Samfélagsmiðlar

„Aðalatriðið er að njóta þess að vera sjálfur í þessu“

Norður á Siglufirði er lítið hótel og marokkóskur veitingastaður sem lokka til sín gesti árið um kring - út af hringveginum. Hálfdán Sveinsson á Hótel Siglunesi segir að þó sé aðalatriðið að hafa gaman af þessu. „Ég hugsa um þetta út frá mínum sjónarhóli, hvað ég vil sjá þróast í mínu umhverfi.“

Hálfdán Sveinsson

Morgunsólin skín á Hálfdán Sveinsson á Hótel Siglunesi

Þegar komið er fram í nóvember hægist taktur athafnalífsins í ferðabænum Siglufirði. Varla nokkur er á ferli þennan sunnudag þegar Túristi rennir inn í bæinn. Veðrið er stillt og fallegt og margir hafa augljóslega dustað rykið af jólaseríum um helgina og hengt út í glugga.

Hótel Siglunes stendur við Lækjargötu og óhætt er að segja að þetta steinsteypta hús frá 1935 búi yfir mikilli sögu. Þarna hefur verið rekin gisti- og veitingaþjónusta undir ýmsum nöfnum í bráðum 90 ár, leikið fyrir dansi og haldnir pólitískir hitafundir, veislur og mannfagnaðir. Þessi saga er næstum jafn löng og saga Hótel Borgar í Reykjavík og henni er ekki lokið.

Nóvembermorgunn í Lækjargötu – MYND: ÓJ

Það er gjarnan talað um boutique-hótel þegar um er að ræða hótel með tiltölulega fá herbergi og leitast er við að veita persónulega þjónustu í umhverfi sem lögð hefur verið alúð við að móta með gömlum húsgögnum, munum og myndverkum. Ef gesturinn hefur engan áhuga á að láta koma sér á óvart heldur ganga að tilteknum gæðum vísum – allt sé fremur fyrirsjáanlegt og þægilegt – þá bókar viðkomandi sig tæplega á boutique-hóteli.

Gægst inn á barinn – MYND: ÓJ

Allir sem ganga inn á Hótel Sigluvík finna fljótt að þetta hótel er einstakt um margt. Í móttöku og setustofum á jarðhæð eru húsgögn sem mörg hver voru smíðuð á Siglufirði, myndir og munir vitna um sögu þessarar síldarhöfuðborgar Íslands, listaverk skreyta veggi. Herbergin eru hvert og eitt með sinn svip og andrúmsloft.

Arinstofan – MYND: ÓJ

Vafalaust hafa gestir hér áður stundum fundið þarna inni lyktina frá síldarbræðslunni og vélbátunum sem lágu við bryggjurnar – nema að tóbaksreykurinn hafi kæft hana. Nú eru aðrir tímar – og annar keimur í loftinu á matmálstímum, ættaður úr öðrum menningarheimi – alla leið sunnan frá Marokkó. Jaouad Hbib, listakokkurinn frá Marokkó, ræður ríkjum í eldhúsinu á Hótel Siglunesi og er veitingahúsið þarna í gamla ballsalnum getið sér frægðarorð. Það verður að tryggja sér borð með fyrirvara. En þennan sunnudag þegar Túristi kemur á Hótel Siglunes er Jaouad ekki á staðnum.

Píanóið stendur í móttökunni – MYND: ÓJ

„Það var fullt hjá okkur í mat í gærkvöld,“ segir Hálfdán Sveinsson þegar við erum sestir við borð í tómum salnum. „Svo er rólegt hjá okkur virka daga. En það er líka vegna þess að þetta er í fyrsta sinn á þessum árstíma að við bjóðum fulla þjónustu. Tíma tekur fyrir fólk að venjast þessu. Það er vant því að við drögum saman seglin á þessum árstíma.“

Hálfdán og kona hans Margrét Jónsdóttir Njarðvík eiga og reka þetta hótel á Siglufirði. Hún er rektor Háskólans á Bifröst og starfrækir um leið ferðaskrifstofuna Mundo, sem stendur m.a. fyrir skíðagöngunámskeiðum á Siglufirði. Þarna er orðinn til pakki: gisting á Hótel Siglunesi og skíðaganga undir handleiðslu þrautreyndra skíðakappa. 

Góður staður til að setjast niður með bók – MYND: ÓJ

Stundum heyrir maður sagt að lykillinn að farsælli ferðaþjónustu sé að skapa fullvissu um að opið sé árið um kring, alltaf megi ganga að þjónustunni vísri.

„Ég er algjörlega sammála þessu. Þetta er lykilatriði. Ég var svo heppinn að þegar ég tók við Hótel Siglunesi árið 2013 þá var mitt aðalstarf að reka annað fyrirtæki. Fyrir vikið gat ég byggt Hótel Siglunes upp á orðsporinu. Ég hafði aldrei verið í hótelrekstri en þetta var draumaverkefni,“ segir Hálfdán og brosir.

„Fyrstu tvö árin rak ég þetta að sjálfsögðu með tapi. Ég auglýsti ekkert. Fólk datt bara inn. En þegar Sigló Hótel var opnað 2015 jókst traffíkin hjá mér um 50 prósent.“

Þá hafði því verið rækilega komið á framfæri að Siglufjörður væri eftirtektarverður áfangastaður, þar sem fjölbreytt þjónusta væri í boði.

„Ástæðan fyrir því að ég fór í endurbætur hér, nútímavæddi húnæðið, var að þá hafði Róbert Guðfinnsson ákveðið að reisa nýtt hótel. Ég sagði við hann að ég myndi nýta mér þennan meðbyr sem fylgdi honum. Við erum góðir vinir og ég hafði trú á því sem hann var að gera. Þetta gekk eftir. Það sama gerðist þegar ég opnaði veitingastaðinn. Ég hafði aldrei rekið veitingastað en fékk til mín Jaouad Hbib árið 2016 eftir langa baráttu við kerfið. Það tók meira en ár að fá atvinnuleyfi fyrir hann. Öllum þótti þetta mjög skrýtið. Að opna fyrsta marokkóska veitingastaðinn á Íslandi einhvers staðar lengst úti á landi. Fyrsta árið voru þau ófá kvöldin þegar ég var eini kúnninn!“ segir Hálfdán, sem nú getur glaðst yfir því að hafa haft úthald og þolinmæði.

Hálfdán í garðinum – MYND: ÓJ

„Það sem ég var að hugsa var að hafa gaman af þessu: Tveir miðaldra karlar að skemmta sér. Þetta var ákveðin tilraun. Ástæðan fyrir því að ég fékk Jaouad til landsins var sú að ég gjörsamlega féll fyrir eldamennsku hans í Essaoura á vesturströnd Marokkó. Ég dobblaði hann hingað en fyrsta árið var rekið með mígandi tapi. Það vissi ég fyrirfram. En síðan hefur þetta verið eitt samfellt ævintýri. Þetta var ekki planað. Ég hafði farið inn á þann veitingastað í Essaoura sem var með hæstu einkunnina. Bað kokkinn að færa mér allt það besta, eins og ég geri gjarnan þegar ég fer á góða staði: Treysti kokknum til að bjóða mér upp á það sem hann telur best. Þetta varð þriggja tíma kvöldverður og spjall við eigandann, eftirminnilegt kvöld sem endaði þannig að ég spurði hvort ég mætti bjóða kokkinum Jaouad vinnu á Íslandi.“

Siglufjörður á gamla kortinu – MYND: ÓJ

Þú þurftir að læra smám saman af reynslunni að reka hótel og síðan veitingahús. Hér situr þú og brosir og segist vilja hafa gaman af þessu. 

„Í byrjun var hugsunin að gera endurbætur á húsinu, koma rekstrinum vel í gang – og selja þetta síðan. Þetta var bara svo gaman. Ég sagði alltaf: Eitt ár enn! Nú er ég hættur að segja það en held bara áfram – og geri sennilega allt til enda. Reksturinn hefur gengið mjög vel. Ég nýt þess að þetta var ódýrt húsnæði í upphafi. Fasteignaverð á Siglufirði var í botni og ég keypti þetta af bankanum. Ég hef getað byggt þetta upp í rólegheitum án þess að taka mikil lán, hef haldið í það sem vel er gert og auglýsti eftir húsgögnum sem smíðuð voru hér á Siglufirði. Fólk gaf mér hluti sem það fann í geymslum. Á öllum herbergjunum eru einhver húsgögn frá árunum 1930 til 50. En rúmin eru ný og allt inni á baðherbergjum.“

Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu – MYND: ÓJ

Hálfdán tekur ekki í mál að aðkomumaður hverfi svangur á braut. Jaouad er í fríi en landi hans Amiina er líka snilldarkokkur og galdrar fram léttan hádegisverð, sem flytur mann í huganum i burtu frá Tröllaskaga og alla leið til Marokkó. Þangað segist Hálfdán „neyðast“ til að fara á hverju ári til að sækja krydd. Í einni heimsókninni tókst honum að vekja áhuga Aminu á að koma til Siglufjarðar. Hún var í svipaðri stöðu í matarheimi Essaoura og Jaouad áður, rak viðurkenndan veitingastað. Eftir komu hennar á Hótel Siglunes getur Jaouad tekið sér tveggja daga frí í viku. 

Ljúft bragðið af matnum fær Túristi samt ekki til að gleyma erindinu hingað norður:

Frá því að þú byrjaðir hérna fyrir um áratug hefur ferðaþjónusta á Íslandi tekið stakkaskiptum. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög. Þið hafið auðvitað fundið fyrir þessu, er það ekki?

„Jú, en ég held að hlutfall Íslendinga sé hærra á Hótel Siglunesi heldur en gengur og gerist á hótelum á landinu. Þar kemur til sagan hér á Siglufirði. Flestir Íslendingar geta sagst eiga einhverjar rætur að rekja hingað – þó svo undarlega vilji til að ég eigi engar rætur hér! Hingað kemur á hverju ári fólk sem trúlofaði sig hér í húsinu, kynntist hér á balli á síldarárunum. Svo eftir að veitingastaðurinn náði þessum vinsældum sem hann nýtur þá blasir við fólki að eina leiðin til að fá borð sé að gista hér á hótelinu. Auðvitað læt ég þau sem gista hérna ganga fyrir. Þegar hótelið er fullt eru hér tæplega 40 gestir. Algengt er að um helmingur þeirra borði á veitingastaðnum og þá eru ekki eftir nema 25 pláss. Það eru ekki teknir nema að hámarki 50 á kvöldi.“

Þú ert að segja að stór hluti þeirra sem koma hingað og gista séu hingað komnir til að borða marokkóska matinn.

„Já, það er þannig. Þetta sýnir mikilvægi þess að vera með einhvert aðdráttarafl þegar staðurinn er ekki við hringveginn. Ef þú ætlar að fá fólk til að taka krók út af hringveginum þarftu að bjóða upp á eitthvað spes. Hér á Siglufirði er þessi undur fallega náttúra, mikla saga og menning, en við þurfum líka að vera með góða veitingastaði og sem mest af afþreyingu – og bjóða upp á ferðir hér í kring. Við þurfum bara fleiri. Það skiptir máli að við stöndum okkur öll vel.“

Við höfnina – MYND: ÓJ

Þú nefndir að Hótel Siglunes hafi notið góðs af uppbyggingu Róberts Guðfinnssonar hér í bænum, Sigló Hóteli og veitingastöðunum. Nú er hann hættur og Keahótel hafa tekið við rekstrinum. Hverju hefur brotthvarf Róberts breytt?

„Þegar Róbert hóf að undirbúa að leigja reksturinn þá hafði maður áhyggjur af því hver kæmi að honum. En þegar ljóst varð að það yrðu Keahótels, þá hugsaði maður sem svo að það væri stór rekstraraðili sem kann að reka og markaðssetja svona hótel. Hinsvegar hafa það orðið mér nokkur vonbrigði að auglýsingar um Sigló hafa snarminnkað. Það hefur þýtt að færri ferðamenn koma í bæinn. Fyrir það líða fyrirtæki sem sinna þjónustu við ferðamenn. Ef stóra hótelið, sem er með um 80 prósent af veltunni, auglýsir ekki mikið fækkar fólkinu sem kemur hingað. Við finnum það öll, þó að hér á Hótel Siglunesi sé oftast fullt. Auðvitað berum við öll ábyrgð á þessu. Við vorum bara orðin svo góðu vön. Stóri aðilinn dró vagninn og við hin nutum þess. Nú þurfum við að bregðast við þessu – og það erum við að gera. Við sem stöndum fyrir 20 prósentum af veltunni í ferðaþjónustunni á Siglufirði erum að ræða hvernig við getum kynnt bæinn – þó að við höfum ekki sama afl og sá stóri ætti að setja í þetta. Við verðum að svara þessu.“

Hvað með sveitarfélagið Fjallabyggð og aðra opinbera aðila sem hafa hlutverki að gegna? Hvernig standa þau sig?

„Þau eru að vakna upp við vondan draum. Ég held að það sé vilji til þess að styðja þetta verkefni.“  

Það er jólalegt í Aðalbakaríinu, einum helsta samkomustaðnum á Siglufirði – MYND: ÓJ

En þið á Hótel Siglunesi hafið samt ekki yfir neinu að kvarta í sjálfu sér, fáið viðskiptavini og það gengur vel.

„Við höfum verið að auka umsvifin, erum búin að bæta við kokki og höfum núna opið alla daga vikunnar í stað sex áður á sumrin. Við höfðum opið í 10 mánuði á ári en nú er opið allt árið. Þannig erum við að auka þjónustuna þó að ferðafólki hafi fækkað í bænum og ætlum að gera það áfram. Það hefur verið gagnrýnt að þjónusta hér í bænum sé að minnka og að bakaríið sé lokað á sunnudögum. Þessari gagnrýni svörum við á þennan hátt – með því að auka þjónustuna. Í sumar höfðum við opið í hádeginu á laugardögum og sunnudögum. Við höfum tekið á móti hópum frá ferðaskrifstofum í miðri viku. Það getum við gert af því að við höfum fjölgað starfsfólki. Nú erum við með tvo frábæra kokka.“

Nú er aðventan framundan og svo koma jólin. Hafið þið opið?

„Já, það verður opið um jól og áramót. Þú getur pantað borð á aðfangadag ef þú vilt. Eins og alltaf, þá rennum við blint í sjóinn. Við ákváðum þetta fyrir skömmu – þegar ég frétti að Sigló Hótel myndi loka yfir hátíðarnar. Ég á eftir að auglýsa. Markmiðið er fyrst og fremst að veita þjónustuna. Ég á ekki von á að það verði troðfullt. Veit það þó ekki. Það fer eftir ýmsu, t.d. hvort það verður snjór. Hugsanlega vill fólk koma og eiga hér rólega daga hjá okkur. Við munum læra af þessu.“ 

Herbergin eru hvert með sínu sniði – MYNDIR: Hótel Siglunes

Hálfdán sýnir Túrista herbergin í húsunum við Lækjargötu. Hann er sáttur við hvernig tekist hefur til og lýsir fleiri áformum um breytingar á húsnæðinu og hvaða möguleikar geti skapast. Hann er sjálfur aðkomumaður en fyrir löngu orðinn Siglfirðingur.

„Við getum tekið á móti fleira ferðafólki en mig langar ekki til að þetta verði eins og sumstaðar fyrir sunnan þó ég skilji alveg þá sem einblína á bissnissinn. Í senn er ég íbúi hér á Siglufirði og rek þetta fyrirtæki hér. Ég hugsa um þetta út frá mínum sjónarhóli, hvað ég vil sjá þróast í mínu umhverfi. Auðvitað get ég bætt nýtinguna á hótelinu, sérstaklega yfir veturinn. Aðalatriðið er að njóta þess sjálfur að vera í þessu. Ég tók þessa ákvörðun á sínum tíma – að gera það sem mér þykir skemmtilegt. Það fyrsta sem ég hugsaði var að hafa ánægt starfsfólk, hlúa vel að því og borga því vel. Ég var tilbúinn að sætta mig við að græða minna til að tryggja þetta. Þegar svo fram í sótti reyndist þetta vera besta viðskiptahugmynd sem ég hafði fengið. Hamingjusamt starfsfólk og glaðir kúnnar þýða meiri velta. Þetta þýddi að ég fékk meira út úr þessu en ég hafði ímyndað mér í upphafi. Það var ekki hugsunin.“

Amina, Zaneta og Frida í eldhúsinu á Hótel Siglunesi – MYND: ÓJ

Einn vandi hugsjónakapítalistans, eins og þú ert, er að svara þessari spurningu: Hvað á ég að verða stór? Algengt er að menn sætta sig ekki við það sem þeir hafa, vilja stækka við sig. Ertu með báða fætur á jörðinni þegar kemur að þessum vangaveltum?

Innrétting viðbyggingar er langt komin – MYND: ÓJ

„Við erum með 17 herbergi núna, þau verða 19 þegar viðbyggingin er klár. Þar höfum við Margrét mín líka íbúð fyrir okkur. Ég veit að rekstrarlega er þetta mjög óhentug stærð. Fræðin segja að þú eigir að vera með um 60 herbergi því þá getur þú tekið á móti ferðahópum sem koma með rútum. Ég hef bara ekki ambisjónir í þessa átt, ætla bara að njóta þess að vera í þessu – hafa gaman. Búa til himnaríki í kringum sjálfan mig.“

Viðbyggingin kemur í framhaldi af veitingasalnum – gamla ballstaðnum – MYND: ÓJ

Hvað endist frumkvöðlaandinn lengi?

„Á meðan ég hef gaman af þessu. Maður nennir þessu kannski ekki endalaust, ég veit það ekki. Þá svarar maður bara því. Um leið og ég hætti að hafa gaman af þessu þá hætti ég.“

Siglufjörður kvaddur – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …