sumar af stórum ferðahópum sem fylgja skipulagi sem gert er níu eða tólf mánuði fram í tímann. Það var einfaldlega ekki hægt að gefa upp ákveðna dagsetningu varðandi opnun og þess vegna vorum við ekki almennilega komin á kortið hjá ferðaskipuleggjum – nema sem spennandi hugmynd á blaði. Við fengum mjög mikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum mörgum mánuðum fyrir opnun. Augun beindust að okkur. En í upphafi sumars höfðu engir samningar verið undirritaðir.”

Sólin að hverfa á bak við Súlur – Mynd: ÓJ

Hvers vegna gerist þetta með þessum hætti – að þið farið inn í sumarið án þess að fyrir liggi samningar sem tryggja gestakomur?

„Fyrst er að nefna að húsið sjálft var byggt á mettíma, framkvæmdir gengu mjög vel. Því má segja að við höfum í rauninni opnað fyrr en áætlað hafði verið í upphafi. En svo vildum við að heimamarkaðurinn tæki fyrst við sér, að Íslendingurinn myndi uppgötva okkur á notalegan hátt eins og gerðist í sumar. Þó að fjöldinn hafi verið mikill þá komu dagar með þægilegri traffík, aldrei var yfirtroðningur eða örtröð. Gestir voru til helminga Íslendingar og erlent ferðafólk. Þetta var fallegt sumar á þann hátt að alltaf var notalegt að heimsækja Skógarböðin. Ég held að það hafi verið snjallt að gera þetta svona. Fyrir vikið fengum við mjög góða umfjöllun – gott start. Þau sem komu fengu að upplifa Skógarböðin á góðan hátt.”

Önnur veitingaafgreiðsla baðanna. Í baksýn Súlur og Hlíðarfjall – Mynd: ÓJ

Þið eruð komin inn í samfélagsmiðlana – fenguð marga gesti sem urðu ykkar „sölumenn“.

„Já, við fengum þá. Umhverfið hérna er svo fallegt. Fólki líður eins og það sé að ganga inn í nýjan heim – kannski svolítið óíslenskan, af því að við eigum ekki mikið af skógum. Svo er umhverfið síbreytilegt, frá einni mínútu til annarrar. Við nýtum vatnið sem runnið hefur úr Vaðlaheiðinni. Það finnst okkur Íslendingum merkilegt en útlendingum þykir það enn merkilegra.”

Enn er velgja í vatninu sem fossar til sjávar úr Vaðlaheiðargöngunum – Mynd: ÓJ

Hafa engin vandræði skapast varðandi vatnið?

„Nei, menn unnu náttúrulega þrekvirki við að leggja það alla þessa leið í gegnum klappir og skóg, næstum þriggja kílómetra leið. Við tökum bæði heita og kalda vatnið úr Vaðlaheiðargöngunum. Hingað kemur heita vatnið 49 gráðu heitt og við kælum það niður. Það hefur haldist stöðugt. Búið var að mæla það áður í mörg ár. Skógarböðin eru náttúruböð. Við setjum engin kemísk efni í vatnið en hreinsum böðin vikulega og þegar þurfa þykir – það fer eftir ljóstillífuninni hverju sinni.”

Horft fram Eyjafjörð – Mynd: ÓJ

Skógarböðin eru komin á kortið og næsta sumar kemur í ljós hversu margir ferðaskipuleggjendur setja þau inn í sínar áætlanir. 

„Ein helsta áskorun okkar er að við smíðuðum eigin bókunarvef. Við ákváðum að fara þá leið í staðinn fyrir að kaupa okkur inn í erlendar bókunarsíður eða vefi sem aðrir nota. Það felst mikil vinna í þessu en fyrir vikið erum við með frábært upplýsingakerfi. Svo fórum við á næsta stig í tækninni með því að setja upp sjálfsafgreiðslustöðvar. Aðrir baðstaðir hafa ekki farið þá leið. Þessu hafa fylgt áskoranir en allt gengið vel. Ofan á þetta þarf svo að byggja. Nú er í vinnslu bókunarsíða fyrir ferðaþjónustuaðila. Það er eitt og annað sem við höfum þurft að hafa fyrir frá opnun.”

Bergveggurinn setur magnaðan svip á innganginn að böðunum – Mynd: ÓJ

Þið veljið væntanlega að gera eigin bókunarsíðu til að tryggja ykkur stærri hluta af sölunni?

„Jú, það er stærsti þátturinn. Okkur fannst spennandi að hafa þetta nærri okkur, vera með fulla stjórn á öllu ferlinu og eiga persónuleg samskipti við þá sem við vinnum með.”

Er þetta baðstaður sem heimafólkið sækir að jafnaði og er með áskrift að?

„Við höfum nýverið sett í sölu vetrarkort, sem eru ekki síst miðuð við sveitunga okkar. Þau hafa fengið mjög góðar viðtökur. Fólk kom hingað reglulega, dag eftir dag, viku eftir viku. Margir fengu gjafabréf um síðustu jól. Einn sagðist hafa fengið 14 gjafabréf. Hann er enn að vinna á þeim, held ég. Vegna þessara föstu viskiptavina settum við vetrarkort í sölu. Þau gilda út aprílmánuð.”

Móttakan – Mynd: ÓJ

Þú ert ánægð með þessa aðferð – að hafa lagt rækt við heimamarkaðinn áður en ráðist var í laða hingað erlenda ferðahópa?

„Já, ég held að þetta hafi verið heillaskref. Um leið veit ég að næsta sumar verður öðruvísi. Þó að við höfum fengið ferðahópa í sumar þá voru bílastæðin ekki full alla daga. Næsta sumar verða þessir hópar stærri og fleiri. Við megum samt ekki gleyma því að nostra áfram við þá sem skipta okkur mestu, fólkið sem sækir okkur heim árið um kring.”

Á bílastæðinu við Skógarböðin – Mynd: ÓJ

Þið vitið af því nú þegar að Skógarböðin verða inn í ferðaáætlunum margra næsta sumar?

„Já, það er vitað mál. Áhuginn er mikill. Ég nefni skemmtiferðaskipin. Hingað komu um 200 í sumar en þau verða enn fleiri á því næsta. Auðvitað er það léttir fyrir ferðaskipuleggjendur að þurfa ekki að aka með hópa í klukkutíma í böðin í Mývatnssveit og jafn lengi til baka til að tryggja gestunum baðupplifun. Miklu skiptir að hafa svona afþreyingu nær bænum. Við erum með 204 skápa og það takmarkar fjöldann sem við getum tekið á móti í böðin. Til viðbótar er síðan veitingastaðurinn og veitingaaðstaðan úti. Þannig getum við þjónustað um 300 manns í einu.”

Útsýn til Akureyrar – Mynd: ÓJ

Er þetta strax orðið of lítið?

„Nei, ég held að þetta sé frábærlega passlegt. Böðin sjálf eru af notalegri stærð. Við gætum haft stærri veitingaaðstöðu en maður verður að vega og meta það hver sé grunnstarfsemin, hvað skapar mesta virðið. Fólk kemur hingað til að sækja böðin. Þetta er krúttlegt eins og það er.”

En það eru uppi hugmyndir um að reisa hótel hér við hliðina.

„Aðaleigendur Skógarbaðanna, Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, keyptu þetta land þar sem Skógarböðin eru og enn er nægilegt rými fyrir skemmtilega hluti. Þess vegna eru nú uppi hugmyndir um að reisa hótel við hliðina á böðunum og úthýsa reksturinn á því. Hugsunin væri þá sú að gestir hótelsins gætu nýtt sér böðin. Það er verið að undirbúa þetta og svo kemur á daginn hver mun reka hótelið. Þetta er enn á teikniborðinu. Okkur skortir gistiaðstöðu á svæðinu. Það er klárlega þörf á fjögurra stjörnu gistingu í bænum.”

Veitingasalurinn – Mynd: ÓJ

Tinna stýrði áður markaðsmálum fyrir fasteignafélagið Regin og Smáralind en safnar nú reynslu í ferðaþjónustunni. Við horfum vítt yfir sviðið.

„Ferðaþjónustan á Íslandi á mikið inni en það eru nægar áskoranir. Byggja þarf upp betri innviði víða. Flugfélögum sem fljúga hingað til Akureyrar fjölgar en gistirými skortir. Þetta þarf að fara saman. Ekki er nóg að ferja fólk hingað ef það vantar gistirými og afþreyingu. Þá fáum við ekki nægilega góða upplifun. Í þessu er mikið óunnið um allt land. Við þurfum að hlúa betur að þessu. Upplifun ferðamannsins á Íslandi er í grunninn góð en við getum gert betur í þjónustu, veitingum, og í því að halda utan um þá sem sækja okkur heim. Við verðum að hugsa ferlana alveg til enda. Svo þurfum við líka að efla störfin í ferðaþjónustunni, halda Íslendingum í greininni – að það sé spennandi fyrir unga manneskju að starfa í ferðaþjónustu. Við höfum haft um 40 starfsmenn í sumar, langmest Íslendinga. Vonandi náum við að halda því fólki áfram. Ég er ekki að segja að Íslendingar séu betri starfsmenn en fólk af öðru þjóðerni en útlendi gesturinn vill fá upplýsingar frá heimafólki um það sem snýr að svæðinu. Við verðum að geta sagt sögur. Ferðaþjónustan byggist mikið á sögum. Það er mikið virði í þessu.

Sauna með útsýni – Mynd: ÓJ

Tinna lýsir ánægju með kynnin af Akureyri og heimafólkinu og reynslunni af að vinna með kraftmiklum frumkvöðlum eins og stofnendum Skógarbaðanna. 

„Það eru miklir möguleikar á Akureyri. Mér þykir gaman að heyra á fólki fyrir sunnan að því þyki Akureyri spennandi kostur til búsetu. Með fjölgun starfa óháð búsetu kemur Akureyri sterk inn. Hér hefur aðallega vantað fleiri góð störf til að laða að fleira fólk. Akureyri er uppáhaldsbær okkar margra. Það er gaman að koma hingað á skíði. Í vetrarfríum kemur Akureyri fyrst í hugann hjá mörgum. Þú getur farið á skíði – og nú í Skógarböðin, dulúðugan stað þar sem hægt er að baða sig og horfa á norðurljósin. 

Baðmenningin á Íslandi er komin með ákveðinn sess. Ferðafólk kemur til landsins til þess eins að heimsækja baðstaðina, fara hringferð um landið og prófa alla baðstaðina, sem eru ólíkir hver öðrum. Það er svo skemmtilegt. Svo lengi sem við sköpum sérstöðu á hverjum stað, erum ekki einsleit, þá held ég að við getum sótt mjög fram og stimplað okkur inn sem baðstaðalandið.”

Tinna horfir yfir Eyjafjörð – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …