Samfélagsmiðlar

Frakkar reyna að hindra framgang kínverskra bílaframleiðenda

Frönsk stjórnvöld kynntu í vikunni reglur til að örva rafbílavæðinguna - án bíla frá Kína. Þetta er gert þrátt fyrir að evrópskir framleiðendur geti ekki svarað samkeppni frá Kína í framboði á ódýrari gerðum rafbíla.

Einn af fánaberum franskrar rafbílavæðingar: Peugeot E-208

Frönsk stjórnvöld vilja hraða orkuskiptum í þágu loftslagsmarkmiða – en eru súr yfir því að meðal þeirra sem njóta efnahagslega góðs af því eru Kínverjar. Rafbílaframleiðendur í Kína eru komnir lengra á þróunarbrautinni en evrópskir keppinautar þeirra. Þeir geta nú boðið tiltölulega ódýra rafbíla á ört stækkandi evrópskum rafbílamarkaði – án þess að mæta verulegri samkeppni evrópskra framleiðenda. Hvernig ætli brugðist sé við slíkri innrás? Jú, með því að beita tæknilegum hindrunum. En munu þær duga?

Frönsk stjórnvöld bjóða nú kaupendum rafbíla 5.000 til 7.000 evrur í styrk eða bónus til kaupa á gjaldgengum rafbílum. Miðað er við að bíllinn kosti að hámarki 46.000 evrur, sem svarar til tæplega 6,5 milljóna íslenskra króna. Verja á rúmum milljarði evra á ári í þetta átak til að fjölga rafbílum á götum Frakklands.

Þar sem skortur er á ódýrum rafbílum með merki Peugeot, Citroën, VW, Fiat eða annarra evrópskra framleiðenda hafa neytendur hallað sér að kínverskri framleiðslu. Þetta hefur aukið innflutning og breikkað samkeppnisbilið. Innlendir framleiðendur líða fyrir það að geta ekki svarað eftirspurn neytenda.

Breytingarnar sem franska ríkisstjórnin kynnti í vikunni fela í sér að frá 15. desember næstkomandi verður tekið með í reikninginn hversu stórt kolefnisfótspor fylgir framleiðslu viðkomandi rafbíls. Og það verður allt tekið með í reikninginn. Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, og ráðherrar í ríkisstjórn hans reyna ekki að leyna því að þessum ráðstöfunum er beint að Kínverjum: Það á að hindra flæði kínverskra rafbíla inn á franska markaðinn.

Emmanuel Macron, foseti Frakklands, er staðráðinn í að mæta kínverskri samkeppni af hörku – MYND: Evrópuþingið

Samkvæmt nýju reglunum verður hver bílategund vegin og metin og kannað hvort hún uppfyllir lágmarkskröfur stjórnvalda um þá orku sem notuð var við framleiðsluna, flutning á markað og hvaða gerð rafhlöðu er notuð. Þessu er ætlað að ýta kínverskri bílaframleiðslu til hliðar vegna þess hversu mjög hún treysti á mengandi kolabrennslu til raforkuframleiðslu. Áhugasamir Frakkar um rafbílakaup fá þá tæplega ríkisstyrkinn ef þeir vilja kínverskan bíl frekar en franskan.

Í desember ætla frönsk stjórnvöld að birta lista yfir þær bílagerðir sem uppfylla þá staðla sem fylgt verður. Þau staðhæfa að þetta samræmist regluverki Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem undanþágur frá meginreglunni um viðskiptafrelsi eru veittar á grundvelli heilsufars- og umhverfisástæðna.

Auðvitað er eðlilegt að spurt sé: Duga þessi viðbrögð frönsku ríkisstjórnarinnar til að hemja kínverska bílaframleiðendur? Kínverskir bílar eru u.þ.b. 20 prósentum ódýrari en þeir sem framleiddir eru í Evrópu. Bónusinn frá ríkinu getur ráðið úrslitum um kaupin á allra ódýrustu bílunum. En bílar í þeim flokki eru ekki væntanlegir frá evrópskum framleiðendum eins og Stellantis (Peugeot, Citroën, Opel, Lancia o.fl.) og Renault fyrr en á næsta ári. Kínverskir framleiðendur hafa hinsvegar ýmislegt að bjóða nú þegar – og þurfa ekki að treysta á franska bónusinn. Þeirra bílar eru ódýrastir og verða það þangað til Evrópumenn svara með nýjum rafknúnum alþýðubílum -„fólksvagni“ eða „bragga.“

Tveir gamlir, franskir klassíkerar minntu á sig í sumar: Citroën 2CV-braggi og Renault R4 – MYNDIR: ÓJ

Reuters-fréttaveitan tekur sem dæmi um stöðuna að rafbíll af gerðinni MG4 frá SAIC, sem er stærsti bílaframleiðandinn í Kína, verður ódýrari en sambærilegur Renault Megane með bónus frá franska ríkinu. Hinsvegar gæti Tesla framleidd i Kína misst kaupendur í Frakklandi vegna þess að verðið er fyrir ofan það hámark sem bónusgreiðslan verður miðuð við. Á heildina litið er búist við að kínverskir muni halda sjö til átta prósenta hlutdeild á franska rafbílamarkaðnum – þrátt fyrir íþyngjandi reglur – en hefðu ella átt um 10 prósent af markaðnum og gætu vonast eftir meiru.

Dacia Spring Extreme-rafbíllinn að innan – MYND: Dacia/Renault

Dacia Spring er einn vinsælasti rafbíllinn í Frakklandi ásamt Tesla Y, Peugeot e-208, Fiat 500e, Renault Megane eTech og áðurnefndum MG4. Reuters eftir forstjóra Renault að fyrirtækið hafi ekki í huga að flytja framleiðslu rafbílsins Dacia Spring frá Kína til Evrópu vegna breytinga á reglum um styrki eða bónusa til kaupenda. Hann segir að fyrirtækið komist vel af án bónusanna. Þetta viðhorf lýsir því vel að hinir stóru peningahagsmunir eru alþjóðlegir og láta sig lítt varða um viðleitni einstakra ríkja til að verja hagsmuni sína.

Renault Megane E-Tech í vetrarfærð – MYND: Renault

Kínversku framleiðendurnir SAIC og BYD hafa báðir lýst því yfir að þeir leiti að heppilegum stöðum til að reisa verksmiðjur í Evrópu – og mæta þannig mögulegum samkeppnishindrunum og samlagast betur viðkomandi hagkerfum. Það gerðu japanskir framleiðendur eins og Toyota, Nissan og Honda á sínum tíma – urðu evrópskir þegnar.

Kínverski BYD miðar Dolphin og Seal-gerðir sínar við evrópska kaupendur – MYND: BYD

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …