Samfélagsmiðlar

Evrópa tapar fyrir Kína

Evrópskir bílaframleiðendur sjá fram á versnandi afkomu á næstu árum vegna hraðrar rafbílaæðingar þar sem Kínverjar hafa náð forskoti í þróuninni. Mikill efnahagssamdráttur blasir við í Evrópu þar sem bílaiðnaður hefur verið öflugur.

Kínversku BYD Dolphin og Seal eru framleiddir fyrir Evrópumarkað

Hröð fjölgun rafbíla hefur mikil áhrif á stöðu evrópskra bílaframleiðenda. Bílar sem ganga fyrir rafmagni, öðrum vistvænum orkugjöfum, eða svokallaðir blendingar, voru 47% allra nýrra bíla sem skráðir voru í Evrópu árið 2022. Sala á hreinum rafbílum jókst mest og voru þeir 12% nýskráninga.

Hlutfall rafbílanna mun hækka hratt næstu árin enda er markið sett á að banna sölu á bílum með sprengihreyfil sem notar bensín eða dísil árið 2035. Bann mun leiða til gríðarlegra breytinga í bílaaiðnaðinum og virðiskeðju hans. Færri hreyfanlega hluti þarf til smíði rafbíls en hefðbundins bíls sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti og allt viðhald minnkar og einfaldast. Þetta hefur áhrif á framleiðendur bílahluta vítt og breitt um heiminn. Vægi bílaframleiðslu í Evrópu mun minnka jafnt og þétt. Stærsta ógnin kemur þó frá Kína, segir í nýrri skýrslu tryggingarisans Allianz Trade.

VW ID.3 er þriðji mest seldi rafbíllinn í Evrópu á árinu, næst á eftir tveimur gerðum Tesla – MYND: Volkswagen

Kínverjar áttuðu sig á því upp úr aldamótunum hversu miklir möguleikar fælust í framleiðslu rafbíla og hafa þeir fjárfest gríðarlega í þróun þeirra og tekið forystu á rafbílamarkaði heimsins. Árið 2022 seldu Kínverjar meira en tvöfalt fleiri hreina rafbíla heldur en evrópskir og bandarískir framleiðendur samanlagt. Þá eru kínverskir framleiðendur með forystu hvert sem litið er í virðiskeðju rafbíla.

Styrkleiki kínversku bílaframleiðendanna felst í yfirburðum á heimamarkaði þar sem innlendir framleiðendur ráða um 50% af markaðnum. Kínverjar hafa snúið við neikvæðum viðskiptajöfnuði í bílaverslun í jákvæða á fáeinum árum. Meðal mest seldu rafbílanna í Evrópu í fyrra voru 3 fluttir inn frá Kína. Hlutfallslega vaxandi sala rafbíla í Evrópu mun leiða til þess að æ oftar muni evrópskir bílar víkja fyrir bílum smíðuðum í Kína – frá kínverskum, bandarískum eða evrópskum framleiðendum. Merkið framan á bílnum verður þýskt, fransk, breskt eða sænskt – en stöðugt fleiri þeirra verða að óbreyttu framleiddir í Kína að mestu leyti.

Mest seldi rafbíllinn í Evrópu er Tesla Model Y – MYND: TESLA

Allianz Trade áætlar að árlegur samanlagður hagnaður evrópskra bílaframleiðenda hafi dregist saman um 7 milljarða evra árið 2030. Ef kínverskum bílaframleiðendum tekst að ná 75% markaðshlutdeild heima fyrir það ár má ætla að sala evrópskra bíla í Kína hafi minnkað um 39%, farið úr 4,4 milljónum í 2,7 milljónir bíla. Á sama tíma má búast við að árið 2030 flytji Evrópumenn inn 1,5 milljónir kínverskra bíla, sem svari til 13,5% af evrópskri rafbílaframleiðslu. Þessari breytingu fylgir mikill efnahagslegur samdráttur þar sem bílaiðnaður hefur verið mikilvægur – í Þýskalandi, Slóvakíu og Tékklandi. 

Sérfræðingar Allianz Trade velta fyrir sér hvað sé til ráða í Evrópu. Hvað geta stjórnmálamennirnir gert?

Vegna efnahagslegs mikilvægis bílaiðnaðarins fyrir Evrópuríkin gætu stjórnvöld í viðkomandi ríkjum leitað eftir gagnkvæmum hagkvæmum viðskiptasamningum við Kína og Bandaríkin. Um leið þyrfti að stórbæta hleðsluinnviði í Evrópu til að greiða götu rafbílavæðingar. Þá gæti einnig verið jákvætt fyrir þróun evrópsks bílaiðnaðar til lengri tíma að leyfa kínverska fjárfestingu í samsetningarverksmiðjum hér og þar í álfunni – að Evrópumenn læri af Kínverjum. Á sama tíma ættu evrópskir framleiðendur að leitast við að verða sjálfum sér nógir um nauðsynleg aðföng til framleiðslu á rafhlöðum og fjárfesta í þróun þeirra til framtíðar. 

Peugeot e 208 er mest seldi rafbíllinn í Frakklandi – MYND: PEUGEOT

Evrópumenn verða með öðrum orðum að gyrða sig í brók til að eiga einhverja möguleika í kapphlaupinu við Kínverja á rafbílamarkaðnum. Langar virðiskeðjur hafa orðið til í langri sögu evrópskrar bílaframleiðslu en segja má að þær þvælist að einhverju leyti fyrir í rafbílabyltingunni.

Hver framleiðandinn af öðrum er nú að endurskipuleggja framleiðslulínur og endurmennta starfsfólk til að hraða umskiptunum yfir í rafbílaframleiðslu. Tíminn sem er til stefnu er skammur. Evrópusambandið hefur þegar gefið eftir til að þóknast þýskum bílaframleiðendum. Þeir fá að framleiða bíla með sprengihreyflum sem ganga fyrir svonefndu rafeldsneyti (metan, kerósín, metanól) eða vetni eftir 2035 – ef það svarar þá enn kostnaði að gera það að 12 árum liðnum þegar hreinir rafbílar hafa þróast og orðið betri en þeir eru í dag.

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …