Samfélagsmiðlar

Bílaleigur flýta fyrir orkuskiptum

„Bílaleigur hafa mikil áhrif á það hvernig við komumst hratt í gegnum orkuskiptin. En það er ekki hægt að fara of hratt," segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar, um starfsemina og rafvæðingu bílaleiguflotans. Hann segir að aðstaðan við Keflavíkurflugvöll sé mikil hindrun.

Steingrímur Birgisson

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar

„Þetta var besta sumar hjá okkur til þessa og mjög mikil spurn eftir bílum. Bókanir fóru vel af stað í vor og mikið var að gera í allt sumar. Auðvitað eru annirnar mestar um hásumarið. Núna sitjum við svo uppi með um 1.500 bíla fram á næsta sumar. 

Bílafloti Hölds við Skútuvog – MYND: ÓJ

Við höfðum notað heimsfaraldurinn til að hagræða hjá okkur, bæta það sem við töldum okkur geta gert betur, í tæknimálum og fleiru. En þetta hefur ekki verið dans á rósum. Mikil vinna liggur að baki þessari velgengni og það hafa komið upp margskonar vandamál, t.d. skorti bíla frá framleiðendum í vor. Það jók tilkostnað og um leið hækkaði leiguverðið. Nú er jafnvægi komið á og rólegra yfir.

Bílaleiguflotinn er í heildina orðinn jafn stór og hann var fyrir heimsfaraldur, um 25 þúsund bílar, sem er nærri hámarki miðað við fjölda ferðamanna.

Bílaleigubílar við Keflavíkurflugvöll – MYND: ÓJ

Það er ekkert lát á vinsældum þessa ferðamáta – að fara um landið á bílaleigubíl?

„Nei, alls ekki. Auðvitað er langt síðan þetta fór að aukast mikið en draga á móti úr hópferðum. Í heimsfaraldrinum dró auðvitað enn frekar úr hópferðunum og bílaleigubíllinn kom sterkar inn. Ég býst við að þetta eigi eftir jafnast aftur. Ferðamenn frá Asíu voru mikið í hópferðum þannig að hagur rútufyrirtækjanna vænkast þegar þeir koma aftur.”

Ísland er líklega draumaland bílaleigubílsins. Hér blasir víðáttan við og þú getur ráðið ferðinni?

„Það má segja það. Hinsvegar eru nokkrir annmarkar á þessu. Vegakerfið er ekki það besta sem fyrirfinnst. Vegirnir eru mjóir og þröngir, einbreiðar brýr, óbrúaðar ár og malarvegir. Þetta reynir allt á. En Ísland er víðfeðmt, íbúarnir fáir í stóru landi. Bílaleigubíllinn því þægilegur ferðamáti – að geta ekið hringinn á 7-10 dögum. Svo er þetta frábær aðferð til að fá ferðafólkið til að fara víðar um landið, dreifa álaginu. Bílaleigukúnninn fer mun víðar heldur en t.d. þau sem fara um á rútum – að maður tali nú ekki um þau sem koma í helgarferð til Reykjavíkur. Þannig að ef menn vilja styrkja ferðaþjónustuna úti á landi þá stuðlar bílaleigubíllinn einmitt að því.”

Ferðafólk að koma til landsins. Margir leigja bíl – MYND: ÓJ

Þetta er dýr ferðamáti. Ísland er dýrt og bílaleigubíll er dýr á Íslandi.

„Bílaleigubílar hafa alltaf verið í dýrari kantinum á Íslandi. Við erum að borga allt að 65 prósenta innflutningstolla og 24 prósenta virðisaukaskatt. Flutningur á bílum til Íslands er hár og kostnaður sem fylgir akstri á þessu vegakerfi er mikill. Tryggingar eru dýrar og mikið um tjón, bara framrúðutjón kosta okkur um 100 milljónir á ári. Svo eru það þrif og annað. Það er miklu dýrara að reka bílaleigubíl hér en á meginlandi Evrópu.”

Hvernig gengur ferðamönnum almennt að aka á þessum erfiðu vegum?

„Mjög vel. Við gefum ferðafólkinu mjög góðar upplýsingar. Allir fá upplýsingarit um landið og hvernig fólk á að bera sig að við ólíkar aðstæður, hvernig það á að haga sér í umferðinni. Ferðafólk fær hvergi jafn miklar upplýsingar og þegar það leigir bíl á Íslandi. Farið er yfir öll helstu atriði með hverjum einasta erlenda ökumanni sem leigir bíl. Enda eru það frekar íslenskir ökumenn sem valda tjóni en þeir erlendu.

Verkstæði Hölds í Skútuvogi – MYND: ÓJ

Erlendi ferðamaðurinn er sem sagt ekki verri ökumaður en Íslendingurinn?

„Nei, síður en svo. Það eru alls konar mýtur í gangi: um útlendinga, um verðið og fleira.”

Hvað með sögurnar af smábílum á hálendinu?

„Við erum með miðunarbúnað í öllum bílum okkar – til að geta gert fólki viðvart ef ástæða er talin til. Það er ekki fylgst með bílum en ef fólk lendir í vandræðum þá sjáum við hvar það er statt. Ég frétti ekki í sumar af einum einasta smábíl frá okkur á hálendinu. Þetta hefur breyst. Þau sem selja ferðir láta fylgja upplýsingar um að þú þarft að vera á jeppa til að fara upp á hálendið.”

Bílar við nýjar rafhleðslustöðvar Hölds við Skútuvog – MYND. ÓJ

Ein, tvær eða þrjár manneskjur í bensín- eða dísildrifnum bíl á ferð um landið – þetta getur nú ekki talist gott þegar litið er til þess að við þurfum að minnka kolefnisspor ferðaþjónustunnar, eins og annarra greina. Sérðu fyrir þér breytingar á þessu?

„Já og þetta hefur breyst mjög hratt. Við skulum ekki gleyma því að bensínbíll fyrir 10 árum eyddi kannski 10-15 lítrum á hundraði en eyðir í dag 3-5 lítrum. Þarna hefur orðið mikil bylting. Síðan hafa bílaleigur keypt mikið af tengiltvinnbílum og nú að undanförnu rafmagnsbíla. Höldur er eina bílaleiga landsins með ISO-vottanir, gæðavottunina ISO9001 og umhverfisvottunina ISO14001. Við settum okkur það markmið fyrir þetta ár að 25 prósent af bílum sem keyptir væru yrðu umhverfisvænir og 20 prósent af flotanum væri orðinn umhverfisvænn. Við erum þegar vel yfir þessum mörkum. Eins og staðan er núna, þá eru um 30 prósent flotans umhverfisvænir bílar. Við komumst ekki í hærra hlutfall á meðan innviðir eru ekki betri.

Afgreiðslan í Skútuvogi – MYND: ÓJ

Eins og staðan er í rafmagnsmálum við Keflavíkurflugvöll þá er ekki hægt að setja upp fleiri hleðslustöðvar. Það segir sig auðvitað sjálft að ef við ætlum að leigja ferðamönnum rafbíla þá verður að vera hægt að hlaða þá í Keflavík. Ferðamenn þurfa líka að geta hlaðið bílana á gististöðum. Við getum ekki sett allt álagið á örfáar bensínstöðvar þar sem búið er að setja upp rafhleðslustöðvar. Menn verða að geta hlaðið á næturstað. 

Rafhleðslustöð við Staðarskála í Hrútafirði – MYND: ÓJ

Ísland er komið langt í þessum orkuskiptum, sérstaklega hvað varðar bílana. Við erum næst á eftir Noregi. En kúnnarnir treysta sér ekki til að leigja bíl sem þeir þekkja ekki, vita ekki hvernig á að keyra rafbíl. Þeir eru óöruggir, þurfa að kynnast rafbílum heima fyrir áður en þeir eru tilbúnir að leigja svoleiðis í ókunnu landi. Einn og einn biður um rafbíl en allur fjöldinn er ekki tilbúinn. Vill kynnast þeim fyrst heima fyrir. 

Steingrímur telur á fingrum sér við höfuðstöðvar Hölds við Tryggvabraut á Akureyri – MYND: ÓJ

Það er ekkert langt í þetta. En ég var að fá þær fréttir að við fengjum ekki fjórhjóladrifna rafbíla það sem eftir er þessa árs. Þeir eru ekki til. Krafan um hraðari breytingar á þessu sviði strandar á innviðum og litlu framboði bíla. 

Bílaleigur hafa mikil áhrif á það hvernig við komumst hratt í gegnum orkuskiptin. En það er ekki hægt að fara of hratt. Þá missum við markaðinn af því að það eru ekki til bílar og innviðir ekki tilbúnir.” 

Bílaleigur eru ráðandi á endursölumarkaðnum.

„Það er jákvætt fyrir Ísland. Hjálpar okkur i gegnum orkuskiptin, flýtir fyrir þeim. Bílaleigurnar eru drifkraftur í þessu og standa sig vel. Við erum að endurnýja það hratt, miklu hraðar en venjulegir viðskiptavinir. Fyrir vikið komast bílarnir hraðar út á endursölumarkaðinn. 

Bílaleigubíll sóttur á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Sjálfur var ég að koma frá Tenerife. Þar sá ég einn rafbíl, engan tengiltvinnbíl. Ég fór oft í leigubíl. Það voru beinskiptir bensínbílar, eknir 300 til 700 þúsund kílómetra. Þetta voru 10-12 ára bílar sem eyða tvöfalt eða þrefalt meira heldur en okkar bílar hér á Íslandi – af því að þeir eru nýrri. Það sama mun gerast með tengiltvinnbílana og rafbílana. Þegar við förum að selja þá á markaði þá mun það auðvelda almenningi kaupin – af því að þessir bílar eru dýrari nýir en bensínbílarnir. Það flýtir fyrir orkuskiptunum. 

Þetta tekur tíma – en við getum ekki farið fram úr okkur. Höldur á núna nærri 500 rafbíla og vel á annað þúsund tengiltvinnbíla. Það er ekki eins og ekkert hafi verið gert.” 

Það kemur þá að því að við getum sagt: Ferðaþjónustan er umhverfisvottuð, bílarnir eru umhverfisvænir. Ísland er grænvottað land með hreina orku. Mun þetta ekki laða hingað fólk?

Fjallabíllinn nýþrifinn á Akureyri – MYND: ÓJ

„Jú, alveg klárlega. Og við erum á fullu í þessum efnum.

Það falla til hjá okkur um 140 tonn af dekkjum á ári. Þau eru afar óumhverfisvæn. Í mörg ár höfum við flokkað þau með hliðsjón af ISO-vottun okkar. En dekkin hafa því miður aðeins verið endurunnin að hluta til. Við gátum ekki sætt okkur við að þau væru að stórum hluta urðuð – þrátt fyrir að við værum búin að flokka þau. Gæðastjóri okkar setti sig í samband við HP Gáma til að finna lausn og nú eru þessi 140 tonn flutt til Hollands í endurvinnslu. Gúmmíið fer í mottur á leikvelli og víðar, járnið fer í hluti sem tengjast rafhleðslum og plastið úr dekkjunum fer í boxpúða. Það er sem sagt verið að endurnýja öll dekk sem við förgum. Fyrir fimm árum var það ekki gert. 

Þetta er á fleygiferð.

Við mælum allt rafmagn sem við notum, alla vatnsnotkun, heitt og kalt, allt sorp sem við flokkum. Hér uppi á kaffistofu við Tryggvabraut eru sex flokkunartunnur. Reykjavík er varla byrjuð. Þegar ég er fyrir sunnan líður mér illa með að henda lífrænum úrgangi í venjulega tunnu.”

Nýtt aðsetur Hölds í við Skútuvog í Reykjavík – MYND: ÓJ

Skilar þetta sér í betri afkomu eða fylgir þessu bara aukinn kostnaður og álag.

„Þetta er auðvitað heilmikill kostnaður. Við erum búin að setja upp um 50 rafhleðslustöðvar. Það kostaði tugi milljóna króna. En við höfum ekkert val. 

Við keyptum fyrstu tvo rafbílana 2010. Þeir voru með 80-100 kílómetra drægni. Þetta var tilraunaverkefni með Orkuveitunni, ráðuneytum og fleirum. Á sínum tíma sagði ég að þetta væri lélegasta beina fjárfesting sem við hefðum ráðist í. Hvor bíll kostaði um átta milljónir og við seldum þá þremur árum seinna á um eina og hálfa milljón hvorn. Í krónum og aurum var þetta óhagkvæmasta fjárfesting fyrirtækisins frá upphafi. En málið snérist ekkert um það, heldur vildum við kanna hvernig rafbílar reyndust á Íslandi. Hvað þarf til að þetta gangi upp? Þetta var mjög lærdómsríkt ferli. 

Það sama gildir um þetta allt sem við erum að gera í umhverfismálum: Við verðum að fara þessa leið – hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því fyrr, því betra. Hinsvegar verðum við að stjórna hraðanum, megum ekki fara of hratt. 

Steingrímur í vetrarsólinni á Akureyri – MYND: ÓJ

Borgar þetta sig? Já, það mun gera það þegar til lengri tíma er litið. Þetta tekur tíma.”

Hvernig finnst þér stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, orkufyrirtækin og aðrir, standa sig í því að hraða þessari þróun?

„Almennt sýnist mér að menn séu að standa sig vel. Stundum pirrar mig þegar fólk talar þannig að allt geti gerst í einum hvelli. Það er ekki hægt. Tíma tekur að byggja þetta upp. Við erum klárlega með þeim fyrstu í heiminum í þessum efnum. En við þurfum ekki að vera langt á undan öllum öðrum. Það væri of dýrt. Ég hef heyrt galnar fullyrðingar, eins og þá að skylda ætti allar bílaleigur til að kaupa bara rafbíla! Við gætum það ekki. Þá myndi flotinn minnka úr sjöþúsund í eittþúsund bíla. Þetta er óraunhæft. 

Heilt yfir, þá þykja mér stjórnvöld standa sig vel. Loftslagsráðherra var að setja aukalega 200 milljónir í uppbyggingu innviða. 

Bílaleigubílar á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdasvæði í baksýn – MYND: ÓJ

Staðan er verst á Suðurnesjum – á Keflavíkurflugvelli – þar sem við þurfum að byggja upp aðstöðu.”

Það er auðvitað ekki gott að Keflavíkurflugvöllur sé einn helsti flöskuhálsinn þegar kemur að því að  hraða orkuskiptum í bílaleiguflotanum. Hvað viltu segja um aðstöðu bílaleiganna á Keflavíkurflugvelli?

Hæghleðsla á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

„Aðstaðan er nánast engin. Það má segja að við séum á stöðugum flótta, vitum ekki hvaða útisvæði við höfum frá ári til árs. Miklar framkvæmdir eru í gangi og við þurfum að færa okkur til vegna þeirra. Vonandi skila einhverju þær viðræður sem við erum núna í við Isavia um betri aðstöðu. Aðstaða þeirra bílaleiga sem eru með starfsstöðvar inni í flugstöðinni er mjög döpur, gæti verið miklu betri með tiltölulega litlum breytingum, sem Isavia hefur til þessa ekki viljað hlusta á að þurfi að verða. Það eru breytingar sem myndu draga verulega úr umferðarálagi á svæðinu. Svo höfum við fengið þau svör að ekki sé hægt að setja upp fleiri hleðslustöðvar af því að það vanti rafmagn!”

Bílaleigufloti og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Það er gríðarlegt umferðarálag við flugstöðina. Auk bílaleigubílanna, þá kemur mjög stór hluti farþega á einkabílum. Þurfa bílaleigurnar ekki að vera fjær flugstöðinni?

„Jú, það er að gerast. Bílaleigurnar eru margar farnar á lóðir fjær. Það er kannski ekkert verra. Þá einföldum við umferðarmálin í kringum flugstöðina. Viðskiptavinir verði bara fluttir með vögnum frá flugstöðinni til bílaleiganna.  Við þurfum alla vega að fá svör frá Isavia um það hvernig þau vilja hafa hlutina til framtíðar.”

Beðið eftir næstu flugvélum á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Þið hafið fjárfest í ferðaþjónustu, síðast í Skógarböðunum og Niceair. Lítið þið á það sem ykkar skyldu að styrkja samfélagið eða eru það hreinar viðskiptalegar ástæður sem skýra þátttöku ykkar?

„Við teljum okkur hafa ákveðnum skyldum að gegna. Við höfum þá samfélagslegu ábyrgð að styrkja nærumhverfi okkar. Fyrir um 10 árum gerðumst við hluthafar í hvalaskoðun frá Akureyri. Enginn hafði trú á því að hægt væri að skoða hvali í Eyjafirði. Það er heldur betur búið að afsanna það. Þetta hefur ekki enn skilað okkur gróða en fjölbreytni á svæðinu hefur aukist. Við höfum líka verið þátttakendur í uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Það er samfélagslegt verkefni sem skilar okkur ekki krónu beint í vasann. Svo erum við hluthafar í Norðurböðum, sem eiga eignarhlut í Jarðböðunum í Mývatnssveit og Sjóböðunum á Húsavík. Og nú síðast keyptum við hlut í Skógarböðunum hér við Akureyri. Við þekkjum því orðið vel til í baðgeiranum. Það sem við höfum í huga er að byggja upp þessa staði, auka fjölbreytni í afþreyingu á svæðinu, búa til segla. Þetta styrkir allt okkar rekstur til lengri tíma litið. Auðvitað er hugsunin sú að þessi rekstur skili arði einhvern tímann í framtíðinni. En þetta eru langtíma fjárfestingar.

Við höfum líka tekið þátt í tilraunaverkefnum um framleiðslu á eldsneyti, við hlupum undir bagga þegar Slippurinn á Akureyri stóð illa fyrir mörgum árum, og við erum með samninga við 80 íþróttafélög um allt land, svo eitthvað sé talið. 

Höldur á hlut í Skógarböðunum – MYND: ÓJ

Við lítum svo á að það sé skylda svona stórs aðila að sýna samfélagslega ábyrgð en um leið að fjárfesta í fyrirtækjum sem vonandi skila okkur einhverjum arði í framtíðinni.”

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Akureyrar sem ferðaþjónustubæjar?

„Þar eru miklir möguleikar. Akureyri er þjónustumiðstöð fyrir þetta svæði. Það hefur dálítið skort  afþreyingarmöguleika í bænum. Hinsvegar ef við skoðum möguleikana í 150 kílómetra radíus þá höfum við margt að bjóða. Akureyri gæti orðið miðstöð jaðaríþrótta (extreme sports) af ýmsu tagi. Við sjáum að á Nýja Sjálandi og í Noregi tala menn um nærumhverfi viðkomandi borga sem svæðið í 200-300 kílómetra radíus. Akureyri gæti verið sterk miðja í þessu. Hér er mikil afþreying í boði í næsta nágrenni. Eftir að hafa séð hvernig staðið er að málum á Nýja Sjálandi, þá er alveg ljóst að við getum gert betur – þó við séum að gera margt gott. 

Á Leirunum við Akureyri – MYND: ÓJ

Það vantar hinsvegar tilfinnanlega hér á Akureyri fimm stjörnu hótel, gott ráðstefnuhótel. Það er ekki bæjaryfirvalda að reisa hótel. Það verða einhverjir aðrir að gera.”

Myndi Höldur vilja taka þátt í slíkum hótelverkefnum?

„Við skoðum allt svona. Við höfum einbeitt okkur hingað til að bílunum og böðunum, að þessu sem við þekkjum.”

Á þessari lóð á Akureyri stóð einu sinni til að reisa hótel – MYND: ÓJ

En einhvers staðar þurfa ökumenn að gista.

„Nákvæmlega, en við myndum aldrei standa einir að hótelrekstri. Þetta þurfa að vera keðjur. Gesturinn kemur ekki til að gista á einum stað í heila viku. Hann vill bóka gistingu allan hringinn. Þess vegna er sterkast að fá keðjur inn á þetta svæði.”

Gamla Hótel KEA og kirkja séra Matthíasar – MYND: ÓJ

Ertu bjartsýnn á að svona gæðahótel rísi hér á Akureyri og að beint flug hingað frá útlöndum eigi eftir að aukast?

„Já, ég er bjartsýnn á það. Niceair hefur sýnt fram á að heimamarkaðurinn er stærri heldur en menn reiknuðu með en svo tekur tíma að byggja upp erlenda markaðshlutann. Vonandi tekst það. 

Gistingu vantar á svæðinu. En það vantar líka fleiri gesti um vetrartímann til að geta byggt upp meiri gistiaðstöðu. 

Ég nefni líka Mývatnssveit sem dæmi, algjöra náttúruperlu. Þar er allt fullt á sumrin en hálftómt á veturna og hótel loka í tvo mánuði. Það er skelfilegt. Viðskiptavinurinn kemur ekki þegar það er lokað. 

Já, ég er bjartsýnn á að það komi fimm stjörnu hótel hér á Akureyri og ég veit að það eru aðilar að skoða þann möguleika. Ég tel nokkuð góðar líkur á að af því verði.”

Steingrímur við höfuðstöðvar Hölds á Akureyri. Sér upp í Hlíðarfjall – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …

Gott símasamband í höfuðborg Bretlands byggði lengi á hinum 177 metra háa BT Tower sem kenndur var við eigandann, British Telecom. Turninn varð hæsta mannvirkið í London þegar hann var reistur af símafyrirtækinu árið 1964. Það var ekki fyrr en 16 árum síðar að annað mannvirki í London fór upp fyrir þetta símamastur sem einnig …

Velta í ferðaþjónustu í nóvember og desember í fyrra var nærri óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Ef veltan hefði verið í takt við verðbólgu og fjölgun gistinátta ferðamanna þá hefði hún verið um 13 milljörðum kr. hærri. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar þá var veitingareksturinn sá eini sem hélt í …

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital Credit varð langstærsti hluthafinn í Icelandair í júní 2021 og á nú 17,2 prósenta hlut. Sjóðurinn hefur fjárfest fyrir 10,4 milljarða króna í flugfélaginu en fengi rétt 7,5 milljarða fyrir hlutinn í dag. Mismunurinn nemur nærri 3 milljörðum króna en gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 18 prósent frá því …

Tölur sem Kóperníkus, lofthjúpsvöktunaþjónusta Evrópusambandsins, og ítölsku umhverfisverndarsamtökin Legambiente kynntu nýlega sýna að í Mílanó mælist svifryk og önnur loftmengun áfram hvað mest í allri Evrópu. Nú er loks rætt um það af yfirvöldum í Mílanó og nærliggjandi borgum og bæjum á Langabarðalandi að grípa einhverra aðgerða - eins og að takmarka notkun á mest …

Þátttaka hins opinbera í rafbílakaupum landsmanna er nú með breyttu sniði. Í stað skattaafsláttar upp á 1,3 milljónir króna, sem dreginn var frá söluverði nýrra rafbíla, þá verða kaupendur bílanna að greiða fullt verð í umboðinu og sækja svo um 900 þúsund króna styrk hjá Orkustofnun í framhaldinu. Þessi breyting var gerð um síðustu áramóti …

Sá sem kaupir ódýrasta fargjaldið hjá Icelandair, Economy Light, þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Áður var töskugjaldið 5.280 krónur en nú þarf að borga allt að 6.600 krónur undir farangurinn aðra leið. Hækkunin nemur 25 prósentum og svo mikil eru hún líka ef innrita á skíði. Flutningur á þeim kostar núna allt að …